Umhverfisráðuneyti

860/2000

Reglugerð um amalgammengað vatn og amalgammengaðan úrgang frá tannlæknastofum. - Brottfallin

Felld brott með:

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um meðhöndlun á amalgammenguðu vatni og amalgammenguðum úrgangi frá tannlæknastofum.


2. gr.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Amalgam: málmblendi sem inniheldur kvikasilfur. Hér er einkum átt við silfuramalgam, þ.e.a.s. málmblendi úr silfri og kvikasilfri.

Amalgammengað: lýsing á efni eða hlut sem inniheldur amalgam og hefur ekki verið hreinsað í viðurkenndum hreinsibúnaði fyrir amalgam. Enn fremur efni eða hlutur sem inniheldur amalgam og getur valdið skaða á umhverfinu og/eða er flokkað sem amalgamspilliefni.


3. gr.

Tannlæknastofur og aðrir aðilar sem losa amalgam í vatn, skulu nota viðurkenndan hreinsibúnað, sbr. 3. mgr., til að hreinsa amalgam úr vatninu áður en það berst í fráveitu

Halda skal hreinsibúnaði fyrir amalgam í góðu ástandi, tæma hann reglulega og gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hann virki ávallt eins og til er ætlast.

Með viðurkenndum hreinsibúnaði er átt við hreinsibúnað sem uppfyllir a.m.k. kröfur sem koma fram í íslenskum staðli um amalgamskiljur. Þeim sem selja eða flytja inn hreinsibúnað er skylt að senda staðfestingu til Hollustuverndar ríkisins á að búnaðurinn uppfylli framangreindar kröfur.


4. gr.

Allur amalgammengaður úrgangur, þ.m.t. amalgammengaðar lagnir, amalgammengaðir vökvar eða eðja og menguð ílát undan amalgami, telst til spilliefna sem ber að skila til viðurkenndrar móttökustöðvar fyrir spilliefni. Sótthreinsa ber amalgammengaðan úrgang áður en honum er skilað til móttökustöðvar.

Skila skal amalgammenguðum úrgangi til móttökustöðvar við hverja tæmingu hreinsibúnaðar fyrir amalgammengað vatn. Til staðfestingar á því að úrgangi hafi verið skilað skal halda eftir kvittun frá móttökustöð. Kvittanir skal geyma í a.m.k. fjögur ár, og ber að sýna þær eftirlitsaðila, óski hann þess. Að öðru leyti er vísað til reglugerðar um spilliefni.


5. gr.

Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.


6. gr.

Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, veitt tímabundnar undanþágur frá einstökum ákvæðum þessarar reglugerðar ef ríkar ástæður eru til slíks.


7. gr.

Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði. Um málsmeðferð að öðru leyti, dagsektir og viðurlög fer samkvæmt sömu lögum.


8. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.


9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu og um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 79/1996 um amalgammengað vatn og amalgammengaðan úrgang frá tannlæknastofum með síðari breytingu nr. 175/1998.


Umhverfisráðuneytinu, 28. nóvember 2000.

Siv Friðleifsdóttir.
Ingimar Sigurðsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica