Samgönguráðuneyti

292/1993

Reglugerð um Flugmálastjórn, skipulag, starfshætti og verkefni. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Flugmálastjórn, skipulag, starfshætti og verkefni.

1. gr.

Hlutverk Flugmálastjórnar er að:

a) framfylgja lögum, reglugerðum og fyrirmælum um flugmál,

b) rækja alþjóðleg eða fjölþjóðleg samskipti á sviði flugmála,

c) fylgjast náið með þróun og viðgangi flugmála innanlands og utan,

d) styðja og veita aðhald innlendum flugrekstri,

e) gera heildaráætlanir um flugsamgöngur á landinu, með hliðsjón af líklegri þróun í flugmálum og hagkvæmni í samgöngum,

f) gera tölulegt yfirlit yfir þróun flugsamgangna hverju sinni,

g) rannsaka flugslys og óhöpp, og önnur þau atvik, þar sem ástæða er til að ætla að loftfari, flugmannvirkjum á jörðu eða rekstri þeirra sé eða hafi verið áfátt til muna, svo og að vinna fyrirbyggjandi starf.

2. gr.

Flugmálastjórn greinist í eftirtaldar aðaldeildir:

a) alþjóðamál,

b) fjármálastjórn,

c) flugleiðsöguþjónustu,

d) flugslysarannsóknir,

e) flugumferðarþjónustu,

f) flugvallaþjónustu,

g) loftferðaeftirlit.

Aðaldeildir skiptast í undirdeildir í samræmi við verkefni og skipurit Flugmálastjórnar, sem samgönguráðherra staðfestir hverju sinni.

3. gr.

Flugmálastjóri er stjórnandi Flugmálastjórnar. Hann stjórnar stofnuninni í samræmi við stefnumörkun, sem felst í lögum, reglum og fyrirmælum ráðherra. Hann skal fylgjast náið með þróun flugmála og hafa frumkvæði um allt, sem til betri vegar horfir.

Forstöðumaður hverrar aðaldeildar gegnir stöðu framkvæmdastjóra, forstöðumenn undirdeilda gegna stöðu deildarstjóra.

4. gr.

Framkvæmdastjórar stýra störfum deilda sinna og deila niður verkefnum. Þeir skulu vera sjálfstæðir í starfi, en bera ábyrgð gagnvart flugmálastjóra á verksviði deilda sinna. Þeir skulu gæta fyllstu hagkvæmni í rekstri og framkvæmdum. Staðgenglar skulu gegna störfum framkvæmdastjóra í forföllum þeirra.

5. gr.

Deildarstjórar skulu starfa sjálfstætt að verkefnum deilda sinna og bera ábyrgð gagnvart framkvæmdastjórum.

6. gr.

Umdæmisstjórar Flugmálastjórnar skulu vera: Einn í Vestfjarðakjördæmi, einn í Norðurlandskjördæmum eystra og vestra, einn í Austurlandskjördæmi og einn í Suðurlands- og Vesturlandskjördæmum. Þeir heyra undir framkvæmdastjóra flugvallaþjónustu.

7. gr.

Framkvæmdastjórum, deildarstjórum og umdæmisstjórum skulu sett erindisbréf um verksvið þeirra.

8. gr.

Flugmálastjóri skal halda a.m.k. mánaðarlega fundi með framkvæmdastjórum aðaldeilda, þar sem rædd eru verkefni síðastliðins mánaðar og verkefni þess næsta skipulögð. Skal þar sérstaklega fylgst með þróun framkvæmda- og rekstraráætlana. Í fjarveru framkvæmdastjóra mæta staðgenglar. Haldin skal fundargerðarbók.

9. gr.

Framkvæmdastjórar skulu halda fundi með deildarstjórum eigi sjaldnar en á fimmtán daga fresti, þar sem verk eru skipulögð og fylgt eftir. Á þeim fundum skal rita fundargerð.

10. gr.

Verksvið aðaldeilda eru í höfuðatriðum sem hér segir:

Alþjóðamál:

Samskipti við alþjóðastofnanir.

Samstarf við útlönd.

Alþjóðaflugþjónustan.

Heimildir til flugs um íslenska lofthelgi.

Flugréttarleg málefni vegna loftflutninga.

Fjármálastjórn:

Gerð tillögu að flugmálaáætlun í samráði við aðrar aðaldeildir.

Gerð fjárlagatillagna.

Yfirstjórn fjármála.

Eftirlit með því að framkvæmdir og rekstur séu innan fjárlaga.

Færsla bókhalds.

Starfsmannahald.

Gerð almennra starfsreglna.

Almennt skrifstofuhald og skjalavarsla.

Tölfræðileg gagnaöflun og úrvinnsla.

Útgáfa árbókar flugmálastjórnar.

Útboð verkefna í samráði við aðrar aðaldeildir.

Flugleiðsöguþjónusta:

Rekstur og viðhald allra flugleiðsögu- og fjarskiptatækja, ljósabúnaðar flugvalla og

búnaðar upplýsingadeildar, flugstjórnarstöðva og flugradíóstöðva.

Hönnun og nýframkvæmdir við flugleiðsögutæki og ljósabúnað flugvalla.

Rekstur upplýsingadeildar, útgáfa og hönnun flugkorta, ásamt tilkynningarskyldu (NOTAM) fyrir flug.

Stjórn starfsmanna flugleiðsöguþjónustu.

Gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar vegna flugleiðsögu.

Nýframkvæmdir og eftirlit með fjarskipta- og flugleiðsögutækjum og ljósabúnaði flugvalla. Flugprófanir flugleiðsögustöðva.

Gerð útboðsgagna og kostnaðaráætlana vegna nýframkvæmda.

Menntunar- og þjálfunarmál rafeindavirkja.

Fylgjast grannt með öllum nýjum lausnum við flugleiðsögu.

Flugslysarannsóknir.

Rannsaka slys og óhöpp, sem verða við notkun loftfara, svo og önnur atvik, þar sem legið hefur við flugslysi, eða ástæða er til þess að ætla, að loftfari, flugmannvirkjum á jörðu eða rekstri þeirra sé eða hafi verið áfátt til muna.

Semja skýrslu að lokinni rannsókn um niðurstöður hennar og gera tillögur í öryggisátt. Aðstoða og hafa samvinnu við flugslysanefnd.

Hafa samvinnu við rétt yfirvöld um rannsóknir á brotum gegn loftferðalögum. Halda uppi fyrirbyggjandi starfi á sviði flugöryggis.

Flugumferðarþjónusta:

Rekstrar- og skipulagsmál flugumferðarþjónustu.

Gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar vegna flugumferðarstjórnar.

Menntunar- og þjálfunarmál flugumferðarstjóra.

Gerð áætlana um þróun flugumferðar í millilandaflugi og innanlandsflugi.

Leitar- og björgunarþjónusta.

Útgáfa tæknilegra starfsreglna vegna flugumferðarþjónustu.

Flugvallaþjónusta:

Rekstur og viðhald flugvalla landsins.

Stjórn starfsmanna flugvallaþjónustu.

Gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar fyrir flugvelli.

Gerð áætlana um skipulag flugsamgangna.

Hönnun flugvalla og mannvirkja á þeim.

Nýframkvæmdir við gerð flugvalla, og mannvirkja á þeim, eða umsjón með framkvæmdum.

Gerð útboðsgagna og kostnaðaráætlana vegna nýframkvæmda.

Fylgjast náið með öllum nýjum lausnum við gerð flugvalla og mannvirkja á þeim.

Loftferðaeftirlit:

Umsjón með flugkennslu, flugnámi og útgáfu skírteina flugliða, flugvéltækna, flugumferðarstjóra, flugumsjónarmanna og flugradíómanna.

Eftirlit með flugliðum.

Skráning loftfara og eftirlit með lofthæfi.

Eftirlit með flugrekstri, þ.m.t. sérleyfum og áætlunarleyfum.

Aðstoð við flugslysanefnd.

Samvinna við rétt yfirvöld um rannsóknir á brotum gegn loftferðalögum.

Skráning kærumála sem tekin hafa verið fyrir og birting úrdráttar úr henni árlega.

11. gr.

Í skipuriti má færa verkefni milli aðaldeilda, ef þurfa þykir og það horfir til sparnaðar eða hagræðingar.

12. gr.

Öllum stjórnendum Flugmálastjórnar ber hverjum á sínu sviði að vinna að góðu skipulagi og hagkvæmum rekstri og fylgjast vel með nýjungum, sem til framfara horfa. Þeim ber að leggja fyrir flugmálastjóra tillögur sínar og ábendingar um endurbætur á sínu verksviði og hafa nána samvinnu um sameiginleg mál.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um loftferðir nr. 34 21. maí 1964, staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, er hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 276/1983 með síðari breytingum.

Samgönguráðuneytið, 12. júlí 1993.

Halldór Blöndal.

Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica