Prentað þann 7. apríl 2025
1642/2021
Reglugerð um breytingu á reglugerð um fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 162/2021.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað orðanna "ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 238/2019 frá 27. september 2019" í inngangsmálslið greinarinnar kemur: ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 238/2019 frá 27. september 2019 og nr. 388/2021 frá 10. desember 2021.
-
Við greinina bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1847 frá 14. október 2021 um tilgreiningu á lögboðinni viðmiðun til að taka við af tilteknum útgáfum af CHF LIBOR-vöxtum, sem er birt í fylgiskjali með reglugerð þessari.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1848 frá 21. október 2021 um tilgreiningu á viðmiðun til að taka við af millibankadagvöxtum í evrum, sem er birt í fylgiskjali með reglugerð þessari.
2. gr.
Við reglugerðina bætast tvö ný fylgiskjöl sem eru birt með reglugerð þessari.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. mgr. 13. gr. laga um fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 7/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Þó skal síðari töluliður b-liðar 1. gr ekki öðlast gildi fyrr en 3. janúar 2022.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 29. desember 2021.
F. h. fjármála- og efnahagsráðherra,
Guðrún Þorleifsdóttir.
Gunnlaugur Helgason.
FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) 2021/1847 frá 14. október 2021 um tilgreiningu á lögboðinni viðmiðun til að taka við af tilteknum útgáfum af CHF LIBOR-vöxtum
FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 frá 8. júní 2016 um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir í fjármálagerningum og fjárhagslegum samningum eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða og um breytingu á tilskipunum 2008/48/EB og 2014/17/ESB og reglugerð (ESB) nr. 596/2014 ([1]), einkum 8. mgr. 23. gr. b, og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) CHF LIBOR-vextir (e. Swiss franc London Interbank Offered Rate) eru meðal þeirra fimm LIBOR-vaxta sem stjórnað er af Ice Benchmark Administration (IBA). CHF LIBOR-vextir endurspegla vextina sem stórir, leiðandi, alþjóðlega virkir bankar, með aðgang að heildsölumarkaði fyrir ótryggða fjármögnun, geta fjármagnað sig á í svissneskum frönkum á slíkum markaði. IBA reiknar út vextina á grundvelli gagna sem hópur banka sendir stofnuninni.
2) Breska viðskiptaháttaeftirlitið (e. the Financial Conduct Authority of the United Kingdom (UK FCA)) hefur tilkynnt að gerð tiltekinna LIBOR-viðmiðana, þ.m.t. CHF LIBOR-vaxta, verði hætt í lok árs 2021. Sú aflagning er vegna áhyggna af því hvort LIBOR-vextir, í tilteknum útgáfum, endurspegli með fullnægjandi hætti undirliggjandi markað eða efnahagsaðstæður sem eru lýsandi fyrir heildsölumarkað fyrir ótryggða fjármögnun. Þessar áhyggjur stafa af tregðu meirihluta banka í hópnum, sem leggja fram gögn til LIBOR-vaxta, að halda áfram að leggja fram gögn til viðkomandi útgáfu LIBOR-vaxta, eins og IBA tilkynnti um þann 5. mars 2021 í yfirlýsingu sinni: ICE LIBOR Feedback Statement on Consultation on Potential Cessation.
3) Áður fyrr notaði fjöldi banka CHF LIBOR-vexti í Sambandinu sem viðmiðunarvexti fyrir fjölda útistandandi fasteignaveðlána, sem flest munu renna út eftir lok árs 2021. Samkvæmt svörunum í samráði framkvæmdastjórnarinnar við almenning eru nú útistandandi veðlánasamningar að fjárhæð 35 milljarðar evra í Sambandinu sem vísa í CHF LIBOR-vexti. Mesti fjöldi þessara samninga er útistandandi í Póllandi og restin er í Austurríki, Slóveníu, Hollandi og Frakklandi.
4) Í fjölda samskipta milli framkvæmdastjórnarinnar og hlutaðeigandi opinberra yfirvalda var lögð áhersla á stórt umfang mögulegrar röskunar vegna aflagningar CHF LIBOR-vaxta og þörfina fyrir að takmarka ósamfellu samninga sem vísa í CHF LIBOR-vexti til að komast hjá því að þessi röskun raungerist. Framkvæmdastjórnin tók tilhlýðilegt tillit til staðreynda sem lagðar voru fram til að meta hvort skilyrðin sem sett voru fram í 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2016/1011 væru uppfyllt og þar af leiðandi staðfesta að framkvæmdastjórnin þyrfti að grípa til aðgerða.
5) Í skýrslu Seðlabanka Póllands frá 2021 um fjármálastöðugleika ([2]) er minnst á að við lok árs 2020 hafi yfir 410 000 heimili í Póllandi verið með veðlán tengd við CHF LIBOR-vexti, með ýmiss konar samningsstíma CHF LIBOR-vaxta. Það eru um 20% af öllu pólska veðlánasafninu, sem samkvæmt öðrum gögnum sem lögð hafa verið fram af viðkomandi yfirvöldum eru að heildarfjárhæð um 100 milljarðar pólskra slota (um 22 milljarðar evra). Meirihluti þessara veðlána eru til langs tíma og munu verða útistandandi fram yfir 2030. Í skýrslunni er lögð áhersla á áhættuna sem fylgir því að hætta gerð CHF LIBORvaxta og þörf fyrir samfellu húsnæðislána í svissneskum frönkum til að koma í veg fyrir að slík áhætta verði að veruleika. Skýrslan undirstrikar enn frekar að ef engin varaákvæði eða lagaákvæði eru til staðar sem tilgreina hvaða viðmiðun skuli taka við af CHF LIBOR-vaxtaviðmiðuninni gæti það ógnað samfellu slíkra samninga og af þessum sökum haft í för með sér fjárhagstjón fyrir banka. Pólska fjármálaráðuneytið lagði fram sambærileg gögn til framkvæmdastjórnarinnar.
6) Í Austurríki voru, í júní 2021, milli 50 000 og 60 000 heimili með húsnæðislán sem vísa í CHF LIBOR-vexti, að fjárhæð 9,6 milljarðar evra sem eru um 5,7% af heildarhúsnæðisskuldum í Austurríki. Um 400 austurrískir bankar eru þátttakendur í húsnæðislánasöfnum sem vísa í CHF LIBOR-vexti. Seðlabanki Austurríkis og fjármálaeftirlit Austurríkis lögðu fram svipuð stuðningsgögn í bréfi sem sent var framkvæmdastjórninni.
7) Í Slóveníu voru þann 31. desember 2020 yfir 6 700 neytendalánasamningar, að heildarvirði meira en 300 milljónir evra, sem vísa í CHF LIBOR-vexti en síðasti skammtur þeirra samninga rennur ekki út fyrr en 2043. Þar að auki bera 9 af 15 bönkum áhættu gagnvart CHF LIBOR-vöxtum. Hlutfall húsnæðislána sem bera CHF LIBOR-vexti í þessum 9 bönkum af öllum húsnæðislánum er um 6,34% og hlutfall húsnæðislána með CHF LIBOR-vexti af öllum húsnæðislánum er 7,13%.
8) Áætlað er að í Hollandi séu húsnæðislánasamningar sem vísa í CHF LIBOR-vexti og eru án varaákvæða að fjárhæð u.þ.b. 500 milljónir evra.
9) Í Frakklandi eiga svæðisbundnir bankar um 6 400 smásölulán sem vísa í CHF LIBOR-vexti með gjalddaga eftir árið 2021.
10) Samkvæmt reglugerð (ESB) 2016/1011 er þess krafist að notendur viðmiðana geri og viðhaldi traustum, skriflegum áætlunum þar sem settar eru fram aðgerðir sem þeir myndu grípa til ef viðmiðun breytist verulega eða hætt er að gera hana og, ef það er gerlegt og viðeigandi, tilnefna eina eða fleiri viðmiðanir sem varaviðmiðun fyrir viðmiðun sem verður ekki lengur birt. Samningar sem vísa í CHF LIBOR-vexti hafa verið gerðir löngu áður en unnt var að gera ráð fyrir að gerð CHF LIBOR-vaxta yrði hætt og áður en reglugerð (ESB) 2016/1011 tók gildi. Þessir samningar innihalda því ekki varaákvæði sem taka á þeim atburði þegar stjórnandi viðmiðunar getur ekki lengur birt samningsbundna viðmiðun eftir tiltekinn dag.
11) Vegna þess að erfitt var að tilgreina viðeigandi viðmiðun í stað CHF LIBOR-vaxta áður en markaðurinn fékk skýr tilmæli frá landsbundna vinnuhópnum um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka (Swiss NWG) hafa einnig samningar sem gerðir voru eftir gildistökudag (1. janúar 2018) reglugerðar (ESB) 2016/1011 ekki að geyma varaákvæði eða ekki viðeigandi varaákvæði.
12) Án umbreytingar á samningum sem vísa í CHF LIBOR-vexti yfir í tilnefnda staðgönguviðmiðun er veruleg hætta á röskun samninga í mörgum aðildarríkjum. Tilnefning á staðgönguviðmiðun ætti því að tryggja að dregið sé úr slíkri áhættu, en ef hún raungerist gæti það raskað starfsemi fjármálamarkaða í Sambandinu verulega.
13) Breska viðskiptaháttaeftirlitið tilkynnti þann 5. mars 2021 að CHF LIBOR-vextir yrðu ekki lengur dæmigerðir og að útgáfu þeirra yrði hætt. Slík yfirlýsing felur í sér að framkvæmdastjórnin getur beitt heimildum sínum til að tilnefna lögboðna viðmiðun í stað CHF LIBOR-vaxta skv. 8. mgr. 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2016/1011.
14) Niðurstaða samráðs framkvæmdastjórnarinnar við almenning staðfesti mikilvægt hlutverk tiltekinna samningstíma CHF LIBOR-vaxta í veðlánasamningum, einkum með eins mánaðar, þriggja mánaða, sex mánaða og 12 mánaða samningstíma. Skortur á skýrum og ótvíræðum vöxtum til að taka við í veðlánasamningum sem vísa í CHF LIBOR-vexti myndi hafa í för með sér réttaróvissu sem gæti leitt til málssóknar og röskunar á samningum. Því þykir rétt að framkvæmdastjórnin tilnefni lögboðna viðmiðun sem tekur við fyrir þessa fjóra samningstíma CHF LIBOR-vaxta til notkunar í hvers konar samningum, og í öllum fjármálagerningum eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/EB ([3]), þ.m.t. en ekki takmarkað við sparireikninga, veðlán og lán, þ.m.t. neytendalánasamningar og lán til lítilla fyrirtækja, sem falla undir lög aðildarríkis sem ekki innihalda varaákvæði eða innihalda varaákvæði sem ekki eiga við.
15) Vinnuhópurinn um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka (Swiss NWG) lagði árið 2017 til að notaðir yrðu svissneskir meðaldagvextir (Swiss Average Rate Overnight eða SARON-vexti), sem stjórnað er af SIX Swiss Exchange Financial Information AG (SIX), sem vaxtaviðmiðun í stað CHF LIBOR-vaxta ([4]). Vinnuhópurinn um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka (Swiss NWG) lagði í september 2020 til, eftir að hafa viðurkennt að ómögulegt væri að búa til vaxtaviðmiðun til framtíðar fyrir tiltekna gildistíma á grundvelli SARON, að notaðir skuli samsettir SARON-vextir sem grundvöllur fyrir varavexti fyrir tilvísun í CHF LIBOR-vexti fyrir reiðufjárgerninga. Tilnefnd staðgönguviðmiðun fyrir viðeigandi samningstíma CHF LIBOR-vaxta í eldri reiðufjárgerningum ætti því að reiknast sem samsettir SARON-vextir.
16) Niðurstaða samráðs framkvæmdastjórnarinnar við almenning sýnir að stuðningur er til staðar, þ.m.t. hjá opinberum yfirvöldum aðildarríkja sem verða fyrir mestum áhrifum við tilnefningu lögboðinnar staðgönguviðmiðunar í stað CHF LIBORvaxta í öllum útgáfum í samræmi við tilmæli vinnuhópsins um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka. Á meðan CHF LIBOR-vextir eru áætlaðir framtíðarvextir, þar sem viðskiptavinurinn veit fyrirfram vextina sem eru til greiðslu fyrir tímabilið sem framundan er, eru samsettir SARON-vextir reiknaðir aftur í tímann. Það þýðir að vextirnir á gefnu tímabili verða ekki þekktir fyrr en í lok tímabilsins. Til að hægt sé að nota vextina við upphaf vaxtatímabilsins er möguleg lausn að ákvarða vextina á grundvelli athugunartímabils á undan vaxtatímabilinu. Þann 29. september 2020 lagði vinnuhópurinn um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka til að í tilvikum þar sem nauðsynlegt er að þekkja vaxtagreiðsluna í upphafi vaxtatímabilsins verði notaðir samsettir SARON-vextir í samræmi við aðferðafræðina um „nýjustu endurstillingu“ (e. last reset). Slík aðferðafræði felur í sér ákvörðun á vöxtum fyrir næsta tímabil á grundvelli sannreyndra samsettra vaxta fyrra tímabils sem er jafn langt og vaxtatímabilið sem stendur fyrir dyrum.
17) Samkvæmt tilmælum vinnuhópsins um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka þann 1. febrúar 2021 ættu notendur að taka upp eins mánaðar samsetta SARON-vexti sem vaxtaviðmiðun í stað eins mánaðar CHF LIBOR-vaxta og þriggja mánaða samsetta SARON-vexti sem vaxtaviðmiðun í stað þriggja mánaða CHF LIBOR-vaxta, sem ákvarðaðir eru samkvæmt aðferðafræðinni um nýjustu endurstillingu, þ.e. samsetta SARON-vexti eins og þeir eru reiknaðir út, eftir því sem við á, á grundvelli þess eins mánaðar og þriggja mánaða tímabils sem er strax á undan vaxtatímabilinu.
18) Vinnuhópurinn um áhættulausa evruvexti (Euro Risk-Free Rate Working Group) tilgreindi í tilmælum sínum þann 11. maí 2021 að aðferðafræðin um nýjustu endurstillingu fyrir tímabil sem eru lengri en þrír mánuðir gæti haft í för með sér reikningsskila- og áhættuvarnaráskoranir vegna mismunandi fyrirkomulags IBOR-vaxta (sem er áætlun fram í tímann) og SARON-vaxta (sem byggjast á fyrri tímabilum), sem verða stærri eftir því sem samningstíminn er lengri. Vinnuhópurinn um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka lagði þann 1. júlí 2021 til sem annan valkost aðferðafræði um „nýjustu stillingu“ (e. last recent) með eins mánaðar athugunartímabili. Slík aðferðafræði felur í sér ákvörðun á vöxtum fyrir næsta tímabil á grundvelli sannreyndra samsettra vaxta fyrra tímabils sem er skemmra en vaxtatímabilið sem stendur fyrir dyrum. Með tilliti til tilmæla vinnuhópsins um áhættulausa evruvexti, og til að vera eins nálægt upphaflega viðmiðunartímabilinu fyrir hvern samningstíma og mögulegt er, voru þriggja mánaða samsettir SARON-vextir taldir eiga betur við en eins mánaðar samsettir SARON-vextir fyrir samningstíma CHF LIBOR-vaxta sem eru þrír mánuðir eða lengri. Því er viðeigandi að nota eins mánaðar samsetta SARON-vexti og þriggja mánaða samsetta SARON-vexti sem staðgönguvaxtaviðmiðun sem tekur við, eftir því sem við á, af eins mánaðar CHF LIBOR-vöxtum og þriggja mánaða CHF LIBOR-vöxtum og að nota þriggja mánaða samsetta SARON-vexti einnig sem staðgönguvaxtaviðmiðun í stað sex og tólf mánaða CHF LIBOR-vaxta.
19) Munur er á milli gildis CHF LIBOR-vaxta og samsettra SARON-vaxta. Til að endurspegla slíkan mun og til að lágmarka efnahagsleg áhrif útskipta ætti að bæta fastri aðlögun verðbils við samsetta SARON-vexti fyrir hvern samningstíma CHF LIBOR-vaxta sem þeir koma í staðinn fyrir.
20) Samráð framkvæmdastjórnarinnar við almenning staðfesti að viðeigandi er að reikna út fasta aðlögun verðbils á grundvelli sögulegs miðgildis verðbils milli CHF LIBOR-vaxta og viðkomandi samsettra SARON-vaxta yfir fimm ára afturskyggnt tímabil fram að 5. mars 2021.
21) Því er viðeigandi að vextirnir sem framkvæmdastjórnin tilnefnir til að koma í stað samningstíma viðkomandi CHF LIBORvaxta samsvari samsettum SARON-vöxtum að viðbættri viðeigandi aðlögun verðbils eins og hún er birt fyrir hvern gildistíma viðkomandi samsettra SARON-vaxta (eins, þriggja, sex og tólf mánaða).
22) Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2016/1011 kemur ný vaxtaviðmiðun sem tekur við af CHF LIBOR-vöxtum, í krafti laga, í stað allra tilvísana í þá viðmiðun í öllum samningum og í öllum fjármálagerningum eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun 2014/65/ESB sem ekki innihalda varaákvæði eða innihalda varaákvæði sem ekki eru viðeigandi. Þessi útskipti hafa því ekki áhrif á samninga sem búið er að endurnýja til að mæta því að gerð CHF LIBOR-vaxta verði hætt, eins og kveðið er á um í 11. mgr. 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2016/1011.
23) Með tilliti til þess að birtingu LIBOR-vaxta verður hætt 1. janúar 2022 ættu tilgreindu vextirnir að koma í stað CHF LIBORvaxta frá og með þeim degi.
24) Breska viðskiptaháttaeftirlitið, sem stjórnandi CHF LIBOR-vaxta, Seðlabanki Sviss, í hlutverki sínu sem skrifstofa vinnuhópsins um viðmiðunarvexti fyrir svissneska franka, og Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin lögðu fram álit sitt á þessari reglugerð.
25) Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, eru í samræmi við álit evrópsku verðbréfanefndarinnar.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Útskipti CHF LIBOR-vaxta
1. Eftirfarandi vextir eru tilnefndir sem vaxtaviðmiðun í stað CHF LIBOR-vaxta í öllum samningum og öllum fjármálagerningum eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun 2014/64/ESB:
a) í stað eins mánaðar CHF LIBOR-vaxta koma eins mánaðar samsettir SARON-vextir, eins og þeir eru á eins mánaðar tímabili fyrir vaxtatímabilið,
b) í stað þriggja mánaða CHF LIBOR-vaxta koma þriggja mánaða samsettir SARON-vextir, eins og þeir eru á þriggja mánaða tímabili fyrir vaxtatímabilið,
c) í stað sex mánaða CHF LIBOR-vaxta koma þriggja mánaða samsettir SARON-vextir, eins og þeir eru á þriggja mánaða tímabili fyrir vaxtatímabilið,
d) í stað tólf mánaða CHF LIBOR-vaxta koma þriggja mánaða samsettir SARON-vextir, eins og þeir eru á þriggja mánaða tímabili fyrir vaxtatímabilið.
2. Fastri aðlögun verðbils skal bætt við vaxtaviðmiðunina sem tekur við og tilnefnd er í 1. mgr. Sú fasta aðlögun skal jafngilda verðbilinu sem birt er fyrir hvern viðeigandi samningstíma og skal reiknuð 5. mars 2021 sem sögulegt miðgildi verðbils milli viðkomandi CHF LIBOR-vaxta og viðkomandi samsettra SARON-vaxta yfir fimm ára afturskyggnt tímabil fyrir hvern samningstíma.
3. Tilnefna skal nýja vaxtaviðmiðun í stað CHF LIBOR-vaxta í samræmi við eftirfarandi töflu:
LIBOR | SAMNINGSTÍMI | Staðgönguvaxtaviðmiðun | Föst aðlögun verðbils (%) |
CHF | 1M | Samsettir eins mánaðar SARON-vextir (SAR1MC) ISIN CH0477123886 | -0,0571 |
CHF | 3M | Samsettir þriggja mánaða SARON-vextir (SAR3MC) ISIN CH0477123902 | 0,0031 |
CHF | 6M | Samsettir þriggja mánaða SARON-vextir (SAR3MC) ISIN CH0477123902 | 0,0741 |
CHF | 12M | Samsettir þriggja mánaða SARON-vextir (SAR3MC) ISIN CH0477123902 | 0,2048 |
2. gr.
Gildistaka og framkvæmd
Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Þessi reglugerð kemur til framkvæmda frá og með 1. janúar 2022.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 14. október 2021.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Ursula VON DER LEYEN
forseti.
[1] Stjtíð. ESB L 171, 29.6. 2016, bls. 1.
[2]Narodowy Bank Polski (Seðlabanki Póllands), Skýrsla um fjármálastöðugleika, júní 2021 https://www.nbp.pl/en/systemfinansowy/fsr202106.pdf?v=2.
[3] Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB (Stjtíð. ESB L 173, 12.6.2014, bls. 349).
[4] SARON-vextir eru birtir á viðkomandi vefsíðu stjórnanda þeirra: https://www.six-group.com/exchanges/indices/data_centre/swiss_reference_rates/ compound_rates_en.html.
FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) 2021/1848 frá 21. október 2021 um tilgreiningu á viðmiðun til að taka við af millibankadagvöxtum í evrum
FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 ([1]), einkum 8. mgr. 23. gr. b, og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Millibankadagvextir í evrum (EONIA) er mjög mikilvæg viðmiðun fyrir vexti á ótryggðum lánveitingum yfir nótt sem tilgreindar eru í evrum. Millibankadagvextir í evrum eru notaðir í tengslum við skiptasamninga um dagvexti og breitt svið annarra afurða. Þeir eru nauðsynlegir fyrir uppgjör með reiðufé og skipta miklu máli í öðrum tilgangi, svo sem í mismunandi matsaðferðum eins og þeim er beitt í tryggingaveitingu og áhættustýringarferli eða reikningshaldi.
2) Upphaflega aðferðafræðin fyrir útreikning á millibankadagvöxtum í evrum var á grundvelli framlagningar af hálfu hóps banka. Peningamarkaðsstofnun Evrópu (e. European Money Markets Institute (EMMI)) tilkynnti í febrúar 2018, í hlutverki sínu sem stjórnandi millibankadagvaxta í evrum, að ekki væri unnt að láta millibankadagvexti í evrum samræmast reglugerð (ESB) 2016/1011 áður en skylda um slíkt tæki gildi. Peningamarkaðsstofnun Evrópu og fjármálaiðnaðurinn hófu því vinnu við skipulega niðurlagningu millibankadagvaxta í evrum. Þann 13. september 2018 lagði vinnuhópurinn um áhættulausa evruvexti því til að skammtímavextir í evrum (€STR) yrðu notaðir sem áhættulausir evruvextir í stað millibankadagvaxta í evrum (EONIA). Þann 14. mars 2019 birti vinnuhópurinn einnig tilmæli um umbreytingu úr millibankadagvöxtum í evrum í skammtímavexti í evrum, sem innihélt stig þar sem aðferðafræðin við útreikning á millibankadagvöxtum í evrum yrði breytt og myndi byggjast á skammtímavöxtum í evrum, og aðferðina til að ákvarða aðlögun á verðbilinu milli skammtímavaxta í evrum og millibankadagvaxta í evrum.
3) Í kjölfar þessara tilmæla reiknaði Seðlabanki Evrópu einskiptis verðbil milli millibankadagvaxta í evrum og skammtímavaxta í evrum sem var ákvarðað 8,5 grunnpunktar. Þann sama dag tilkynnti Peningamarkaðsstofnun Evrópu um að millibankadagvextir í evrum yrðu lagðir af 3. janúar 2022. Peningamarkaðsstofnun Evrópu birti á umbreytingartímabilinu endurbætta aðferðafræði þar sem millibankadagvextir í evrum eru jafnir skammtímavöxtum í evrum eins og Seðlabanki Evrópu birtir þá að viðbættu einskiptis 8,5 grunnpunkta aðlögun á verðbilinu. Endurbætta aðferðafræðin gildir um millibankadagvexti í evrum frá 2. október 2019 þar til þeir eru lagðir af 3. janúar 2022. Peningamarkaðsstofnun Evrópu var þann 11. desember 2019 veitt heimild fjármálaeftirlits Belgíu til að gera og stjórna millibankadagvöxtum í evrum skv. 34. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1011, sem gerir það kleift að nota millibankadagvexti í evrum þar til þeir eru lagðir af 3. janúar 2022.
4) Þrátt fyrir snemmbúna tilkynningu um að hætt verði að nota millibankadagvexti í evrum frá og með 3. janúar 2022 og snemmbúin tilmæli iðnaðarins um að skipta út tilvísunum í millibankadagvexti í evrum fyrir skammtímavexti í evrum (€STR), einkum í samningum sem gilda fram yfir þá dagsetningu, er enn útistandandi mikið magn af samningum og fjármálagerningum sem vísa í millibankadagvexti í evrum í fjölda aðildarríkja. Millibankadagvextir í evrum gegna því áfram mikilvægu hlutverki á fjármálamörkuðum í Evrópusambandinu. Þar að auki innihalda slíkir samningar og fjármálagerningar, vegna ferlisins við að ná fram samþykki sérfræðinga og iðnaðarins um viðeigandi umbreytingarleið, almennt ekki fullnægjandi varaákvæði sem taka til endanlegrar aflagningar millibankadagvaxta í evrum. Aflagning millibankadagvaxta í evrum mun því líklega valda verulegri röskun á þessum samningum og fjármálagerningum.
5) Millibankadagvextir í evrum hafa verið tilgreindir sem mjög mikilvæg viðmiðun samkvæmt framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/482 ([2]). Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/168 ([3]), sem bætti 23. gr. b við reglugerð (ESB) 2016/1011, fól Evrópuþinginu vald til að tilnefna eina eða fleiri viðmiðanir til að taka við af mjög mikilvægri viðmiðun ef öll skilyrðin sem mælt er fyrir um í 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2021/1011 eru uppfyllt. Yfirlýsing Peningamálastofnunar Evrópu þann 31. maí 2019 þar sem tilkynnt var um aflagningu millibankadagvaxta í evrum, ásamt því að þegar sú yfirlýsing var gefin út var enginn stjórnandi til að taka við gerð þeirrar viðmiðunar, gerir það að verkum að skilyrðin sem mælt er fyrir um í b-lið 2. mgr. 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2016/1011 voru uppfyllt.
6) Þar að auki gefa gögn frá aðilum vinnuhópsins um áhættulausa evruvexti til kynna að frá og með 9. júlí 2021 muni mörg þúsund afleiðusamningar, sem bera áhættu gagnvart millibankadagvöxtum í evrum, og tryggingarsamningar, sem vísa í millibankadagvexti í evrum sem vextina sem gilda um tryggingarnar, gilda enn um gervallt Sambandið. Báðar tilvísanirnar samsvara nú þegar nokkurra trilljóna evra heildargrundvallarfjárhæð. Sömu aðilar gáfu einnig til kynna að vinnu við að endursemja um samninga sem innihalda tilvísanir í millibankadagvexti í evrum sé lokið í minna en helmingi tilfella að meðaltali. Þessi árangur gefur til kynna að einstakar viðræður um að endursemja um eftirstandandi tilvísanir í millibankadagvexti í evrum muni hafa í för með sér miklar áskoranir fyrir samningsaðila í Sambandinu, einkum eftirlitsskyldar einingar. Án umbreytingar slíkra samninga yfir í tilgreinda staðgönguviðmiðun er veruleg hætta á röskun samninga. Þó þess sé vænst að aðilar í iðnaðinum leggi allt kapp á að umbreyta öllum samningum og fjármálagerningum sem enn vísa í millibankadagvexti í evrum yfir í skammtímavexti í evrum áður en millibankadagvextir í evrum verða lagðir niður ætti ný vaxtaviðmiðun sem kemur í stað millibankadagvaxta í evrum að minnka hættuna á að slík áhætta raungerist, sem gæti sér í lagi haft áhrif á viðskiptavini sem gera vísitöluskiptasamninga yfir nótt til að verjast vaxtaáhættu.
7) Niðurstaða samráðs vinnuhóps sérfræðinga staðfestir bráðabirgðamatið um að millibankadagvextir í evrum leiki mikilvægt hlutverk á fjármálamörkuðum í Sambandinu. Miðað við þetta samráð vinnuhóps sérfræðinga virðist sem skortur á samhæfðri nálgun myndi hafa í för með sér réttaróvissu sem gæti valdið ósætti og röskun. Vinnuhópurinn um áhættulausa evruvexti sendi einnig, þann 15. júlí 2021, formlegt bréf þar sem kallað er eftir aðgerðum framkvæmdastjórnarinnar til að tilnefna fljótt lögboðna viðmiðun til að taka við af millibankadagvöxtum í evrum. Því þykir rétt að framkvæmdastjórnin tilnefni lögboðna viðmiðun til að koma í stað millibankadagvaxta í evrum sem nota skal í öllum samningum og öllum fjármálagerningum eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/EB ([4]) sem ekki innihalda varaákvæði eða innihalda varaákvæði sem ekki eru viðeigandi.
8) Samráð í tengslum við vinnuhópinn um áhættulausa evruvexti leiddi einnig í ljós að það sem oft hefur hindrað útskiptingu tilvísana í millibankadagvexti í evrum með því að endursemja er magn þeirra samninga sem ekki eru á gjalddaga fyrr en eftir lokadagsetningu millibankadagvaxta í evrum þann 3. janúar 2022 og að erfitt er að fá samþykki allra aðila í hverjum og einum samningi. Það skýrir fjölda samninga sem enn vísa í millibankadagvexti í evrum. Að teknu tilliti til þeirra aðstæðna og að teknu tilliti til gagnanna frá aðilum vinnuhópsins um áhættulausa evruvexti ætti að tryggja að allir samningar eða fjármálagerningar sem enn vísa í millibankadagvexti í evrum daginn sem þeir eru lagðir af falli undir þessa framkvæmdarreglugerð og undir gildissvið ráðstöfunar um lögboðna viðmiðun sem tekur við.
9) Með tilkynningunni þann 31. maí 2019 um að hætt verði að birta millibankadagvexti í evrum frá og með 3. janúar 2022 tilkynnti Peningamálastofnun Evrópu um breytingar á aðferðafræðina fyrir millibankadagvexti í evrum til að tryggja áframhaldandi hlítni við reglugerð (ESB) 2016/1011 og til að tryggja snurðulausa umbreytingu þar til millibankadagvextir í evrum verða endanlega lagðir niður. Þessar breytingar gilda um aðferðafræðina fyrir millibankadagvexti í evrum frá 2. október 2019, og tengja útreikninginn á millibankadagvöxtum í evrum beint við þróun á skammtímavöxtum í evrum, með því að lýsa því yfir að millibankadagvextir í evrum jafngildi skammtímavöxtum í evrum auk fastrar aðlögunar á verðbili á grundvelli verðbilsins eins og Seðlabanki Evrópu reiknar það. Að bæta við fastri aðlögun verðbils takmarkar efnahagsleg áhrif af tilnefningu €STR sem lögboðinni nýrri viðmiðun til að koma í stað millibankadagvaxta í evrum í öllum samningum með gjalddaga eftir lokadagsetningu millibankadagvaxta í evrum sem er 3. janúar 2022.
10) Í formlega bréfinu frá vinnuhópnum um áhættulausa evruvexti, dagsettu 15. júlí 2021, var sérstaklega óskað eftir því að lögboðin ný viðmiðun sem kemur í stað millibankadagvaxta í evrum myndi byggjast á skammtímavöxtum í evrum að viðbættri fastri aðlögun verðbils milli millibankadagvaxta í evrum og skammtímavaxta í evrum, og þar með komast hjá yfirfærslu virðis í umbreytingunni. Rétt þykir að lögboðin ný viðmiðun í stað millibankadagvaxta í evrum endurspegli tilmæli frá hlutaðeigandi vinnuhópi um áhættulausa evruvexti og byggist því á skammtímavöxtum í evrum að viðbættri fastri aðlögun verðbils eins og Seðlabanki Evrópu reiknar það.
11) Ný viðmiðun sem tekur við af millibankadagvöxtum í evrum kemur, í krafti laga, í stað allra tilvísana í þá vexti í öllum samningum og í öllum fjármálagerningum eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun 2014/65/ESB sem ekki innihalda varaákvæði eða innihalda varaákvæði sem eru ekki viðeigandi, skv. 3. mgr. 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2016/1011. Sú útskipting hefur því ekki áhrif á samninga sem búið er að endurnýja til að mæta því að gerð millibankadagvaxta í evrum verði hætt, eins og kveðið er á um í 11. mgr. 23. gr. b í reglugerð (ESB) 2016/1011.
12) Með tilliti til þess að birting millibankadagvaxta í evrum verður hætt 3. janúar 2022 ætti tilgreind staðgönguvaxtaviðmiðun að koma í stað millibankadagvaxta í evrum frá þeim degi.
13) Fjármálaeftirlit Belgíu, sem eftirlitsyfirvald stjórnanda millibankadagvaxta í evrum, og Seðlabanki Evrópu, sem seðlabanki sem ber ábyrgð á gjaldmiðlasvæði millibankadagvaxta í evrum, gáfu álit sitt á þessari reglugerð.
14) Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, eru í samræmi við álit evrópsku verðbréfanefndarinnar.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Útskipti millibankadagvaxta í evrum (EONIA)
1. Skammtímavextir í evrum (€STR), eins og Seðlabanki Evrópu birtir þá, eru tilnefndir sem vaxtaviðmiðun sem kemur í stað millibankadagvaxta í evrum (EONIA) í tilvísunum í millibankadagvexti í evrum í öllum samningum og öllum fjármálagerningum, eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun 2014/65/ESB.
2. Föst aðlögun verðbils sem skal bætt við staðgönguvaxtaviðmiðunina sem tilnefnd er skv. 1. mgr. skal vera 8,5 grunnpunktar.
3. Tilnefna skal vaxtaviðmiðun til að koma í stað millibankadagvaxta í evrum í samræmi við eftirfarandi töflu:
Viðmiðun sem skipt er út | Vaxtaviðmiðun sem tekur við | Föst aðlögun verðbils (%) |
EONIA ISIN EU0009659945 | Skammtímavextir í evrum (€STR) ISIN EU000A2X2A25 | 0,085 |
2. gr.
Gildistaka og framkvæmd
Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Þessi reglugerð kemur til framkvæmda frá og með 3. janúar 2022.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 21. október 2021.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Ursula VON DER LEYEN
forseti.
[1] Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 frá 8. júní 2016 um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir í fjármálagerningum og fjárhagslegum samningum eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða og um breytingu á tilskipunum 2008/48/EB og 2014/17/ESB og reglugerð (ESB) nr. 596/2014 (Stjtíð. ESB L 171, 29.6.2016, bls.1).
[2] Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/482 frá 22. mars 2019 um breytingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1368 um að taka saman skrá yfir mjög mikilvægar viðmiðanir sem notaðar eru á fjármálamörkuðum samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 (Stjtíð. L 82, 23.3.2019, bls. 26).
[3] Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/168 frá 10. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/1011 að því er varðar undanþágu fyrir tilteknar viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla þriðju landa og tilnefningu viðmiðana í stað tiltekinna viðmiðana sem verður hætt með og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (Stjtíð. L 49, 12.2.2021, bls. 6).
[4] Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB Texti sem varðar EES (Stjtíð. ESB L 173, 12.6.2014, bls. 349).
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.