Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Prentað þann 23. feb. 2025

Stofnreglugerð

1663/2024

Reglugerð um innheimtu og skil forvarnagjalds.

1. gr. Álagning.

Forvarnagjald skal leggja árlega á allar húseignir sem brunatryggja skal samkvæmt lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994.

2. gr. Gjaldstofn.

Forvarnagjald nemur 0,08‰ af brunabótamati húseignar samkvæmt lögum um brunatryggingar.

3. gr. Innheimta.

Vátryggingafélög sem brunatryggja húseignir innheimta forvarnagjald skv. 4. gr. laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, nr. 84/2023. Gjaldið skal innheimt með iðgjöldum til Náttúruhamfaratryggingar Íslands, skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/1992, og því skilað í ríkissjóð. Ef húseign er brunatryggð hjá vátryggingafélagi með starfsleyfi erlendis skal gjaldinu skilað til Fjársýslu ríkisins.

4. gr. Uppgjör og gjalddagi.

Skylda til greiðslu forvarnagjalds hefst við upphaf gildistíma á grundvelli vátryggingaskírteinis brunatryggingar.

Uppgjörstímabil forvarnagjalds frá vátryggingafélögum í ríkissjóð er einn almanaksmánuður. Gjalddagi áfallinna forvarnagjalda til Fjársýslu ríkisins er fimmtándi dagur þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.

Fjársýslu ríkisins er heimilt að draga forvarnagjöld sem ekki innheimtast frá greiðslu forvarnagjalda á næsta gjalddaga eftir að ljóst er að innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur. Innheimtist forvarnagjöld síðar skal standa skil á þeim á næsta gjalddaga, sbr. 2. mgr.

Greiði vátryggingafélag ekki forvarnagjald á gjalddaga skal félagið greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð í samræmi við ákvæði vaxtalaga.

5. gr. Skilamáti í ríkissjóð.

Greiðslu forvarnagjalds skal fylgja skilagrein á því formi sem Fjársýsla ríkisins ákveður.

6. gr. Upplýsingagjöf vátryggingafélaga til Fjársýslu ríkisins.

Vátryggingafélög skulu veita Fjársýslu ríkisins sundurliðaðar upplýsingar um þá vátryggingarsamninga sem forvarnagjald er innheimt vegna. Upplýsingarnar skal veita á því formi sem stofnunin ákveður.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 4. gr. laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, nr. 84/2023. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2025.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 20. desember 2024.

F. h. r.

Gunnlaugur Helgason.

Elísabet Júlíusdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.