Fjármálaráðuneyti

798/2000

Reglugerð um tímabundinn innflutning. - Brottfallin

Almennt.
1. gr.

Tollstjóri skal heimila tímabundinn innflutning vara, án greiðslu aðflutningsgjalda eða gegn lækkuðum aðflutningsgjöldum, í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Með aðflutningsgjöldum er í reglugerð þessari átt við tolla svo og aðra skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru, þ.m.t. virðisaukaskatt.

Um tímabundinn innflutning bifreiða og bifhjóla, sem flutt eru til landsins án þess að um innflutning í atvinnuskyni sé að ræða, fer eftir ákvæðum reglugerðar nr. 160/1990, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla, með síðari breytingum.


Tímabundinn innflutningur án greiðslu aðflutningsgjalda.
2. gr.

Tollstjóri skal heimila tímabundinn innflutning vara án greiðslu aðflutningsgjalda í þeim tilvikum sem tilgreind eru í 2. mgr., enda séu vöruflokkar og magn innfluttrar vöru eðlilegt og hæfilegt miðað við tilgang innflutningsins.

Eftirtaldar vörur falla undir heimild skv. 1. mgr.:


1.

Vörur sem fluttar eru til landsins til sýningar hér á landi, s.s. á viðskipta- eða iðnsýningum. Auk vöru sem flutt er til landsins til sýningar falla undir heimildina munir sem fluttir eru inn endurgjaldslaust, sem hér segir:

a.

Verðlítil sýnishorn, ætluð til ókeypis dreifingar á sýningu, þó hvorki áfengi né tóbak.

b.

Vörur sem nýttar eru við byggingu, innréttingu eða skreytingu á sýningarbás.

c.

Auglýsingaefni fyrir vörur sem sýndar eru á sýningu hér á landi, ætlað til ókeypis dreifingar á sýningunni.

2.

Tækjabúnaður, prentað efni, ritföng o.þ.u.l. sem flutt er til landsins án endurgjalds til afnota á ráðstefnum og fundum.

3.

Keppnisbúnaður, s.s. ökutæki og varahlutir í þau, íþróttabúningar o.þ.u.l. sem flutt er til landsins til tímabundinna nota á æfingum eða í keppni, að því leyti sem slíkur varningur er ekki hluti af farangri ferðamanna.

4.

Hljóðfæri, leikmunir og annar búnaður sem listamenn hafa með sér til landsins til notkunar á hljómleikum eða sýningum.

5.

Vélar, tæki og önnur áhöld sem flutt eru tímabundið til landsins til reynslu, enda sýni innflytjandi með fullnægjandi hætti fram á að megintilgangur innflutnings sé að fá reynslu á nýtingu innfluttrar vöru.

6.

Vörur sem fluttar eru til landsins á vegum viðurkenndra stofnana í kennslu-, vísinda- eða menningarskyni. - Um vísindabúnað, sem lánaður er endurgjaldslaust til lengri tíma en tólf mánaða til innlendra vísindastofnana eða vísindastofnana sem Ísland er aðili að, fer skv. 11. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum.

7.

Tæki, verkfæri, og annað þvílíkt sem vísindamenn og vísindaleiðangrar frá erlendum rannsóknastofnunum og háskólum, hópar á vegum skólastofnana og aðrir slíkir flytja til landsins til afnota við rannsóknir hér á landi. Heimildin nær þó hvorki til matvæla né áfengis- eða tóbaksvara.

8.

Búnaður sem fluttur er til landsins á vegum erlendra kvikmyndagerðarmanna og fjölmiðlafólks, í tengslum við upptökur eða efnisöflun þessara aðila hér á landi.

9.

Búnaður sem listamenn, verkfræðingar, iðnaðarmenn, björgunarleiðangrar og aðrir slíkir flytja til landsins til afnota hér við athuganir sínar, rannsóknir og starfsemi.

10.

Vörur til viðgerðar eða annarrar aðvinnslu, svo og vörur sem nauðsyn ber að flytja tímabundið inn svo að fram geti farið á þeim nægileg aðvinnsla til að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum.

11.

Aðrar vörur sem A.T.A. ábyrgðarskjal getur tekið til.


Tímabundinn innflutningur gegn greiðslu lækkaðra aðflutningsgjalda.
3. gr.
Tollstjóri skal heimila tímabundinn innflutning á stærri tækjum og búnaði, þ.m.t. ökutækjum, til notkunar í atvinnuskyni vegna tiltekinna verkefna, gegn greiðslu aðflutningsgjalda í samræmi við ákvæði 2. mgr.

Aðflutningsgjöld vegna tímabundins innflutnings skv. 1. mgr. skulu reiknuð af leiguverði fyrir viðkomandi tæki og búnað, í stað hefðbundins tollverðs. Liggi leiguverð ekki fyrir skal reikna gjöld af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/60 hluti eðlilegs tollverðs fyrir hvern byrjaðan mánuð sem tæki eða búnaður er hér á landi.


Umsókn um heimild til tímabundins innflutnings.
4. gr.
Umsókn um heimild til tímabundins innflutnings skal beint til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem varan kemur til tollafgreiðslu.

Umsókn skal borin fram í aðflutningsskýrslu, ebl. E1, með því að rita viðeigandi undanþágutilvísun í reit 14 í skýrslunni. Með þessum hætti er innflytjandi að lýsa því yfir að hann sæki um undanþágu eða lækkun aðflutningsgjalda af tiltekinni vöru í vörusendingu samkvæmt þeim heimildum sem undanþágutilvísun nær til. Jafnframt felur slík umsókn í sér yfirlýsingu um að innflytjandi skuldbindi sig til að hlíta öllum þeim fyrirmælum, skilyrðum og takmörkunum sem er að finna í nefndum heimildum fyrir undanþágu eða lækkun gjaldanna og ráðstöfun vörunnar.

Auk undanþágutilvísunar í reit 14 á aðflutningsskýrslu, sbr. 2. mgr., skal tilgreint á aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum um hvaða vöru sé að ræða, tilefni innflutnings og hvenær áætlað sé að flytja vöruna úr landi. Útgefið A.T.A. ábyrgðarskjal skal talið fela í sér fullnægjandi upplýsingagjöf í því sambandi.

Undanþágutilvísanir vegna aðflutningsgjalda eru allt að sjö stafa lyklar sem vísa hver fyrir sig til tiltekinna heimilda. Ríkistollstjóri annast gerð og útgáfu undanþágutilvísana og leiðbeininga um notkun þeirra.


Tryggingar.
5. gr.
Innflytjandi skal með beiðni um heimild til tímabundins innflutnings leggja fram fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda, verði vara ekki flutt úr landi innan tímamarka. Tollstjóri getur fallið frá kröfu um tryggingu, telji hann hana óþarfa.

Eftirfarandi tryggingar teljast fullnægjandi í skilningi 1. mgr.:


1.

A.T.A. ábyrgðarskjal.

2.

Fjártrygging, eða skuldaviðurkenning innflytjanda tryggð með sjálfskuldarábyrgð banka, fyrir útreiknuðum aðflutningsgjöldum.


Veiting heimildar til tímabundins innflutnings.
6. gr.

Telji tollstjóri að skilyrði séu uppfyllt veitir hann innflytjanda heimild til tímabundins innflutnings.

Innflytjandi getur fengið heimild tollstjóra til framlengingar á tímabundnum innflutningi, að uppfylltum sömu skilyrðum og sett voru fyrir innflutningnum í upphafi.

Heimild til tímabundins innflutnings skal ekki veitt til lengri tíma en tólf mánaða. Þó getur tollstjóri framlengt heimild fram yfir þann tíma ef innflytjandi sýnir fram á að sérstakar aðstæður hafi leitt til þess að honum hafi ekki verið kleift að nýta heimild innan tímafrestsins.


Endurútflutningur vöru.
7. gr.

Við endurútflutning vöru, sem tímabundinn innflutningur hefur verið heimilaður á, skal innflytjandi fá staðfestingu tollstjóra um endurútflutninginn.

Sé endurútflutningur vöru ekki staðfestur af tollstjóra, sbr. 1. mgr., skulu aðflutningsgjöld innheimt af hinni innfluttu vöru, nema innflytjandi framvísi öðrum gögnum sem að mati tollstjóra eru fullnægjandi sönnun á því að varan hafi verið flutt úr landi á tilskildum tíma eða um sé að ræða verðlitla vöru sem að einhverju leyti eða öllu verður eftir í landinu, sbr. t.d. a-c-liði 1. tölul. og 2. tölul. 2. mgr. 2. gr.


Kæra á úrskurði tollstjóra um veitingu heimildar til tímabundins innflutnings.
8. gr.

Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar rétt til tímabundins innflutnings samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi eða synjun tollstjóra um tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari. Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan 30 daga frá því er gagnaöflun er lokið. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurð til ríkistollstjóra, sbr. 2. mgr.

Úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. verður skotið til ríkistollstjóra innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollstjóri skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollstjóra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.


Lagastoð.
9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimildum í 6. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, 2. mgr. 12. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, og 1. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma falla úr gildi auglýsing nr. 59/1970, um mat á vinnuvélum til tollverðs og auglýsing nr. 249/1994, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning tækja og búnaðar vísindaleiðangra og hópa á vegum skólastofnana.


Fjármálaráðuneytinu, 30. október 2000.

F. h. r.
Árni Kolbeinsson.
Bergþór Magnússon.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica