Matvælaráðuneyti

1775/2024

Reglugerð um (12.) breytingu á reglugerð nr. 745/2016 um vigtun og skráningu sjávarafla.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. mgr. verður svohljóðandi: Fiskistofu er heimilt að veita undanþágu frá vigtun á hafnarvog að uppfylltum skilyrðum kafla þessa enda verði til þess notuð sjálfvirk vog sem vigtar allan afla fyrir stærðarflokkun og vinnslu með samfelldum hætti. Heimavigtunarleyfi má veita vegna löndunar á uppsjávarfiski og meðafla sem landað er með dælingu afla úr veiðiskipi beint til fiskvinnslu eða í hráefnisgeymslu. Vigtunarbúnaður skal skrá og geyma upplýsingar um vigtaðan afla í 3 ár. Fiskistofu er heimilt að veita leyfi til heimavigtunar á sjávargróðri með notkun ósjálfvirkrar vogar.
  2. Í stað orðanna "eða botnfiski" í 2. málsl. 2. mgr. kemur: og sjávargróðri.

 

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á eftir orðunum "leyfi til endurvigtunar" í 6. málsl. 1. mgr. kemur: og úrtaksvigtunar á loðnu­hrognum.
  2. 2.-4. mgr. falla brott.

 

3. gr.

21. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Aðili sem óskar eftir heimavigtunarleyfi skv. 19. gr. skal senda skriflega umsókn til Fiskistofu og skal Fiskistofa taka ákvörðun um leyfisveitingu eftir að hafa leitað álits viðkomandi hafnar­yfirvalda. Í umsókninni skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Nafn og kennitala umsækjanda.
  2. Starfsemi umsækjanda.
  3. Staðsetning vinnsluhúss sem vigtun fer fram í.
  4. Nöfn þeirra löggiltu vigtarmanna sem munu vigta aflann og upplýsingar um hvenær þeir hlutu löggildingu.
  5. Rekstrarform fyrirtækisins og nöfn aðaleigenda.
  6. Vinnsluleyfisnúmer.
  7. Listi yfir allar vogir sem notaðar verða til vigtunar og skráningar.

Með umsókn skal fylgja nákvæm greinargerð um hvernig staðið verði að vigtun og skráningu afla. Teikningar af öllum lögnum sem notaðar eru til flutnings afla við dælingu frá skipi og að vigtar­búnaði.

Ítarleg lýsing á framkvæmd heimavigtunar skal koma fram í handbók um innra eftirlit leyfishafa samkvæmt leiðbeiningum Fiskistofu.

Gera skal grein fyrir því hvernig niðurstöður vigtunar verða notaðar í viðskiptum með sjávarafla og hvernig rekjanleiki þessara upplýsinga verður tryggður.

Fiskistofa skal meta hvort búnaður umsækjanda sé með þeim hætti að unnt verði að fara í hvívetna að reglum sem gilda um vigtun sjávarafla. Uppfylli umsækjandi kröfur sem gerðar eru til vigtunarleyfishafa skal Fiskistofa gefa út heimavigtunarleyfi. Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi hafnaryfirvöldum um veitingu heimavigtunarleyfa.

Sé fyrirhuguð breyting á vigtarbúnaði, sýnatökubúnaði eða á lögnum sem afla er dælt um skal senda upplýsingar um breytingar ásamt teikningum til Fiskistofu.

Fiskistofa getur bundið heimavigtunarleyfi því skilyrði að leyfishafi tryggi að tilkynningar um löndun og áætlaðan afla berist til löndunarhafnar og Fiskistofu áður en löndun hefst.

 

4. gr.

22. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Allar breytingar á stillingum á virkni vigtar og skráningarhluta vogar ásamt rafrænum innsiglum skulu vera rekjanlegar þar sem fram kemur tími og dagsetning breytinga og hverju var breytt.

Rafræn vigtargögn skulu innihalda magn, tímastimpil og aðrar þær upplýsingar sem tryggja rekjanleika löndunar og aflaskráningar skv. gildandi reglugerðum. Fiskistofu og viðkomandi lönd­unar­höfn skal veittur rauntímaaðgangur að vigtargögnum.

Löndunaraðstaða heimavigtunarleyfishafa skal vera með rafrænni vöktun sem greinir flæði afla á meðan löndun stendur og þar til vigtun og meðaflasýnatöku afla er lokið. Skal sá búnaður tengjast rafmóturum, safnkörum og færiböndum að vigtarbúnaði. Þar sem myndavélar eru notaðar til rafræns eftirlits skal staðsetning myndavéla vera þannig að greina megi flæði afla frá innmötun þar til vigtun og meðaflasýnatöku er lokið.

Fiskistofa og viðkomandi löndunarhöfn skal hafa aðgang að vistuðum upptökum úr myndavéla­eftirliti og er heimill aðgangur að beinu streymi myndavélaeftirlits. Fiskistofa skal hafa aðgang að beinu streymi gagna vegna vigtunar. Upptökur úr myndavélaeftirliti skal vista og geyma í að minnsta kosti 30 daga.

Vogarhausar skulu vera nálægt vigtarbúnaði svo hægt sé að sjá skráningu og virkni voga þegar vigtun afla fer fram. Vogarhaus skal hafa að lágmarki 8 stafa runutölu sem safnar heildarvigtun hverrar vogar.

Aðflæði afla að trogvog skal stöðvast sjálfkrafa verði bilun eða villumeldingar í vigtarbúnaði, þar með talin bilun í kraftnemum eða yfirfylling voga eða þrifakerfi er sett í gang.

Vinnuþrýstingsfall á stjórnbúnaði voga skal einnig stöðva aðflæði afla að vog.

Til að tryggja að allur afli sé vigtaður skal aðflæði afla stöðvast sé kveikt á þrifakerfi eða standi trogvog opin. Skynjarar skulu vera á trogum vogar sem tryggja stöðvun aðflæðis.

Flæðivog og trogvog skulu hafa sjálfvirka törun.

Til að tryggt sé að allur afli sé vigtaður getur Fiskistofa innsiglað stjórnbúnað voga, færibanda og lagnaloka. Sé nauðsyn að rjúfa innsigli vegna bilunar eða viðhalds skal senda Fiskistofu sam­stundis upplýsingar um hvar og hvenær innsiglið var rofið ásamt upplýsingum um bilanir og við­hald.

Tryggja skal óhindrað aðgengi eftirlitsmanna og hafnarstarfsmanna að vigtarbúnaði þar sem vigtun afla fer fram, sbr. 54. gr.

 

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. mgr. fellur út.
  2. 2. mgr. verður 1. mgr.
  3. Ný 2. mgr. orðast svo: Vigtarnóta skal send til viðkomandi löndunarhafnar undirrituð af þeim löggilta vigtarmanni sem sá um vigtunina þegar vigtun lauk. Vigtarnóta skal ávallt send til löndunarhafnar innan tveggja virkra daga frá löndun aflans.
  4. Á eftir 2. mgr. bætist ný málsgrein, sem verður 3. mgr., svohljóðandi: Við úrtaksvigtun á loðnu­hrognum skal vigtarnóta ávallt send til löndunarhafnar innan fimm virkra daga frá löndun aflans.

 

6. gr.

Við 24. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, sem verður 2. mgr., svohljóðandi: Nánari skilyrði um framkvæmd vigtunar uppsjávarfisks sem fer í hráefnisgeymslu fiskimjölsverksmiðju fer eftir 38. gr. og uppsjávarfisks sem fer í vinnslu (frystingu eða söltun) fer eftir 39. gr.

 

7. gr.

38. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Vigtun uppsjávarfisks sem fer í hráefnisgeymslu fiskimjölsverksmiðju skal fara fram í samræmi við ákvæði III. kafla.

Við löndun loðnu til hrognaskurðar skal skilja allan bolfiskafla frá með grind eða meðafla­tromlu áður en loðna er skorin.

Heimilt er að nota vökvaskiljur/tromlur til að skilja frá vökva/blóðvatn úr afla við löndun áður en afli er vigtaður. Við vigtun á afla sem landað er í fiskimjölsverksmiðju skal nota trogvog sem sam­þykkt er af Fiskistofu. Allur afli skal fara einu sinni í gegnum vökvaskilju/tromlu áður en hann er vigtaður og óheimilt er að dæla afla oftar í gegnum vökvaskilju/tromlu fyrir vigtun.

Óheimilt er að bæta við búnaði á milli vökvaskilju/tromlu og vogar sem veldur hráefnistapi úr lönduðum afla. Göt í vökvaskilju/tromlu skulu ekki vera stærri en 10 mm og ljósop ekki vera meira en 45%. Innra þvermál vökvaskilju/tromlu skal ekki vera meira en 1.700 mm. Lengd vökva­skilju/tromlu skal ekki vera lengri en samtals 11 m. Snúningshraði vökvaskilju/tromlu skal ekki fara yfir 28 snúninga á mínútu. Fari hraði umfram 28 snúninga skal vökvaskilja/tromla stöðvast og aðflæði afla.

 

8. gr.

39. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Vigtun uppsjávarfisks sem fer í vinnslu (frystingu eða söltun) skal fara fram í samræmi við ákvæði III. kafla. Fiskistofu er heimilt að veita leyfi til vigtunar á pökkuðum afurðum á loðnu­hrognum enda verði tryggt að allur afli sé vigtaður.

Vigtun á pökkuðum afurðum skal fara fram á löggiltri vog með eftirfarandi hætti fyrir hverja afurð:

  1. Raunþyngd eininga skal fundin með vigtun á úrtaki.
  2. Löggiltur vigtarmaður sem annast vigtun skal velja af handahófi a.m.k. 5 einingar á klst. þegar vinnsla fer fram.
  3. Meðaltal vigtaðrar raunþyngdar eininga, að frádregnum umbúðaþunga, skal fundið og marg­faldað með fjölda framleiddra eininga og skal niðurstaðan skráð á vigtarnótu.
  4. Allan afskurð, hrat og hráefni sem skilst frá í blóðvatns- og redox-skiljum skal vigta og niðurstaðan skráð á vigtarnótu.

 

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga nr. 36/1992 um Fiskistofu og laga nr. 79/2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar öðlast 3. málsl. 1. mgr. 19. gr., sbr. 1. gr. reglugerðar­innar, 9. mgr. 22. gr., sbr. 4. gr. reglugerðarinnar og 2. og 3. mgr. 38. gr., sbr. 7. gr. reglugerðarinnar, gildi þann 1. janúar 2026. Fiskistofu er heimilt að veita heimavigtunarleyfishafa aðlögunarfrest, ef umfang breytinga sem leyfishafi þarf að ráðast í fyrir 1. janúar 2026 muni taka lengri tíma. Leyfis­hafi skal sækja um slíkan frest með skriflegum hætti til Fiskistofu fyrir 1. maí 2025 og beiðninni skal fylgja tímasett áætlun um þær framkvæmdir sem ráðast þarf í og hvenær þeim verði lokið.

 

Matvælaráðuneytinu, 22. nóvember 2024.

 

Bjarni Benediktsson.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica