Sjávarútvegsráðuneyti

334/1997

Reglugerð um dragnótaveiðar. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um dragnótaveiðar.

 

1. gr.

                Allar veiðar í dragnót eru óheimilar án sérstaks leyfis Fiskistofu.

                Heimilt er að binda leyfi og útgáfu þess þeim skilyrðum er þurfa þykir, m.a. um að aðeins hljóti leyfi ákveðinn fjöldi skipa, skip af ákveðinni stærð og gerð, eða skip er dragnótaveiðar hafa stundað áður. Jafnframt er heimilt að binda heimildir til dragnótaveiða við ákveðin svæði og taka þá mið af stærð skipa, útgerðar- og heimahöfn og heimilisfesti útgerðar.

 

2. gr.

                Lágmarksstærð möskva í dragnót skal vera 135 mm. Þó er heimilt að ákveða í leyfisbréfi að veiðar í dragnót á tilteknum svæðum skuli háðar sérstökum skilyrðum um lágmarksstærð möskva. Um mælingar á möskvum dragnótar gilda ákvæði reglugerðar nr. 291, 31. maí 1994, um botn- og flotvörpur.

 

3. gr.

                Ráðuneytið getur í leyfisbréfi eða með öðrum hætti gert skylt að nota leggglugga við dragnótaveiðar á ákveðnum svæðum. Legggluggi skv. 1. málslið er netstykki, sem skorið er á legg og komið er fyrir á efra byrði pokans (belgsins) þannig:

                1.             Lengd gluggans skal minnst vera 4 metrar.

                2.             Aftari jaðar gluggans skal vera mest 5 metrum frá pokaenda.

                3.             Þegar glugginn er saumaður við upptöku pokans (belgsins) skal taka tvær upptökur á móti einum legg. Lengdarhliðar gluggans skulu festar slétt við neðra byrði í leisi pokans (belgsins).

                4.             Möskvastærð í glugganetinu skal ekki vera minni en möskvastærð riðilsins í pokanum.

 

4. gr.

                Óheimilt er að nota nokkurn þann útbúnað sem þrengir eða herpir á nokkurn hátt möskva sbr. 2. og 3. gr., en þó skal eigi teljast ólögmætt að festa net og annað efni undir poka dragnótar í því skyni að forða eða draga úr sliti. Slitvarar þessir skulu aðeins festir að framan og á hliðunum við pokann.

 

5. gr.

                Við veiðar með dragnót er óheimilt að nota hlera og hvað eina sem komið gæti í þeirra stað til útþenslu vængjanna.

 

6. gr.

                Með mál sem rísa kunna út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni skal farið að hætti opinberra mála og varða brot viðurlögum samkvæmt 19. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða. Jafnframt er heimilt að svipta skip heimild til veiða sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða.

 

7. gr.

                Reglugerð þessi er sett skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 74, 5. febrúar 1996, um dragnótaveiðar.

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 28. maí 1997.

 

Þorsteinn Pálsson.

Jón B. Jónasson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica