Heilbrigðisráðuneyti

1440/2024

Reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem ekki hefur verið samið um.

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er mælt fyrir um heimild til þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem ekki hefur verið samið um skv. IV. kafla laga um sjúkra­tryggingar, nr. 112/2008. Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

Reglugerðin tekur til þjónustu sérgreinalækna sem reka eigin starfsstofur utan sjúkrahúsa og tilgreind er í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, sbr. 2. gr. Skilyrði er að sérgreinalæknar starfi að öðru leyti á grundvelli samninga við Sjúkratryggingar Íslands.

 

2. gr.

Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að taka þátt í kostnaði vegna þjónustu sérgreinalækna, sam­kvæmt ákvæðum reglugerðarinnar, á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar.

Heimildin gildir frá því að reglugerðin öðlast gildi til og með 31. maí 2025 og er háð því að rekstur læknis uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lögum um sjúkratryggingar. Sjúkra­tryggingar Íslands ákvarða hvort læknir uppfylli kröfur og skilyrði greinarinnar.

 

3. gr.

Endurgreiðsla til sjúkratryggðra og kostnaðarhlutdeild þeirra.

Sjúkratryggingar Íslands greiða 10% af heildarverði samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar, sbr. 2. gr., en kostnaðarhluti sjúkratryggðs skal vera 90%. Ef um er að ræða börn, aldraða eða öryrkja greiða Sjúkratryggingar Íslands 15% af heildarverði samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar en sjúkra­tryggður 85%.

Kostnaðarhluti sjúkratryggðs fyrir þau verk sem tilgreind eru í gjaldskrá sjúkratrygginga mynda ekki afsláttarstofn skv. gildandi reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heil­brigðisþjónustu.

 

4. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, sbr. einnig 2. mgr. 19. gr. og 55. gr. laganna, öðlast þegar gildi.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 3. desember 2024.

 

Willum Þór Þórsson.

Sigurður Kári Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica