REGLUGERÐ
um humarveiðar.
1. gr.
Bátum, sem aflamark hafa í humri og uppfylla skilyrði um stærð og vélarafl, sem tilgreind eru í 2. mgr. 9. gr. er heimilt að stunda humarveiðar við Suður- og Suðvesturland á því tímabili sem ákveðið er í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni hverju sinni. Veiðisvæðið markast af línu, sem dregin er réttvísandi suðaustur frá Papey og að vestan af línu, sem dregin er réttvísandi í vestur frá Malarrifsvita.
Óheimilt er að stunda veiðar á grynnra vatni en 55 föðmum.
Heimild þessi gildir ekki þar sem togveiðar eru bannaðar með skyndilokunum eða reglugerð.
2. gr.
Humar í þriðja stærðarflokki (humarhalar 6-10 g að þyngd), sem slitinn er um borð í fiskiskipi, telst ekki með til aflamarks, enda fari hlutfall þess stærðarflokks ekki yfir 5% af humarafla skipsins í veiðiferð.
Löggiltur vigtarmaður staðfesti á vigtarnótu magn og hlutfall humars í ofangreindum stærðarflokki í afla hverrar veiðiferðar. Liggi slík staðfesting ekki fyrir telst humarinn að fullu metinn til aflamarks.
3. gr.
Lágmarksmöskvastærð humarvörpu skal vera 80 mm. Þó er skylt að hafa tvö netstykki á legg úr a.m.k. 200 mm riðli á efra byrði belgs vörpunnar. Fremra netstykkið skal vera a.m.k. 3 x 4 metrar að stærð og skal því komið fyrir fremst á efra byrði vörpunnar fyrir aftan netþak. Aftara netstykkið skal vera 2 x 2 metrar og skal það staðsett 2 metrum aftan við aftari rönd fremra netstykkisins. Netstykki þessi skulu fest þannig að hver leggur netstykkisins skal festast við 5 upptökur efra byrðisins.
Lágmarksmöskvastærð netþaks í humarvörpu skal vera 135 mm. Óheimilt er að nota nokkurn þann útbúnað sem þrengir, herpir eða lokar á nokkurn hátt möskvum eða umbúnaði af nokkru tagi til þess að koma í veg fyrir rennsli afla aftur í poka eða net eða annað til þéttingar poka að aftan. Þó er heimilt að festa undir pokann net, allt að 9 m að lengd, með 135 mm möskvastærð til að draga úr sliti.
4. gr.
Þegar humarveiðar eru stundaðar er óheimilt að hafa önnur veiðarfæri en humarvörpu um borð í veiðiskipinu.
5. gr.
Ílát undir humar um borð í veiðiskipi skulu greinilega merkt skipinu og skal veiðidagur tilgreindur á þeim.
Um meðferð afla um borð í veiðiskipi vísast til ákvæða reglugerðar nr. 684, 27. desember 1995, um meðferð og vinnslu sjávarafurða.
6. gr.
Humarafla skal landað til vinnslu hjá viðurkenndri vinnslustöð hér á landi, sem hefur heimild til vigtunar humars, sbr. reglugerð nr. 618/1994, um vigtun sjávarafla.
Óheimilt er að frysta humar um borð í veiðiskipi.
7. gr.
Óheimilt er að stunda botnfiskveiðar með humarvörpu. Verði um óeðlilega botnfiskveiði að ræða þannig að aflaverðmæti fisksins sé svipað eða meira en verðmæti humarafla í tveimur samfelldum veiðiferðum er ráðuneytinu heimilt að svipta viðkomandi skip heimild til veiða í atvinnuskyni.
8. gr.
Skylt er að hirða allan humar og fiskafla, sem fiskiskip fær í humarvörpu og reiknast fiskafli til botnfiskaflamarks skipsins. Verði aðili uppvís að því að henda humri eða fiski frá fiskiskipi varðar það tafarlausri sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni. Skal botnfiski haldið aðgreindum eftir tegundum og hann veginn á löndunarstað skv. ákvæðum reglugerðar nr. 618/1994, um vigtun sjávarafla.
9. gr.
Heimilt er hverju skipi að flytja allt að 20% af aflamarki sínu í humri frá yfirstandandi fiskveiðiári til þess næsta.
Óheimilt er, án samþykkis Fiskistofu að flytja aflahlutdeild til báts, sem ekki hefur fyrir aflahlutdeild í humri. Fiskistofu er aðeins heimilt að samþykkja flutning aflahlutdeildar eða aflamark til báts, sem ekki hefur aflahlutdeild í humri, með eftirfarandi skilyrðum:
1. Að báturinn, sem aflamark eða aflahlutdeild er flutt til sé ekki stærri en 210 brl. eða búinn 900 hestafla aðalvél eða minni.
2. Flutt sé allt aflamark eða öll aflahlutdeild í humri frá viðkomandi skipi. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði, að því tilskyldu að flutt sé a.m.k. 5 lesta aflamark í humri eða aflahlutdeild sem svarar því magni, enda verður það aflamark eða aflahlutdeild hvorki flutt að hluta eða öllu leyti aftur af því skipi á sama fiskveiðiári.
Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að framselja minna aflamark í humri til báta, sem stunda rækjuveiðar á Eldeyjarsvæði og ekki hafa humaraflahlutdeild fyrir. Aflamark það sem framselt er má þó aldrei vera hærra en nemur eðlilegum humaraukaafla við rækjuveiðarnar, að mati Fiskistofu.
10. gr.
Útgerðum skipa er skylt að skrá afla í kvótaskýrslu til Fiskistofu. Þá er skipstjórum skylt að halda sérstakar afladagbækur, sem Fiskistofa leggur til, og skal upplýsingum skilað mánaðarlega til Fiskistofu. Vanskil á skýrslum samkvæmt þessari málsgrein varða sviptingu heimildar til veiða í atvinnuskyni, án frekari viðvörunar.
11. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 19. og 20. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða. Getur ráðuneytið m.a. svipt skip heimild til veiða í atvinnuskyni í tiltekinn tíma vegna brota á ákvæðum þessarar reglugerðar.
12. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 202, 18. apríl 1994, um humarveiðar.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. er heimilt til 10. júní 1996 að nota 80 mm lágmarksmöskvastærð í netþaki humarvörpu sbr. 1. málslið 2. mgr. 3. gr.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 7. maí 1996.
Þorsteinn Pálsson.
Jón B. Jónasson.