Menntamálaráðuneyti

125/1997

Reglugerð um Tannlækningastofnun Háskóla Íslands. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Tannlækningastofnun Háskóla Íslands.

 

1. gr.

                Tannlækningastofnun Háskóla Íslands starfar við tannlæknadeild Háskóla Íslands í samræmi við ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990.

 

2. gr.

                Hlutverk Tannlækningastofnunar er:

a.             Að vera vísindaleg rannsóknar- og fræðslustofnun á sviði tannlækninga.

b.             Að vera vísindaleg kennslustofnun fyrir kandídata og stúdenta, er vinna að fræðilegum verkefnum, sem sinnt er í stofnuninni, eftir nánari ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.

c.             Að efla tengsl rannsókna og kennslu á sviði tannlækninga.

 

3. gr.

                Hlutverki sínu gegnir Tannlækningastofnun með því að:

a.             Veita starfsmönnum stofnunarinnar fyrirgreiðslu vegna rannsókna þeirra og sérfræðistarfa, svo sem varðandi húsnæði, aðstoðarmenn, ritaraþjónustu og aðra aðstoð við vísindastörf.

b.             Gera rannsóknaráætlanir og standa að framkvæmd þeirra.

c.             Hafa samvinnu við aðrar vísindastofnanir og aðra aðila, um málefni á starfssviði stofnunarinnar.

d.             Taka að sér í eigin nafni rannsóknarverkefni fyrir aðra aðila eftir ákvörðun stjórnar stofnunarinnar í hvert sinn.

e.             Gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum og annarri starfsemi, er stuðlað getur að því, að efla þekkingu og starfsemi þeirra er að tannlækningum vinna.

f.              Vinna að útgáfu rita um efni á starfssviði stofnunarinnar.

 

4. gr.

                Við Tannlækningastofnun starfa kennarar í fullu starfi við tannlæknadeild, nema þeir óski að vera undan því þegnir. Stjórn stofnunarinnar getur heimilað að við stofnunina starfi einnig, um tiltekið tímabil og til þess að sinna ákveðnum verkefnum:

a.             Kennarar í hlutastarfi við tannlæknadeild og kennarar, er sinna þar stundakennslu.

b.             Sérfræðingar í tannlækningum.

c.             Gistikennarar við tannlæknadeild.

d.             Kandídatar og stúdentar, sbr. b-lið 2. gr., svo og aðstoðarmenn og aðrir starfsmenn skv. a-lið 3. gr.

e.             Aðrir menn, sem stjórnin telur æskilegt að bjóða til rannsóknar- og vísindastarfa við stofnunina.

                Háskóli Íslands sér starfsliði fyrir vinnuaðstöðu í samráði við tannlæknadeild.

 

5. gr.

                Stjórn Tannlækningastofnunar Háskóla Íslands er skipuð fjórum kennurum í fullu starfi við tannlæknadeild, sem við stofnunina starfa, kjörnum af tannlæknadeild til tveggja ára í senn, og einum fulltrúa stúdenta, tilnefndum af stjórn Félags íslenskra tannlæknanema, til sama tíma. Kjör stjórnar skal fara fram í októbermánuði, en hin kjörna stjórn tekur við störfum 1. nóvember. Stjórnin ræður málefnum Tannlækningastofnunar.

                Formann, sem jafnframt er forstöðumaður stofnunarinnar, skal stjórnin kjósa sér úr hópi stjórnarmanna til tveggja ára í senn og annast hann daglegan rekstur stofnunarinnar. Heimilt er þó stjórninni að ráða sérstakan framkvæmdastjóra.

                Ársfundur stjórnar Tannlækningastofnunar Háskóla Íslands skal haldinn í september ár hvert. Til hans skal boða með minnst fimm daga fyrirvara. Dagskrá fundarins skal vera þannig: 1. Skýrsla stjórnar og reikningar fyrir líðandi starfsár. 2. Tillögur stjórnar um fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár. 3. Önnur mál.

                Stjórninni er heimilt að setja á fót undirdeildir innan stofnunarinnar, er sinni verkefnum á ákveðnu starfssviði. Skal þá stjórnin kjósa úr hópi starfsmanna stofnunarinnar menn, er starfa skulu að verkefnum innan undirdeildar. Kjörtími má ekki vera lengri en fram að næsta ársfundi stjórnar Tannlækningastofnunar, en heimilt er að endurkjósa menn eins oft og þurfa þykir. Undirdeildir hafa ekki ákvörðunarvald, nema þeim sé sérstaklega fengið það í samþykkt stjórnarinnar.

                Nú vill einhver starfsmaður stofnunarinnar ekki una ákvörðun stjórnar og getur hann þá skotið henni til deildarfundar tannlæknadeildar.

 

6. gr.

                Kostnað við starfsemi Tannlækningastofnunar skal greiða með:

a.             Framlögum frá Háskóla Íslands.

b.             Framlögum frá öðrum aðilum.

c.             Greiðslum fyrir verkefni, sem stofnunin tekur að sér skv. d-lið 3. gr.

d.             Öðrum tekjum, sem til kunna að falla.

 

7. gr.

                Stjórnin hefur umsjón með fjármálum stofnunarinnar og gengur frá rekstraráætlun og tillögum um fjárveitingar til stofnunarinnar, eftir að ársfundur hefur verið haldinn. Rekstraráætlun og fjárveitingatillögur skulu sendar tannlæknadeild til meðferðar samkvæmt lögum. Reikningshald Tannlækningastofnunar skal vera hluti af heildarreikningi Háskóla Íslands, sbr. þó 3. mgr. þessarar greinar.

                Ársskýrslu og reikninga Tannlækningastofnunar skal senda tannlæknadeild til meðferðar eigi síðar en fjórum vikum eftir ársfund. Skýrslan skal birt í Árbók Háskóla Íslands.

                Nú er starfsemi Tannlækningastofnunar Háskóla Íslands, sbr. einkum d-lið 3. gr. og c-lið 6. gr. reglugerðar þessarar, í frjálsri samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila og skal þá gætt ákvæða 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, og sé sá þáttur starfseminnar fjárhagslega aðskilinn annarri starfsemi Háskóla Íslands og ekki niðurgreiddur hvorki af tekjum af annarri starfsemi háskólans né fjárframlögum til hans. Reikningshaldið skal þá að því leyti til vera sjálfstætt og aðskilið heildarreikningi háskólans.

 

8. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 9. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, sbr. 65. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands, nr. 98/1993, með áorðnum breytingum, og tekur hún þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytinu, 28. janúar 1997.

 

Björn Bjarnason.

Þórunn J. Hafstein.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica