Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Fyrri útgáfa

Prentað þann 8. jan. 2025

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júní 2018

160/2017

Reglugerð um umhverfismerki.

I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að því að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar með því að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á þjónustu og vörum sem eru umhverfisvænar. Litið er til líftíma vörunnar í þessu sambandi. Umhverfismerkingum er ætlað að auðvelda val neytenda og innkaupaaðila á umhverfisvænni vöru og þjónustu. Jafnframt er framleiðendum og þjónustuaðilum gert auðveldara að framleiða og markaðssetja umhverfisvæna vöru og þjónustu.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um norræna umhverfismerkið, Svaninn, og umhverfismerki Evrópusambandsins, Blómið. Hún gildir um skilyrði fyrir veitingu þessara umhverfismerkja fyrir vörur og þjónustu. Notkun þessara umhverfismerkja er valfrjáls og veitt þeim sem sækja um leyfi og uppfylla að öðru leyti kröfur reglugerðar þessarar. Leyfishafar skulu tryggja að allar umhverfismerktar vörur uppfylli viðmið umhverfismerkisins á gildistíma leyfis.

Reglugerðin gildir ekki um umhverfismerkingar fyrir matvæli, drykki eða lyf.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerðinni merkja orð og orðasambönd eftirfarandi:

  1. Framleiðsluflokkur (vöruflokkur); vörur eða þjónusta sem þjónar svipuðum tilgangi og má nota á sambærilegan hátt.
  2. Lífsferill vöru er ferill vörunnar "frá vöggu til grafar", þ.e. hráefnisval, hönnun, framleiðsla, dreifing og notkun hennar sem og endurnýting og förgun.
  3. Umhverfismerki eru norræna umhverfismerkið Svanurinn, sem er opinbert norrænt umhverfismerki, og umhverfismerki Evrópusambandsins (ESB), Blómið, sem er opinbert umhverfismerki á Evrópska efnahagssvæðinu.
  4. Umhverfisvæn vara og þjónusta er vara og þjónusta sem veldur minna umhverfisálagi en önnur sambærileg vara og þjónusta á markaði og þar sem tekið hefur verið tillit til umhverfisþátta "frá vöggu til grafar".
  5. Viðmiðunarregla er skjal sem inniheldur öll skilyrði og kröfur sem gerðar eru varðandi ákveðinn vöru- eða þjónustuflokk og liggja til grundvallar leyfi til að nota umhverfismerki.

II. KAFLI Stjórnsýsla.

4. gr. Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðar þessarar nema annað sé sérstaklega tekið fram í reglugerðinni.

Umhverfisstofnun sér um daglegan rekstur og alla umsýslu vegna umhverfismerkjanna Svansins og Blómsins, svo sem meðferð umsókna, veitingu leyfa og hefur jafnframt eftirlit með því að notkun umhverfismerkjanna sé í samræmi við reglugerð þessa og samningsskilmála hverju sinni.

5. gr. Umhverfismerkisráð.

Umhverfismerkisráð er samstarfshópur fulltrúa helstu hagsmunaaðila um umhverfismerki og er Umhverfisstofnun til ráðgjafar um framkvæmd reglugerðar þessarar.

Í umhverfissmerkisráði eiga sæti fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Neytendasamtökunum, Nýsköpunarmiðstöð, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustu, Staðlaráði Íslands og frá landsbundnum félagasamtökum sem vinna að umhverfisvernd. Umhverfisstofnun skipar í ráðið aðalmann og varamann til fjögurra ára í senn að fenginni tilnefningu frá viðkomandi samtökum eða stofnun. Umhverfisstofnun skipar formann ráðsins án tilnefningar og sér um að kalla ráðið saman.

Hlutverk fulltrúa í umhverfismerkisráði er að halda á lofti hagsmunum viðkomandi samtaka eða stofnunar og að upplýsa um breytingar og þróun málefna sem þessi reglugerð tekur á. Einnig skulu fulltrúarnir leitast við að auka þekkingu og áhuga á umhverfismerkjum innan sinna samtaka eða stofnunar.

Hlutverk umhverfismerkisráðs er að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á umhverfisvænum vörum og þjónustu hér á landi og vera ráðgefandi í málefnum sem tengjast reglugerð þessari. Formaður ráðsins á sæti í norræna umhverfismerkisráðinu og hefur það hlutverk að koma á framfæri áliti umhverfismerkisráðs til norræna umhverfismerkisráðsins.

Ráðið fer á fundum sínum yfir tillögur um nýja vöru- og þjónustuflokka, þær umsóknir sem eru í vinnslu hér á landi, álitamál sem koma upp í tengslum við viðmiðaþróun, viðmið sem eru í opnu umsagnarferli og tekur afstöðu til stærri stefnumótandi mála er varða umhverfismerki. Einnig fer ráðið yfir stöðu umhverfismerktrar vöru og þjónustu á markaði.

Umhverfisstofnun hefur það hlutverk að upplýsa ráðið um breytingar sem í vændum eru í málaflokknum og veita ráðinu möguleika á að koma með athugasemdir við þær.

Umhverfisstofnun skal einnig leggja fyrir ráðið verkáætlun í upphafi hvers árs þar sem farið er yfir áætlað rekstrarumfang, áherslur í markaðsmálum, eftirlitsáætlun og önnur fyrirliggjandi verkefni. Umhverfisstofnun skal einnig kynna fyrir ráðinu árlega framgang verkáætlunar síðasta árs ásamt samantekt á fjárhagslegum upplýsingum er varða rekstur umhverfismerkja.

III. KAFLI Norræna umhverfismerkið, Svanurinn.

6. gr. Útlit merkisins.

Norræna umhverfismerkið, Svanurinn, er mynd af hvítum svani á grænum fleti (litur: pms 347). Yfir merkinu stendur skrifað "SVANSMERKIÐ". Þær vörur sem bera merkið skulu auðkenndar með leyfisnúmeri, sem eru átta tölur sem skulu sjást greinilega á viðkomandi vöru. Leyfisnúmerið skal vera undir merkinu sjálfu.

Heimilt er að setja ritaða texta, allt að þrjár línur undir umhverfismerkið, sbr. viðmiðunarreglur Svansins fyrir viðkomandi vöruflokk. Skýringarmynd er birt í fylgiskjali með reglugerð þessari.

7. gr. Meginreglur um veitingu og notkun merkisins.

Umsækjendur um leyfi og þeir sem fengið hafa leyfi til að nota norræna umhverfismerkið, skuldbinda sig til að fylgja reglum um norræna umhverfismerkingu sem gefnar hafa verið út af stjórn norrænu umhverfismerkisnefndarinnar, með síðari breytingum, ásamt öðrum reglum sem viðkomandi umhverfismerkisstofnun upplýsir um og finna má á vef Umhverfisstofnunar, www.ust.is. Reglurnar eru eftirfarandi:

  1. Reglur um umhverfisvottun á vörum og þjónustu með norræna umhverfismerkinu Svaninum.
  2. Reglur um gjaldtöku norræna umhverfismerkisins Svansins.
  3. Reglur um notkun norræna umhverfismerkisins Svansins.

Umhverfismerkið má veita vegna þeirrar vörutegundar eða þjónustu sem uppfyllir viðmiðunarreglur fyrir viðkomandi vöruflokka eða þjónustu.

Þeim sem veitt hefur verið leyfi til að auðkenna vörur með umhverfismerkinu er heimilt að nota það í auglýsinga- og kynningarskyni.

8. gr. Viðmiðunarreglur.

Samræmdar viðmiðunarreglur gilda fyrir tiltekna vöruflokka eða tiltekna þjónustu í þeim löndum sem veita norræna umhverfismerkið. Gildistími viðmiðunarreglna skal ekki vera lengri en þrjú ár, sbr. þó ákvæði 10. gr. Einu ári áður en gildistími viðmiðunarreglu rennur út skal Umhverfisstofnun tilkynna leyfishafa um væntanlegar breytingar og gildistöku nýrrar viðmiðunarreglu.

Leyfishafi skal sækja um endurnýjun á leyfi hyggist hann halda áfram að nota umhverfismerkið eftir að ný og endurskoðuð viðmiðunarregla tekur gildi. Fara skal með umsókn um endurnýjun sem nýja umsókn og greiða gjöld í samræmi við það.

Upplýsingar um viðmiðunarreglur fyrir vöruflokka og þjónustu sem samþykktar hafa verið liggja fyrir hjá Umhverfisstofnun og á vef stofnunarinnar.

9. gr. Veiting merkisins.

Umhverfisstofnun veitir leyfi til að nota norræna umhverfismerkið hér á landi í samræmi við notkunarskilmála, sbr. 14. gr.

Leyfi til að nota umhverfismerkið skal veitt í tiltekinn tíma og má hann ekki vera lengri en gildistími einstakra viðmiðunarreglna samkvæmt 8. gr., sbr. þó ákvæði 10. gr. um framlengingu gildistíma.

10. gr. Framlenging á gildistíma viðmiðunarreglu.

Hafi gildistími tiltekinnar viðmiðunarreglu verið framlengdur framlengist einnig gildistími leyfa sem hafa verið veitt og byggjast á sömu útgáfu af viðmiðunarreglu.

11. gr. Umsókn.

Framleiðendur og rekstraraðilar annars vegar, og hins vegar innflytjendur eða umboðsaðilar með samþykki framleiðanda, geta sótt um leyfi til Umhverfisstofnunar til að nota umhverfismerkið hér á landi. Umsókn um heimild til þess að nota norræna umhverfismerkið skal skila á þar til gerðu eyðublaði á þjónustugátt Umhverfisstofnunar.

Umsækjendum ber að greiða umsóknargjald eftir að umsókn hefur verið lögð inn í samræmi við gjaldskrá sem umhverfis- og auðlindaráðherra setur.

12. gr. Upplýsingar í umsókn.

Í umsókn um leyfi til að nota umhverfismerkið hér á landi skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram, eftir því sem við á:

  1. Nafn og heimilisfang umsækjanda,
  2. vöruflokkur eða þjónusta sem sótt er um leyfi fyrir,
  3. heiti vöru eða nánari skilgreining ef um þjónustu er að ræða,
  4. hvernig vörutegund eða þjónusta uppfyllir þær kröfur sem fram koma í viðkomandi viðmiðunarreglu,
  5. áætluð ársvelta viðkomandi vöruflokks eða þjónustu,
  6. upplýsingar um fyrri umsókn eða umsóknir.

Umsóknin skal uppfylla markmið reglugerðar þessarar og skilyrði viðmiðunarreglu fyrir viðkomandi vöruflokk eða þjónustu.

Allur kostnaður í tengslum við vinnslu umsóknar hjá umsækjanda, svo sem mælingar, prófanir o.þ.h., skal greitt af umsækjanda.

Umsóknargjald er ekki endurgreitt þótt umsókn sé hafnað nema 1. ml. 4. mgr. 13. gr. eigi við.

13. gr. Meðferð umsóknar.

Umsækjandi um leyfi til að nota umhverfismerki skal veita Umhverfisstofnun allar nauðsynlegar og umbeðnar upplýsingar í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar. Ef umsækjandi hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum og upplýsingum til Umhverfisstofnunar að fenginni beiðni þar um innan 12 mánuði frá dagsetningu umsóknar getur Umhverfisstofnun hafnað umsókninni.

Umhverfisstofnun fjallar um og afgreiðir umsóknir eigi síðar en þremur mánuðum eftir móttöku umsóknar ásamt öllum nauðsynlegum fylgigögnum hennar.

Reynist ekki auðið að afgreiða umsókn innan þess frests sem gefinn er skv. 2. mgr. skal gera umsækjanda grein fyrir því skriflega og tilgreina ástæður fyrir seinkuninni.

Nú reynist umsókn um umhverfismerki ófullnægjandi og skal þá vísa umsókninni frá skriflega. Áður skal umsækjanda þó veitt færi á að bæta úr annmörkum á umsókn. Synji Umhverfisstofnun umsókn um leyfi til að nota umhverfismerki á tiltekna vörutegund eða þjónustu skal tilkynna umsækjanda það skriflega og tilgreina ástæður synjunar.

14. gr. Notkunarskilmálar.

Þeir einir sem hafa fengið útgefið leyfi hjá Umhverfisstofnun og undirritað notkunarskilmála mega nota norræna umhverfismerkið Svaninn, á Íslandi, sbr. þó ákvæði 15. og 16. gr. um skrásetningu á leyfum sem eru útgefin í öðrum löndum sem taka þátt í samstarfi um norræna umhverfismerkið Svaninn.

Útgefið leyfi er uppsegjanlegt með þriggja mánaða fyrirvara og geta bæði leyfishafi og Umhverfisstofnun sagt því upp. Uppsögnin skal vera skrifleg og móttaka staðfest eða send í ábyrgðarpósti. Umhverfisstofnun getur einungis sagt upp útgefnu leyfi brjóti leyfishafi gegn reglugerð þessarri. Uppsögn stofnunarinnar á leyfinu skal vera rökstudd.

Leyfishafa er heimilt að flytja leyfi eða skráningu til annars aðila með fyrirfram skriflegu samþykki Umhverfisstofnunar.

Breytingar á vöru eða framleiðsluferli, sem geta haft áhrif á hvort viðmiðunarreglur séu uppfylltar, skal tilkynna tafarlaust til Umhverfisstofnunar, sem metur hvort breytingarnar krefjist endurúttektar eða prófunar á samræmi milli framleiðslu og krafna.

Umhverfisstofnun getur fellt úr gildi viðmiðunarreglur eða breytt þeim og afturkallað leyfi meðan á venjulegum gildistíma stendur ef nýjar upplýsingar koma fram um heilbrigðis- eða umhverfisáhrif framleiðsluflokks.

15. gr. Gagnkvæm viðurkenning.

Veiting norræna umhverfismerkisins, Svansins, í einu landi gildir í þeim löndum sem taka þátt í veitingu þess. Til þess að mega nota umhverfismerkið á vöruflokk eða þjónustu í öðru landi en Íslandi verður að skrásetja það sérstaklega, sbr. 16. gr.

16. gr. Skrásetning.

Umhverfisstofnun skrásetur leyfi fyrir vörur eða þjónustu sem fengið hafa norræna umhverfismerkið í öðrum löndum. Notkun umhverfismerkis hér á landi er óheimil fyrr en tilkynning hefur verið send stofnuninni.

Beiðni um skrásetningu skulu fylgja upplýsingar um nafn framleiðanda, umboðsaðila og væntanlega sölu á þeirri vöru eða þjónustu sem fengið hefur leyfi til að nota umhverfismerkið. Einnig skal fylgja beiðni um skrásetningu afrit af upphaflegu leyfi fyrir notkun norræna umhverfismerkisins sem útgefið hefur verið í einhverju hinna Norðurlandanna.

Beiðni um skrásetningu hér á landi skal afgreiða innan tveggja vikna frá móttöku. Þó er heimilt að lengja þennan frest í fjórar vikur ef afla þarf viðbótargagna, t.d. frá leyfisveitanda.

IV. KAFLI Umhverfismerki Evrópusambandsins (ESB), Blómið - gildistaka tiltekinna EES-gerða.

17. gr. Gildistaka tiltekinna EES-gerða - umhverfismerki Evrópusambandsins (ESB).

Eftirfarandi reglugerðir sem vísað er til í I. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, skulu öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XX. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 frá 25. nóvember 2009 um umhverfismerki ESB sem vísað er til í tölul. 2a í I. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012, þann 26. október 2012 öðlast gildi hér á landi. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 67 frá 29. nóvember 2012, bls. 177-184.
  2. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/709/ESB frá 22. nóvember 2010 um að koma á fót umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins, sem vísað er til í tölul. 2ad í I. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 201/2012, þann 26. október 2012 öðlast gildi hér á landi, sbr. EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 6 frá 24. janúar 2013, bls. 19-21.
  3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 782/2013 frá 14. ágúst 2013 um breytingu á III. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 66/2010 um umhverfismerki ESB sem vísað er til í tölul. 2a í I. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2014, þann 8. apríl 2014 öðlast gildi hér á landi. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 23 frá 10. apríl 2014, bls. 254-255.
  4. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/1941 frá 24. október 2017 um breytingu á II. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 um umhverfismerki ESB, sem vísað er til í tölul. 2a í I. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2018 frá 9. febrúar 2018. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 14 frá 8. mars 2018, bls. 310-311.

Með vísan til meginmáls samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í tölul. 2 í I. kafla XX. viðauka, ásamt viðbótum, breytingum og bókunum, auk annarra ákvæða hans, er hér með auglýst gildistaka ákvarðana um vistfræðilegar viðmiðanir er veita á umhverfismerki ESB, Blómið, fyrir tiltekna framleiðsluflokka og þjónustu og sem liggja frammi hjá Umhverfisstofnun og finna má á vef Umhverfisstofnunar, www.ust.is.

Umhverfisstofnun er heimilt að veita leyfi til að nota umhverfismerki ESB, Blómið, vegna vöru og þjónustu sem uppfyllir viðmiðunarreglur sem settar hafa verið um notkun merkisins. Umhverfisstofnun fer með umsýslu, framkvæmd og eftirlit framangreindra gerða samkvæmt ákvæði þessu.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

18. gr. Upplýsingar og fræðsla.

Umhverfisstofnun ber að upplýsa neytendur og fyrirtæki um eftirfarandi:

  1. Tilganginn með veitingu umhverfismerkja,
  2. hvaða framleiðsluflokkar hafa verið valdir,
  3. viðmiðunarreglur fyrir hvern framleiðsluflokk,
  4. hvernig sækja á um umhverfismerki.

Umhverfisstofnun birtir upplýsingar, skv. 1. mgr., á vef stofnunarinnar.

19. gr. Eftirlit.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar um notkun umhverfismerkja, svo sem notkunarskilmálum, og að útlit umhverfismerkja sé í samræmi við fylgiskjal reglugerðarinnar.

20. gr. Aðgangur að upplýsingum.

Um aðgang að upplýsingum gilda lög nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, upplýsingalög nr. 140/2012 og ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Leyfishafa er skylt að geyma skjöl sem varða prófanir, mælingar, kvartanir, leiðréttingar o.fl. í tengslum við umhverfismerktar vörur, og afhenda Umhverfisstofnun tafarlaust óski stofnunin eftir því við leyfishafa.

21. gr. Þagnarskylda.

Þeir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

22. gr. Gjaldtaka.

Umhverfisstofnun innheimtir umsóknargjald fyrir vinnslu umsókna og skrásetningu hér á landi samkvæmt reglugerð þessari. Gjaldið skal svara til kostnaðarins við afgreiðslu umsóknar, útgáfu leyfis og skrásetningu hér á landi. Umsækjendur skulu standa undir kostnaði við nauðsynlegar prófanir og sannprófanir. Einnig innheimtir Umhverfisstofnun árgjald fyrir notkun umhverfismerkjanna.

Umhverfisstofnun innheimtir kostnað vegna eftirlits með því að ákvæði reglugerðar þessarar sé fylgt.

Ráðherra setur gjaldskrá, sbr. 1. og 2. mgr., að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og umsögn umhverfismerkisráðs, og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjöld samkvæmt ákvæði þessu má innheimta með fjárnámi.

23. gr. Ágreiningur um framkvæmd.

Rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðarinnar eða um ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt henni er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

24. gr. Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.

Ákvæði VI. og VIII. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, gilda um valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög, m.a. þegar umhverfismerkið er notað án leyfis.

Mál út af brotum gegn reglugerð þessari skulu sæta meðferð sakamála.

VI. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.

25. gr. Innleiðing tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) frá 25. nóvember 2009 nr. 66/2010 um umhverfismerki ESB.
  2. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/709/ESB um að koma á fót umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins.
  3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 782/2013 frá 14. ágúst 2013 um breytingu á III. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 66/2010 um umhverfismerki ESB.

26. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 6. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 525/2006 um umhverfismerki, ásamt síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Umsækjendur, sem nú þegar eiga umsókn um umhverfismerki í vinnslu hjá Umhverfisstofnun, hafa að hámarki 12 mánuði frá gildistöku reglugerðar þessarar til að koma nauðsynlegum gögnum og upplýsingum til stofnunarinnar svo hún geti afgreitt þær. Að þeim tíma liðnum er Umhverfisstofnun heimilt að synja ófullnægjandi umsóknum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.