Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

449/1982

Reglugerð um innflutning á geislatækjum, er framleiða útfjólublá geisla - Brottfallin

REGLUGERÐ

um innflutning á geislatækjum, er framleiða útfjólubláa geisla.

1. gr.

Innflutningur á geislatækjum er framleiða útfjólubláa geisla (solarium) er háður leyfi ráðuneytisins.

Innflytjendur skulu senda umsóknir til Geislavarna ríkisins og skal í umsókn greina frá framleiðanda, tegund tækis og lampa, magni UV-A, UV-B og UV-C geisla svo og bylgjudreifingu. Sé um að ræða sólarlampa, þá skal einnig greint frá magni "líffræðilegar virkrar" UV-B og UV-C geislunar. Upplýsingar um magn geislunar og dreifingu skulu staðfestar af stofnun viðurkenndri af Geislavörnum ríkisins ella getur stofnunin látið framkvæma mælingar þar að lútandi á kostnað umsækjanda.

Geislavarnir ríkisins geta krafist frekari upplýsinga telji þær þörf á slíku.

2. gr.

Leyfi skulu gefin út fyrir hverja tegund tækis að undangenginni skoðun Geislavarna ríkisins og er leyfisveiting háð því skilyrði að reglur Geislavarna ríkisins um notkun slíkra tækja séu uppfylltar. Gildir leyfi fyrir innflutning á ótilteknum fjölda tækja. Skila skal árlega skýrslum til Geislavarna ríkisins varðandi innflutninginn.

Geislavarnir ríkisins geta lagt til að leyfi verði fellt niður eða endurskoðað standi leyfishafar ekki skil á innflutningsskýrslum eða komi fram nýjar upplýsingar um skaðsemi útfjólublárrar geislunar.

3. gr.

Eftirlit með tækjum samkvæmt reglugerð þessari er í höndum Geislavarna ríkisins.

Skoðunargjald að upphæð kr. 1 000,00 skal fylgja með umsókn.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. gr. laga nr. 58/1982, um breytingu á lögum nr. 95/1962, um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislum frá geislavirkum efnum eða geislatækjum, öðlast gildi frá og með 1. janúar 1983.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 22. júlí 1982.

Svavar Gestsson.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica