REGLUGERÐ
um svæðisráð málefna fatlaðra.
I. KAFLI
Skipun í svæðisráð.
1. gr.
Á hverju starfssvæði málefna fatlaðra skal starfa svæðisráð.
Svæðisráð er sjö manna ráð skipað af félagsmálaráðherra til fjögurra ára í senn. Svæðisráð skal skipað á eftirfarandi hátt:
1. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands tilnefna sinn aðilann hvor.
2. Þrír fulltrúar skulu tilnefndir af landshlutasamtökum sveitarfélaga á hlutaðeigandi svæði og skal einn þeirra vera félagsmálastjóri á svæðinu.
3. Auk fulltrúa skv. tilnefningu, sbr. 1. - 2, tölul., skulu héraðslæknir og fræðslustjóri á svæðinu eiga sæti í ráðinu.
Varamenn, sbr. 1.-2. tölul., skulu tilnefndir á sama hátt og aðalmenn. Varamenn skv. 3. tölul. skulu vera staðgenglar viðkomandi embættismanna.
Svæðisráð kýs sér sjálft formann.
II. KAFLI
Stjórnsýsluleg staða svæðisráðs.
2. gr.
Svæðisráð er sjálfstætt fjölskipað ráð.
Svæðisráð hefur eftirlit með því að á vegum svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, svo og sveitarfélaga, sé fötluðum veitt sú þjónusta sem samræmist markmiði laga um málefni fatlaðra. Sama á við um þjónustu á vegum félagasamtaka fatlaðra og sjálfseignarstofnana sem vinna að málefnum fatlaðra.
Um verkefni svæðisráðs vísast að öðru leyti til III. kafla reglugerðar þessarar.
3. gr.
Svæðisráð hefur samvinnu við svæðisskrifstofu eftir því sem við á eðli máls samkvæmt.
III. KAFLI
Hlutverk svæðisráðs.
Tillögur og umsagnir.
1. Svæðisráð gerir tillögur um þjónustu á svæðinu. Sömuleiðis fjallar það um tillögur svæðisskrifstofu um nýja og breytta þjónustu, m.a. í tengslum við fjárlagagerð og veitir félagsmálaráðuneyti umsögn um þær.
2. Svæðisráð fjallar um svæðisáætlanir svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og veitir umsögn um þær til svæðisskrifstofu og félagsmálaráðuneytis.
3. Svæðisráð skal stuðla að samræmingu á þjónustu allra þeirra aðila sem hafa á sinni
könnu framkvæmd þjónustu við fatlaða á svæðinu og skal koma á framfæri ábendingum til viðkomandi aðila, svo og félagsmálaráðuneytis, eftir því sem ástæða þykir til.
4. Svæðisráð veitir svæðisskrifstofu umsögn um það hvernig staðið skuli að ráðstöfun þess fjármagns sem ætlað er til frekari liðveislu samkvæmt heimildum fjárlaga hverju sinni.
Eftirlit.
5. gr.
Svæðiráð skal hafa eftirlit með því að þjónusta, starfsemi og rekstur stofnana fatlaðra séu í samræmi við markmið laganna. Annars vegar er um að ræða faglegt eftirlit og hins vegar fjárhagslegt eftirlit.
Faglegu eftirliti skal m.a. fylgt eftir með því safna saman skýrslum um framkvæmd þjónustu fatlaðra, svo og um markmið hennar, frá viðkomandi aðilum, þ.e. svæðisskrifstofu, sveitarfélögum, félögum fatlaðra og sjálfseignarstofnunum. Jafnframt getur eftirlitið verið fólgið í heimsóknum á vettvang og viðtölum við neytendur þjónustunnar.
Fjárhagslegt eftirlit getur verið framkvæmt með þeim hætti að svæðisráð óskar eftir upplýsingum um fjárreiður stofnana eða annarra framkvæmdaraðila þjónustu. Þá geta svæðisráð óskað eftir því að sjálfseignarstofnanir og stofnanir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka skili ársreikningi, sbr. 53. gr. laga um málefni fatlaðra. Athugasemdir, ef einhverjar eru, skulu sendar félagsmálaráðuneyti.
Almenn réttindagæsla.
6. gr.
Svæðisráð annast almenna réttindagæslu, sbr. 36. gr. laga um málefni fatlaðra. Með almennri réttindagæslu er átt við eftirlit með því að fatlaðir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á bæði almenna þjónustu, svo og sértæka þjónustu sem ætluð er fötluðum eingöngu.
Svæðisráð skal fjalla um kvartanir og athugasemdir sem berast því skriflega. Telji svæðisráð að umkvörtun eigi við rök að styðjast skal það beina þeim tilmælum til viðkomandi aðila að leita leiðréttingar. Beri sú málaleitan ekki árangur skal málið sent til úrlausnar hlutaðeigandi stjórnvalds.
Svæðisráð skulu sérstaklega huga að stöðu þeirra fötluðu manna sem eru sviptir lögræði og fylgjast með því að skipaður sé lögráðamaður.
Telji svæðisráð að gengið sé á réttindi fatlaðs manns við veitingu starfs getur svæðisráðið krafið veitingarvaldhafa um skriflega greinargerð fyrir ákvörðun sinni í sambandi við stöðuveitinguna.
Sérstök réttindagæsla. Trúnaðarmaður fatlaðra.
7. gr.
Hvert svæðisráð skal skipa trúnaðarmann fatlaðra á sínu svæði sem sér um réttindagæslu fatlaðra, sbr. 2. mgr. Leitast skal við að ráða mann með þekkingu á málefnum fatlaðra. Trúnaðarmaður skal ráðinn gegn ákveðinni heildargreiðslu. Skal gerður við hann sérstakur starfssamningur þar sem kveðið er á um þær kröfur sem til hans eru gerðar.
Trúnaðarmaður fatlaðra skal gæta hags þeirra fötluðu sem búa á sambýlum, vistheimilum, heimilum fyrir börn og áfangastöðum, sbr. 3. - 6. tölul. 10. gr. laga um málefni fatlaðra. Hann skal fylgjast með högum fatlaðra á framangreindum heimilum fatlaðra að eigin frumkvæði. Skal hann í því skyni heimsækja heimili fatlaðra reglubundið og kynna sér hagi hinna fötluðu á sviði einkalífs og fjármuna. Forstöðumaður og aðrir starfsmenn skulu veita trúnaðarmanni liðsinni við öflun upplýsinga.
Telji fatlaður einstaklingur að hagur hans séu fyrir borð borinn getur hann upplýst
trúnaðarmann um það og skal trúnaðarmaður þegar í stað kanna málið með viðeigandi hætti. Að könnun lokinni metur trúnaðarmaður hvort málið skuli lagt fyrir svæðisráð. Einnig getur hinn fatlaði sjálfur lagt mál sitt fyrir svæðisráð.
Telji aðstandendur fatlaðra, hagsmunasamtök, eða aðrir sem láta sig hag hins fatlaða varða, að réttur fatlaðra á heimilum fatlaðra sé ekki virtur skal tilkynna trúnaðarmanni það sem kannar málið tafarlaust, sbr. 3. mgr.
Trúnaðarmaður skal kynna svæðisráði reglulega störf sín og þau mál sem til hans hafa borist, svo og afgreiðslu þeirra.
Heimilt er svæðisráði í sérstökum tilfellum að fela trúnaðarmanni önnur verkefni er varða réttindagæslu einstaklinga, enda rúmist þau innan heildargreiðslu skv. 1. mgr. og skerði á engan hátt þá þjónustu sem trúnaðarmanni ber að veita fötluðum á heimilum og stofnunum samkvæmt grein þessari.
Trúnaðarmaður skal auglýsa aðsetur sitt og símanúmer með rækilegum hætti á svæðinu.
Samningar við sveitarfélög.
8. gr.
Svæðisráð, í samvinnu við svæðisskrifstofu, beitir sér fyrir því við sveitarfélög á svæðinu að þau taki á sig aukna ábyrgð á málefnum fatlaðra og undirbýr könnunarviðræður við sveitarstjórnir að höfðu samráði við félagsmálaráðuneyti. Komi í ljós vilji sveitarstjórnarmanna á viðfangsefninu getur svæðisráð óskað eftir því við félagsmálaráðuneyti að hafnar verði formlegar viðræður við hlutaðeigandi sveitarfélög. Skal þá félagsmálaráðuneyti, í samstarfi við svæðisráð og svæðisskrifstofu, hefja könnunarviðræður við sveitarfélögin.
Ágreiningur varðandi umsókn um þjónustu eða búsetu.
9. gr.
Svæðisráð skal fjalla um þann ágreining sem kann að koma upp varðandi umsóknir um þjónustu á þjónustustofnun, sbr. 1.-3. tölul. 9. gr. laga um málefni fatlaðra, svo og um búsetu skv. 2.-6. tölul. 10. gr. laganna. Takist ekki sættir skal svæðisráð vísa málinu til úrlausnar félagsmálaráðuneytis.
IV. KAFLI
Starfshættir svæðisráðs.
10. gr.
Svæðisráð hefur í störfum sínum, sbr. III. kafla, samvinnu við svæðisskrifstofu og fær þaðan þá aðstoð við skrifstofuhald sem það þarf á að halda. Þetta á þó ekki við í þeim tilvikum þar sem slík samvinna getur ekki átt sér stað eðli máls samkvæmt, sbr. eftirlit svæðisráðs með þjónustu á vegum svæðisskrifstofu og stofnana á vegum hennar, svo og réttindagæslu svæðisráðs.
Svæðisskrifstofa veitir svæðisráði fundaaðstöðu sé þess óskað.
Fundargerðir eru tvenns konar. Annars vegar fundargerðir almenns eðlis, þ.e. opinber skjöl, sem veittur skal aðgangur að samkvæmt almennum stjórnsýslureglum. Hins vegar fundargerðir um málefni einstaklinga sem færðar skulu í sérstaka trúnaðarbók. Aðgangur að síðarnefndum fundargerðum er utanaðkomandi aðilum óheimill nema með samþykki viðkomandi einstaklings eða málsvara hans.
V . KAFLI
Fjármál svæðisráða.
11. gr.
Svæðisráð fær úthlutað ákveðinni fjárhæð á fjárlögum hvers árs til útgjalda vegna þóknunar til fulltrúa í svæðisráði annars vegar og útlagðs kostnaðar hins vegar. Svæðisráð gerir árlega áætlun um ráðstöfun fjárins. Fjárhæðin skal vistuð hjá svæðisskrifstofu undir sérstöku fjárlaganúmeri og annast hún útgreiðslur. Útgreiðslur eru því aðeins heimilar að fyrir liggi fyrirmæli og samþykki formanns svæðisráðs.
Félagsmálaráðherra ákveður laun vegna starfa í svæðisráði.
12. gr.
Félagsmálaráðuneyti skal, að fengnum tillögum svæðisráðs, áætla útgjöld vegna starfa trúnaðarmanna fatlaðra, sem ráðnir eru af svæðisráði skv. 7. gr. og staðfesta ráðningarsamning þeirra.
13. gr.
Reglugerð þessi sem sett er með heimild í lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, öðlast gildi þegar í stað.
Félagsmálaráðuneytið, 30. mars 1993.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Þorgerður Benediktsdóttir.