Til þess að geta öðlast réttindi til starfa á eigin ábyrgð samkvæmt lögum nr. 109/2000 um starfsréttindi tannsmiða skulu tannsmiðir sækja námskeið, er iðnaðarráðherra metur fullnægjandi, eða afla menntunar með sambærilegum hætti. Haft skal samráð við sérfróða aðila um umfang námskeiða ef nauðsyn krefur. Iðnaðarráðherra gerir kröfur um fullnægjandi tímasókn og frammistöðu á námskeiðum.
Bæði meistarar og sveinar í tannsmíði geta sótt námskeið þessi en meistararéttindi eru skilyrði fyrir veitingu starfsréttinda af hálfu iðnaðarráðherra. Samráð skal haft við Tannsmiðafélag Íslands og eftir atvikum aðra aðila um veitingu réttindanna ef nauðsyn krefur.
Menntun, sem aflað hefur verið, má iðnaðarráðherra meta sem ígildi námskeiða og hluta þeirra, svo og starfsreynslu, enda sé, eftir því sem við á, leitað samráðs við viðkomandi aðila um slíkt mat.
Áður en tannsmiðir með réttindi hefja á eigin ábyrgð smíði tanngóma og vinna þá m.a. að töku móta og mátun skal viðskiptavinur framvísa vottorði læknis eða tannlæknis um að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni viðkomandi viðskiptavinar.
Ef tannsmiðir með réttindi smíða tannparta á eigin ábyrgð og vinna þá m.a. að töku móta og mátun skulu þeir fara eftir reglum sem iðnaðarráðherra setur þess efnis að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 109/2000 um starfsréttindi tannsmiða skuli unninn í samstarfi við tannlækni. Gengið skal frá samstarfi tannsmiðs og tannlæknis um smíði tannparta skriflega áður en eiginleg smíði hefst. Þarf þá ekki sérstakt heilbrigðisvottorð enda hafi tannlæknir skoðað viðskiptavin. Eiginleg smíði tannparts telst eigi hafin við það eitt að viðskiptavinur leiti til tannsmiðs. Landlæknir skal hafa eftirlit með samstarfi um smíði tannparta, sbr. 2. málsl. 3. gr. og 5. gr. laganna.
Tannsmiðir með réttindi skulu fullnægja frekari skilyrðum sem sett kunna að vera í öðrum lögum en lögum um starfsréttindi tannsmiða.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. gr. laga nr. 109/2000 um starfsréttindi tannsmiða, öðlast þegar gildi.