Samgönguráðuneyti

777/2006

Reglugerð um eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita o.fl. - Brottfallin

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um eftirlit með því að fylgt sé reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og um notkun ökurita.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin gildir um eftirlit samkvæmt reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og notkun ökurita á vegum og á athafnasvæði flytjanda.

3. gr.

Eftirlit á vegum og í starfsstöð flytjanda.

Eftirlit Vegagerðarinnar skal árlega ná til stórs og dæmigerðs úrtaks ökumanna, flytjanda og ökutækja á öllum flutningasviðum sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar.

Eftirlitið skal skipulagt þannig að ár hvert sé könnun beint að hið minnsta 1% vinnudaga ökumanna þeirra bifreiða sem falla undir gildissvið reglugerðar um aksturs- og hvíldar­tíma ökumanna. Eftirlitinu skal skipt þannig að minnst 15% af heildarfjölda kannaðra vinnudaga sé eftirlit á vegum og minnsta 25% eftirlit í starfsstöð flytjanda.

Eftirlitsmenn skulu líta eftir því að ökuriti sé í bifreið, sem búin skal ökurita samkvæmt reglugerð þar um, að hann vinni eðlilega, sé innsiglaður og rétt upp settur og að hann sé notaður eins og til er ætlast. Fyrir byrjun hvers árs skal gera áætlun fyrir eftirlits­starfsemi ársins.

Eftirlit skv. 1. og 2. mgr. sem fer fram í bækistöð eftirlitsmanns, og byggt er á viðeigandi skjölum og öðrum upplýsingum sem flytjandi lætur í té að beiðni eftirlitsmanns, hefur sama gildi og eftirlit sem fram fer í bækistöð flytjanda.

Vegagerðin skal á vegum og í starfstöð flytjanda hafa eftirlit með því að fylgt sé reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og reglum um notkun ökurita og ökuritakorta.

4. gr.

Eftirlit á vegum.

Eftirlit á vegum skal einkum beinast að:

a)

hve lengi ökumaður ekur hvern akstursdag

b)

hve lengi og hve oft ökumaður tekur hlé eða hvíld frá akstri

c)

hvort upplýsingar hafa verið færðar rétt inn á ökuritaskífur, í minni rafræns ökurita eða á ökumannskort, einkum ef vísbendingar eru um að aksturstími sé óreglulegur

d)

síðasta vikulegum hvíldartíma, þar sem það á við

e)

hvort ökuriti starfi rétt og hvort ökumannskortið eða eftir atvikum ökuritaskífa hafi verið notuð rétt.

Eftirlitsmenn skulu hafa gátlista yfir helstu atriði sem eftirlit skal haft með og yfirlit á íslensku og ensku um algengustu tækniorð og hugtök sem notuð eru í tengslum við flutningastarfsemi á vegum.

Komi fram við eftirlit vísbendingar um að ökumaður ökutækis, sem skráð er í öðru landi sem samstarf er við um eftirlit með aksturs- og hvíldartíma, hafi brotið reglurnar án þess að fullnægjandi gögn liggi fyrir, getur eftirlitsmaður óskað eftir upplýsingum frá viðkomandi landi til þess að leggja megi mat á hvort reglur hafi verið brotnar.

5. gr.

Eftirlit í starfsstöð flytjanda.

Atriði sem eftirlit í starfstöð skal einkum beinast að:

a)

vikulegum hvíldartíma og aksturstíma milli hvíldartímabila

b)

takmörkun á akstri á hverju tveggja vikna tímabili

c)

uppbót fyrir styttan daglegan eða vikulegan hvíldartíma og

d)

notkun ökumanna á ökuritaskífum og ökumannskorti og skipulag vinnutíma þeirra.

6. gr.

Skýrslugerð.

Vegagerðin skal taka saman árlega yfirlit um umfang eftirlitsins og niðurstöðu þess. Þar skal m.a. koma fram fyrir tiltekið tímabil fjöldi:

a)

ökumanna sem eftirlit á vegum er haft með

b)

kannana í bækistöð flytjanda

c)

vinnudaga sem könnun beinist að

d)

brota sem tilkynnt eru og varða reglur um aksturs- og hvíldartíma.

7. gr.

Refsiákvæði.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

8. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari er innleidd hér á landi tilskipun ráðsins nr. 88/599/EBE, frá 23. nóvember 1988, um staðlaðar aðferðir við eftirlit með framkvæmd reglugerðar nr. 3820/85/EBE um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum og reglugerðar nr. 3821/85/EBE um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum, sjá sérrit EES-gerðir S40, bls. 179-199 og 204-206.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í 23. tölulið XIII. viðauka við hann skulu gilda hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 44. gr. a, 60. gr., 67. og 68. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 4. september 2006.

Sturla Böðvarsson.

Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica