Félagsmálaráðuneyti

460/1984

Reglugerð um gatnagerðargjöld í Stöðvarhreppi, Suður-Múlasýslu. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um gatnagerðargjöld í Stöðvarhreppi, Suður-Múlasýslu.

 

1. gr.

       Sveitarstjórn Stöðvarhrepps er heimilt að leggja gatnagerðargjöld á lóðir og byggingar í sveitarfélaginu eftir því sem nánar segir í reglugerð þessari. Heimilt er að leggja gatnagerðargjald á land, sem sambærilegt telst, þótt ekki sé sérstök lóð.

 

2. gr.

       Gatnagerðargjald vegna undirbyggingar, varanlegs slitlags og gangstéttar, B-gjald, skal lóðarhafi greiða þegar lagningu slitlags er lokið.

 

3. gr.

       Gjaldið skal nema ákveðnum hundraðshluta byggingarkostnaðar á m2 eins og hann er talinn á hverjum tíma af Hagstofu Íslands.

 

4. gr

       Álagning B-gjalds skal vera sem hér segir:

1.    Íbúðabyggingar:

       1.1.  Einbýlishús.......................................................................... 3,0%

       1.2.  Tvíbýlishús á 2 hæðum og raðhús........................................ 2,0%

       1.3.  Þríbýlishús á 3 hæðum og fjölbýlishús.................................. 1,5%

2.    Aðrar byggingar:

       2.1.  Verslanir, skrifstofur, þjónustu- og viðskiptastofnanir og opinberar

       byggingar................................................................................... 3,0%

       2.2.  Iðnaðarhúsnæði, sláturhús, mjólkurbú, fiskvinnslustöðvar,

              orkuver, spennistöðvar, bensín-, olíu- og lýsisgeymar, sérbyggðar

              vöruskemmur ..................................................................... 1,5%

       2.3.  Geymsluskúrar, bílgeymslur o. fl.......................................... 1,0%

3.    Jafnframt B-gjaldi og sem hluta þess skulu lóðarhafar greiða kr. 20.00 fyrir hvern fermetra lóðar, hvort sem bygging er þar á eða ekki.

       Við álagningu gatnagerðargjalda skal miða við að stærð húss, samkvæmt samþykktum uppdráttum. Nú er ekki fyrirliggjandi samþykktur uppdráttur og skal þá miða við þá stærð húss, sem skipulag gerir ráð fyrir, en sé slíkt ekki ákveðið í skipulagi, skal miða við eftirtaldar lágmarksstærðir fyrir hverja íbúð:

       Einbýlishús .............................................................................. 500 m2

       Tvíbýlishús á 2 hæðum og raðhús............................................. 400 m2

       Þríbýlishús á 3 hæðum og fjölbýlishús....................................... 300 m2

       Í atvinnuhúsnæði skal við útreikning rúmmáls til gatnagerðargjalds miðað við lofthæð 3,3 m að innanmáli, nema uppdráttur sýni annað. Áætla skal nýtingarhlutfall lóðar 0,3-0,5 eftir nánari ákvörðun byggingarnefndar hverju sinni, ef það er ekki bundið að öðru leyti í samþykktu deiliskipulagi. Framangreindar reglur gilda ef hús er stækkað, að því er til stækkunarinnar tekur. Sveitarstjórn úrskurðar flokkun bygginga í gjaldstiga.

 

4. gr.

       Gjöld samkvæmt 4. gr. breytast í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar. Miðast þau við þá vísitölu, sem í gildi er þegar gjaldið er lagt á.

 

6. gr.

       Þegar veitt er byggingarleyfi án undangenginnar lóðarveitingar er greiðsla gatnagerðargjalds áskilin.

 

7. gr.

       Byggingarfrestur er 12 mánuðir, þ. e. lóð fellur aftur til sveitarsjóðs hafi framkvæmdir ekki verið hafnar innan þess tíma frá veitingu hennar, nema leyfið hafi verið háð öðrum skilmálum um byggingarfrest. Framkvæmdir teljast hafnar þegar undirstöður hafa verið steyptar.

       Óski lóðarhafi að segja sig frá veittri lóð skal hann eiga rétt á endurgreiðslu á greiddu gatnagerðargjaldi - án vaxta - sem her segir: 50% gatnagerðargjalds endurgreiðist eftir 6 mánuði. Eftirstöðvar endurgreiðist eftir 12 mánuði. Verði lóðin veitt að nýju innan þess tíma, skal fyrri lóðarhafi fá gatnagerðargjaldið endurgreitt, þegar sú úthlutun fer fram og eftirfarandi byggingarleyfi.

 

8. gr.

       Hafi byggingarleyfi verið veitt í byggingarnefnd og aðeins hluti þess notaður innan tilskilins tíma, þ.e. 12 mánaða, nema leyfið hafi verið háð öðrum skilmálum um byggingarfrest, skal við endurnýjun leyfisins greiða fullt gjald af þeim hluta, sem endurnýjaður er, eins og það er þá að frádregnu gatnagerðargjaldi, sem þegar er greitt af sama áfanga.

 

9. gr.

       Sveitarstjórn getur ákveðið að lækka gatnagerðargjald af iðnaðar- og atvinnuhúsnæði, enda liggi til þess fullgild rök hverju sinni. Ennfremur getur sveitarstjórn ákveðið gatnagerðargjald sérstaklega í þeim tilvikum að byggingar séu sérhæfðar og afbrigðilegar um notkun eða þegar sveitarstjórn þykir sérstök ástæða til.

 

10. gr.

       Sveitarstjórn er heimilt að innheimta B-gjald samkvæmt 4. gr. af lóðarhöfum við götu, þar sem þegar hefur verið lagt slitlag og gangstétt. Í slíkum tilvikum skal miða gjaldið við þá byggingarvísitölu, sem í gildi er þegar gjaldið er lagt á.

 

11. gr.

       Gatnagerðargjald samkvæmt 4. gr. greiðist þannig: 20% greiðast þegar lagningu bundins slitlags er lokið og álagning hefur farið fram. Eftirstöðvar greiðast með skuldabréfi með jöfnum árlegum afborgunum á næstu 4 árum. Gjalddagi afborgana er 1. júlí. Vextir og verðtrygging skal vera samkvæmt kjörum Byggðasjóðs í samræmi við kjör þau, er lánveitingar til varanlegrar gatnagerðar miðast við. Lokagreiðslu skal þó ekki innheimta fyrr en endanlega hefur verið gengið frá viðkomandi götu.

 

12. gr.

       Sveitarstjórn er heimilt að lækka gjaldstuðla samkvæmt 4. gr. hvern um sig eða alla í einu um allt að 50% án frekari staðfestingar ráðuneytis.

 

13. gr.

       Heimilt er að veita staðgreiðsluafslátt allt að l0% eftir ákvörðun sveitarstjórnar á hverjum tíma.

 

14. gr.

       Heimilt er sveitarstjórn að veita afslátt eða fella niður gatnagerðargjöld af fasteignum þeirra eigenda, sem náð hafa 67 ára aldri og þeirra, sem eiga við langvarandi sjúkdóma eða örorku að stríða. Verði fasteign, sem afslátt hefur fengið eða niðurfellingu á gatnagerðargjaldi, seld eða á annan hátt skipt um eiganda, skal sveitarstjórn heimilt að leggja gjaldið eins og það var þegar álagning fór fram með áorðnum vísitölubreytingum, enda sé kvöðinni þinglýst á viðkomandi fasteign.

 

15. gr.

       Gatnagerðargjaldi fylgir lögveð í fasteign þeirri, sem það er lagt á og gengur það ásamt vöxtum fyrir öllum kröfum, sem á eigninni hvíla og tekur einnig til vátryggingafjárhæðar eignarinnar.

Heimilt er að taka gjöld lögtaki samkvæmt lögum nr. 29/1885.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af hreppsnefnd Stöðvarhrepps, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 51 frá 16. maí 1974 um gatnagerðargjöld, til þess að öðlast gildi þegar í stað.

Jafnframt er úr gildi felld reglugerð frá 25. október 1983 um gatnagerðargjöld í Stöðvarhreppi, Suður-Múlasýslu.

 

Félagsmálaráðuneytið 23. nóvember 1984.

 

F. h. r.

Hallgrímur Dalberg.

Hólmfríður Snæbjörnsdóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica