Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Prentað þann 23. feb. 2025

Stofnreglugerð

1597/2024

Reglugerð um Nýsköpunarsjóðinn Kríu.

1. gr. Markmið.

Nýsköpunarsjóðnum Kríu er ætlað að auka framboð af sérhæfðu fjármagni til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á fyrstu stigum, með það að markmiði að styðja við og efla nýsköpunarumhverfið hér á landi.

2. gr. Skilgreiningar.

Rekstraraðili: lögaðili sem rekur einn eða fleiri sérhæfða sjóði eða sérhæfða EES-sjóði með reglubundnum hætti.

Sérhæfður EES-sjóður: sérhæfður sjóður samkvæmt 28. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Sérhæfður sjóður: sérhæfður sjóður samkvæmt 29. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki: með sprota- og nýsköpunarfyrirtæki er átt við fyrirtæki sem er ekki rótgróið, er á fyrstu stigum vaxtar, telst vera lítið og hefur þróun ákveðinna viðskiptahugmynda að meginstarfsemi.

Stofnfé: allar skuldbindingar eða loforð sem fjárfestir er bundinn við, innan tímarammans og skilyrða sem mælt er fyrir um í reglum, stofnsamningi eða samstarfssamningi sjóðsins, um að kaupa hlut í þeim sjóði eða veita sjóðnum annars konar eiginfjárframlag sem nota skal til fjárfestinga.

3. gr. Hlutverk og verkefni Nýsköpunarsjóðsins Kríu.

Stuðningur Nýsköpunarsjóðsins Kríu skal taka mið af fjárfestingarmöguleikum á markaði og skal sjóðurinn veita stuðning á sviðum þar sem þörfin fyrir opinberan stuðning er mest hverju sinni. Sjóðurinn skal hafa hæfilega arðsemi að leiðarljósi án þess þó að vera í beinni samkeppni við þá fjárfesta sem fyrir eru, þegar nægilegt framboð á fjármagni er til staðar. Einnig skal stefnt að því að auka samfellu í opinberum stuðningi til nýsköpunarfyrirtækja. Sjóðurinn styður einnig við alþjóðleg samstarfsverkefni stjórnvalda á sviði fjárfestinga og nýsköpunar eftir því sem við á, svo sem fjármögnunarverkefni á vegum samstarfsáætlunar Evrópusambandsins. Sjóðnum er heimilt að fjárfesta í sjóðum, veita breytanleg lán og fjárfesta beint í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum eða veita annars konar fjármögnun sambærilegt við það sem þekkist í alþjóðlegu fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

4. gr. Stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu.

Um hlutverk stjórnar Nýsköpunarsjóðsins Kríu fer eftir 5. gr. laga nr. 90/2024, um Nýsköpunarsjóðinn Kríu. Stjórn sjóðsins skal aukinheldur vinna starfs- og fjárfestingaráætlun, bæði til styttri tíma (1-3 ár) og til lengri tíma. Starfs- og fjárfestingaráætlanir skal stjórn sjóðsins vinna í samstarfi við forstjóra sjóðsins, hagaðila á sviði nýsköpunar og að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar á sviði nýsköpunar.

Stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu skal setja sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

5. gr. Umsóknir.

Nýsköpunarsjóðurinn Kría tekur við umsóknum um þátttöku í sjóðum gegn áskrift að stofnfé, umsóknum um lánveitingar, umsóknum um beinar fjárfestingar eða annars konar aðkomu í samræmi við reglugerð þessa og starfsreglur stjórnar.

Nýsköpunarsjóðnum Kríu er heimilt að óska eftir hvers konar upplýsingum og fylgigögnum frá umsækjanda til að gera sjóðnum kleift að afgreiða umsóknina.

6. gr. Áskrift að stofnfé í sjóði.

Nýsköpunarsjóðnum Kríu er heimilt að skrá sig fyrir stofnfé í sérhæfðum sjóðum og sérhæfðum EES-sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og uppfylla skilyrði um Nýsköpunarsjóðinn Kríu. Er hér notast við skilgreiningu á sérhæfðum sjóði sem byggist á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020. Þá tekur ákvæðið einnig til sérhæfðra EES-sjóða sem, samkvæmt sömu lögum, eru sérhæfðir sjóðir sem hafa starfsleyfi eða eru skráðir í ríkjum innan EES eða hafa ekki starfsleyfi eða eru skráðir í ríkjum innan EES en eru þar með skráða starfsstöð eða höfuðstöðvar. Hugtakið sérhæfður sjóður er notað yfir það sem áður var kallað fagfjárfestasjóður.

Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um áskriftir með hliðsjón af skilyrðum samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóðinn Kríu, reglugerð þessari og starfsreglum stjórnar.

Áskrift Nýsköpunarsjóðsins Kríu að stofnfé sjóðs skal bundin því skilyrði að gerður verði samningur við rekstraraðila viðkomandi sjóðs, sjóðinn sjálfan og eftir atvikum meðfjárfesta um áskrift Nýsköpunarsjóðsins Kríu að stofnfé sjóðsins. Í samningnum skal meðal annars tryggt að skilyrði Nýsköpunarsjóðsins Kríu fyrir áskrift að stofnfé séu uppfyllt.

Stofnfé Nýsköpunarsjóðsins Kríu í hverjum einstökum sjóði sem samþykkt hefur verið að taka þátt í skal ekki nema hærra hlutfalli en 20% af heildarfjármagnsframlagi og óinnheimtu stofnfé viðkomandi sjóðs og aldrei hærri fjárhæð en sem nemur tveimur milljörðum króna.

7. gr. Skilyrði fyrir þátttöku Nýsköpunarsjóðsins Kríu í sjóðum.

Til viðbótar við þau atriði sem tilgreind eru í 6. gr. skulu sjóðir sem Nýsköpunarsjóðurinn Kría tekur þátt í uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Stofnfé sjóðsins er að lágmarki tveir milljarðar króna að undanskildu því stofnfé sem Nýsköpunarsjóðurinn Kría skráir sig fyrir og sjóðurinn hafi fjármagnað að minnsta kosti 25% af heildar stofnfé, að undanskildu því stofnfé sem Nýsköpunarsjóðurinn Kría skráir sig fyrir, á þeim tíma sem umsókn er móttekin.
  2. Rekstraraðili eða ábyrgðaraðili sjóðsins skulu vera eigendur hluta í sjóðnum, auk að lágmarki þriggja einkafjárfesta sem eru ótengdir, ekki í samstarfi og hver um sig hefur skráð sig fyrir stofnfé sem nemur að minnsta kosti 10% af heildarstofnfé sjóðsins.
  3. Enginn einn fjárfestir hefur skráð sig fyrir stofnfé sem nemur meira en 50% af heildarstofnfé sjóðsins.
  4. að sjóðnum komi aðili sem hafi umtalsverða reynslu, þekkingu og árangur í alþjóðlegu rekstrarumhverfi fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
  5. Sjóðurinn hafi ekki á þeim tíma sem þátttaka Nýsköpunarsjóðsins Kríu er samþykkt, fjárfest hærra hlutfalli en sem nemur 25% af heildar stofnfé sínu.
  6. Sjóðurinn er sérhæfður sjóður eða sérhæfður EES-sjóður og hefur fengið heimild fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til markaðssetningar á Íslandi í samræmi við lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og er samkvæmt stofnsamningi sínum eða reglum bundinn því að fjárfesta öllu heildarfjármagnsframlagi sínu og óinnheimtu stofnfé, sem fjárfestar hafa skráð sig fyrir, í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
  7. Stofnsamningur, samþykktir eða reglur sjóðsins mæli að minnsta kosti fyrir um að:
    1. sjóðnum beri að fjárfesta að minnsta kosti því sem nemur framlagi Nýsköpunarsjóðsins Kríu af heildarfjármagnsframlagi sínu og óinnheimtu stofnfé, í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum með starfsemi á Íslandi,
    2. sjóðnum sé að meginstefnu til ætlað að fjárfesta snemma í vaxtaferli sprota- og nýsköpunarfyrirtækja,
    3. fjárfestar hafi enga aðkomu að ákvörðunum um fjárfestingar sjóðsins, það gildir þó ekki um rekstraraðila viðkomandi sjóðs,
    4. sjóðurinn verði óvogaður,
    5. sjóðurinn er settur upp í samræmi við það sem tíðkast alþjóðlega um sambærilega sjóði hvað varðar meðal annars lagalega uppsetningu, líftíma, þar sem skýr og raunhæf útgönguáætlun liggur fyrir, hlutverk og þátttöku fjárfesta, ávöxtunarkröfu fjárfesta, kostnað og ábata almennra þátttakenda,
    6. Sjóðurinn sé rekinn af sjálfstæðum rekstraraðila, sem hefur verið skráður hjá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands samkvæmt 7. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða,
    7. Rekstraraðili sjóðsins, sjóðurinn, stjórnendur hans og þeir fjárfestar sem hafa skráð sig fyrir stofnfé hafi nægilega reynslu af stofnun, rekstri og/eða aðkomu að sjóðum og sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum að mati stjórnar Nýsköpunarsjóðsins Kríu sem og hafi nægilegan fjárhagslegan styrk og gott orðspor til að tryggja framgang sjóðsins og að markmiðum laga um Nýsköpunarsjóðinn Kríu, og reglugerðar þessarar megi ná, að mati stjórnar sjóðsins.

8. gr. Lánveitingar.

Nýsköpunarsjóðnum Kríu er heimilt að veita sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum breytanleg lán, sem almennt skulu vera gegn mótframlagi. Í undantekningartilfellum er stjórn sjóðsins heimilt að veita breytanlegt lán án mótframlags og tekur stjórnin ákvarðanir um lánveitingar með hliðsjón af skilyrðum samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóðinn Kríu, reglugerð þessari og starfsreglum stjórnar. Er stefnt að því að lánaform og möguleikar sjóðsins verði þannig sveigjanlegir og geti tekið mið af alþjóðlegri þróun fjármögnunar í nýsköpun.

Lán skulu veitt á markaðskjörum og til fyrir fram ákveðins tíma. Í skilmálum lána skal um það samið við hvaða aðstæður og á hvaða kjörum Nýsköpunarsjóðurinn Kría geti breytt láni, að áföllnum vöxtum meðtöldum, í hlutafé í viðkomandi fyrirtæki. Samið skal um kjör og skilmála breytingar við upphaf lánstíma. Miðað skal við að eignahlutur Nýsköpunarsjóðsins Kríu í einstaka félagi, eftir að láni hefur verið breytt í hlutafé, fari ekki yfir 25%. Lán sem Nýsköpunarsjóðurinn Kría veitir skulu ekki vera víkjandi fyrir öðrum skuldum.

Lánveitingar skulu aldrei nema hærra hlutfalli en 25% af því fjármagni sem sjóðurinn fjárfestir fyrir innan hvers almanaksárs.

Nýsköpunarsjóðurinn Kría skal leitast við að gera kröfu um mótframlag frá ótengdum þriðja aðila í tengslum við veitingu lána, og skal lánveiting bundin fyrirvara um ásættanlega niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á þeim þriðja aðila sem til stendur að veita muni mótframlag.

9. gr. Beinar fjárfestingar.

Nýsköpunarsjóðnum Kríu er heimilt að fjárfesta beint í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum í þeim tilgangi að eignast eignarhluti í viðkomandi fyrirtæki. Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um beinar fjárfestingar með hliðsjón af skilyrðum samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóðinn Kríu, reglugerð þessari og starfsreglum stjórnar.

Beinar fjárfestingar Nýsköpunarsjóðsins Kríu skulu að meginstefnu eiga sér stað í samstarfi við aðra fjárfesta, þannig að Nýsköpunarsjóðurinn Kría leiði ekki fjárfestinguna og sé ekki stærsti fjárfestirinn í viðkomandi fyrirtæki, og skal eignahlutur Nýsköpunarsjóðsins Kríu í einstaka félagi ekki fara yfir 25%. Þá skulu þær beinu fjárfestingar sem eru skilgreindar sem áherslufjárfestingar taka mið af stefnu ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun eða annarri stefnumörkun stjórnvalda á sviði nýsköpunar. Beinar fjárfestingar skulu aldrei nema hærra hlutfalli en 15% því fjármagni sem sjóðurinn fjárfestir fyrir innan hvers almanaksárs.

10. gr. Ákvörðun stjórnar um þátttöku í sjóði, lánveitingar eða beinar fjárfestingar.

Stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu ákvarðar hvort umsóknir og umsækjendur fullnægi skilyrðum samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóðinn Kríu, reglugerð þessari og starfsreglum sínum.

Stjórn skal gera kröfu um nákvæm og vönduð vinnubrögð við skoðun á fjárfestingakostum en um leið tryggja að umsækjendum sé tilkynnt skrifleg niðurstaða eins fljótt og auðið er.

Ákvarðanir um áskrift í sjóðum, lánveitingar og beinar fjárfestingar Nýsköpunarsjóðsins Kríu skulu ávallt bundnar því skilyrði að þátttakan uppfylli ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Til viðbótar skal þátttaka Nýsköpunarsjóðsins Kríu bundin fyrirvara um ásættanlega niðurstöðu áreiðanleikakönnunar eða lögfræðilegs álits á umsækjanda og þeim þáttum sem stjórn telur nauðsynlegt að tekin séu til skoðunar, svo sem hvort öllum skilyrðum sé fullnægt.

11. gr. Önnur starfsemi.

Sjóðnum er heimilt að leita samstarfs við aðra aðila á sviði áhættufjárfestinga og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um nýsköpunarfjárfestingar og verkefnum sem styðja við nýsköpunarumhverfið hér á landi. Sjóðnum er aukinheldur heimilt að veita annars konar fjármögnun en þá sem tilgreind hefur verið í 6.-9. gr., sambærilegt við það sem þekkist í alþjóðlegu fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og sem samræmist markmiðum sjóðsins.

12. gr. Ávöxtun eigin fjár.

Ávöxtun á eigin fé Nýsköpunarsjóðsins Kríu og öðru fjármagni í vörslum sjóðsins skal miðast við að sjóðurinn verði sem hæfastur til að gegna hlutverki sínu. Við ávöxtun eigin fjár skal gætt að eðlilegri áhættudreifingu í eignasafni.

13. gr. Ársfundur og ársskýrsla.

Ársfundur Nýsköpunarsjóðsins Kríu skal haldinn fyrir 31. maí ár hvert. Á fundinum skal leggja fram ársskýrslu sjóðsins fyrir næstliðið starfsár ásamt endurskoðuðum ársreikningi. Einnig skal gera grein fyrir helstu þáttum í starfsemi liðins árs og áætlunum komandi starfsárs. Ársskýrslu skal stjórn einnig skila til og kynna fyrir ráðherra árlega.

14. gr. Umsýsluaðili.

Komi til þess að ráðherra feli þriðja aðila með samningi faglega umsýslu Nýsköpunarsjóðsins Kríu eða hluta af starfsemi hans, skal ráðuneytið hafa eftirlit með framkvæmd umsýsluaðila á fjármálum Nýsköpunarsjóðsins Kríu og hafa eftirlit með framkvæmd samnings um umsýslu sjóðsins.

15. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 12. gr. laga um Nýsköpunarsjóðinn Kríu nr. 90/2024, og öðlast hún þegar gildi.
Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 255/2021 um Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóð.

16. gr. Áhrifamat og endurskoðun.

Reglugerð þessi verður endurskoðuð að þremur árum liðnum, að teknu tilliti til undangengins áhrifamats á sjóðnum.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 20. desember 2024.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.