Fatlaðir skulu eiga kost á að búa þannig að sem best henti hverjum og einum miðað við óskir hins fatlaða, aðstæður og þörf á þjónustu.
Um er að ræða eftirfarandi kosti:
A. | Íbúðir. |
B. | Íbúðir með sameiginlegri aðstöðu. |
C. | Sambýli. |
D. | Áfangastaði. |
E. | Vistheimili. |
F. | Heimili fyrir börn. |
Ef rekstraraðili er annar en ríkið skal starfsemin vera á grundvelli þjónustusamnings við félagsmálaráðuneytið sem taki til reksturs á húsnæðinu og þeirrar þjónustu sem veitt er.
Með íbúðum með sameiginlegri aðstöðu er átt við íbúðir í fjöleignarhúsi, eða íbúðir á tilteknu svæði, með sameiginlegri aðstöðu. Með sameiginlegri aðstöðu er átt við rými þar sem starfsmenn geta haft aðstöðu og eftir atvikum einnig með eldhúsi, sjúkrabaði o.fl. sem íbúar eiga aðgang að.
Sameiginleg aðstaða er rekin á vegum rekstraraðila, þ.e. leiga, eftir því sem við á, rafmagn, hiti og annar rekstur.
Sambýli eru heimili fámennra hópa fatlaðra, að jafnaði 18 ára og eldri, sem halda heimili saman gegnum heimilissjóð, sbr. 4. gr., og þarfnast að jafnaði nærveru starfsmanns.
Eigi skulu vera fleiri en sex íbúar á hverju sambýli og skulu þeir hver um sig eiga kost á einkarými ásamt snyrtiaðstöðu ef kostur er. Öll sambýli sem byggð eru eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu vera með snyrtiaðstöðu í einkarými.
Í húsnæði sem keypt er undir sambýli eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu herbergi ekki vera minni en 10 m².
Á sambýlum skal fjöldi starfsmanna ráðast af mati á þjónustuþörf íbúanna.
Launakostnaður starfsmanna sambýla greiðist af rekstraraðila. Jafnframt greiðir rekstraraðili fæðisfé starfsmanna og rennur það í heimilissjóð sambýlisins.
Annar rekstrarkostnaður greiðist af íbúum sambýlisins, annars vegar með greiðslu í sérstakan heimilissjóð og hins vegar með húsaleigu.
Heimilissjóður skal standa undir sameiginlegum útgjöldum íbúanna, þ.e. fæðiskostnaði, rafmagns- og hitakostnaði, kaupum á heimilistryggingu, afnotagjöldum af síma, sjónvarpi og útvarpi, eðlilegu viðhaldi húsbúnaðar, svo og öðru sem tilheyrir venjulegu heimilishaldi, þó ekki rekstri bíls. Jafnframt skal heimilissjóðurinn standa undir kostnaði af viðhaldi á læsingum, vatnskrönum, raftenglum og öðru smálegu. Gerður skal samningur við hvern og einn íbúa um greiðslu í heimilissjóð. Framlag hvers íbúa í heimilissjóð skal að hámarki nema 55% af örorkulífeyri, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka eða jafngildi þess.
Gerður skal húsaleigusamningur við hvern og einn íbúa sambýlisins um þann hluta sambýlisins sem hann hefur afnot af. Um samninginn gilda ákvæði húsaleigulaga. Um leigufjárhæð fer sem hér segir:
Leiga á mánuði | |
Herbergi minna en 10 m² | 11.000 kr. |
Herbergi 10–14 m² | 13.000 kr. |
Herbergi stærra en 14 m² | 15.000 kr. |
Herbergi með snyrtingu | 18.000 kr. |
Ígildi 2ja herberga íbúðar | 23.000 kr. |
Fjárhæð húsaleigu er endurskoðuð í janúarmánuði ár hvert og tekið mið af bótum almannatrygginga eða vísitölu neysluverðs eftir því sem er fötluðum hagstæðara.
Um rétt íbúa sambýla til húsaleigubóta fer eftir lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, sbr. lög nr. 52/2001.
Samanlagt framlag íbúa til heimilissjóðs og húsaleigu, að teknu tilliti til húsaleigubóta, nemi þó ekki hærri fjárhæð en 80% af örorkulífeyri, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka eða jafngildi þess.
Með áfangastað er átt við dvalarstað fyrir fatlaða þar sem þeim er gefinn kostur á að búa tímabundið eftir að þeir hafa dvalið á stofnun og til að undirbúa sjálfstætt líf.
Ákvæði 4. gr. gilda að öðru leyti um áfangastaði.
Með vistheimili er átt við sólarhringsstofnanir fyrir fatlað fólk, 18 ára og eldra, þar sem fólkið á heimili og fær nauðsynlega þjónustu.
Rekstrarkostnaður greiðist allur úr ríkissjóði og fá heimilismenn vasapeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Börn á aldrinum 0–18 ára sem vegna fötlunar sinnar geta ekki búið í foreldrahúsum skulu eiga kost á dvöl á sérstökum heimilum fyrir börn. Skilyrði slíkrar dvalar er að hún sé í þágu barns og að ósk foreldra/forsjáraðila og að leitað hafi verið allra leiða til að styðja og styrkja fjölskyldu barns til að annast það heima.
Foreldrar fara með forsjá barns sem dvelst á heimilinu, sbr. barnalög. Umönnun og uppeldi, sem veitt er á heimilinu, skal fara fram í samráði við foreldra barns eftir því sem kostur er. Um leið og barn fer til dvalar á heimilið skal gengið frá skriflegu samkomulagi við foreldra barns um tilhögun dvalarinnar og tengsl barns við foreldra. Skal þar m.a. kveðið á um samvistir foreldra og barns, bæði á heimilinu og á heimili foreldra, svo og stuðning foreldra við barnið, eins og í veikindum þess.
Starfsmönnum heimilisins er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við foreldra eftir því sem kostur er.
Þjónusta við fatlaða skal ávallt veitt með þeim hætti að hún efli sjálfstæði þeirra og færni.
Fatlaðir sem búa í íbúðum eða íbúð með sameiginlegri aðstöðu eiga rétt á utanaðkomandi aðstoð:
A. | Heimaþjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hversu mikil þjónusta er veitt fer eftir mati á þjónustuþörf annars vegar og reglum viðkomandi sveitarfélags hins vegar. |
B. | Frekari liðveislu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Frekari liðveisla er viðbótarþjónusta við þá lögbundnu almennu þjónustu sem fötluðum stendur til boða, svo sem félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun, og kemur einungis til álita að réttur til slíkrar þjónustu hafi verið fullnýttur. Með frekari liðveislu er átt við aðstoð við fatlað fólk sem býr ekki á sambýli eða stofnun enda sé ljóst að hinn fatlaði þurfi á aðstoðinni að halda m.a. til að komast hjá því að búa á sambýli eða stofnun. Þjónustan er að jafnaði einungis veitt fötluðum 18 ára og eldri. Hversu mikil þjónusta er veitt fer eftir mati á þörf, röðun í forgang á svæðinu og því fjármagni sem veitt er til málaflokksins af hálfu ríkisins. |
Jafnframt geta fatlaðir átt rétt á almennri liðveislu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags.
Um heimahjúkrun vísast til laga um heilbrigðisþjónustu. Aðstoð tengist einstaklingum og þörf þeirra á hverjum tíma.
Á sambýlum og vistheimilum skal fötluðum veitt sú þjónusta sem nauðsynleg er til að efla sjálfstæði þeirra og færni. Skal íbúunum veitt leiðsögn eftir þörfum og kappkostað að hafa þá með í ráðum um allt er varðar einkahagi þeirra og heimilishagi.
Íbúar á áfangastað fá félagslega hæfingu, stuðning og ráðgjöf.
Heimili fyrir börn skulu tryggja börnum þroskavænleg uppeldisskilyrði og nauðsynlega umönnun. Leitast skal við að þau fái notið þjálfunar og tómstunda utan heimilis svo sem frekast er kostur.
Umsókn um búsetu í íbúð með sameiginlegri aðstöðu, sambýli, vistheimili, heimili fyrir börn og áfangastað skal send til viðkomandi svæðisskrifstofu. Umsókn er því aðeins gild að hún komi frá hinum fatlaða eða forráðamanni hans.
Svæðisskrifstofa skal sjá um að þörf hins fatlaða fyrir þjónustu sé metin áður en búseta er ákveðin. Skal við matið haft samráð við greiningar- og ráðgjafaraðila.
Sé viðkomandi búsetuúrræði á vegum svæðisskrifstofu tekur svæðisskrifstofa ákvörðun um vistun í samráði við hinn fatlaða og væntanlegt sambýlisfólk hans.
Sé búsetuúrræði á vegum annars aðila en svæðisskrifstofu, þ.e. sveitarfélags, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnunar, skal leita samþykkis þess aðila áður en ákvörðun um vistun er tekin í samráði við hinn fatlaða og væntanlegt sambýlisfólk hans.
Verði ágreiningur um afgreiðslu umsóknar um búsetu skv. 10. gr. skal málið sent svæðisráði sem fjallar um það mál.
Rekstraraðili heimilis eða stofnunar, eða starfsmaður í umboði hans, ber ábyrgð á starfsemi heimila og stofnana skv. B–F-lið 1. gr., þ.e. starfsmannahaldi, innra starfi og samskiptum við aðra aðila, svo sem aðstandendur, vinnustaði, skóla og dagvist.
Í þeim tilvikum þar sem hinn fatlaði getur ekki séð um meðferð einkafjármuna eða hún hefur ekki verið falin öðrum aðila gildir eftirfarandi tilhögun:
A. | Sambýli og áfangastaðir. |
Rekstraraðili, eða starfsmaður í umboði hans, ber ábyrgð á vörslu þeirra einkafjármuna íbúa sem renna eiga til reksturs heimilisins, þ.e. húsaleigu, sameiginlegs heimilissjóðs, svo og til persónulegra þarfa íbúa. | |
Rekstraraðili skal fela tilteknum starfsmanni sambýla og áfangastaða að halda bókhald um fjárframlag íbúa til húsaleigu og heimilissjóð og er ábyrgur gagnvart íbúum eða umboðsmönnum þeirra um meðferð rekstrarfjármuna. | |
Greiðslur til einkaneyslu, utan heimilissjóðs og húsaleigu, skulu færðar sérstaklega. | |
B. | Vistheimili. |
Um ábyrgð á vörslu vasapeninga og færslur fer eftir A-lið 3. mgr. |
Ákvæði A-liðar 2. mgr. getur jafnframt átt við um íbúðir með sameiginlegri aðstöðu.
Gerður skal samningur milli rekstraraðila og íbúa um vörslu og meðferð einkafjármuna þeirra samkvæmt þessari grein.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, og með hliðsjón af 3. gr. laga, nr. 52/2001, um breytingu á lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997, öðlast gildi 1. október 2002. Frá sama tíma er úr gildi fallin reglugerð um búsetu fatlaðra, nr. 555/1994.