Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

705/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð fyrir talnagetraunir Íslenskrar getspár, nr. 892 10. desember 1999. - Brottfallin

1. gr.

3. gr. liður 3.10, sbr. reglugerð nr. 513 7. júní 2004, orðast svo:

3.10 Verð fyrir hvern leik (röð) í Lottó 5/38 er kr. 75, Jóker kr. 200, og í Víkingalottói kr. 50. Aðeins er unnt að gerast þátttakandi hjá söluaðilum Íslenskrar getspár eða með rafrænum hætti, sbr. lið 3.1.


2. gr.

5. gr. liður 5.2., sbr. reglugerð nr. 534 26. júní 2001, orðast svo:

Útdráttur í Víkingalottói fer fram á hverjum miðvikudegi í heimalandi einhvers samstarfsaðila, undir eftirliti þarlendra yfirvalda, samkvæmt reglum sem samþykktar eru af opinberum eftirlitsaðilum samstarfsaðilanna, hér á landi af dómsmálaráðuneytinu. Þegar dráttur fer fram hér á landi fer um eftirlitið í samræmi við lið 5.1.
Í útdrætti hverrar viku er byrjað á að draga út "Ofurtölu" kvöldsins sem er dregin úr tölunum 48 sem eru notaðar í aðalútdrætti kvöldsins. Talan er síðan sett aftur í pottinn. Aðalútdrátturinn fer síðan fram með þeim hætti að valdar eru sex aðaltölur af tölunum 1–48 og því næst valdar tvær bónustölur af þeim tölum sem þá eru eftir.


3. gr.

5. gr. liður 5.5.3, sbr. reglugerð nr. 534 26. júní 2001 og nr. 153 24. febrúar 2003, orðast svo:

a) Fyrsti vinningur er sameiginlegur hjá þátttökuaðilum, sbr. 2. grein. Greiðir hvert talnagetraunafyrirtæki 0,040 evrur af andvirði hvers selds leiks til þessa vinnings. Verðmæti hans í íslenskum krónum ákvarðast af kaupgengi evru á útdráttardegi og skiptist jafnt á milli þeirra sem hafa allar 6 tölurnar réttar.
b) Vinningur fyrir "Ofurtöluna" er einnig sameiginlegur hjá þátttökuaðilum. Greiðir hvert talnagetraunafyrirtæki 0,012 evrur af andvirði hvers selds leiks til þessa vinnings. Verðmæti hans í íslenskum krónum ákvarðast af kaupgengi evru á útdráttardegi og skiptist jafnt á milli þeirra sem hafa allar 6 tölurnar réttar auk "Ofurtölunnar". Til þess að hljóta vinning fyrir "Ofurtöluna" þarf að hafa allar sex aðaltölurnar réttar auk "Ofurtölunnar", sem þarf að vera ein af aðaltölum kvöldsins.
c) Til annarra vinninga renna 40% af heildarsölu hverrar leikviku hér á landi að frádreginni greiðslu Íslenskrar getspár til fyrsta vinnings sbr. a) og b) liði og skiptast í vinningsflokka í eftirgreindum hlutföllum:
1. 54% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar og auk þess rétta eina af tveimur bónustölum.
2. 9% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar.
3. 21% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar.
4. 16% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 3 aðaltölur réttar og auk þess rétta eina af tveimur bónustölum.


4. gr.

Á eftir a-lið í 5. gr. lið 5.8. kemur nýr stafliður, er verður b-liður, og færast aðrir stafliðir aftar sem því nemur, og orðast hinn nýi stafliður svo:

b) enginn þátttakandi hafi allar 6 aðaltölur réttar né "Ofurtöluna" flyst upphæðin fyrir "Ofurtöluna" yfir á næstu viku. Hafi vinningshafi hins vegar allar sex aðaltölurnar réttar en ekki "Ofurtöluna" þá hlýtur hann fyrsta vinning sem skiptist jafnt á milli þeirra sem hafa allar aðaltölurnar réttar en vinningur fyrir "Ofurtöluna" flyst áfram til næstu viku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með allar aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsupphæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.


5. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum um talnagetraunir nr. 26 2. maí 1986, sbr. lög nr. 126 16. desember 2003, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 18. ágúst 2004.

Björn Bjarnason.
Fanney Óskarsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica