Menntamálaráðuneyti

449/1988

Reglugerð um Rannsóknastofnun í siðfræði - Brottfallin

REGLUGERÐ

um rannsóknarstofnun í siðfræði.

 

1. gr.

Á vegum Háskóla Íslands og Þjóðkirkjunnar starfar rannsóknarstofnun í siðfræði. Er hún vísindaleg rannsóknar- og fræðslustofnun skv. 1. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands.

 

2.gr.

Hlutverk stofnunarinnar er að vera vettvangur rannsókna í siðfræði.

 

3.gr.

Hlutverki sínu gegnir stofnunin einkum með því að:

1. Veita starfsmönnum stofnunarinnar og gestum fyrirgreiðslu við rannsóknir.

2. Útbúa fræðsluefni um siðfræði sem nota megi í skólum landsins.

3. Gangast fyrir námskeiðum, umræðufundum og fyrirlestrum um siðfræði handa almenningi og starfshópum.

 

4. gr.

Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur mönnum. Heimspekistofnun tilnefnir einn, Guðfræðistofnun annan, en kirkjuráð þjóðkirkjunnar hinn þriðja. Skal stjórnin kosin til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnin ræður forstöðumann og annað starfslið.

 

5. gr.

Á vegum stofnunarinnar skal starfa nefnd til ráðgjafar fyrir stjórnina. Háskólaráð tilnefnir fimm manns í nefndina og kirkjuráð aðra þrjá.


 

6. gr.

Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Aðrar tekjur eru:

a) Styrkir til einstakra verkefna.

b) Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.

c) Tekjur af útgáfu, námskeiðum, ráðstefnum eða annarri starfsemi.

d) Gjafir og aðrar tekjur er stofnuninni kunna að berast. Reikningshald skal vera hluti af heildarreikningum háskólans.

 

7. gr.

Þjóðkirkjan leggur stofnuninni til húsnæði til ráðstefnu- og fundarhalda og aðra aðstöðu eftir því sem aðstæður leyfa.

 

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 9. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 77/1979 með áorðnum breytingum.

 

Menntamálaráðuneytið 23. september 1988.

 

Birgir Ísl. Gunnarsson.

                                                                    Knútur Hallsson

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica