Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

613/1997

Reglugerð um tryggingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um tryggingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala.

 

1. gr.

                Fasteignasala er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans.

                Trygging skal nema minnst 5.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarfjárhæð tryggingabóta innan hvers vátryggingarárs skal nema minnst 10.000.000 kr. Tryggingafjárhæðir skulu miðast við neysluvísitölu til verðtryggingar 180,3 og breytast 1. október ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni.

                                Tryggingin skal taka til starfsemi fasteignasala hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins. Til að fullnægja tryggingaskyldu skal fasteignasali kaupa vátryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða leggja fram samsvarandi ábyrgð, sem gefin er út af viðskiptabanka eða sparisjóði, enda veiti hún sambærilega vernd að mati dómsmálaráðuneytisins.

 

2. gr.

                Trygging skal ná til allra tjónsatvika sem verða á vátryggingartímanum enda hafi skaðabótakrafa verið tilkynnt vátryggingafélagi í síðasta lagi 12 mánuðum eftir lok vátryggingartímans. Sama á við um ábyrgðir sem gefnar eru út af viðskiptabanka eða sparisjóði.

 

3. gr.

                Heimilt er að áskilja sjálfsáhættu tryggingataka í tryggingaskilmálum en slíkt má ekki skerða rétt þriðja manns til bóta úr hendi vátryggingafélags eða viðskiptabanka eða sparisjóðs.

                Tilhögun eigin áhættu skal getið í tryggingaskilmálum en þó er heimilt að geta eigin áhættu í skírteini eða iðgjaldskvittun hafi Vátryggingaeftirlitinu áður verið tilkynnt um slíka ákvörðun.

 

4. gr.

                                Falli vátrygging eða bankaábyrgð úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag, viðskiptabanki eða sparisjóður tilkynna það tryggingartaka og dómsmálaráðuneytinu þegar í stað. Vátryggingartíma eða bankaábyrgðartíma telst ekki lokið fyrr en liðnar eru átta vikur frá því að vátryggingafélagið, viðskiptabankinn eða sparisjóðurinn tilkynnti tryggingartaka og ráðuneytinu um tryggingarslit. Að þeim tíma liðnum telst löggilding fasteignasalans fallin úr gildi nema önnur fullnægjandi trygging hafi verið sett, enda hafi fasteignasala verið gefinn kostur á að tjá sig um niðurfellingu löggildingarinnar.

                Vátryggingafélögum, viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að endurkrefja hvern þann sem veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi.

 

5. gr.

                Þar sem tveir eða fleiri fasteignasalar starfa saman og reka fasteignasölu undir sama firmanafni og bera óskipta bótaábyrgð á störfum hvors/hvers annars geta þeir fullnægt tryggingaskyldu sinni með því að leggja fram sameiginlega tryggingu enda komi nöfn þeirra beggja/allra fram í tryggingarskjölum og á skjölum og í auglýsingum fasteignasölunnar. Skal þá lágmarksfjárhæð hækka um a.m.k. 10% fyrir hvern fasteignasala umfram einn.

 

6. gr.

                Ef fasteignasali hefur með höndum lögmannsstörf samhliða fasteignasölu, og hefur ábyrgðartryggingu sem slíkur, má telja hann hafa með því fullnægt tryggingaskyldu sinni ef lágmarksfjárhæð þeirrar tryggingar er jafn há eða hærri en tryggingar skv. reglugerð þessari og viðkomandi vátryggingafélag hafi staðfest að umrædd trygging taki jafnt til lögmannsstarfa og fasteignasölustarfsemi.

 

7. gr.

                Allir tryggingarskilmálar sem reglugerð þessi tekur til skulu látnir dómsmálaráðuneyti og Vátryggingaeftirliti í té áður en þeir eru boðnir fasteignasölum.

 

8. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5. og 17. grein laga nr. 54/1997 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um sama efni nr. 520/1987, sbr. reglugerð nr. 161/1994.

 

Ákvæði til bráðbirgða.

                Trygging sem fasteignasali hefur í gildi við gildistöku reglugerðar þessarar má halda gildi sínu út umsamið tryggingartímabil. Þegar ný trygging er tekin samkvæmt reglugerð þessari skal fasteignasali afhenda dómsmálaráðuneytinu skilríki því til staðfestingar.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 3. nóvember 1997.

 

Þorsteinn Pálsson.

Sigrún Jóhannesdóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica