1. gr.
Við 9. gr. reglugerðarinnar bætist við eftirfarandi málsgrein:
Matvælastofnun er heimilt að framkvæma eftirlit skv. 1. mgr. í einangrunarstöð, sem fengið hefur leyfi til rekstursins skv. reglugerð nr. 201/2020, innan þriggja daga frá komu dýrs til landsins. Matvælastofnun getur heimilað starfsmönnum einangrunarstöðvar þar sem á að einangra dýrið skv. 11. gr. reglugerðar þessarar að sækja dýrið á innflutningsstað. Þá skal viðkomandi einangrunarstöð sinna auðkennaskoðun á dýrinu og ganga úr skugga um að dýrið hafi innflutningsleyfi og öll tilskilin vottorð fylgi. Heimild þessi er bundin því skilyrði að fyrir hendi sé skriflegt samkomulag milli Matvælastofnunar og einangrunarstöðvarinnar um fyrirkomulagið og skyldur aðila. Matvælastofnun skal setja verklagsreglur um móttöku dýra og auðkennaskoðun á vegum einangrunarstöðva.
2. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra, lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, og lögum nr. 55/2013 um velferð dýra.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Matvælaráðuneytinu, 31. október 2024.
Bjarni Benediktsson.
Emilía Madeleine Heenen.