Landbúnaðarráðuneyti

156/1987

Reglugerð um sæðingar loðdýra - Brottfallin

REGLUGERÐ

um sæðingar loðdýra.

 

1. gr.

Almenn ákvæði.

1.1                 Loðdýraræktarfélög eða einstaklingar sem hafa í hyggju að setja á stofn sæðingarstöð skulu senda um það umsókn til landbúnaðarráðuneytisins sem veitir heimild til starfrækslu hennar að fenginni umsögn yfirdýralæknis og Búnaðarfélags Íslands. Í leyfi ráðuneytisins skal kveðið á um starfssvæði sæðingarstöðvar.

 

2. gr.

2.1                 Þeim einum sem aflað hafa sér þekkingar og þjálfunar á námskeiði í sæðingu loðdýra, sem viðurkennt er af stjórn Búnaðarfélags Íslands og yfirdýralækni, er heimilt að stunda sæðingar loðdýra og sæðistöku.

2.2                 Samband íslenskra loðdýraræktenda skal standa fyrir námskeiðum í sæðingum loðdýra. Umsókn um þátttöku á námskeiðum skulu fylgja meðmæli frá stjórn loðdýraræktarfélags í viðkomandi héraði. Dýralæknir sá sem veitir námskeiðinu forstöðu skal veita þátttakendum skriflegt leyfisbréf, enda hafi þeir að hans dómi náð viðhlítandi árangri. Í leyfisbréfi skal tilgreint um hæfni viðkomandi, hvar hann hafi heimild til að starfa og hve lengi leyfi hans til sæðinga á loðdýrum gildi.

 

3.gr

Sæðingarstöðvar.

3.1                 Með sæðingarstöð er í reglugerð þessari átt við loðdýrabú þar sem höfð eru í vörslu karldýr í þeim tilgangi að taka úr þeim sæði til sæðingar og loðdýrabú eða önnur húsakynni þar sem sæðing fer fram.

 

4. gr.

4.1                 Sæðistaka og sæðing loðdýra skal fara fram í sérstökum herbergjum sem eru eingöngu ætluð til þeirra nota þann tíma sem þessi starfsemi fer fram.

4.2                 Á stöðum þar sem fram fer bæði sæðistaka og sæðing skal þessi starfsemi fara fram aðskilin frá hvor annarri.

 

5. gr.

5.1                 Í sæðistöku- og sæðingarherbergi skulu gólf og veggir vera þannig að auðvelt sé að þrífa og sótthreinsa. Í herberginu skal vera upphitun þannig að hitastig geti verið 18­24°C, heitt og kalt vatn, niðurfall í gólfi, aðstaða til handþvotta, rafmagn, hitaplata, vinnuborð fyrir smásjá, pappírshandþurrkur og sérstakur sæðingarbekkur sem auðvelt er að þrífa. Við inngöngudyr skal vera aðstaða til fata- og skóskipta og búnaður fyrir sótthreinsun á skófatnaði.

5.2                 Sæðistöku- og sæðingarherbergi skulu vera vel hljóðeinangruð og þannig staðsett að sú starfsemi sem þar fer fram verði fyrir sem minnstu ónæði.

 

6. gr.

6.1                 Á sæðingarstöð skulu vera sérstök hlífðarföt fyrir þá sem starfa víð stöðina. Sömuleiðis skulu þeir sem koma með dýr í sæðingu klæðast sérstökum hlífðarfötum og skóm eða sótthreinsa skófatnað sinn rækilega fyrir og eftir dvöl í sæðingarherbergi.

 

7. gr.

7.1                 Á sæðingarstöð skal vera afdrep fyrir þá sem koma með dýr til sæðingar sem og fyrir dýr þeirra (biðstofa).

7.2                 Óheimilt er að halda hunda og ketti í loðdýrabúum þar sem sæðingarstöð er til húsa.

 

8. gr.

Val karldýra.

8.1                 Einungis má nota sem sæðisgjafa karldýr sem að mati héraðsdýralæknis eru heilbrigð. Áður en karldýr eru tekin í notkun skal fara fram á þeim ítarleg heilbrigðisskoðun sem sérstaklega tekur til getnaðarfæra. Jafnframt skal héraðsdýralæknir kanna heilbrigði á þeim búum sem karldýrin koma frá og má ekki hafa orðið vart smitnæmra sjúkdóma á þessum búum síðustu 18 mánuðina (hundafár, smitandi heila- og lifrarbólga, refavanki, maurakláði o. s. frv.). Áður en sæðistaka hefst skal senda Tilraunastöðinni á Keldum blóðsýni úr öllum refum sem fyrirhugað er að nota til mælinga á mótefnum gegn refavanka (nosematosis).

8.2                 Óheimilt er að nota karldýr sem sæðisgjafa á sæðingarstöðvum, ef leitt hefur verið undir þá sama ár. Karldýr sem notuð eru á sæðingarstöð skulu hafa hlotið viðurkenningu loðdýraræktarráðunautar Búnaðarfélags Íslands.

8.3                 Sala á sæði út fyrir starfssvæði viðkomandi sæðingarstöðvar er óheimil án sérstaks leyfis yfirdýralæknis.

 

9. gr.

Framkvæmd sæðingar.

9.1                 Einungis má koma með til sæðingar heilbrigðar læður frá búum þar sem ekki hefur orðið vart smitnæmra sjúkdóma síðustu 18 mánuðina (hundafár, smitandi heila- og lifrarbólga, refavanki, maurakláði)

9.2                 Sæða má læður frá sama búi án þess að sótthreinsun á sæðingarbekk fari fram á milli einstakra dýra. Áður en læður frá öðru búi eru sæddar skal þrífa sæðingarbekkinn vandlega og sótthreinsa, t. d. með því að fara yfir hann allan með gasloga.

9.3                 Í lok hvers vinnudags skal þrífa rækilega og sótthreinsa áhöld, biðstofu, sæðistöku- og sæðingarherbergi, sæðingarbekki og vinnuborð.

 

10. gr.

Skýrsluhald.

10.1.            Öllum karldýrum á sæðingarstöð skal gefið númer sem ákveðið er af Búnaðarfélagi Íslands. Halda skal skrá fyrir hvert einstakt karldýr yfir allar sæðistökur og gæði sæðis (magn, þéttleika, lífsþrótt sæðisfruma). Skýrslum skal skilað inn til Sambands íslenskra loðdýraræktenda og Búnaðarfélags Íslands fyrir 20. jú1í ár hvert.

10.2.            Þeim læðum sem komið er með til sæðingar skulu fylgja útfyllt búrkort.

10.3.            Sæðingarmaður heldur nákvæma skýrslu á þar til gerðum eyðublöðum yfir allar sæðingar. Hann skal safna niðurstöðum um árangur sæðinganna og hvolpafjölda hjá hverri sæddri læðu og senda Sambandi íslenskra loðdýraræktenda og Búnaðarfélagi Íslands fyrir 20. jú1í ár hvert.

 

11. gr.

Heilbrigðiseftirlit og sjúkdómavarnir.

11.1.            Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með sæðingarstöðvum. Skulu þeir fyrir hverja fengitíð fullvissa sig um að stöðvarnar uppfylli öll skilyrði um aðstöðu og útbúnað og er óheimilt að hefja sæðingar fyrr en skoðun hefur farið fram.

11.2.            Áður en fengitíð hefst ár hvert skal héraðsdýralæknir kanna heilbrigði dýra á viðkomandi sæðingarstöð, taka nauðsynleg sýnishorn o. þ. h. og er skylt að sjá honum fyrir aðstoð og veita þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru og óskað er eftir.

11.3.            Héraðsdýralæknir skal hafa eftirlit með þrifnaði og hreinlæti á sæðingarstöð og skal hann veita starfsmönnum leiðbeiningar um smitgát, sótthreinsun og sóttvarnir, eftir því sem þörf krefur.

11.4.            Veikist dýr sem notað er á sæðingarstöð, skal þegar í stað gera héraðsdýralækni aðvart, og er óheimilt að nota dýrið fyrr en dýralæknir gefur leyfi til þess.

11.5.            Komi upp næmur sjúkdómur á búi þar sem sæðingarstöð er til húsa eða á starfsvæði sæðingarstöðvar, þannig að hætta sé á að sjúkdómurinn geti breiðst út vegna starfsemi sæðingarstöðvarinnar, er héraðsdýralækni heimilt í samráði við yfirdýralækni að takmarka eða stöðva sæðingar.

11.6.            Komi upp rökstuddur grunur um að dýr á sæðingarstöð sé haldið næmum sjúkdómi, skal einangra það svo lengi sem þurfa þykir. Telji héraðsdýralæknir nauðsynlegt að lóga dýri sem þannig sýkist, til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins eða vegna þess að sterkar líkur séu fyrir því að dýrið nái ekki bata, má skjóta málinu til úrskurðar yfirdýralæknis. Sérstök rannsókn skal látin fara fram á dýrum sem lógað er af þessum ástæðum.

 

12. gr.

Refsiákvæði.

12.1               Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt 10. gr. laga nr. 53 29. maí 1981 um loðdýrarækt. Með má1 út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

12.2               Ítrekuð, alvarleg brot af ásetningi eða stórfelldu gáleysi skulu jafnframt valda leyfishafa réttindamissi til að reka sæðingarstöð.

 

13. gr.

Gildistaka.

13.1              Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 53 29. maí 1981 um loðdýrarækt, lögum nr. 77 1. október 1981 um dýralækna og búfjárræktarlögum nr. 31 24. apríl 1973, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

13.2              Ákvæði reglugerðar um búfjársæðingar nr. 226 13. ágúst 1969 gilds ekki um sæðingar loðdýra skv. þessari reglugerð.

 

Landbúnaðarráðuneytið, 2. apríl 1987.

 

Jón Helgason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica