Rétt til að kalla sig sérfræðing í sjúkraþjálfun og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn, er til þess hefur fengið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
Umsókn um sérfræðileyfi ásamt gögnum sem staðfesta menntun og starfsreynslu skal senda til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.
Áður en sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun er veitt skal leita umsagnar þriggja manna sérfræðinefndar sem ráðherra skipar. Í nefndinni skal vera einn fulltrúi tilnefndur af Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, einn fulltrúi námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og einn tilnefndur af landlækni.
Til þess að sjúkraþjálfari geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun, skal hann fullnægja eftirtöldum kröfum:
1. | Hann skal hafa hlotið starfsleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að starfa sem sjúkraþjálfari hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1976, um sjúkraþjálfun. | |
2. | Hann skal hafa lokið meistaraprófi eða doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla eða hafa sambærilega menntun. | |
3. | Hann skal hafa starfað við sjúkraþjálfun minnst tvö ár eftir sérnám við þá sérgrein, sem hann sækir um sérfræðileyfi í. |