Markmið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið reglugerðar þessarar er að takmarka framleiðslu, innflutning og dreifingu leikfanga og hluta úr mjúku plasti ætluðum börnum ef vörurnar innihalda þalöt, þar sem þalöt eru talin geta valdið heilsuskaða.
2. gr.
Með þalötum er í reglugerð þessari átt við estera af o-þalsýru. Þalöt eru meðal annars notuð sem mýkingarefni í plastvörum.
Gildissvið.
3. gr.
Ákvæði reglugerðar þessarar taka til:
1. Leikfanga fyrir börn yngri en þriggja ára (0-36 mánaða).
2. Vöru fyrir börn yngri en þriggja ára sem er ætluð til eða búast má við að börn nagi eða sjúgi, svo sem naghringir, smekkir, baðáhöld og fleira.
3. Vöru sem ekki fellur undir 1. og 2. tölulið en sem ætla mætti að verði notuð sem leikfang fyrir börn yngri en þriggja ára vegna útlits vörunnar, þar með talið efnisgerðar, lögunar og skreytingar.
Takmarkanir.
4. gr.
Óheimilt er að framleiða, flytja inn eða dreifa vöru sem fellur undir 3. gr. og inniheldur þalöt ef styrkur þeirra er meiri en 0,05% miðað við þyngd vörunnar eða hluta hennar.
Eftirlit.
5. gr.
Framleiðandi, innflytjandi og dreifingaraðili eru ábyrgir fyrir því að vara uppfylli ákvæði reglugerðar þessarar og ber að framvísa gögnum þar að lútandi til eftirlitsaðila sé þess óskað.
6. gr.
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.
Undanþágur.
7. gr.
Ef sérstakar ástæður mæla með því getur umhverfisráðherra að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, veitt tímabundna undanþágu frá ákvæði 3. gr. Sækja skal skriflega um slíka undanþágu til umhverfisráðuneytisins.
Viðurlög.
8. gr.
Um viðurlög fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Gildistaka.
9. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, að höfðu samráði við Löggildingar-stofu.
Reglugerð þessi hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 534/1995 um gildistöku tiltekinna tilskipana Evrópubandalagsins um tilhögun upplýsingaskipta vegna setningar tæknilegra staðla og reglugerða, sbr. 1. tölul. XIX. kafla II. viðauka EES-samningsins, tilskipun ráðsins 98/34/EB.
Reglugerðin öðlast gildi 1. apríl árið 2000. Vörur sem framleiddar voru á Íslandi eða voru fluttar inn fyrir gildistöku reglugerðar þessarar er heimilt að selja þar til 1. maí árið 2000.
Umhverfisráðuneytinu, 14. mars 2000.
Siv Friðleifsdóttir.
Magnús Jóhannesson.