1. KAFLI
Gildissvið, skilgreiningar o.fl.
Gildissvið
1. gr.
Reglugerð þessi gildir um olíubirgðastöðvar, bensínstöðvar, olíugeyma og önnur mannvirki þar sem olía er geymd.
Jafnframt gildir reglugerðin um geyma þar sem úrgangsolía eða önnur spilliefni eru meðhöndluð eða geymd.
Ákvæði reglugerðar nr. 188/ 1990 um eldfima vökva svo og ákvæði mengunarvarnareglugerðar nr. 396/ 1992 skulu gilda þegar þau eru strangari.
2. gr.
Reglugerð þessi gildir ekki um birgðageyma né lagnir fyrir fljótandi gas, s.s. bútan og própangas.
3. gr.
Mannvirki sem byggð voru fyrir gildistöku þessarar reglugerðar lúta ákvæðum 96.102. gr.
Skilgreiningar
4. gr.
Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
Afgreiðslulagnir: lagnir sem liggja frá olíugeymi og notaðar eru til að fylla á olíuflutningstæki eða til notanda.
Afgreiðsluplan: staður á bensínstöðvum þar sem afgreiðsla olíu á ökutæki fer fram.
Afgreiðslutæki bensínstöðva: búnaður á afgreiðsluplani til þess gerður að afgreiða olíu á farartæki.
Áfyllingarplan: staður í olíubirgða- eða bensínstöð þar sem lestun eða losun olíuflutningatækis fer fram.
Bensínstöð: dreifingarstöð þar sem olía er seld beint til notenda. Bensínstöð samanstendur a.m.k. af: niðurgröfnum geymum með tilheyrandi búnaði, afgreiðslulögnum, dælum og afgreiðslutækjum, afgreiðsluplani, olíuskilju og afgreiðsluhúsi.
Brotloki : búnaður sem staðsettur er við afgreiðslutæki og lokar á sjálfvirkan hátt fyrir rennsli frá lögn ef afgreiðslutækið verður fyrir hnjaski eða brunaálagi.
Flotgirðingar: girðingar sem fljóta á sjó eða á vatni og hindra að olía og önnur efni
er liggja á yfirborði sjávar eða vatns dreifist út.
Köllunarskrá: skrá yfir aðila sem óhöpp skulu tilkynnt.
Legufæri: festing sem heldur skipi kyrru á legu.
Lekabyttur: færanleg ílát sem sett eru undir tengi þar sem búast má við olíuleka frá lögnum.
Lekakönnun: reglubundin athugun á því hvort leki hefur átt sér stað, t.d. lekaprófun, könnun á magni olíugufa í jarðvegi, könnun á olíumagni í grunnvatni, athugun í eftirlitsbrunni eða birgðauppgjör (handvirk mæling eða sjálfvirk mæling).
Lekaprófun: viðurkennd prófunaraðferð til að leiða í ljós olíuleka.
Lekaskynjunarbúnaður: búnaður sem skynjar vökva í eftirlitsbrunni. Til lekaskynjunarbúnaðar telst vökvahæðaskynjari, þefskynjari og handvirkur mælibúnaður, t.d. handmælir eða stika.
Lekaviðvörunarbúnaður: búnaður í geymi eða tengdur honum sem gefur til kynna rýrnun á vökva.
Lekavörn: olíuheldar og olíuþolnar þrær, rennur og hólkar sem eiga að koma í veg fyrir að olía berist út í umhverfið.
Löndunarlagnir: lagnir frá geymum sem tengjast olíuflutningaskipum.
Mengunarvarnabúnaður: búnaður, mannvirki eða tæki sem notuð eru til að koma í veg fyrir mengun og einnig sérhæfður búnaður sem notaður er til þess að draga úr mengun sem orðið hefur.
Neðanjarðarolíugeymir: geymir sem hefur meira en 10% af rúmmáli sínu undir yfirborði jarðar.
Neyslugeymir: geymir sem einn eða fleiri notendur hafa aðgang að og er ekki í tengslum við olíubirgða- eða bensínstöð, (t.d. húsageymir, þ.e. geymir sem er tengdur beint inn í hús, eða lausageymir, þ.e. geymir sem ætlaður er til notkunar á tilteknum stað í skamman tíma).
Ofanjarðarolíugeymir: geymir sem ætlaður er til geymslu á olíu á ákveðnum stað og hefur 10% eða minna af rúmmáli sínu undir yfirborði jarðar.
Olía: Hráolía (crude oil) og allar tegundir unninnar olíu, þar með talið bensín, steinolía, gasolía, svartolía, smurolía, asfalt, vegaolía svo og úrgangsolía.
Olíubirgðastöð: birgða- og dreifingarstöð sem hefur geymarými fyrir 50 m³ af olíu eða meira. Olíubirgðastöð samanstendur a.m.k. af: geymi eða geymum með varnarþró, löndunar-, áfyllingar- og afgreiðslulögnum, dæluhúsi, áfyllingarplani, olíuskilju og afgreiðsluhúsi.
Olíulagnir: pípur, lokar og tengistykki.
Olíumannvirki: mannvirki, svo sem olíubirgðastöðvar, bensínstöðvar eða olíugeymar, þar sem olía er geymd eða meðhöndluð í einhverjum mæli.
Olíuinnflutningsstöð: stöð þar sem olíuskip í millilandasiglingum landa olíu og strandferðaskip lesta olíu.
Olíuskilja: búnaður sem skilur að olíu og vatn.
Rekstraraðili: aðili sem ábyrgur er fyrir viðkomandi rekstri. Rekstraraðili getur ýmist verið eigandi eða leigutaki rekstrar eða búnaðar.
Þrýstiprófun: viðurkennd aðferð sem leiðir það í ljós hvort lögn eða geymir standist þá þrýstiraun sem lögð er á viðkomandi lögn eða geymi.
Þrýstivaki: búnaður á þrýstilögnum sem stöðvar dælingu og staðsettur er á dælubúnaði og skynjar þrýstingsfall sem orsakast af óþéttleika.
Þvottaplan: staður þar sem ökutæki eru þrifin og ekki er notaður vélrænn búnaður til þvotta.
Þvottastöð: staður þar sem ökutæki eru þrifin með vélrænum búnaði, svo sem háþrýstidælum eða sjálfvirkum bílaþvottavélum.
Staðarval.
5. gr.
Áður en staðsetning olíumannvirkja er ákveðin skal gera úttekt á mengunarhættu, sbr. 3. tl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Útektin skal taka mið af eftirfarandi:
Hvort hætta sé á náttúruhamförum svo sem snjóflóðum, aurskriðum, sjávarflóðum, vatnsflóðum (100 ára ferill) skriðuföllum, jarðskjálftum, missigi o.þ.h. Óheimilt er að velja olíugeymum stað, þar sem líkur eru taldar á að ofangreint geti valdið spjöllum á landi eða mannvirkjum að mati hlutaðeigandi eftirlitsaðila.
Hvort hætta sé á mengun grunnvatns sem nýtt er eða fyrirhugað er að nýta. Ef sérstök hætta er á mengun nýtanlegra vatnsbóla skal herða kröfur um mengunarvarnir eða hafna staðsetningu.
Hvort hætta sé á að yfirborðsvatn mengist, sérstakt lífríki, sérhæft umhverfi eða menningarverðmæti.
Að öðru leyti er vísað til gr. 6.10.6.1.-6.10.6.3 í byggingarreglugerð nr. 177/1992, 3. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnareglugerðar nr. 396/ 1992.
6. gr.
Vegna mengunarhættu skal flokka svæði þar sem olía er meðhöndluð í 3 flokka:
1. Flokkur.
I.a. Aðrennslissvæði vatnsbóla sem nýtt eru eða fyrirsjáanlegt er að nýtt verði. Vatnsverndarsvæði samkvæmt staðfestum skipulagsuppdrætti.
I.b. Vatna- og strandsvæði í flokki I í mengunarvarnareglugerð nr. 396/ 1992, sem ekki falla undir flokk Ia.
Viðkvæmt svæði, sem er á náttúruminjaskrá vegna gróðurs eða dýralífs.
Þar sem búast má við samanlögðu grunnvatnsstreymi meira en 0.01 l/s lengdarmetra niður á 50 m dýpi frá yfirborði. Sjá viðauka 3 til viðmiðunar.
2. Flokkur.
II. Vatna- og strandsvæði í flokki II í mengunarvarnareglugerð nr. 396/1992. Svæði þar sem líkur eru á að olía geti borist í fráveitukerfi þéttbýlisstaða. Ennfremur þar sem búast má við samanlögðu grunnvatnsstreymi á bilinu 0.001 0.01 l/s lengdarmetra niður á 50 m dýpi frá yfirborði. Sjá viðauka 3 til viðmiðunar.
3. Flokkur.
III. Svæði sem ekki falla undir flokk I eða II og eitt eða fleiri eftirtalinna atriða gilda um: þykkur og þurr jarðvegur á þéttum berggrunni, olíuheldur jarðvegur (leir og silt), svæði þar sem búast má við samanlögðu grunnvatnsstreymi minna en 0.001 l/s lengdarmetra niður á 50 m dýpi frá yfirborði. Sjá viðauka 3 til viðmiðunar.
Ef jarðvegur og berggrunnur er lekur (k > 10-¹ cm/s) og dýpra en 5 m til grunnvatns ber að hafa viðbúnað í flokki I.b. þó rennsli sé undir ofangreindum mörkum.
Sé ekki ljóst í hvaða flokk tiltekin staðsetning olíumannvirkis fellur, tekur heilbrigðisnefnd ákvörðun þar um.
2. KAFLI
Almenn ákvæði um byggingu og rekstur olíumannvirkja.
7. gr.
Sá sem óskar eftir að byggja eða reka ný olíumannvirki eða breyta eldri olíugeymum, olíubirgðastöðvum eða bensínstöðvum skal senda byggingarfulltrúa uppdrætti í þríriti af fyrirkomulagi mengunarvarna í stöðinni. Byggingarfulltrúi sendir eintak af uppdráttum til hlutaðeigandi eftirlitsaðila til umsagnar þegar við á. Siglingamálastofnun ríkisins skal samþykkja uppdrætti að fyrirkomulagi mengunarvarna í olíubirgðastöðvum áður en bygging þeirra hefst.
Uppdrættir af fyrirkomulagi mengunarvarna skulu innihalda upplýsingar um eftirfarandi þætti eins og við á hverju sinni: staðsetningu og stærð einstakra geyma, röralagnir, staðsetningu aðalloka, stærð og gerð olíuheldrar lekavarnar, nákvæma tilvísun í þá staðla sem farið er eftir, staðsetningu, stærð, gerð og áætluð afköst olíuskilju, snið og jarðvegsgerð á geymasvæðinu, tegund og samsetningu fylliefnis, svo og hvernig komast á að búnaði til eftirlits og viðgerða.
Að öðru leyti gilda lög og reglugerðir um skipulags- og byggingarmál og brunavarnir og brunamál um byggingu og rekstur nýrra olíumannvirkja og breytingar á eldri olíumannvirkjum.
8. gr.
Sá sem tekur að sér verk vegna viðkomandi olíubirgðastöðvar, bensínstöðvar eða olíugeymis sem er yfir 4 m³, skal tilkynna hlutaðeigandi eftirlitsaðila hvenær byrjað verður á verkinu og hvenær áætlað er að því ljúki.
9. gr.
Óheimilt er að taka olíumannvirki í notkun eftir nýsmíði, viðgerð eða breytingu nema fullnægt sé ákvæðum um mengunarvarnir og að fyrir liggi skriflegt vottorð byggingarfulltrúa um að mannvirki sé í samræmi við samþykktar teikningar.
10. gr.
Rekstraraðili skal senda afrit af vottorði til hlutaðeigandi eftirlitsaðila eða hafnaryfirvalda eftir því sem við á.
11. gr.
Rekstraraðili olíubirgðastöðva, bensínstöðva og annarra geymslustaða fyrir olíu ber ábyrgð á viðhaldi í samræmi við samþykkta uppdrætti, svo og rekstri.
Rekstraraðilar olíubirgðastöðva og bensínstöðva skulu halda rekstrarhandbækur um mengunarvarnir, sbr. 59. og 75. gr.
3. KAFLI
Olíugeymar.
Almenn ákvæði um olíugeyma.
12. gr.
Olíugeymar skulu hannaðir og byggðir í samræmi við leiðbeiningar sem eftirlitsaðili samþykkir og staðla.
Allar suður geyma skulu þéttiprófaðar á viðurkenndan hátt.
Geymar og olíulagnir skulu merktar í samræmi við merkjakerfi, sbr. viðauka 1.
13. gr.
Nýir olíugeymar og þeir sem nú eru í notkun skulu skráðir hjá eiganda. Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í skráningu: nafn framleiðanda, staðsetning geymis, eldsneytistegund, framleiðslunúmer, byggingarár og stærð. Upplýsingar um nafn framleiðenda, framleiðslunúmer, byggingarár, stærð og smíðastaðall skulu jafnframt koma fram á geyminum sjálfum á númeraðri plötu úr varanlegu efni. Ennfremur skal skrá tegund yfirfyllingarvarnar, tegund lekaviðvörunar, dagsetningu síðustu hreinsunar, niðurstöður þykktarmælinga, svo og meiriháttar viðhald, endurbætur og feril geymis ef við á.
14. gr.
Neyslugeymar og geymar sem eru á afgreiðslustöðvum og eru stærri en 10 m³ skulu vera með yfirfyllingarviðvörun eða yfirfyllingarvörn.
Við fyllingu geyma sem eru 10 m³ og minni skal nota búnað sem gefur frá sér viðvörun áður en geymir yfirfyllist.
Óheimilt er að nota olíugeyma þar sem efnisþykkt er komin niður fyrir 3 mm á einhverjum stað í botni og niður fyrir 75% af reiknaðri hönnunarþykkt samkvæmt staðli á einhverjum stað í byrðingi, fyrr en eftir viðgerð.
Á láréttum geymum sem eru stærri en 4 m³ skal vera minnst eitt mannop. Á hverjum lóðréttum olíubirgðageymi sem staðsettur er ofanjarðar skal vera a.m.k. eitt mannop á neðsta umfari og annað á þaki.
Ofanjarðarolíugeymar.
15. gr.
Utan um olíugeyma skal vera olíuheld lekavörn sem hér segir: á svæði í 1. flokki I.b., sbr. 6. gr., ávallt og á svæðum í 2. flokki og 3. flokki, sbr. 6. gr., sé geymir stærri en 10 m³.
Í sérstökum tilfellum er Hollustuvernd ríkisins heimill að veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, Náttúruverndarráðs og annarra hlutaðeigandi aðila.
Einungis í undantekningartilfellum er heimill að staðsetja geyma á svæðum I.a. og skulu þeir ávallt búnir olíuheldri lekavörn.
16. gr.
Við staðsetningu og frágang olíugeyma sem ekki eru í lekavörn skal gæta þess að jarðvegur sé eins þéttur og völ er á undir geyminum og umhverfis hann og að ekki halli þannig frá geymisstæði að olíuleki breiðist auðveldlega út.
17. gr.
Lóðréttir geymar skulu standa á upphækkun. Inn í upphækkunina skal setja siturlögn sem liggur út í lekavörn þar sem því verður við komið.
18. gr.
Geymar stærri en 50 m³ skulu búnir mælum sem gefa til kynna vökvahæð. Stálgeymar stærri en 50 m³ skulu vera jarðtengdir.
Á birgðageymum skal hafa fasta sliga í samræmi við reglur og leiðbeiningar Vinnueftirlits ríkisins.
Neðanjarðarolíugeymar.
19. gr.
Niðurgrafnir olíugeymar geta verið stálgeymar með tæringarvörn, trefjaplastgeymar gerðir fyrir viðkomandi olíu eða geymar úr öðrum viðurkenndum efnum.
Tæringar- og lekavarnir.
20. gr.
Tæringarvarnir stálgeyma eru bikhúð, tjöruborði, polyurethanhúð, trefjaplasthúð, bikhúð og katóðuvörn eða sambærilegar varnir.
Ef notuð er katóðuvörn skal eftirlitsaðili samþykkja gerð hennar og gera kröfur um uppsetningu hennar, rekstur og innra eftirlit.
21. gr.
Utan um geyma geta verið lekavarnir; þró úr þéttum jarðvegi, þró úr olíuheldum dúk, steypt þró eða aðrar sambærilegar varnir.
Sé lekavörn um neðanjarðargeymi, skal eftirlitsbrunnur staðsettur innan lekavarnar, svo hægt sé að fylgjast með vökva í henni.
22. gr.
Í samræmi við ákvæði 6. gr. skulu geymar og búnaður samkvæmt 19. - 21. gr. valin sem hér segir:
I.a. Aðeins er í undantekningartilvikum heimilað að staðsetja geymi á svæði í 1.
flokki og þá aðeins stál- eða plastgeymi með lekavörn sem er þró úr olíuheldum
dúk eða steypt þró og lekaskynjunarbúnaði.
I.b.
Stálgeymir með lekavörn.
Stálgeymir með tæringarvörn; polyurethanhúð, trefjaplasthúð eða bikhúð og
katóðuvörn og lekaviðvörunarbúnaði.
Trefjaplastgeymir með lekaviðvörunarbúnaði.
Trefjaplastgeymir eymir m
Stálgeymir með bikhúð, hámarksnotkunartími geymis 15 ár.
Stálgeymir með bikhúð, hámarksnotkunartími geymis 15 ár.
Stálgeymir með tæringarvörn; tjöruborða, polyurethanhúð, trefjaplasthúð eða
bikhúð og katóðuvörn, hámarksnotkunartími geymis 20 ár.
Stálgeymir með tæringarvörn; polyurethanhúð, trefjaplasthúð eða bikhúð og
katóðuvörn.
Trefjaplastgeymir.
Stálgeymir með tjöruborða, hámarksnotkunartími geymis 25 ár.
Stálgeymir með bikhúð, hámarksnotkunartími geymis 20 ár.
Stálgeymir með tjöruborða, hámarksnotkunartími geymis 30 ár.
Stálgeymir með bikhúð, hámarksnotkunartími geymis 25 ár.
23. gr.
Lekavörn skal vera a.m.k. jafnhá efsta hluta geymis eða rúma innihald stærsta geymisins í þrónni.
Sé lekavörn gerð úr steinsteypu, skal hún byggð samkvæmt gildandi reglum um slík mannvirki. Sérstaka áherslu skal leggja á þéttleika lekavarnar.
Frágangur og prófanir.
24. gr.
Niðurgrafnir stálgeymar skulu grafnir niður í þétta fyllingu og þannig gengið frá þeim að þeir hreyfist ekki. Fyllingarefnið skal vera hreinn sandur eða fínkornótt möl, hvort tveggja vel þjappað.
Trefjaplastgeymar skulu grafnir niður samkvæmt viðurkenndum staðli eða samkvæmt leiðbeiningum framleiðenda.
Trefjaplastgeymar skulu þrýstiprófaðir fyrir notkun samkvæmt viðurkenndum staðli. Stálgeymar skulu vera skoðaðir og þrýstiprófaðir með lofti, 0,3 bar, áður en þeir eru grafnir niður.
25. gr.
Ganga skal frá geymum, sem eru grafnir niður á stöðum þar sem gætir sjávarfalla eða flóðahætta er fyrir hendi, á þann hátt að þeir fljóti ekki upp.
26. gr.
Þegar geymir er tekinn úr notkun skal eigandi hans ganga frá honum á þann hátt að umhverfinu stafi ekki hætta af. Fullnægjandi frágangur fellst ýmist í að grafa geymi upp og fjarlægja ásamt öllu því sem honum tilheyrir eða tæma hann, gera hann gasfrían og fylla með óvirku efni. Eftirlitsaðili skal meta hvort frágangur geymis sé með ofangreindum hætti.
4. KAFLI
Lagnir.
Almennt um lagnir.
27. gr.
Olíulagnir skulu vera í samræmi við samþykkta staðla og með viðurkenndu verklagi. Stefnur lagna skulu skerast sem minnst. Lagnir skulu ekki snerta hver aðra. Þar sem búast má við þenslu skal vera búnaður til að mæta henni.
28. gr.
Þar sem líkur eru á jarðskjálftum, jarðsigi eða öðrum náttúruhamförum skal útbúa olíulagnir þannig að þær geti tekið á sig sveigju.
29. gr.
Verja skal olíulagnir sem eru neðanjarðar, í jarðvegsgörðum eða neðansjávar, með viðurkenndu tæringarverjandi efni.
30. gr.
Koma skal lokum á olíulögnum þannig fyrir að auðvelt sé að opna þá, loka þeim og halda þeim við. Þeir mega ekki verða fyrir utanaðkomandi álagi, hnjaski eða bera álag frá lögnum.
31. gr.
Allar lagnir og breytingar á þeim skulu færðar inn málsettar á teikningar. Þar skal koma fram afstaða neðanjarðarlagna til nærliggjandi mannvirkja. Slíkum teikningum skal skilað til byggingarfulltrúa, sem sendir eintak af þeim til hlutaðeigandi eftirlitsaðila.
32. gr.
Allar olíulagnir skal þrýstiprófa áður en þær eru teknar í notkun. Óheimilt er að hylja neðanjarðarolíulagnir fyrr en eftir úttekt eftirlitsaðila. Framkvæma skal þrýstiprófun eftir viðurkenndum reglum og skal hún vottuð af byggingarfulltrúa eða öðrum viðurkenndum úttektaraðila.
Lagnir í olíubirgðastöðvum.
33. gr.
Olíulagnir á landi skulu alla jafna vera ofanjarðar. Olíulagnir sem lagðar eru neðanjarðar, t.d. vegna umferðar, skulu vera með þeim hætti að þær þoli það álag sem búast má við. Óheimilt er að reisa byggingar ofan á óvörðum neðanjarðarlögnum.
Allar lagnir innan lekavarnar olíugeymis skulu vera ofanjarðar. Þó er heimill að leggja lagnir í gegnum jarðvegsgarða lekavarna.
Á fremri enda olíulöndunarlagnar við löndunartengingu, skal vera einstefnuloki. Sé löndunarleiðsla ofanjarðar í sérstakri hættu, t.d. vegna umferðar, skal vera einstreymisloki við birgðageymi.
34. gr.
Á nýjum neðansjávarolíulögnum skal röntgenmynda fjórðu hverja suðu hvers suðumanns, áður en lagnir eru teknar í notkun. Standist suða ekki kröfur skal mynda þrjár næstu suður viðkomandi suðumanns í hvora átt.
Ef eldri neðansjávarlagnir eru teknar upp og ætlunin er að setja þær aftur niður geta eftirlitsaðilar krafist þess að suður verði röntgenmyndaðar, sbr. 1. mgr., enda sé ástæða til að ætla að lagnirnar uppfylli ekki ákvæði reglugerðar þessarar.
35. gr.
Þar sem neðansjávarlögn kemur í land skal einangra hana frá rafstraumi.
Lagnir olíubirgðastöðva skulu vera þrýstiprófaðar með vökva og a.m.k. 1,5 sinnum vinnuþrýstingi, en þó ekki með minni þrýstingi en 10 bar. Þrýstingnum skal haldið í a.m.k. 12 klst.
Olíulagnir sem eru neðansjávar skal þrýstiprófa með vökva og a.m.k. tvöföldum vinnuþrýstingi, en þó eigi lægri þrýstingi en 15 bar. Þrýstingnum skal haldið í a.m.k. 12 klst. Eigandi skal senda skýrslu um prófunina til viðkomandi hafnarstjóra.
Lagnir í bensínstöðvum.
36. gr.
Olíulagnir bensínstöðva skulu að jafnaði vera neðanjarðar. Gengið skal frá lögnunum með þeim hætti að þær þoli það álag sem búast má við.
Olíulagnir geta verið úr stáli, plasti, trefjaplasti eða öðrum viðurkenndum efnum. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda hvað samsetningu og frágang varðar.
Á olíulagnir sem eru undir þrýstingi skal tengja þrýstivaka og brotloka.
Allar olíulagnir skulu þrýstiprófaðar fyrir notkun með 1,5 sinnum vinnuþrýstingi en þó ekki minni þrýstingi en 5 bar nema fyrirmæli framleiðenda kveði á um annað. Þrýstingnum skal haldið í a.m.k. 1 klukkustund.
Lagnir fyrir aðra geyma undir olíu.
37. gr.
Frágangur olíulagna, hvort sem þær eru ofanjarðar eða neðanjarðar, skal ávallt vera með þeim hætti að ekki sé hætta á að þær verði fyrir hnjaski eða álagi.
Um þrýstiprófanir er vísað til 36. gr.
Viðhald lagna í olíubirgðastöðvum.
38. gr.
Óheimilt er að nota olíulögn úr stáli, ef efnisþykkt hennar á tilteknum stað er minni en lágmarksþykkt, sbr. eftirfarandi töflu, fyrr en eftir viðgerð eða endurnýjun:
Innra þvermál (nafnmál) í mm. Lágmarks efnisþykkt í mm.
50 |
2 |
65 |
2 |
80 |
2,5 |
100 |
2,5 |
150 |
3 |
200 |
3 |
250 |
3,5 |
300 |
3,5 |
Við mat á lögn sem hefur minni efnisþykkt en tilgreind er sem lágmarks efnisþykkt, vegna tæringar eða skemmda, skal skoða sem svarar 5% af heildarlengd hennar næst því svæði sem fellur undir lágmarksþykkt. Leiði sú skoðun í ljós að efnisþykkt lagnar sé yfir lágmarksmörkum er heimilt að nota lögn eftir viðgerð eða endurnýjun á þeim hluta sem ekki uppfyllir kröfur um lágmarksþykkt, en ef hún er á einhverjum stað undir lágmarksmörkum skal endurtaka skoðun á sama hátt. Skoðun skal endurtaka á meðan eitthvert svæði fellur undir lágmarksþykkt.
39. gr.
Neðansjávarlagnir skulu skoðaðar a.m.k. árlega og skal eigandi eða rekstraraðili senda Siglingamálastofnun ríkisins og hafnarstjóra afrit af skoðunarskýrslunni.
40. gr.
Óheimilt er að hafa loka á olíubirgðageymum opna og ólæsta þegar geymir er ekki í notkun. Lokar á löndunarlögnum skulu ávallt vera lokaðir þegar þeir eru ekki í notkun.
Viðhald lagna í bensínstöðvum.
41. gr.
Lekaprófa skal olíulagnir eftir breytingar og viðgerðir. Niðurstöður lekaprófunar og breytinga skal færa í rekstrarhandbók.
Verði tæringar vart í olíulögnum, skal stöðva hana með viðgerð eða endurnýja lagnirnar.
Viðhald lagna vegna annarrar geymslu á olíu.
42. gr.
Um viðhald lagna vegna annarrar geymslu á olíu gilda sömu ákvæði og um viðhald olíulagna olíubirgðastöðva og bensínstöðva, sjá 37. til 41. gr., eftir því sem við á m.t.t. innra þvermáls lagna.
5. KAFLI
Olíubirgðastöðvar.
Almennt um olíubirgðastöðvar.
43. gr.
Afgreiðsluhús olíubirgðastöðva skal vera staðsett sem næst aðalhliði stöðvarinnar. Stöðvarnar skulu vera afgirtar með minnst 2.0 m hárri girðingu sem hindrar óviðkomandi umferð. Olíuheld lekavörn skal vera til staðar svo mögulegt sé að koma í veg fyrir að olía fari út í umhverfið.
44. gr.
Í olíuinnflutningsstöðvum, þar sem olíu er dælt úr eða í olíuflutningaskip, skal vera aðstaða fyrir móttöku á olíublandaðari kjölfestu og öðrum olíuúrgangi frá olíuflutningaskipum sem flytja olíu innanlands.
Bygging olíugeyma
45. gr.
Um gerð og frágang olíugeyma vísast til 3 kafla.
Bygging olíuheldra lekavarna.
46. gr.
Rúmtak lekavarnar fyrir olíugeyma í olíubirgðastöð skal vera sem hér segir:
a) Fyrir einn geymi skal rúmtak lekavarnar vera meira en sem nemur 90% af rýmd geymis.
b) Ef fleiri en einn geymir er í sömu lekavörn skal rúmtak lekavarnar vera meira en sem nemur 90% af rýmd stærsta geymis í lekavörninni að viðbættri rýmd annarra geyma í hæð lekavarnar.
c) Ef til staðar er olíugirðing til að hefta útbreiðslu olíu sem fer í sjó, er heimilt að minnka rýmd lekavarna í a) og b) í 60%.
47. gr.
Lekavörn getur verið úr steinsteypu, viðurkenndum olíuheldum dúk eða jarðvegi.
Hönnun lekavarnar skal miðuð við að hún þoli að standa full af vatni. Yfirborð jarðvegsgarða skal vera bundið. Akstur yfir garða lekavarnar er óheimill nema þar sem sérstök akstursleið er mörkuð.
Lekt lekavarnar skal vera minni en 2x10-5 cm/s miðað við vatn eða vökva með ámóta seigju. Jarðvegsefni sem nota á til þéttingar skulu lektarmæld af viðurkenndum aðila og teljast viðunandi, ef þau standast lektarprófun við 90% - 95% "Standard Proctor" þjöppun.
Prófa skal þjöppun og þéttleika þegar efnið er lagt í botn þrórinnar, prófunin skal framkvæmd af viðurkenndum aðila.
Lágmarksþykkt jarðvegs til þéttingar í botni þróar skal vera 15 cm. Æskilegt er að setja hlífðarlag á þéttilagið.
Gerð áfyllingarplans.
48. gr.
Þar sem fyllt er á olíuflutningstæki skal vera áfyllingarplan úr steinsteypu eða öðru sambærilegu þéttu efni sem þolir olíu. Niðurfallslagnir úr planinu skulu liggja í olíuskilju.
Bygging olíuskilju.
49. gr.
Olíuskilja skal vera til staðar við olíubirgðastöðvar og í hana skal leiða yfirborðsvatn úr lekavörn, undantöppunarvatn frá olíubirgðageymum, niðurfallslögn frá áfyllingarplani og niðurfallslögn frá dæluhúsum, ef það á við.
50. gr.
Olíuskilja skal vera utan lekavarnar. Loki skal vera á innstreymislögn frá lekavörn. Hann skal ávallt vera lokaður á þeim tíma sem starfsmenn eru ekki í stöðinni.
Eftirlitsaðila er heimilt að leyfa að olíuskiljubúnaðurinn sé innan lekavarnar en þá skulu lokar vera við inn- og útstreymislagnir skiljubúnaðar og skulu þeir ávallt vera lokaðir þegar starfsmenn eru ekki í stöðinni.
51. gr.
Olíuskilja skal vera þannig hönnuð að hún geti tekið við því regnvatni sem ætla má að borist geti af því svæði sem tengt er í olíuskiljubúnaðinn. Hönnun skal miða við leiðbeiningar og upplýsingar um olíuskiljur frá Hollustuvernd ríkisins og skal olíuskilja a.m.k. uppfylla þær kröfur sem þar koma fram.
Olíumagn í frárennsli frá olíubirgðastöð má ekki vera meira en 15 hlutar í 1.000.000 hluta blöndunar (15 hím eða 15 ppm) við útrás í sjó. Tryggt skal að aðstæður á vettvangi séu með þeim hætti að auðvelt sé að fylgjast með frárennsli frá olíuskilju.
Rekstur olíubirgðastöðva.
52. gr.
Tilkynna skal nafn rekstraraðila olíubirgðastöðva til Siglingamálastofnunar ríkisins. Umsjónarmenn og aðrir starfsmenn stöðvanna skulu kunna skil á lögum og reglugerðum sem eiga við um starfsemi olíubirgðastöðva.
53. gr.
Helstu öryggiskröfur í rekstri olíubirgðastöðvar eru: eftirlit með olíu sem fer um stöðina, brunavarnir, mengunarvarnir, vinnuvernd og viðbragðsáætlun.
54. gr.
Starfsmenn olíubirgðastöðva skulu við áfyllingu geyma fullvissa sig um að nægilegt rými sé á þeim geymi sem dælt er á áður en fylling fer fram.
Starfsmaður skal vera viðstaddur dælingu á geyma.
55. gr.
Mæla skal reglulega magn vökva í olíuskilju og hreinsa hana eftir þörfum. Þess skal getið í rekstrarhandbók hvenær mæling og hreinsun hafi farið fram.
56. gr.
Óviðkomandi umferð er bönnuð í olíubirgðastöðvum. Engir óviðkomandi hlutir skulu vera í lekavörn.
57. gr.
Lekabyttur skulu vera til staðar til að taka við tilfallandi olíuleka. Ávallt skal hafa lekabyttur undir tengi sem tekið er í sundur.
58. gr.
Rekstraraðilar legufæra olíuflutningaskipa skulu láta skoða þau árlega. Skýrsla um ástand þeirra skal send Siglingamálastofnun ríkisins og viðkomandi hafnaryfirvöldum.
Innra eftirlit.
59. gr.
Rekstrarhandbók fyrir starfsemi olíubirgðastöðva, sbr. viðauka 2, skal vera í hverri stöð.
Í handbókina skal skrá á aðgengilegan hátt upplýsingar um a.m.k. eftirfarandi þætti: eftirlit, breytingar á stöðinni, athugasemdir starfsmanna og eftirlitsmanna um viðhald, ástand og tæmingu olíuskilju, þrýsti-, leka- og þéttiprófanir, þykktarmælingar og birgðauppgjör á mánaðarfresti.
Rekstraraðili skal skrá allt eftirlit og meiriháttar viðhald í rekstrarhandbók olíubirgðastöðvar.
60. gr.
Rekstraraðili skal láta fara fram eftirfarandi prófanir og úttektir og skrá niðurstöðu í rekstrarhandbók. Á eins árs fresti skal skoða legufæri og þrýstiprófa olíulöndunarlagnir neðansjávar. Á fimm ára fresti skal þrýstiprófa olíulagnir á landi. Á tíu ára fresti skal framkvæma lekaprófun á lekavörn þar sem því verður við komið. Jafnframt skal þykktarmæla botn og neðsta umfar olíubirgðageyma eigi sjaldnar en á tíu ára fresti. Miða skal við að þykktarmæling sé framkvæmd samhliða geymahreinsun.
Prófanir og úttektir skulu vottaðar af viðurkenndum úttektaraðila.
Viðbragðsáætlun ofl.
61. gr.
Rekstraraðili skal setja starfsmönnum olíubirgðastöðva starfsreglur. Starfsmenn skulu fá viðeigandi þjálfun á tæki og öryggisbúnað sem gerir þá hæfa til að vinna í stöðinni. Jafnframt skulu þeir hljóta staðgóða fræðslu um eiginleika allra olíutegunda sem meðhöndlaðar eru í stöðinni.
62. gr.
Í olíubirgðastöðvum skal vera til viðbragðsáætlun um aðgerðir ef til mengunaróhapps kemur. Áætlunin skal a.m.k. innihalda ákvæði um tilkynningaskyldu við óhöppum, varageyma og köllunarskrá.
Allir starfsmenn olíubirgðastöðva skulu hljóta kennslu og æfingu í því hvernig bregðast skal við mengunaróhöppum. Æfingarnar skulu veita þekkingu á aðgerðum gegn olíumengun og æfingu í að kalla út hafnaryfirvöld, slökkvilið, björgunarsveit og aðra aðila eins og við á hverju sinni.
Áætlun um viðbrögð við mengunaróhöppum skal samþykkt af Siglingamálastofnun ríkisins.
Viðbragðsáætlun þessi skal liggja frammi á áberandi stað fyrir starfsmenn.
6. KAFLI
Bensínstöðvar.
Um bensínstöðvar.
63. gr.
Við afgreiðslutæki, fyllingu og útöndun geyma skulu vera skilti sem gefa til kynna að óheimilt sé að reykja og að vélar farartækja megi ekki vera í gangi meðan á afgreiðslu þeirra stendur.
Þvottaplön bensínstöðva skulu a.m.k. tengd sandskilju.
Olíugeymar bensínstöðva.
64. gr.
Um gerð og frágang olíugeyma vísast til 3. kafla. Ofanjarðargeymar bensínstöðva skulu staðsettir utan akstursleiða.
Olíulagnir bensínstöðva.
65. gr.
Um gerð og frágang olíulagna vísast til 4. kafla.
Afgreiðslutæki bensínstöðva.
66. gr.
Afgreiðslutæki skal staðsetja á upphækkun til að verja þau fyrir hnjaski.
Í afgreiðslutæki skal vera mælir sem notaður er til að ákvarða afgreitt magn sem lagt skal til grundvallar við birgðauppgjör.
Þegar um þrýstikerfi er að ræða skal setja brotloka undir afgreiðslutæki.
Afgreiðslubyssa á slöngu afgreiðslutækis skal vera þannig útbúin að hún loki fyrir rennsli þegar geymir farartækis fyllist. Á slöngu skal vera loki sem brotnar við álag.
Afgreiðsluplan.
67. gr.
Við allar söludælur skal vera afmarkað afgreiðsluplan gert úr vökvaheldu efni sem þolir olíur. Afrennsli af því skal leitt í olíuskilju.
Afgreiðsluplan skal hannað með þeim hætti að það geti tekið við tilfallandi leka við eldsneytisafgreiðslu, t.d. steypt plan.
Áfyllingarplan.
68. gr.
Þar sem fyllt er á olíugeyma skal vera nægjanlegt athafnasvæði fyrir olíuflutningabifreið. Áfyllingarplan skal hannað með þeim hætti að auðvelt sé að fylla eldsneyti á olíugeyma.
Sá hluti áfyllingarplans þar sem slöngur olíuflutningabifreiðar og tengingar olíugeyma eru, skal vera með vökvaheldu yfirborði og afrennsli af því leitt í olíuskilju.
Frágangur á áfyllingartengjum geyma skal vera með þeim hætti að þau verði ekki
fyrir hnjaski. Lok á tengingum skulu vera læst eða þannig frá þeim gengið að óviðkomandi komist ekki auðveldlega að.
Gengið skal frá útloftunarrörum frá olíugeymum með þeim hætti að þau nái 3,5 m upp fyrir jarðvegsyfirborð, eða 0,5 m upp fyrir hæsta hluta geymis þess olíubíls sem fyllir á geyma stöðvarinnar. Á enda útloftunarrörs skal vera brunavarnarnet.
Olíuskilja.
69. gr.
Á hverri bensínstöð skal vera olíuskilja og skal leiða afrennsli frá afgreiðslusvæði og áfyllingarsvæði í hana.
Þar sem þvottastöðvar eða smurstöðvar eru á bensínstöðvum skal vera sérstök olíuskilja tengd við frárennsli hennar. Tryggt skal að aðstæður á vettvangi séu með þeim hætti að auðvelt sé að fylgjast með frárennsli frá olíuskilju.
Miða skal byggingu og frágang olíuskilju við leiðbeiningar og upplýsingar um olíuskiljur frá Hollustuvernd ríkisins og skal olíuskilja a.m.k. uppfylla þær kröfur sem þar koma fram.
Öryggiskröfur o.fl.
70. gr.
Helstu öryggiskröfur í rekstri bensínstöðva eru: eftirlit með olíu sem fer um stöðina, umhverfisvarnir, brunavarnir, mengunarvarnir, vinnuvernd, viðbragðsáætlun og meðferð olíuúrgangs.
71. gr.
Starfsmönnum bensínstöðva skulu settar starfsreglur af eiganda eða rekstraraðila eftir því sem við á. Þeir skulu fá þjálfun á tæki og öryggisbúnað sem gerir þá hæfa til að vinna í stöðinni og hljóta staðgóða fræðslu um eiginleika allra olíutegunda sem þar eru meðhöndlaðar.
72. gr.
Óheimilt er að fylla á birgðageyma nema að höfðu samráði við yfirmann bensínstöðvar eða eftir mælingu á magni í geymi.
73. gr.
Olíubifreiðastjórar skulu fullvissa sig um að nægilegt rými sé á þeim geymi sem fyllt er á áður en fylling hefst og vera viðstaddir fyllingu.
74. gr.
Vaktstjóri hverrar vaktar skal kunna skil á ákvæðum starfsleyfis stöðvarinnar, starfsreglum, viðbragðsáætlun svo og lögum og reglugerðum er varða starfsemi bensínstöðva og eiginleika olíutegunda.
Innra eftirlit.
75. gr.
Rekstrarhandbók, sbr. viðauka 2, skal vera á hverri bensínstöð. Í handbókina skal á aðgengilegan hátt skrá upplýsingar um a.m.k. eftirfarandi þætti: eftirlit, breytingar á bensínstöðinni, athugasemdir starfsmanna og eftirlitsaðila um viðhald, ástand og tæmingu olíuskilju, þrýsti- og lekaprófanir, þykktarmælingar á geymum, ef við á, svo og lekakönnun á mánaðarfresti sem skal að jafnaði vera birgðauppgjör.
76. gr.
Mæla skal reglulega vökva í olíuskilju, tæma hana eftir þörfum og skrá niðurstöðu mælingar ásamt dagsetningu í rekstrarhandbók.
Rekstraraðili skal ennfremur skrá allt eftirlit og meiriháttar viðhald í rekstrarhandbók stöðvarinnar.
Rekstraraðili skal á tíu ára fresti láta lekaprófa olíugeyma og olíulagnir. Jafnframt skal gera úttekt á þessum búnaði og skrá niðurstöður í rekstrarhandbók.
Prófanir og úttektir skulu vottaðar af viðurkenndum úttektaraðila.
Viðbragðsáætlun.
77. gr.
Á bensínstöðvum skal vera til viðbragðsáætlun með fyrirmælum um viðbrögð ef til mengunaróhapps kemur. Allir starfsmenn bensínstöðvar skulu hljóta kennslu og æfingu í því hvernig bregðast skal við mengunaróhöppum. Æfingarnar skulu veita þekkingu á aðgerðum gegn olíumengun og æfingu í að kalla út þá aðila er sjá um aðgerðir gegn mengunaróhöppum. Áætlun þessi tekur m.a. yfir tilkynningaskyldu við óhöppum og köllunarskrá.
Viðbragðsáætlun þessi skal liggja frammi á áberandi stað fyrir starfsmenn.
7. KAFLI
Önnur geymsla og meðhöndlun á olíu.
Almennt.
78. gr.
Ákvæði um geyma, lagnir og staðsetningu samkvæmt 2., 3. og 4. kafla gilda um aðra meðhöndlun og geymslu á olíu, svo sem olíuúrgang og geymslu annarra spillefna á geymum. Allir geymar skulu staðsettir og varðir þannig að þeir verði ekki fyrir hnjaski frá farartækjum.
Sjálfsafgreiðslubúnaður.
79. gr.
Á sjálfsafgreiðslubúnaði, þar sem viðskiptavinur eða notandi afgreiðir sjálfur olíu á farartæki eða báta og þar sem sjálfrennsli getur orðið, skal vera sjálfvirkur loki við geymi, sem lokar fyrir lögn frá honum þegar búnaðurinn er ekki í notkun.
Neyslugeymar o.fl.
80. gr.
Þeir aðilar sem óska eftir að nota neyslugeyma skulu sækja um leyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Ákvæðið á við um húsageyma, lausageyma og aðra geyma sem falla undir þessa skilgreiningu. Heilbrigðisnefnd skal setja ákvæði um rekstur neyslugeyma í starfsleyfi, sbr. mengunarvarnareglugerð.
Ganga skal þannig frá neyslugeymum að ekki geti orðið sjálfrennsli frá þeim þegar þeir eru ekki í notkun.
81. gr.
Gengið skal frá úrgangsolíugeymum með þeim hætti að auðvelt sé að losa í þá olíu og tæma þá.
8. KAFLI
Framkvæmd eftirlits.
82. gr.
Eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar er í höndum Siglingamálastofnunar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins eða hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.
Siglingamálastofnun ríkisins hefur eftirlit með olíubirgðastöðvum, olíugeymum á hafnarsvæðum og olíugeymum yfir 10 m³ sem ekki eru tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi.
Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með bensínstöðvum, olíugeymum undir 10 m³ utan hafnarsvæða og olíugeymum yfir 10 m³ sem tengdir eru starfsleyfisskyldri starfsemi sem heilbrigðisnefnd vinnur starfsleyfi fyrir.
Loks hefur Hollustuvernd ríkisins eftirlit með meðhöndlun og förgun olíuúrgangs svo og eftirlit með olíugeymum sem tengdir eru starfsleyfisskyldri starfsemi sem stofnunin vinnur starfsleyfi fyrir.
83. gr.
Eftirlit nær til búnaðar og allra aðstæðna sem valdið geta mengun af völdum olíu. Eftirlitið felst í að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa.
Eftirlitsaðili skal með fræðslu, leiðbeiningum og upplýsingum stuðla að aðgerðum sem miða að því að hindra og/eða takmarka mengun.
84. gr.
Þegar óskað er eftir skal veita eftirlitsaðila aðgang að svæðum og mannvirkjum þar sem mengunarhætta er til staðar eða mengunaróhöpp hafa orðið, svo og að búnaði og tækjum sem valdið geta mengun. Eftirlitsaðila skulu veittar allar upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar vegna eftirlitsins, svo sem vitneskju um öryggisbúnað og viðhald.
Hafi eftirlitsaðili athugasemdir fram að færa, skal hann koma þeim skriflega til eiganda eða rekstraraðila eftir því sem við á hverju sinni.
85. gr.
Eftirlitsaðilar geta samið sín á milli um að skipta eftirlitinu á annan veg en kveðið er á um í 82. gr. Samkomulag um skiptingu eftirlits er háð staðfestingu ráðherra. Ábyrgð á eftirlitinu hvílir eftir sem áður hjá þeim aðila sem skal annast það samkvæmt 82. gr.
86. gr.
Meðan á byggingu olíumannvirkja stendur geta hlutaðeigandi eftirlitsaðilar sinnt eftirlits vegna mengunarvarna á byggingarstað í samráði við byggingarfulltrúa og skulu þeir skila skýrslu um skoðunina til byggingarfulltrúa.
Greiða skal fyrir byggingareftirlit í samræmi við byggingarlög nr. 54/1978. Fyrir vottorð og umsagnir, sbr. gr. 3.1.4 í byggingareglugerð nr. 177/ 1992, skal greiða í samræmi við gjaldskrá viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis, Hollustuverndar ríkisins eða Siglingamálastofnunar ríkisins eftir því sem við á hverju sinni.
Olíubirgðastöðvar.
87. gr.
Reglubundið eftirlit með mengunarvörnum skal fara fram hjá olíubirgðastöðvum eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Við reglubundið eftirlit skal skoða rekstrarhandbók og önnur atriði sem eftirlitsaðili telur nauðsynleg. Leiði athugun eftirlitsaðila í ljós þörf á frekari athugunum, t.d. vegna tæringar eða að kanna þurfi legufæri eða þéttleika lekavarna, skal rekstraraðili koma mengunarvörnum í viðunandi horf.
Eftirlit með olíugeymum og lögnum skal framkvæmt með þrýstiprófun, útlitsskoðun og þykktarmælingu.
Rekstrarhandbók skal liggja frammi í olíubirgðastöð fyrir eftirlitsaðila.
88. gr.
Kostnaður af reglubundnu eftirliti með mengunarvarnabúnaði olíubirgðastöðva greiðist úr ríkissjóði en annar kostnaður af eigendum búnaðarins.
Eigendur olíubirgðastöðva greiða fast gjald til Siglingamálastofnunar ríkisins fyrir athugun, samþykkt teikninga og verk1ýsinga vegna nýrra olíubirgðastöðva, eða vegna breytinga á eldri stöðvum.
Bensínstöðvar.
89. gr.
Bensínstöðvar eru starfsleyfis- og eftirlitsskyldar samkvæmt ákvæðum mengunarvarnareglugerðar nr. 396/1992. I starfsleyfi skulu m.a. vera nánari ákvæði um mengunarvarnir, eftirlit og búnað til að bregðast við mengunaróhöppum. Við reglubundið eftirlit skal m.a. skoða rekstrarhandbók og önnur atriði er eftirlitsaðili telur nauðsynleg.
Eftirlit með olíugeymum og lögnum skal framkvæmt með lekaprófun, útlitsskoðun eða þykktarmælingu.
Starfsleyfisgjald og árlegt eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt gjaldskrá viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis.
Önnur geymsla á olíu.
90. gr.
Önnur geymsla olíu er starfsleyfis- og eftirlitsskyld samkvæmt mengunarvarnareglugerð, sbr. og 80. gr. þessarar reglugerðar.
Olíugeymar sem tengjast starfsemi starfsleyfisskyldra fyrirtækja samkvæmt mengunarvarnareglugerð, nr. 396/1992, lúta jafnframt eftirliti í samræmi við starfsleyfi.
Rekstraraðili skal láta lekaprófa lagnir og geyma á 10 ára fresti. Prófanir skulu vottaðar af viðurkenndum úttektaraðila.
Íhlutun og þvingunarúrræði.
91. gr.
Um íhlutun, valdsvið og þvingunarúrræði vísast til laga um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986 og laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988 eftir því sem við á hverju sinni.
Viðbrögð við mengunaróhöppum.
92. gr.
Verði mengunaróhapp, eða ef hætta er á slíku, skulu notendur eða rekstraraðilar viðkomandi starfsemi hefja án tafar viðeigandi aðgerðir sem miða að því að draga úr áhrifum óhappsins. Þeir skulu tilkynna hlutaðeigandi eftirlitsaðilum eða hafnaryfirvöldum um óhappið.
93. gr.
Hafi verulegt magn miðað við aðstæður, t.d. 100 1 eða meira, af olíu borist út í umhverfið og ekki hefur tekist að ná olíunni upp innan tveggja klukkustunda frá því að óhappið varð, skulu notendur eða rekstraraðilar viðkomandi starfsemi leggja fram skrifleg drög að björgunaráætlun til eftirlitsaðila innan fjögurra klukkustunda frá tilkynningu óhappsins.
94. gr.
Í björgunaráætluninni skal a.m.k. vera mat á eðli og umfangi óhapps, mat á yfirstandandi hættu og áætlun um aðgerðir þ.m.t mannaflaþörf og tiltækan tækjabúnað.
Nú telur eftirlitsaðili að björgunaráætluninni sé í einhverju ábótavant, t.d. vanmat á eðli og umfangi óhapps, getur hann þá krafist þess að úr verði bætt.
Fallist eftirlitsaðili ekki á stjórnun aðgerða við björgunarstörf skal hann tilkynna skriflega eigendum eða umráðamönnum viðkomandi starfsemi að hann hafi tekið stjórn aðgerða af viðkomandi. Eigandi hlýtir þá fyrirmælum eftirlitsaðila á meðan alvarlegt hættuástand varir.
95. gr.
Rekstraraðilar olíubirgðastöðva og bensínstöðva skulu hafa tiltækan lágmarksbúnað, t.d. sérstök ídræg efni eða mottur, svo hægt sé að bregðast við mengunaróhöppum eftir því sem kostur er. Skrá skal tiltækan búnað í rekstrarhandbækur viðkomandi stöðva.
Notendur geyma yfir 4m³ skulu hafa tiltækan lágmarksbúnað eða aðgang að lágmarksbúnaði til að bregðast við mengunaróhöppum eftir því sem kostur er.
9. KAFLI
Ýmis ákvæði.
Olíubirgðastöðvar.
96. gr.
Olíubirgðastöðvum og geymum sem byggðir voru áður en reglur nr. 560/ 1982 um varnir gegn olíumengun sjávar við olíubirgðastöðvar gengu í gildi, skal sem fyrst komið í það horf að eftirfarandi atriði þessarar reglugerðar séu uppfyllt:
1. Ákvæði 52.-62. gr. um starfsemi og eftirlit skulu uppfyllt árið 1996.
2. Áfyllingarplön tengd olíuskiljum, sbr. ákvæði 48.-S1. gr., skulu vera í olíubirgðastöðvum árið 2005.
3. Eigendur olíubirgðastöðva sem nú uppfylla ekki ákvæði um lekavarnir skulu gera áætlun fyrir 1. júlí 1994 þar sem eftirfarandi kemur fram:
a) Yfirlit yfir þær stöðvar sem eigendur telja að unnt sé að koma í það horf að ákvæði um olíuheldar lekavarnir
í 46. og 47. gr. og ákvæði um girðingar í 2. ml. 43. gr. verði uppfyllt árið 2005.
b) Tillaga að úrbótum þeirra stöðva sem ekki falla undir lið a) skal innihalda áætlun um þéttingu lekavarna
sem fyrir eru, viðbúnað sem gefur til kynna að leki hafi orðið í stöðinni og þar sem slíkt á við og tiltækar
olíugirðingar í grenndinni.
97. gr.
Ákvæði 52.-62. gr. um starfsemi og innra eftirlit skulu uppfyllt árið 1996 hvað varðar olíubirgðastöðvar og geyma sem byggðir og endurbyggðir eru samkvæmt reglum nr. 560/ 1982.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 60. gr. er heimilt að miða tímamark skoðana og prófana við síðustu úttekt.
98. gr
Eigendur olíubirgðastöðva og olíugeyma sem vegna tæknilegra örðugleika uppfylla ekki ákvæði þessarar reglugerðar skulu senda eftirlitsaðila áætlun fyrir 1. júlí 1994 um hvernig því marki skal náð. Eftir að eftirlitsaðili hefur samþykkt áætlunina telst hún bindandi.
Hver áætlun skal taka til þriggja ára og uppfylla eftirfarandi markmið: árið 1996 skal 25% af endurbótum lokið, 50% árið 1999, 75% árið 2002 og 2005 skal endurbótum að fullu lokið.
Neðanjarðarolíugeymar.
99. gr.
Allir niðurgrafnir geymar sem eru 25 ára eða eldri við gildistöku þessarar reglugerðar, svo og geymar sem verða 25 ára á næstu 5 árum, skulu teknir úr notkun á 5 ára tímabili eftir gildistöku reglugerðar þessarar. Sama gildir um geyma þegar óvíst er um aldur þeirra. Fimm árum eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu allir neðanjarðargeymar sem eru úr stáli og án tæringarvarnar eða með bikhúð eða tjöruborða sem tæringarvörn (20. gr.) teknir úr notkun þegar þeir ná 25 ára aldri.
Niðurgrafnir olíugeymar sem eru í notkun við gildistöku þessarar reglugerðar skulu prófaðir á eftirfarandi hátt:
1. Lekakanna skal alla geyma á mánaðarfresti. Lekakönnun skal að jafnaði vera birgðauppgjör. Sé ekki hægt að framkvæma lekakönnun á mánaðarfresti styttist hámarkstími, sbr. 1. mgr., um 5 ár.
2. Stálgeymar, yngri en 15 ára, án tæringarvarnar eða með bikhúð eða tjöruborða sem tæringarvörn (20. gr.) skulu lekaprófaðir á 5 ára fresti.
3. Stálgeymar, eldri en 15 ára, án tæringarvarnar eða með bikhúð eða tjöruborða sem tæringavörn, sbr. 20. gr., skulu lekaprófaðir á árs fresti.
Neðanjarðarlagnir tengdar ofangreindum geymum skulu prófaðar um leið og geymarnir.
100. gr.
Viðbótargeymar sem settir eru niður í gamalt geymastæði skulu a.m.k. standast sömu kröfur og nýjasti geymirinn í stæðinu. Þegar kemur að endurnýjun elsta geymis í samræmi við ákvæði 1. mgr. 99. gr. skal öllum geymum í stæðinu komið í það horf sem staðsetning þess krefst samkvæmt 22. gr.
101. gr.
Nú er heimilt eftir skoðun að setja gamlan geymi niður aftur og skal hann þá hafa sömu tæringarvörn og nýr geymir. Ef eftirlitsaðili telur ástæðu til skulu eldri geymar skoðaðir eftir styttri tíma en nýir geymar. Hafa skal samráð við eftirlitsaðila um slíkar skoðanir.
Bensínstöðvar.
102. gr.
Bensínstöðvar sem byggðar voru fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skal komið í það horf að þær uppfylli:
1. Ákvæði um rekstur, innra eftirlit og viðbragðsáætlun, sbr. 70.-77. gr., árið 1996. Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 76. gr. er heimilt að miða tímamark prófana og skoðana við síðustu prófun og skoðun.
2. Ákvæði 99. gr. um neðanjarðarolíugeyma.
3. Ákvæði um að afgreiðsluplön skulu vera tengd olíuskilju, sbr. 67. og 69. gr., skulu uppfyllt árið 2005 á bensínstöðvum sem afgreiða meira en 600 m³ af olíu á ári. Framkvæmdum skal dreifa sem jafnast yfir tímabilið og skal senda viðkomandi heilbrigðisnefnd áætlun til samþykktar fyrir 1. júlí 1994.
Undanþágur.
103. gr.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að veita tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum þessarar reglugerðar ef ríkar ástæður eru til slíks að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins.
Hollustuvernd ríkisins eða Siglingamálastofnun ríkisins er heimilt, eftir því sem við á hverju sinni, að veita tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum þessarar reglugerðar ef ríkar ástæður eru til slíks.
Viðurlög.
104. gr.
Um málsmeðferð að öðru leyti, dagsektir og viðurlög fer samkvæmt lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit eftir því sem við á hverju sinni.
Gildistaka.
105. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 23. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar og 3. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 560/1982 um varnir gegn olíumengun sjávar við olíubirgðastöðvar.
Umhverfisráðuneytið, 19. janúar 1994.
Össur Skarphéðinsson.
Magnús Jóhannesson.