1666/2024
Reglugerð um breytingu á reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 758/2011.
1. gr.
2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Í fjárhagslegri áhættu nýsköpunarfyrirtækis felst að fyrirtæki sem eigandi staðfests verkefnis eða ótengdir eigendur í samstarfsverkefni skulu bera fjárhagslega áhættu af verkefninu við fjármögnun þess. Með nýsköpunarfyrirtæki er átt við lögaðila skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem stundar rannsóknir og/eða þróun eins og þau hugtök eru skilgreind í reglugerð þessari.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. reglugerðarinnar:
- Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn vegna staðfestingar á nýju verkefni sem þegar hefur fengið þrisvar framlengingu skal berast eigi síðar en 1. október ár hvert vegna yfirstandandi tekjuárs.
- 2. tölul. 2. mgr. orðast svo: Viðskiptaáætlun, þ.e. greinargerð um viðskiptahugmynd nýsköpunarfyrirtækis, starfsemi þess og möguleika, ásamt greinargóðri lýsingu á því rannsóknar- eða þróunarverkefni sem um ræðir. Í umsókn skal tiltaka þau markaðstækifæri fyrir vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð sem verið er að þróa í verkefninu, m.a. töluleg markmið um áhrif á rekstrartekjur, útflutning, störf, lýsingu á drögum endanlegrar afurðar og þann virðisauka sem til verður vegna afurðarinnar á líftíma hennar, ásamt meginforsendum sem viðkomandi viðskiptaáætlun byggir á.
- 3. tölul. 2. mgr. orðast svo: Gögn sem sýna fram á að starfsmenn nýsköpunarfyrirtækis hafi sérfræðimenntun, þjálfun eða reynslu á þeim fagsviðum sem hugmynd að virðisaukandi vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð byggist á.
- 4. tölul. 2. mgr. orðast svo: Staðfesting umsækjenda þess efnis að skilyrði 5. og 6. mgr. séu uppfyllt.
- 5. tölul. 2. mgr. orðast svo: Upplýsingar um aðra innlenda eða erlenda opinbera styrki.
- Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Fylgi umsókn ekki fullnægjandi gögn eða upplýsingar samkvæmt reglugerð þessari og eftir atvikum leiðbeiningum Rannís skal hafna henni. Ef um óveruleg frávik er að ræða er Rannís þó heimilt að kalla eftir viðbótargögnum eða upplýsingum sem umsækjandi skal skila innan tveggja vikna.
Einungis er heimilt að framlengja umsókn um sama verkefni sem fengið hefur staðfestingu samkvæmt 5. gr. í þrígang. Ef sama verkefni hefur fengið framlengingu í þrígang getur umsækjandi sótt um staðfestingu á nýju verkefni sem byggir á fyrra verkefni.
- Á eftir orðinu "uppfyllt" í 4. mgr. kemur: á umsóknardegi.
- Við bætist ný málsgrein, sem orðast svo: Rannís getur afturkallað staðfestingu skv. 1. mgr. ef umsókn um verkefni sem byggðist á röngum og villandi upplýsingum, þannig að staðfesting hefði ekki verið veitt ef réttar upplýsingar hefðu legið fyrir. Rannís er heimilt að krefjast upplýsinga og gagna, á því formi sem það óskar til að meta umsóknir. Afturköllun samþykkis getur tekið til yfirstandandi og síðustu tveggja tekjuára.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:
- Á eftir "úrbætur" í a-lið 2. mgr. kemur: svo sem regluleg hugbúnaðaruppfærsla.
- b-liður 2. mgr. orðast svo: Umbætur og breytingar á vörum, þjónustu eða framleiðsluferlum fyrirtækis, ef þær fela ekki í sér í grundvallaratriðum verulega þróun nýrrar þekkingar og færni eða nýtingu á núverandi þekkingu með nýjum og verulega endurbættum hætti.
- Á eftir "endurmenntun" í c-lið 2. mgr. kemur: útgáfa og þýðing á kennsluefni.
- Á eftir "markaðskannanir" í d-lið 2. mgr. kemur: sem og önnur starfsemi sem felur í sér markaðssetningu afurðar, þjónustu eða ferli.
- Við 2. mgr. bætist nýr stafliður sem orðast svo: Öflun og varðveisla einkaleyfa sem byggja á rannsóknar- og/eða þróunarverkefni fyrirtækis.
4. gr.
Á eftir "rannsóknar- eða" í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur: rannsóknar- og/eða.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:
- Á eftir "rannsóknar- og" í 1. mgr. 5. gr. kemur: rannsóknar- og/eða.
- 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Launakostnaður, þ.m.t. tryggingagjald, nýsköpunarfyrirtækis vegna vinnu starfsmanna að staðfestu verkefni. Sinni starfsmaður samhliða öðrum verkefnum sem ekki tengjast hinu staðfesta verkefni telst eingöngu sá tími sem unnið er í verkefninu til styrkhæfs kostnaðar. Ekki er hægt að nota útseldan taxta til viðmiðunar við útreikning launa. Laun þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skulu vera skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Laun, starfskjör og önnur réttindi starfsmanna skulu vera í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.
- 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Kostnaður í formi fyrningar vegna tækja og búnaðar að því marki og í þann tíma sem þau eru notuð við rannsóknarverkefnið.
- 3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Kostnaður vegna bygginga og lands, að því marki og í þann tíma sem fasteignirnar eru notaðar við rannsóknarverkefnið, telst, að því er varðar byggingar, aðeins fyrningar sem samsvara þeim tíma sem rannsóknarverkefnið varir og reiknaður er á grundvelli góðra reikningsskilavenja styrkhæfur kostnaður. Að því er varðar land telst útlagður kostnaður við afsal uppfylla skilyrði sem styrkhæfur kostnaður.
- 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Kostnaður í tengslum við samningsbundnar rannsóknir, tækniþekkingu og fyrningu einkaleyfa sem keypt eru, eða leyfi sem fengin eru frá utanaðkomandi aðilum í viðskiptum ótengdra aðila sem og kostnaður vegna ráðgjafar og sambærilegrar þjónustu sem eingöngu er nýtt í tengslum við rannsóknarstarfsemina. Þó ekki kostnaður vegna aðkeyptrar vinnu frá tengdum aðilum.
- 5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Annar kostnaður sem stofnað er til beint vegna rannsóknarverkefnisins. Þó ekki sá kostnaður sem fellur til í beinum tengslum við umsókn um staðfestingu hjá Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís).
- 6. tölul. 1. mgr. fellur brott.
- 2. mgr. orðast svo: Kostnaði vegna hvers rannsóknar- eða þróunarverkefnis skal haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis og útbúin sundurliðuð kostnaðargreinargerð yfir rannsóknar- eða þróunarkostnað hvers árs. Kostnaðargreinargerðin skal árituð af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara. Við skil á skattframtali skal gera grein fyrir rannsóknar- eða þróunarkostnaði með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður og senda afrit af undirritaðri kostnaðargreinargerð.
- Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Rannsóknar- og/eða þróunarkostnaður.
6. gr.
Á eftir "frá" í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: innlendum sem erlendum.
7. gr.
7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Nýsköpunarfyrirtæki sem eru eigendur að rannsóknar- eða þróunarverkefni sem hlotið hefur staðfestingu samkvæmt lögum nr. 152/2009 og reglugerð þessari á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 35 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði þegar um lítil og meðalstór fyrirtæki er að ræða og 25 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði þegar um stór fyrirtæki er að ræða, vegna þeirra verkefna enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki er 1.100.000.000 kr. á rekstrarári, þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 20% vegna aðkeyptrar rannsóknar- og/eða þróunarvinnu.
Ef um er að ræða samstarfsverkefni tveggja eða fleiri ótengdra nýsköpunarfyrirtækja, skv. 7. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti fyrir verkefnið í heild vera samtals 1.100.000.000 kr. en frádrætti skal skipt hlutfallslega milli fyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.
Ríkisskattstjóri ákvarðar skattfrádrátt samkvæmt reglugerð þessari við álagningu opinberra gjalda. Fjárhæð skattfrádráttar nýsköpunarfyrirtækis ræðst af þeim skilyrðum sem rakin eru í 1.-3. mgr. Einnig getur skattfrádráttur skerst vegna þeirra takmarkana sem gilda skv. 6. gr. um hámark opinberra styrkja til einstakra rannsóknar- eða þróunarverkefna.
Skattfrádrátturinn kemur til lækkunar á álögðum tekjuskatti við álagningu opinberra gjalda. Sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur eða sé lögaðila ekki ákvarðaður tekjuskattur vegna skattalegs taps skal frádrátturinn greiddur út, að teknu tilliti til 112. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Fyrirtæki teljast tengd í skilningi þessa ákvæðis þegar:
- þau eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri fyrirtækja innan samstæðu, eða
- meirihlutaeignarhald eins fyrirtækis yfir öðru er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti.
8. gr.
9. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Skatturinn skal birta upplýsingar um veittan stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Birta skal upplýsingar um nafn fyrirtækis, kennitölu, atvinnugreinanúmer, atvinnugreinarlýsingu og fjárhæð stuðnings. Birta skal upplýsingarnar innan sex mánaða frá þeim degi þegar álagning opinberra gjalda er ákvörðuð og skulu upplýsingarnar vera tiltækar í a.m.k. 10 ár frá sama degi.
9. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 10. gr. og 16. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, öðlast þegar gildi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 20. desember 2024.
F. h. r.
Ingibjörg Helga Helgadóttir.
Guðmundur Skúli Hartvigsson.