Félagsmálaráðuneyti

471/1997

Reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum. - Brottfallin

  

R E G L U G E R Ð

um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning

hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum.

 

 

1. gr.

                Við gerð eignaskiptayfirlýsingar og útreikning hlutfallstalna skulu samþykktar aðalteikningar húss lagðar til grundvallar.

                Stærðarútreikningar skulu gerðir samkvæmt skráningarreglum Fasteignamats ríkisins og byggingarfulltrúa um mannvirki, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari og íslenskum staðli um flatarmál og rúmmál bygginga, ÍST 50. Sé misræmi á milli skráningarreglnanna og ÍST 50 skulu skráningarreglurnar gilda.

                Allar stærðir, merkingar og aðrar færslur skal færa í sérstaka skráningartöflu samkvæmt skráningarreglum, sbr. 2. mgr., þó að undanskildum dálkum 14 og 15 í skráningartöflunni.           Breytingar á skráningarreglunum öðlast ekki gildi gagnvart reglugerð þessari nema með staðfestingu félagsmálaráðuneytisins.

 

2. gr.

                Í eignaskiptayfirlýsingu skal skipting húss koma glöggt fram og tilgreint hvað tilheyrir hverjum eignarhluta, hvort um sé að ræða séreign, sameign allra eða sameign sumra og hvaða eignarhlutum slík sameign tilheyrir.

                Með eignaskiptayfirlýsingu skulu fylgja grunnmyndir og sniðmyndir af hverri hæð húss, þar sem hvert rými er merkt í samræmi við skráningarreglur, sbr. 2. mgr. 1. gr.

                Jafnframt skal fylgja afstöðumynd er sýni sérnotafleti á lóð og skiptingu lóðar eftir því sem við á.

                Skráningartafla, sbr. 3. mgr. 1. gr., skal fylgja eignaskiptayfirlýsingu.

                Í eignaskiptayfirlýsingu skal greint frá forsendum hennar og þeim gögnum sem hún er byggð á og fylgja henni.

 

3. gr.

                Sérhver eign sem eignaskiptayfirlýsing tekur til skal jafnan uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um skiptingu lóða og húsa.

                Eignaskiptayfirlýsing skal taka til bæði húss og lóðar.

                Ef eignaskiptayfirlýsing tilgreinir rými í húsi eða á lóð eða notkun húss er með öðrum hætti en á samþykktri aðalteikningu verður hún ekki staðfest fyrr en breyting hefur hlotið samþykki byggingarnefndar.

                Komi í ljós verulegar breytingar á notkun eða grunnmynd innan eignarhluta getur byggingarfulltrúi krafist þess að ný aðalteikning verði lögð fyrir byggingarnefnd til samþykktar áður en eignaskiptayfirlýsing er staðfest.

                Í eignaskiptayfirlýsingu skal getið um minni háttar frávik frá samþykktri aðalteikningu innan eignarhluta.

 

4. gr.

                Rúmmál samkvæmt 4., 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar er nettóflatarmál x salarhæð.

                Við ákvörðun hlutfallstalna í fjöleignarhúsi skal byggt á rúmmáli, sbr. 1. mgr., að viðbættu botnflatarmáli svala og sams konar séreignarflata x 1 m. Sama gildir ef þess konar flötur er í sameign sumra.

                Ef um er að ræða opin rými skal eftir því sem við á leggja við rúmmálið brúttórúmmál rýma í lokunarflokki B x 0,6 og botnflatarmál rýma í lokunarflokki C x 1 m. Skilgreiningu lokunarflokka er að finna í skráningarreglum Fasteignamats ríkisins og byggingarfulltrúa, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari.                Hlutfallstölur bílastæða í sameiginlegum bílageymslurýmum skulu vera jafnar.

 

5. gr.

                Hlutfallstölur í sameign sumra skal reikna sem hlutfall rúmmáls viðkomandi séreignarhluta af heildarrúmmáli séreigna sem eiga hlutdeild í slíkri sameign.

                Þegar sameignarrými tilheyrir öllum eignum í matshluta telst það sameign allra í matshlutanum, annars telst það sameign sumra.

 

6. gr.

                Hlutfallstölur fyrir sameign allra skal reikna sem hlutfall rúmmáls viðkomandi séreignarhluta af heildarrúmmáli séreigna.

                Ef í fjöleignarhúsi er sameign sumra, skal fyrst reikna hlutdeild viðkomandi séreignarhluta í rúmmáli sameignar sumra. Það rúmmál skal leggja við rúmmál viðkomandi séreignarhluta og síðan reikna hlutfallstölur fyrir sameign allra samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar.

 

7. gr.

Við útreikning hlutfallstalna í húsi sem er myndað af fleiri en einum matshluta skal við útreikning hlutfallstölu í sameign húss fyrst reikna hlutfallstölu hvers matshluta og leggja til grundvallar brúttórúmmál matshluta og eftir því sem við á brúttórúmmál rýma í lokunarflokki B x 0,6 og botnflatarmál rýma í lokunarflokki C x 1 m. Svalir eru ekki reiknaðar með.

                Hlutfallstala hverrar eignar finnst sem hlutfallstala matshlutans x hlutfallstala eignar í matshluta.

 

8. gr.

Við útreikning hlutfallstalna í lóð sem á standa fleiri en einn matshluti skal fyrst reikna hlutfallstölu matshluta í lóð og leggja til grundvallar brúttórúmmál matshluta og eftir því sem við á brúttórúmmál rýma í lokunarflokki B x 0,6 og botnflatarmál rýma í lokunarflokki C x 1 m. Svalir eru ekki reiknaðar með.

                Hlutfallstala hverrar eignar í lóð finnst sem hlutfallstala matshlutans x hlutfallstala eignar í matshluta.

                Sérnotafletir í lóð hafa ekki áhrif á hlutfallstölur í sameiginlegri lóð.

 

9. gr.

                Þar sem ekki eru sérstakir mælar til þess að mæla hita- og rafmagnsnotkun í sameign skal reikna skiptingu kostnaðar með eftirfarandi hætti:

 

                Hitakostnaður.

a)             Hlutdeild sameignar allra í hitakostnaði skal reikna sem hlutfall brúttórúmmáls upphitaðs rýmis í sameign allra af brúttórúmmáli upphitaðs rýmis í því mannvirki eða eign sem hitamælir er fyrir. Þannig reiknuðum hitakostnaði sameignar allra skal skipta jafnt á allar eignir.

b)            Hlutdeild sameignar sumra í hitakostnaði skal reikna sem hlutfall brúttórúmmáls upphitaðs rýmis í sameign sumra af brúttórúmmáli upphitaðs rýmis í því mannvirki eða eign sem hitamælir er fyrir. Þannig reiknuðum hitakostnaði sameignar sumra skal skipta jafnt milli þeirra eigna sem sameign sumra tilheyrir.

c)             Þeim hitakostnaði sem fellur á séreignir skal skipta milli þeirra í réttu hlutfalli við brúttórúmmál upphitaðs rýmis þeirra.

 

                Rafmagnskostnaður.

                Hátti svo til að rafmagn í sameign sé á mæli tiltekinnar séreignar, skal áætla aflnotkun og nýtingartíma tækja og búnaðar sem nýta rafmagn í sameign og út frá þannig fundnum kwh fjölda reikna rafmagnskostnað sameignar. Þannig reiknuðum rafmagnskostnaði sameignar skal skipta jafnt milli þeirra eigna sem sameignin tilheyrir. Á sama hátt skal fara með hliðstæð tilvik, svo sem ef rafmagn í sameign sumra og sameign allra er á sama mæli.

 

10. gr.

                Ef matshlutar eru fleiri en einn á lóð er heimilt að gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir hvern matshluta að því tilskildu að hún feli í sér hlutfallstölu matshlutans í sameign allra.

 

11. gr.

                Sé um að ræða matshluta eða hús sem ekki telst fjöleignarhús en fleiri en einn nýtir, skal ef þurfa þykir gera skiptayfirlýsingu til að skapa grundvöll að skiptingu réttinda og skyldna afnotahafa þess.

                Skal slík skiptayfirlýsing gerð samkvæmt þeim fyrirmælum sem sett eru í reglugerð þessari og lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 með síðari breytingum.

 

12. gr.

                Í eignaskiptayfirlýsingu skal geta um allar kvaðir á séreign, sameign og lóð. Sama gildir ef einstökum eigendum er veittur sérstakur réttur yfir sameign.

 

13. gr.

                Í eignaskiptayfirlýsingu skal koma fram nafn og kennitala þess eða þeirra sem skjalið gera og útreikning annast. Með áritun sinni ábyrgjast þeir að eignaskiptayfirlýsingin, forsendur hennar og upplýsingar sem hún greinir séu í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 24/1994, reglugerðar þessarar, skráningarreglur og samþykktar aðalteikningar.

 

14. gr.

                Byggingarfulltrúi viðkomandi umdæmis skal staðfesta allar eignaskiptayfirlýsingar. Getur hann krafist frekari skýringa og útreikninga ef nauðsyn krefur.     Í áritun byggingarfulltrúa felst staðfesting á því að yfirlýsingin sé í samræmi við samþykktar aðalteikningar, lög um fjöleignarhús nr. 26/1994, reglugerð þessa og ákvæði byggingarreglugerðar sem við geta átt.

                Eignaskiptayfirlýsingin skal afhent byggingarfulltrúa í þríriti, eitt eintakið varðveitir hann, eitt eintak er afhent eiganda til þinglýsingar og þriðja eintakið skal byggingarfulltrúi senda Fasteignamati ríkisins. Skráningartöflu skal að auki skila til byggingarfulltrúa á tölvutæku formi samkvæmt forriti Fasteignamats ríkisins.

 

15. gr.

                Ef þinglýst eignarheimild er ekki í samræmi við samþykktar aðalteikningar skal sækja um leyfi byggingarnefndar til afmörkunar eignarhlutans áður en eignaskiptayfirlýsing fæst staðfest.           

 

 

 

16. gr.

                Reglugerð þessi sem er sett með heimild í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 538/1995, um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum.

 

Félagsmálaráðuneytinu, 16. júlí 1997.

 

F. h. r.

Sigríður Lillý Baldursdóttir

 

                                                                                                                _________________

Elín Blöndal.

 

Fylgiskjal: Sjá stjórnartíðindi nr.64 bls. 1005 - 1021.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica