Fjármála- og efnahagsráðuneyti

582/2014

Reglugerð um breytingu (3) á reglugerð nr. 755/2007, um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti. - Brottfallin

1. gr.

4. gr. orðist svo:

Viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 16. og 61. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB, sbr. reglugerð fram­kvæmda­stjórnarinnar nr. 1336/2013 um breytingu á viðmiðunarfjárhæðum í tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB og 2004/18/EB, skulu vera sem hér segir:

66.278.416 kr. þegar um er að ræða vöru- og þjónustusamninga,
828.480.200 kr. þegar um er að ræða verksamninga,
66.278.416 kr. þegar um er að ræða hönnunarsamkeppni.

2. gr.

Á eftir 4. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein sem verður 5. gr. og hljóðar svo:

Kæra vegna innkaupa stofnana sem annast annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti skal borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Kröfu um óvirkni samnings er þó heimilt að bera undir nefndina innan 30 daga frá framangreindu tímamarki. Þó verður krafa um óvirkni samnings ekki höfð uppi þegar sex mánuðir eru liðnir frá gerð hans.

Þegar óskað er eftir rökstuðningi, vegna ákvörðunar um að hafna tilboðum eða hefja að nýju útboð, skal skrifleg kæra borin undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá birtingu rökstuðnings sem hefur að geyma tilskildar upplýsingar skv. 2. mgr. 49. gr. tilskipunarinnar. Beiðni um rökstuðning skal bera fram innan 14 daga frá því að bjóðanda var tilkynnt ákvörðun og skal rökstuðningur liggja fyrir eigi síðar en fimmtán dögum eftir að beiðni um það barst kaupanda eða umsjónarmanni útboðs.

Þegar höfð er uppi krafa um óvirkni samnings sem gerður hefur verið án undanfarandi útboðsauglýsingar skal miða upphaf frests við eftirfarandi birtingu tilkynningar um gerð samningsins í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, enda komi þar fram rökstuðningur ákvörðunar kaupanda um að auglýsa ekki innkaup.

3. gr.

6. gr. orðist svo:

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orku­veitu, flutninga og póstþjónustu, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæði með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, þann 2. júní 2006.

Reglugerð þessi er jafnframt sett til innleiðingar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1336/2013 frá 13. desember 2013 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB, 2004/18/EB og 2009/81/EB að því er varðar beitingu við­mið­unar­fjárhæða við útboð og gerð samninga, sem vísað er til í XVI. viðauka samn­ingsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 99/2014, þann 16. maí 2014.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 7. gr. og 78. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, tekur þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 16. júní 2014.

F. h. r.

Sigurður H. Helgason.

Hrafn Hlynsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica