Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

655/1994

Reglugerð um framkvæmd almannatryggingalaga. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um framkvæmd almannatryggingalaga.

1. Fæðing á Íslandi.

1. gr.

Einungis skal greiða fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga skv. 15. og 16. gr. almannatryggingalaga (ATL) vegna barns sem fæðist hér á landi. Þó er heimilt að greiða fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga vegna barns sem fæðist erlendis enda heyrir móðir þess undir íslensk almannatryggingalög við fæðinguna.

2. Söfnun trygginga-, starfs- eða búsetutímabila skv. 18. gr. reglu-

gerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna

gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum

og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja.

a. Fæðingarorlof.

2. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 15. gr. og a.-liðar 16. gr. ATL skulu búsetu- eða starfstímabil í öðrum ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu (EES-ríkjum) tekin til greina hafi foreldri jafnframt verið tryggt í þeim löndum á sama tíma enda hafi foreldri tekið upp lögheimili hér á landi fyrir fæðinguna.

Við ákvörðun á fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum, sbr. 1. mgr. 15. gr. og a.lið 16. gr. ATL skal eingöngu taka til greina tryggingatímabil frá öðrum EES-ríkjum ef búsetutímabil hér á landi og tryggingatímabil frá öðrum EES-ríkjum eru samfelld.

3. gr.

Við ákvörðun á fæðingardagpeningum skv. a.-lið 16. gr. ATL skal foreldrið fullnægja eftirfarandi skilyrðum til þess að unnt sé að taka til greina tryggingatímabil frá öðrum EES-ríkjum:

a. eiga lögheimili hér á landi,

b. hafa unnið hér á landi í a.m.k. 516 dagvinnustundir á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs, sbr. þó 5. gr., og

c. hafa átt lögheimili hér á landi á starfstímabilinu sem getið er um í b.-lið.

4. gr.

Við útreikning á fæðingardagpeningum skv. d.-lið 16. gr. ATL skal ekki taka til greina dagvinnustundir frá öðrum EES-ríkjum ef liðnir eru meira en þrír mánuðir frá því að starfstímabili lauk og þar til starfstímabil hefjast hér á landi. Sama gildir um útreikning skv. 5. gr. þessarar reglugerðar.

5. gr.

Við ákvörðun á fæðingardagpeningum, sbr. b.-lið 3. gr., og við útreikning þeirra, sbr. d.-lið 16. gr. ATL, skal

a. bóklegt og verklegt nám í öðrum EES-ríkjum tekið til greina ef námið hefur verið aðalstarf foreldris, sbr. 4. tl. 23. gr. reglugerðar um fæðingarorlof nr. 546/1987 með síðari breytingu.

b. greiðsla atvinnuleysisbóta sem foreldri hefur sannanlega notið í öðrum EES-ríkjum tekin til greina ef foreldri á lögheimili hér á landi og uppfyllir að öðru leyti skilyrði íslenskra laga um atvinnuleysisbætur, sbr. 24. gr. reglugerðar um fæðingarorlof nr. 546/ 1987 með síðari breytingu.

c. veikindatími í öðrum EES-ríkjum teljast jafngildur vinnuframlagi enda hafi foreldrið átt rétt á greiðslu launa eða sjúkra- (slysa-) dagpeninga á veikindatímabilinu, sbr. 25. gr. reglugerðar um fæðingarorlof nr. 546/1987 með síðari breytingu.

d. atvinnuþátttaka maka bænda við landbúnaðarstörf í öðrum EES-ríkjum tekin til greina í samræmi við 1. tl. 23. gr. reglugerðar um fæðingarorlof nr. 546/1987 með síðari breytingu.

e. launað starf í öðrum EES-ríkjum við gæslu barna í heimahúsi tekið til greina í samræmi við 3. tl. 23. gr. reglugerðar um fæðingarorlof nr. 546/ 1987 með síðari breytingu.

b. Sjúkradagpeningar.

6. gr.

Við ákvörðun á því hvort aðili sé sjúkratryggður skv. 32. gr. ATL eru einungis tekin til greina búsetu- eða starfstímabil frá öðrum EES-ríkjum hafi viðkomandi verið tryggður þar á sama tíma.

Tryggingatímabil frá öðrum EES-ríkjum í þessu sambandi eru þó eingöngu tekin til greina ef lögheimili á Íslandi er tekið upp í beinu framhaldi þeirra.

7. gr.

Umsækjandi um sjúkradagpeninga, sem leggur niður launaða vinnu skv. 38. gr. ATL skal hafa unnið hér á landi.

Við ákvörðun sjúkradagpeninga skv. 38. gr. ATL skal við það miða hvernig störfum umsækjanda hefur verið háttað hér á landi síðustu tvo mánuðina áður en hann varð óvinnufær.

3. Frádráttur erlendra bóta.

8. gr.

Greiðslur erlendis frá vegna sömu fæðingar og fyrir sömu tímabil koma til frádráttar fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum skv. 15. og 16. gr. ATL.

Greiðslur sjúkradagpeninga erlendis frá vegna sama sjúkdóms og sömu tímabila koma til frádráttar sjúkradagpeningum skv. 38. gr. ATL.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 66. og 54. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/ 1993, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. 13. desember 1994.

Sighvatur Björgvinsson.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica