Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

1262/2007

Reglugerð um vistunarmat. - Brottfallin

I. KAFLI

Vistunarmatsnefndir.

1. gr.

Starfssvæði vistunarmatsnefnda.

Í hverju heilbrigðisumdæmi, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, skal starfa vistunarmats­nefnd. Kostnaður af starfi nefndanna greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.

Skipan vistunarmatsnefnda.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar þriggja manna vistunarmatsnefnd í hverju heilbrigðisumdæmi til fimm ára í senn til að meta þörf einstaklinga fyrir varanlega vistun í hjúkrunarrými. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna og setur honum erindis­bréf. Nefndirnar skulu skipaðar lækni með sérmenntun á sviði öldrunar- eða heimilis­lækninga, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu og félagsráðgjafa með þekkingu á félagslegri þjónustu við aldraða. Ráðherra skipar einnig þrjá varamenn sem uppfylla sömu menntunarskilyrði og aðalmenn og er heimilt að kalla þá tímabundið til starfa eftir því sem þörf krefur. Félagsráðgjafar vistunarmatsnefnda skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu félagsmálaráðherra.

3. gr.

Verkefni vistunarmatsnefnda.

Verkefni vistunarmatsnefnda í hverju heilbrigðisumdæmi felast í því að leggja faglegt mat á þörf fólks, óháð aldri, fyrir varanlega vistun í hjúkrunarrými eins og þau eru skilgreind í lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu.

Vistunarmatsnefndir skulu í störfum sínum hafa að leiðarljósi þá stefnu að fólki skuli gert kleift að búa á eigin heimili utan stofnana eins lengi og unnt er með viðeigandi heil­brigðis- og félagsþjónustu.

4. gr.

Umsjón landlæknis.

Landlæknir hefur yfirumsjón með framkvæmd vistunarmats á landsvísu. Umsjónin felur í sér leiðbeiningar til vistunarmatsnefnda um upplýsingaöflun og gerð vistunarmats samkvæmt skilgreiningum þess. Landlæknir fer einnig með faglegt eftirlit með störfum vistunarmatsnefnda og hefur umsjón með rekstri, viðhaldi og þróun rafrænnar vistunar­skrár.

Landlæknir skal halda reglulega samráðs- og fræðslufundi með vistunarmatsnefndum um framkvæmd vistunarmats.

II. KAFLI

Forsendur og framkvæmd vistunarmats.

5. gr.

Mat á vistunarþörf.

Áður en einstaklingur er vistaður í hjúkrunarrými, sbr. 16. gr. laga um heilbrigðis­þjónustu, skal fara fram mat á vistunarþörf, þ.e. vistunarmat samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

6. gr.

Forsendur fyrir gerð vistunarmats.

Forsendur fyrir gerð vistunarmats eru að fyrir liggi skrifleg beiðni, sbr. 7. gr.

7. gr.

Beiðni um vistunarmat.

Telji einstaklingur að hann þurfi að vistast til langdvalar í hjúkrunarrými skal hann senda skriflega beiðni um vistunarmat til vistunarmatsnefndar í því heilbrigðisumdæmi þar sem hann á lögheimili. Eyðublöð fyrir beiðni um vistunarmat skulu gefin út af landlæknis­embættinu.

Beiðni um vistunarmat skal því aðeins lögð fram að félagsleg heimaþjónusta, heima­hjúkrun og önnur úrræði sem eiga að styðja fólk til dvalar í heimahúsi séu fullreynd.

Undirrituð beiðni um vistunarmat felur í sér heimild til vistunarmatsnefndar um að afla upplýsinga um viðkomandi einstakling frá veitendum heilbrigðis- og félagsþjónustu og frá svæðisskrifstofu málefna fatlaðra eftir atvikum. Einnig er með því fallist á að niðurstöður vistunarmatsnefndar verði sendar þessum sömu aðilum.

Beiðni um vistunarmat skal send vistunarmatsnefnd í því heilbrigðisumdæmi þar sem viðkomandi á lögheimili. Ef meta skal þörf einstaklings í dvalarrými fyrir flutning í hjúkr­unar­rými skal beiðni um vistunarmat send vistunarmatsnefnd í heilbrigðisumdæmi stofn­unarinnar þar sem viðkomandi býr.

Miða skal við að alla jafna líði ekki meira en sex vikur frá því að vistunarmatsnefnd berst beiðni um vistunarmat þar til að niðurstaða liggur fyrir.

8. gr.

Flutningur af sjúkrahúsi í varanlega vistun.

Hafi sjúklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar og fyrirsjáanlegt er að hann þurfi á varanlegri vist í hjúkrunarrými að halda skal fara fram mat á vistunarþörf hans. Um framkvæmd matsins fer samkvæmt 7. gr. og skal undirrituð beiðni um vistunarmat send vistunarmatsnefnd í því heilbrigðisumdæmi þar sem viðkomandi á lögheimili.

9. gr.

Ábyrgð vistunarmatsnefnda.

Vistunarmatsnefndir eru ábyrgar fyrir mati á vistunarþörf íbúa í því heilbrigðisumdæmi sem þeir starfa. Ábyrgðin felur m.a. í sér að afla allra áskilinna gagna og upplýsinga sbr. 10. gr. og tryggja að fagleg sjónarmið ráði ferðinni við matsgerðina. Vistunarmatsnefndir bera ábyrgð á rafrænni skráningu vistunarmatsins og að meðferð og varðveisla gagna sem vistunarmatið byggist á samræmist lögum um persónuvernd og meðferð persónu­upplýsinga nr. 77/2000. Vistunarmatsnefndir bera einnig ábyrgð á að kynna niður­stöður vistunarmats þeim sem málið varðar, sbr. 11. gr. Þeir sem sinna vistunar­mati eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu í samræmi við 12. og 13. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

10. gr.

Framkvæmd vistunarmats.

Þegar vistunarmatsnefnd hefur borist beiðni um vistunarmat sbr. 7. gr. skal nefndin afla skriflegra upplýsinga frá heimahjúkrun, félagsþjónustu og eftir atvikum svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, um aðstæður viðkomandi einstaklings og kanna gaumgæfilega hvort öll félagsleg og heilsufarsleg úrræði til dvalar í heimahúsi hafi verið fullreynd. Nýta skal upplýsingar úr matskerfinu RAI-Home Care þar sem það er í notkun. Auk þessa skal vist­unarmatsnefndin afla læknabréfa um viðkomandi einstakling frá hlutaðeigandi læknum og sjúkrastofnunum. Ef um heilabilaðan einstakling er að ræða skal nefndin afla stað­festrar greiningar á því.

Komist vistunarmatsnefndin að þeirri niðurstöðu að fyrrnefnd úrræði hafi ekki verið fullreynd og að vistun í hjúkrunarrými sé ekki tímabær skal sú niðurstaða skráð í raf­ræna vistunarskrá og hún kynnt sbr. 11. gr.

Skráning upplýsinga í rafræna vistunarmatsskrá skal gerð í samræmi við notenda­handbók sem fylgir matskerfinu. Vistunarmatsnefndin aflar upplýsinganna með sam­vinnu við starfsfólk félagsþjónustu og þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem þekkja til við­komandi einstaklings. Nefndin er ábyrg fyrir skráningu upplýsinganna og ber að stað­festa réttmæti þeirra.

11. gr.

Kynning á niðurstöðum vistunarmats.

Telji vistunarmatsnefnd að vistun í hjúkrunarrými sé ekki tímabær og að önnur úrræði hafi ekki verið fullreynd skal sú niðurstaða kynnt skriflega fyrir viðkomandi einstaklingi með rökstuðningi nefndarinnar. Jafnframt skal senda afrit til heimilislæknis, heimahjúkrunar, félagsþjónustu og eftir atvikum til svæðisskrifstofu málefna fatlaðra.

Ef einstaklingur er metinn í þörf fyrir vistun í hjúkrunarrými skal niðurstaðan kynnt honum skriflega og afrit sent heimilislækni, heima­hjúkrun, félagsþjónustu og eftir atvikum svæðisskrifstofu málefna fatlaðra.

Ef hlutaðeigandi einstaklingur sættir sig ekki við framgang vistunarmatsins eða niður­stöðu þess getur hann vísað málinu til umsagnar landlæknis.

12. gr.

Gildistími vistunarmats og endurmat á vistunarþörf.

Gildistími vistunarmats samkvæmt reglugerð þessari eru níu mánuðir frá staðfestingu þess. Fari ekki fram endurmat innan níu mánaða fellur vistunarmat viðkomandi einstaklings úr gildi. Þegar vistunarmat fellur úr gildi skal vistunarmatsnefnd kynna það fyrir þeim sem hlut eiga að máli með óyggjandi hætti og kanna hvort þörf sé fyrir endur­mat.

Gildistími vistunarmats sem gert hefur verið fyrir gildistöku þessarar reglugerðar er 18 mánuðir frá staðfestingu þess.

13. gr.

Ákvörðun um vistun.

Stjórn stofnunar tekur ákvörðun um vistun einstaklings í hjúkrunarrými í samræmi við niðurstöður vistunarmatsnefndar í sínu heilbrigðisumdæmi nema sérstakir þjón­ustusamningar kveði á um annað. Þegar hjúkrunarrými losnar á stofnun skal vistunar­mats­nefnd veita stofnuninni aðgang að upplýsingum um þrjá einstaklinga sem óskað hafa eftir að vistast þar og eru metnir í mestri þörf umsækjenda fyrir hjúkrunar­rými samkvæmt niðurstöðum vistunarmatsnefndar. Ákvörðun um þessa þrjá einstak­linga skal byggð á stigafjölda sam­kvæmt vistunarmati. Einnig skal höfð hliðsjón af því hvort viðkomandi hafi legið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án möguleika á útskrift nema í hjúkrunar­rými eða hvort viðkomandi hafi beðið lengi í mikilli þörf fyrir vistun.

14. gr.

Tilkynning um vistun.

Þegar stjórn stofnunar hefur tekið ákvörðun um vistun einstaklings í hjúkrunarrými sbr. 13. gr. skal hún tilkynna það hlutaðeigandi einstaklingi og jafnframt tilkynna um vistunina til vistunarmatsnefndar í viðkomandi heilbrigðisumdæmi. Vistunarmatsnefnd skal senda öll gögn sem varða viðkomandi einstakling til stofnunarinnar þar sem hann vistast og skulu þau geymd í sjúkraskrá hans.

15. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 15. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2008. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 791/2001, um þjónustuhóp aldraðra og vistunarmat aldraðra.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 21. desember 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica