REGLUGERÐ
um veikindaforföll starfsmanna ríkisins.
1. gr.
Tilkynningar- og vottorðsskylda.
1. mgr. Ef starfsmaður veikist og getur af þeim sökum eigi sótt vinnu, skal hann þegar tilkynna það yfirboðara sínum, sem ákveður, hvort læknisvottorðs skuli krafist. Vottorð skal vera frá trúnaðarlækni hlutaðeigandi stofnunar, ef þess er óskað.
2. mgr. Krefjast má læknisvottorðs af starfsmanni í veikindum, hvenær sem forstöðumanni stofnunar þykir þörf á.
3. mgr. Ef starfsmaður kemur ekki til starfa sökum veikinda meira en 10 vinnudaga samfleytt, skal hann sanna veikindi sín með læknisvottorði.
4. mgr. Ef um er að ræða endurteknar fjarvistir starfsmanns, skal hann sanna veikindi sín með læknisvottorði, þegar hann hefur verið forfallaður meira en 15 vinnudaga samtals á einu og sama almanaksári, en eftir það hvert sinn, sem hann er fjarverandi án leyfis á sama ári.
5. mgr. Ef starfsmaður er veikur um langan tíma, skal hann endurnýja læknisvottorð sitt, þegar 2 mánuðir eru liðnir frá því er hann veiktist, en síðan á þriggja mánaða fresti, meðan hann á rétt á launum skv. 2. gr. þessarar reglugerðar. Frá þessu má þó veita undanþágu eftir tillögu trúnaðarlæknis, ef hann telur auðsætt fyrirfram, að starfsmaðurinn verði ekki fær um að hefja starf innan tímamarka, sem tiltekin eru hér að framan.
6. mgr. Skylt er starfsmanni, sem er frá störfum vegna veikinda svo lengi, að vottorðsskylda taki til hans, að ganga undir hverja þá venjulega og viðurkennda læknisrannsókn, sem trúnaðarlæknir kann að telja nauðsynlega, til þess að skorið verði úr því, hvort veikindaforföll séu lögmæt.
7. mgr. Vinnuveitandi skal endurgreiða starfsmanni gjald vegna læknisvottorða, sem krafist er skv. reglugerð þessari. Endurgreiðsla skal einnig taka til greiðslu til læknis fyrir viðtal vegna öflunar vottorðs.
2. gr.
Réttur til launa í veikindum.
1. mgr. Starfsmaður skal halda fullum launum, svo lengi sem veikindadagar hans í almanaksdögum taldir verða eigi fleiri en 90 á 12 mánuðum. Ef þeir verða fleiri, lækka launin um helming þann tíma, sem umfram er. Þegar starfsmaður hefur verið fjarverandi í 180 almanaksdaga á 12 mánuðum, fellur launagreiðsla niður. Fyrir starfmenn, sem verið hafa í þjónustu ríkisins í 10 ár, lengist 90 daga tímabilið í 120 daga og 180 daga tímabilið í 240 daga. Eftir 15 ára þjónustualdur lengist tíminn á sama hátt í 180 daga og 360 daga. Starfsmaður, sem verið hefur í þjónustu ríkisins í 20 ár eða lengur, á rétt til fullra launa í 360 veikindadaga á 12 mánuðum, en þá fellur launagreiðsla niður.
2. mgr. Starfsmenn ríkisins, er verið hafa skemur en 6 mánuði í starfi, eiga rétt til fullra launa í 30 almanaksdaga og hálfra launa í 30 almanaksdaga.
3. mgr. Við mat á veikindarétti starfsmanns skal, auk þjónustualdurs hjá ríkinu, einnig telja þjónustualdur hjá þeim stofnunum sveitarfélaga og sjálfseignarstofnunum, sem kostaðar eru að meiri hluta til af ríkinu.
4. mgr. Til fullra launa teljast, auk fastra mánaðarlauna skv. kjarasamningi, greiðslur fyrir yfirvinnu, vakta-, gæsluvakta- og óþægindaálag og greiðslur fyrir eyður í vinnutíma, enda hafi vinnuframlag eða vinnutími verið ákveðið með stundaskrá til heils skólaárs eða skólaannar eða reglubundinni varðskrá. Ákvæði þessarar málsgreinar taka einnig til annarrar reglubundinnar yfirvinnu, sem staðið hefur í 12 almanaksmánuði eða lengur eða er ætlað að standa a.m.k. svo lengi. Í veikindum kennara skal greiða skv. þeirri stundaskrá, sem í gildi er eða síðast gilti miðað við upphaf veikinda hans.
5. mgr. Þegar starfsmaður hefur verið fjarverandi vegna veikinda samfellt lengur en svarar til einnar viku vinnuskyldu hans, skal hann auk launa, sem greidd verða skv. 1.-4. mgr., fá greidda aðra yfirvinnu, þannig að fyrir hverja klukkustund í dagvinnu- eða vinnuskyldu veikindatímans miðað við fullt starf, skal greiða 1/2000 þeirra yfirvinnustunda, sem hann fékk greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu eða síðustu 12 heilu almanaksmánuðina. Starfsmaður skóla og annarra stofnana, þar sem venjuleg starfsemi liggur niðri hluta ársins, skal í stað reglu þessarar aðeins fá greidda aðra yfirvinnu en greinir í 4. mgr. þá mánuði, sem venjuleg starfsemi fer fram, og skal yfirvinnustundafjöldinn ákveðinn með því að finna mánaðarlegt meðaltal þeirra tilfallandi yfirvinnustunda, sem hann fékk greiddar síðustu 9 heilu starfsmánuði stofnunarinnar. Ef föst yfirvinna er ekki merkt á varðskrá, skal gert ráð fyrir, að þær dagvinnu- eða vinnuskyldustundir, sem leiða til greiðslu yfirvinnu skv. þessari málsgrein, séu sama hlutfall veikindafjarvistanna eins og varðskrárinnar.
6. mgr. Ef starfsmaður er fjarverandi á viðmiðunartímabili skv. 5. mgr. vegna orlofs, skal telja, að hann hafi sama meðaltal yfirvinnu orlofsdagana og hinn hluta tímabilsins.
7. mgr. Við útreikning yfirvinnustunda skv. 5.-6. mgr. skal ekki telja með þær yfirvinnustundir, sem greiddar hafa verið skv. 4. mgr.
8. mgr. Verði starfsmaður óvinnufær af völdum slyss á vinnustað eða á eðlilegri leið til eða frá vinnu, greiðast laun skv. 1.-6. mgr. frá upphafi fjarvistanna.
9. mgr. Þegar mánaðarlaunagreiðslur skv. 1.-3. mgr. skerðast eða falla niður, skulu greiðslur skv. 4.-8. mgr. skerðast eða falla niður á sama hátt.
10. mgr. Ef starfsmaður að læknisráði og með leyfi forstöðumanns vinnur skert starf vegna veikinda, skal miða greiðslu veikindalauna fyrir dagvinnu við það starfshlutfall, sem vantar á, að hann sinni fullu starfi og greiða laun í því starfshlutfalli að fullu eða hálfu, eftir því sem ákveðið er í 1.-2. mgr. þessarar greinar.
3. gr.
Skerðing veikindaréttar.
1. mgr. Nú hefur starfsmaður verið tvisvar sinnum frá störfum vegna veikinda með fullum launum þá dagatölu, er hann skv. 2. gr. nýtur óskertra launa, og skerðist þá um helming næstu 4 ár dagatala sú, er hann á rétt á skv. ákvæðum 2. gr. um laun í veikindaforföllum.
4. gr.
Starfshæfnisvottorð.
1. mgr. Starfsmaður, sem verið hefur veikur í 1 mánuð eða lengur, má ekki hefja starf að nýju nema læknir votti, að heilsa hans leyfi.
2. mgr. Krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar.
5. gr.
Lausn frá störfum vegna endurtekinna eða langvarandi veikinda.
1. mgr. Ef starfsmaður í þjónustu ríkisins er frá starfi vegna veikinda svo mánuðum skiptir á hverju ári um 5 ára tímabil, og ekki er skýlaust vottað skv. ákvæðum 4. gr., að hann hafi fengið heilsubót, sem ætla megi varanlega, má veita starfsmanni lausn frá störfum vegna heilsubrests. Skal það að jafnaði gert, nema alveg sérstakar ástæður séu fyrir hendi, svo sem að fært sé að beita heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að leyfa starfsmanni að vinna 2/3 starfstíma gegn samsvarandi launafrádrætti.
2. mgr. Með sama hætti er rétt að veita manni lausn frá starfi vegna heilsubrests, ef hann hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda tvöfaldan þann tíma, er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni skv. 1. mgr. 2. gr. Þetta gildir þó eigi, ef læknir vottar, að líkur séu til fulls bata á næsta misseri, enda sé starfsmanni þá veitt lausn að liðnu því misseri, ef hann er þá enn óvinnufær.
3. mgr. Ekki skulu framangreindar reglur um veikindaforföll vera því til fyrirstöðu, að starfsmanni verði veitt lausn frá störfum vegna vanheilsu, er hann æskir þess, ef hann er samkvæmt læknisvottorði orðinn varanlega ófær um að gegna starfi vegna vanheilsu. Fer þá um greiðslu launa skv. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
6. gr.
Skráning veikindadaga.
1. mgr. Halda skal skrá yfir veikindadaga opinberra starfsmanna við hverja stofnun. Ef maður flyst milli starfa, skal leggja saman veikindadaga hans í báðum störfum, eftir því sem við á.
7. gr.
Veikindi í barnsburðarleyfi.
1. mgr. Veikindatími móður í barnsburðarleyfi eða fæðingarorlofi telst ekki til veikindaforfalla og á starfsmaður ekki rétt til launa skv. reglugerð þessari þann tíma.
8. gr.
Veikindi barna yngri en 13 ára.
1. mgr. Heimilt er öðru foreldra að vera frá vinnu í samtals 7 vinnudaga árlega vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Í þessum fjarvistum greiðast starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag skv. reglubundinni varðskrá.
2. mgr. Heimild þessi hefur ekki áhrif á rétt starfsmannsins skv. öðrum greinum reglugerðarinnar.
9. gr.
Gildistaka.
1. mgr. Reglugerð þessi, sem sett er skv. lögum nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og
skyldur starfsmanna ríkisins, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 135/1988, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins.
Fjármálaráðuneytið, 24. ágúst 1989.
Ólafur Ragnar Grímsson.
Birgir Guðjónsson