Fjármála- og efnahagsráðuneyti

1160/2024

Reglugerð um bifreiðamál ríkisins.

1. gr.

Hlutverk.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur yfirumsjón með bifreiðaeign ríkisins og bifreiðanotkun þess eftir því sem nánar segir í reglugerð þessari. Tekur hún til ríkisaðila í A1- og A2-hluta.

 

2. gr.

Gildissvið.

Reglur um bifreiðanotkun á vegum ríkisins gilda um bifreiðar í eigu ríkisins og rekstrarleigu­bifreiðar, sbr. 3.-4. gr., leigðar bifreiðar starfsmanna ríkisins, sbr. 5 gr., og bílaleigubíla og leigubíla, sbr. 6. gr.

Sérstakar reglur gilda um bifreiðar sem ríkið leggur ráðherrum til, sbr. 7. gr.

 

3. gr.

Kaup og notkun bifreiða ríkisins.

Þegar hagkvæmt er kaupir ríkið bifreiðar til að sinna vissum verkefnum stofnana ríkisins og rekur þær. Rekstrarleiga bifreiða er heimil þegar um tímabundin verkefni er að ræða.

Skulu bifreiðarnar greinilega merktar viðkomandi ríkisstofnun eða sem ríkisbifreiðar og eru einkaafnot starfsmanna af þeim óheimil.

Að loknum starfsdegi skulu slíkar bifreiðar skildar eftir í vörslu stofnunar. Þó er forstöðu­mönnum stofnunar heimilt að leyfa starfsmanni að hafa slíka bifreið í sinni vörslu utan vinnutíma þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Skal sú ákvörðun vera tímabundin, skrifleg og rökstudd af forstöðumanni. Fyrir slíkri ákvörðun þurfa að liggja sterk hagkvæmnisjónarmið stofnunar.

 

4. gr.

Fyrirkomulag kaupa og sölu ríkisins á bifreiðum.

Um kaup á bifreiðum gilda lög um opinber innkaup, nr. 120/2016. Kaup á fólksbílum skulu fara fram í sameiginlegum innkaupum á vegum Fjársýslunnar, sbr. reglugerð um opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum, nr. 1330/2023. Fjársýslan skal reglubundið birta skýrslu um framgang kaupanna og kalla eftir atvikum eftir skýringum stofnana.

Fjársýslan sér um að sala ríkisbifreiða fari eftir þeim viðmiðum sem gilda um ráðstöfum eigna ríkisins. Fjársýslunni er heimilt að fela löggiltri bifreiðasölu eða uppboðsaðila að annast sölu bifreiða sem ætlunin er að selja.

 

5. gr.

Notkun einkabifreiða.

Í undantekningartilvikum er yfirmanni heimilt að óska þess að ríkisstarfsmaður ferðist á eigin bifreið. Fyrir bifreiðaafnot skal greitt leigugjald samkvæmt þar til gerðri akstursskýrslu og kíló­metra­gjaldi sem ferðakostnaðarnefnd, samkvæmt kjarasamningum fjármála- og efnahags­ráðuneytis, BSRB og BHM, ákveður hverju sinni.

Ökumaður bifreiðar skal sjá um að færa akstursskýrslu þegar að loknum akstri. Ökumaður undir­ritar akstursskýrsluna, en forstöðumaður stofnunar eða umboðsmaður hans staðfestir akstur­inn og nauðsyn hans.

 

6. gr.

Leiga ríkisins á bifreiðum.

Fjársýslan annast gerð rammasamninga fyrir hönd ríkisstofnana um leigu bifreiða við bílaleigur og starfsstöðvar leigubifreiða.

Á reikningi frá bílaleigum sem skilað er til greiðslu, skulu koma fram, auk dagsetningar og undir­skriftar, upplýsingar um aksturserindi, vegalengdir og ákvörðunarstaði, annað hvort skráðar á reikning­inn sjálfan eða sérstakt fylgiskjal með honum.

 

7. gr.

Bifreiðar sem ríkið leggur ráðherrum til.

Ríkið skal leggja ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna og til aksturs frá heimili að vinnustað. Bifreiðin skal vera sérútbúin með öryggiskerfi og staðsetningar­búnaði og vera í eigu og rekstri ríkisins. Slíkri bifreið skal að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðar­stjóra sem sinnir jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra.

Ákvæði 3. gr. um merkingar ríkisbifreiða gilda ekki um bifreiðar ráðherra en þær skulu í stað þess auðkenndar sérstaklega með íslenska skjaldarmerkinu sem fest er á skráningarplötur þeirra.

Fjársýslan annast kaup ráðherrabifreiða, sbr. 4. gr., og sjá um ráðstöfun þeirra á grundvelli reglu­gerðar um ráðstöfun eigna ríkisins. Slíkar bifreiðar skal ávallt auglýsa opinberlega til sölu nema þær séu teknar sem greiðsla vegna kaupa á nýrri bifreið

 

8. gr.

Gildistaka

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sbr. 122. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi en við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 1281/2014 um bifreiðamál ríkisins.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 4. október 2024.

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Þorsteinn Júlíus Árnason.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica