Innanríkisráðuneyti

1129/2014

Reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar. - Brottfallin

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um sameiginlegar kröfur um veitingu flugleiðsöguþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins í þeim tilgangi að efla öryggi og skilvirkni.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til flugleiðsöguþjónustu sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falin þjónusta í samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

3. gr.

Lögbært yfirvald.

Lögbært yfirvald samkvæmt reglugerð þessari er Samgöngustofa. Stofnunin annast tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli reglugerðarinnar.

4. gr.

Rekstrarfyrirmæli.

Rekstrarfyrirmæli í formi tilskipunar um öryggi skal gefa út í samræmi við 1. mgr. 84. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

5. gr.

Leiðbeiningarefni.

Víða í innleiddum reglugerðum skv. 6. gr. er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðaukum við Chicago-samninginn og leiðbeinandi efnis útgefins af Alþjóðaflugmála­stofnuninni sem og krafna og leiðbeiningarefnis Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (EUROCONTROL).

Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja skilyrðum þeim sem í reglugerð þessari er lýst eða er þeim kröfum til frekari uppfyllingar. Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Samgöngustofu. Til að samþykkja aðferðir sem jafngildar, þarf umsækjandi að sýna á fullnægjandi hátt fram á að flugöryggi skerðist ekki með sérfræðiáliti sem stofnunin metur viðunandi.

6. gr.

Ábyrgðarmaður.

Ábyrgðarmaður (accountable manager), ber ábyrgð á veitingu flugleiðsöguþjónustu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Öryggisstjóri hjá veitanda flugumferðarþjónustu og veitanda fjarskipta-, leiðsögu- eða kögunarþjónustu ber ábyrgð á öryggisstjórnunarkerfi skv. 3. gr. viðauka II við fram­kvæmdar­reglugerð (ESB) nr. 1035/2011.

Ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri skulu vera sérstakir trúnaðarmenn Sam­göngu­stofu hjá þjónustuveitanda og hljóta til þess viðurkenningu stofnunarinnar sam­kvæmt umsókn. Skal mat Flugmálastjórnar á viðurkenningu grundvallast á for­sendum um menntun, kunnáttu og reynslu.

Ef ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri láta af störfum hjá þjónustuveitanda eða hyggjast gera það, ber að tilkynna Samgöngustofu um það og sækja um samþykki á eftirmanni. Starfsemi þjónustuveitanda má ekki halda áfram án leyfis Samgöngustofu fyrr en nýr ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri hafa hafið störf að nýju.

Tilnefna má staðgengla ábyrgðarmanns daglegs rekstrar og öryggisstjóra. Leita ber viðurkenningar Samgöngustofu fyrirfram á hlutaðeigandi.

Nú telur Samgöngustofa að ábyrgðarmaður daglegs rekstrar og öryggisstjóri uppfylli ekki lengur það traust sem honum er áskilið og skal stofnuninni þá heimilt að draga viður­kenningu sína til baka til bráðabirgða en að fullu telji stofnunin forsendur brostnar fyrir viður­kenningu. Samgöngustofa skal eiga endanlegt mat á viðurkenningu á trúnaðar­mönnum.

7. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB), með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1035/2011 frá 17. október 2011 um sameiginlegar kröfur vegna veitingar flugleiðsöguþjónustu og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 482/2008 og (ESB) nr. 691/2010, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 231 frá 13. desember 2013, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 4 frá 23. janúar 2014, bls. 403.
  2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 482/2008 frá 30. maí 2008 um kerfi til að tryggja öryggi hugbúnaðar, sem veitendur flugleiðsöguþjónustu munu taka í notkun og um breytingu á II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 2096/2005 sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, dags. 15. október 2009, á bls. 18, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 8/2009 frá 5. febrúar 2009.

8. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Samgöngustofu sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

9. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. mgr. 57. gr. a, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 2015. Um leið fellur reglugerð nr. 631/2008, um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, úr gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eftirlitsskyldir aðilar sem þegar hafa fengið útgefin starfsleyfi á grundvelli fyrri heimilda halda því í samræmi við ákvæði 11. gr. reglugerðar skv. a-lið 5. gr.

Innanríkisráðuneytinu, 18. desember 2014.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica