Matvælaráðuneyti

670/2024

Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu.

1. gr.

Markmið.

Markmið með reglugerð þessari er að tryggja sjálfbæra landnýtingu í samræmi við markmið laga um landgræðslu.

 

2. gr.

Orðskýringar.

Merking hugtaka er sem hér segir:

  1. Akuryrkja: Nýting lands til framleiðslu einærra- og vetrareinærra nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, framræslu, áburðargjöf, jarðvinnslu, gróðursetningu, sáningu eða öðrum ræktunar­­aðgerðum.
  2. Áburðarefni: Frumefni og efnasambönd, önnur en næringarefni, sem lífverur nýta til vaxtar og viðhalds.
  3. Ástand lands: Eiginleikar og samsetning gróðurs og jarðvegs í vistkerfum viðkomandi land­svæðis í samanburði við það sem telja má eðlilegt miðað við náttúrulegar aðstæður.
  4. Beit:Það atferli þegar dýr afla sér næringar með því að bíta gróður.
  5. Beitarland: Land sem er nýtt til beitar búfjár. Þetta getur verið t.d. graslendi, mólendi, kjarrvaxið land og skógar.
  6. Jarðvegur: Laus náttúruleg yfirborðsefni með minni en 2 mm kornastærð og plöntur þrífast í.
  7. Jarðvinnsla: Hvers kyns vinnsla sem opnar jarðvegsyfirborð og/eða raskar eða umbyltir jarðvegi á landi t.d. til undirbúnings sáðbeðs og/eða gróðursetningar.
  8. Landbótaáætlun: Tímasett aðgerðaáætlun um úrbætur á ástandi lands og í landnýtingu.
  9. Landhnignun (hnignun): Ferli sem orsakast af breytingum á næringarefna-, orku- og/eða vatnshringrásum vistkerfa og leiða t.d. til minnkandi framleiðni lands eða minnkandi líffræði­legrar fjölbreytni. Landhnignun getur bæði stafað af náttúrulegum umhverfis­breytingum, t.d. vegna veðurfars og eldvirkni og af landnýtingu. Rof er hluti hnign­unar­ferils.
  10. Landnýting: Hvers konar nýting lands í þágu mannsins m.a. til beitar, akuryrkju, skóg­ræktar, umferðar fólks og ökutækja og framkvæmda.
  11. Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæski­legra eðlisfræðilegra þátta.
  12. Mælivísir: Mælikvarði, venjulega tölulegur, sem hægt er að nota til þess að lýsa og miðla eiginleikum umhverfis á einfaldan hátt, þar með taldar breytingar og þróun á ákveðnu tíma­bili og hjálpa þannig við að varpa ljósi á ástand umhverfisins. Mælivísar geta einnig verið lýsandi fyrir þætti eða breytur sem mæla árangur, endurspegla breytingar eða veita aðstoð við mat á frammistöðu aðila og framkvæmd og gæði stefnu til að ná fram sjálfbærni í land­nýtingu.
  13. Opinn akur: Akur þar sem jarðvinna hefur átt sér stað en ekki hefur verið sáð í hann.
  14. Óvarinn akur: Akur þar sem gróðurhula eða uppskeruleifar síðastliðið uppskerutímabil ná ekki að verja jarðveginn fyrir vind- og vatnsrofi.
  15. Óvarinn jarðvegur: Jarðvegur án gróðurhulu, grjótþekju eða annars konar stöðugrar þekju sem hylur yfirborðið.
  16. Rof: Ferlar hnignunar sem einkennast af efnisflutningi, t.d. vindrof og vatnsrof.
  17. Vöktun: Kerfisbundin, síendurtekin mæling eða skráning einstakra breytilegra þátta í umhverf­­inu.

 

3. gr.

Sjálfbær landnýting.

Nýting lands skal vera sjálfbær þannig að ekki sé gengið á auðlindir þess og þær endurheimtar eins og unnt er, og jafnframt að viðgangur og virkni vistkerfa haldist. Nýting lands skal byggjast á viðmiðum um sjálfbærni sem taka mið af ástandi lands og lýst er í reglugerð þessari.

 

4. gr.

Upplýsingar um nýtingu og ástand lands.

Land og skógur metur ástand lands, árangur af gróður- og jarðvegsvernd og eflingu og endur­heimt vistkerfa með tilliti til mismunandi landnytja. Upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar matinu skal birta og gera aðgengilegar og skulu þær vera fullnægjandi til að leggja mat á ástand og stöðu gróður- og jarðvegsauðlindarinnar hverju sinni, m.a. í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og vera í samræmi við ákvæði um losunarbókhald Íslands, sbr. lög nr. 70/2012, um loftslagsmál. Upplýsingar skulu uppfærðar að lágmarki á 10 ára fresti.

 

5. gr.

Meginreglur sjálfbærrar landnýtingar.

Við mat á því hvort landnýting teljist sjálfbær skal leggja til grundvallar þær meginreglur að nýt­ingin:

  1. taki mið af ástandi lands, sbr. 6. gr.,
  2. stuðli að viðhaldi eða eflingu líffræðilegrar fjölbreytni vistkerfis,
  3. stuðli að vernd, viðhaldi og uppbyggingu jarðvegs,
  4. stuðli að vernd, viðhaldi og auknu kolefni í jarðvegi og gróðri og lágmarki losun gróðurhúsa­lofttegunda,
  5. stuðli að vernd og viðhaldi vatnsmiðlunar og vatnsgæða,
  6. stuðli að vernd, viðhaldi og auknum loftgæðum.

 

6. gr.

Mat á ástandi lands.

Land er flokkað í fjóra flokka eftir ástandi með hliðsjón af einkennum í landi og mælivísum í viðauka I:

 

A. Land í góðu ástandi.

Land í góðu ástandi. Þar sem land uppfyllir þessi viðmið er um sjálfbæra landnýtingu að ræða nema land sýni augljós merki um hnignun miðað við mælivísa í viðauka I.

 

B. Land á leið í gott ástand.

Land sem er ekki í góðu ástandi, sbr. A, en með mjög hóflega nýtingu og sýnt fram á að sé í framför miðað við mælivísa í viðauka I. Að þessu uppfylltu getur landnýting í þessum flokki talist sjálfbær.

 

C. Land sem er í mjög slæmu ástandi.

Svæði þar sem ástand lands er mjög slæmt.

 

D. Land sem er náttúrulega ógróið.

Land sem er lítt gróið að eðlisfari t.d. áreyrar, nýtt land (t.d. hraun, svæði sem er nýkomið undan jökli) og náttúrulegar eyðimerkur, t.d. vegna hæðar yfir sjó, veðurfars eða annarra aðstæðna. Svæði í þessum flokki, getur færst úr flokki D yfir í aðra flokka við vettvangsskoðun sé þar mikil og ör framvinda. Þessi svæði eru viðkvæm og þarf að fylgjast sérstaklega með séu þau í nýtingu.

 

7. gr.

Viðmið vegna beitarnýtingar.

Sjálfbær nýting lands til beitar er best tryggð þegar beitilandið:

  1. hefur hátt hlutfall æðplantna, 
  2. hefur lítinn óvarinn jarðveg eða rof, 
  3. hefur töluverða uppskeru,
  4. er í ásættanlegu ástandi, 
  5. sýnir að nýting leiðir ekki til hnignunar, byggt á skilgreindum mælivísum, sbr. viðauka I.

Svæði sem falla í flokk C henta ekki til beitar í núverandi ástandi og nýting á stórum, sam­felldum svæðum í flokki C telst ekki sjálfbær landnýting. Stjórnun beitar ætti að hafa að markmiði að draga eins og kostur er úr búfjárbeit á landi í flokki C.

Land sem flokka skal m.t.t. sjálfbærrar beitarnýtingar eru svæði sem eru markvisst nýtt til beitar búfjár. Svæði í mjög slæmu ástandi sem búfé er haldið frá má skilgreina utan beitarlands t.d. með því að skilgreina svæði sem búfé sækir ekki inn á að jafnaði og þar sem komið er í veg fyrir að það búfé sem þar finnst komist þangað aftur.

Hafa skal til hliðsjónar viðmið viðauka I við mat á ástandi lands og jafnframt leiðbeiningar í viðauka II.

 

8. gr.

Viðmið vegna akuryrkju.

Við nýtingu lands til akuryrkju skal halda neikvæðum áhrifum á umhverfi í lágmarki og stuðla að vernd jarðvegs og umhverfis. Helstu viðmið um sjálfbæra nýtingu lands til jarðræktar og akur­yrkju eru:

  1. Lágmarka skal rof jarðvegs, sem verður með vatni og vindi, á landi sem nýtt er til jarð­ræktar.
  2. Vernda og hlúa skal að uppbyggingu jarðvegs og vernda jarðveginn með nægilegri þekju gróðurs eða lífrænna leifa.
  3. Hindra og lágmarka skal mengun jarðvegs. Forðast skal að aðgerðir í landbúnaði valdi breyt­ingum á sýrustigi umfram ákjósanleg mörk ræktunar.
  4. Viðhalda skal og efla lífrænt efni í jarðvegi, huga að jafnvægi næringarefna, hringrás og ferlum næringarefna.
  5. Mengun vatns er óheimil, sbr. reglugerð nr. 796/1999. Viðhalda skal þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu vatni. Stjórnun og umsjón vatns, næringarefna, áburðarefna og varnar­efna skal vera ábyrg.
  6. Forðast skal jarðvinnslu á tímabilinu 1. nóvember til 15. mars.
  7. Forðast skal að skilja akra eftir opna og óvarða yfir vetur.
  8. Við það skal miðað að dreifing búfjáráburðar fari að jafnaði fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert og að jafnaði sé ekki dreift á frosna jörð, sbr. einnig reglugerð nr. 804/1999.

Hafa skal til hliðsjónar leiðbeiningar um akuryrkju í viðauka III.

 

9. gr.

Viðmið vegna framkvæmda.

Við hvers kyns leyfisskyldar framkvæmdir sem geta haft áhrif á gróður og jarðveg skal sýna sérstaka aðgát til að lágmarka rask og leitast við að endurheimta vistkerfi í þeim tilvikum sem rask er óhjákvæmilegt.

Hafa skal til hliðsjónar leiðbeiningar í viðauka IV.

 

10. gr.

Viðmið vegna umferðar fólks og ökutækja.

Miða skal við að hið náttúrulega umhverfi beri umferðina sem þar er og að ástand þess breytist ekki eða hnigni af völdum álags. Með umferð er átt við gangandi, hjólandi og ríðandi umferð og umferð vélknúinna ökutækja, hvort heldur er á eða utan þar til gerðra göngu- og hjólastíga, reið- og akvega, sem haft getur bein áhrif á gróður og jarðveg.

Sjálfbær nýting lands til umferðar fólks og ökutækja einkennist af:

  1. Engum skemmdum á gróðri.
  2. Engri þjöppun jarðvegs.
  3. Vatn sígur vel niður í jarðveg og situr ekki í álagsflötum.
  4. Engir eða óverulegir pollar eða vatnsrásir hafa myndast í álagsflötum, sem komið geti af stað rofi, í stígum eða slóðum, eða vegna umferðar.
  5. Álagsfletir haldast óbreyttir milli álagastíma.
  6. Hliðarstígar eða villustígar og -slóðar hafa ekki myndast, né nýir ófyrirséðir álagsfletir á land­inu.
  7. Náttúrulegir ferlar vatns eru virkir, s.s. vatnsrennsli, vatnshreyfingar, frosthreyfingar og ísig.

Hafa skal til hliðsjónar viðmið viðauka I við mat á ástandi lands og jafnframt leiðbeiningar í viðauka V.

 

11. gr.

Staðfesting á ástandi lands og sjálfbærni landnýtingar.

Mat á ástandi lands og sjálfbærni landnýtingar skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Mat getur byggt á athugun þar sem yfirfarin eru gögn um afmörkun lands, ástand og áhrif nýtingar, sbr. viðauka I.
  2. Nánara mat þarf að byggja á vettvangsathugun sem skal framkvæmd í samráði við ábyrgan umsjónaraðila og í öllum tilvikum eiganda landsins sem um ræðir.
  3. Byggja á viðurkenndum vísindalegum grunni og bestu fáanlegu gögnum hverju sinni.

Land og skógur setur vinnureglur um hvaða gögn þurfa að liggja fyrir byggi mat ekki á vettvangs­athugun, sbr. tl. 1.

 

12. gr.

Ósjálfbær landnýting og landbótaáætlun.

Leiði eftirlit Lands og skógar með landnýtingu og ástandi lands í ljós að nýting samræmist ekki viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu skv. reglugerð þessari skal Land og skógur leiðbeina eiganda eða rétthafa lands um gerð landbótaáætlunar skv. 12. gr. laga um landgræðslu. Um meðferð máls­ins fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Áætlunin skal unnin í samráði þeirra aðila sem nytja landið, eigenda þess og annarra umráða­hafa. Landbótaáætlun skal staðfest skriflega af þeim sem nytja viðkomandi land, eigendum og umsjónar­aðilum lands og framkvæmdaaðilum, eftir því sem við á hverju sinni.

Í landbótaáætlun skal að lágmarki eftirfarandi koma fram:

  1. Ábyrgur umsjónaraðili lands.
  2. Heiti og afmörkun þess lands á loftmynd sem áætlunin nær yfir.
  3. Markmið áætlunar. Landbótaáætlun skal hafa að markmiði að landnýting sé sjálfbær. Mark­mið áætlunar skal ávallt sett fram með þeim hætti að unnt sé að meta hvort markmiðum hennar sé náð, að hluta til eða öllu leyti, á gildistíma hennar.
  4. Söfnun upplýsinga. Í landbótaáætlun er tilgreint hvaða gögnum skuli safnað s.s. varðandi nýtingu eða vöktun og skal þeim komið til Lands og skógar.
  5. Aðgerðir. Tilgreina skal áætlaðar aðgerðir með skýrum hætti svo ljóst sé hvernig þær skuli framkvæmdar, umfang og staðsetningu þeirra, markmið þeirra, hver ber ábyrgð á fram­kvæmd og hvenær hverjum áfanga skuli náð þannig að unnt sé að hafa eftirlit með fram­kvæmdum og árangri þeirra.
  6. Árangursmat. Í landbótaáætlun skal tilgreina með hvaða hætti árangursmat á landbótum skuli fara fram og hver skuli framkvæma það mat. Árangur úrbóta skal metinn eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
  7. Gildistími, tímasetning úttekta og endurskoðun.
  8. Landbótaáætlunin skal að jafnaði unnin á rafrænu formi sem Land og skógur útvegar.

Eigandi og/eða rétthafi lands skal hafa unnið landbótaáætlun innan þriggja mánaða frá því að tilkynnt var um ákvörðun um gerð landbótaáætlunar.

 

13. gr.

Mótvægisaðgerðir vegna spjalla.

Verði spjöll á gróðri eða jarðvegi ber þeim sem spjöllum veldur að leitast við að endurheimta vist­kerfi sem verða fyrir raski, sbr. 13. gr. laga um landgræðslu. Land og skógur leiðbeinir um mótvægis­­aðgerðir vegna rasks á landi.

 

14. gr.

Eftirlit og eftirfylgni.

Telji Land og skógur að eigandi eða rétthafi lands sinni ekki gerð landbótaáætlunar eða að hlutað­eigandi aðili eða aðilar fylgi ekki ákvæðum hennar skal stofnunin óska eftir ítölu samkvæmt lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., eða fara fram á takmörkun umferðar, sbr. lög um náttúru­vernd.

Sé um að ræða aðra nýtingu lands en fyrrnefnd lög taka til er stofnuninni heimilt að beita þving­unarúrræðum samkvæmt 24. gr. laga um landgræðslu til þess að knýja á um framkvæmd landbóta­­áætlunar.

 

15. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 11. gr., 12. gr. og 13. gr. laga um landgræðslu, nr. 155/2018 og öðlast gildi 1. september 2024.

Reglugerð þessa skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði reglugerðar þessarar halda landbótaáætlanir fyrir beitarsvæði sem unnar voru á grundvelli reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu gildi allt fram til desember 2026. Endur­skoðun landbótaáætlana fyrir fyrrgreind svæði skal hafin áður en gildistíma þeirra lýkur, eigi síðar en árið 2025, í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

 

Matvælaráðuneytinu, 15. maí 2024.

 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Björn Helgi Barkarson.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica