Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

572/1995

Reglugerð um prófun á ökuritum.

I. Almenn atriði.

1. gr.

Þeir sem annast prófanir á ökuritum skulu uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar.

2. gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:

Prófunarverkstæði: Verkstæði sem hlotið hefur faggildingu á sviði prófana á ökuritum og uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar og kröfur faggildingardeildar Löggildingarstofunnar til að öðlast B-faggildingu.

Tæknilegur stjórnandi: Yfirmaður á prófunarverkstæði sem ber tæknilega ábyrgð á því að prófanir séu framkvæmdar í samræmi við settar reglur og að öllum kröfum um faggildingu sé fullnægt.

Prófunarmaður: Starfsmaður prófunarverkstæðis sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar um hæfniskröfur og annast prófanir á ökuritum og tengdum búnaði.

Reglugerð 3821/85: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum, eins og henni hefur verið breytt, síðast með reglugerð (EBE) nr. 3688/92, sbr. reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 136 3. mars 1995.

Um aðrar skilgreiningar vísast til viðauka 1 við reglugerð 3821/85.

3. gr.

Tæknileg framkvæmd við prófun á ökuritum skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar 3821/85, reglugerð þessa og verklagsreglur prófunarverkstæðis, sem byggðar eru á fyrrgreindum kröfum og sem uppfylla kröfur faggildingardeildar Löggildingarstofunnar til B-faggildingar.

Faggildingarsviðin eru þessi;

a. prófun við viðgerð á ökuritum,

b. prófun við ísetningu ökurita og

c. prófun við skoðun.

Ökuriti sem notaður er samkvæmt reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. skal hafa hlotið gerðarviðurkenningu í samræmi við ákvæði í reglugerð 3821/85.

Tíðni prófana skal vera í samræmi við VI. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85, sbr. og 8. gr. reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 136/1995. Prófanir á ökuritum við ísetningu og við skoðun á sex ára fresti skulu gerðar á prófunarverkstæði.

II. Tæknilegar kröfur.

Prófun við viðgerð á ökurita.

4. gr.

Ökurita skal prófa með tilliti til þess hvort hann geti skráð rétt og sýnt rétt ekna vegalengd, hraða og tíma, innan þeirra skekkjumarka sem gefin eru upp í 3. tölul. f-liðar í III. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85.

Auk þess skal prófað hvort ökuritinn geti skráð aksturs- og hvíldartíma í samræmi við 4. tölul. c-liðar í III. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85.

5. gr.

Prófa skal ekna vegalengd og hraða í prófunartæki. Prófunartækið skal geta líkt eftir prófunarvegalengd með minni mælióvissu en + 0,1%.

Prófunartækið skal þrepalaust geta líkt eftir þeim ökuhraða, sem ökuritinn getur sýnt og skráð, með minni mælióvissu en + 0,3 km/klst.

Klukka ökuritans skal prófuð með viðeigandi búnaði með minni mælióvissu en + 12 sek/sólarhring.

6. gr.

Næmni ökurita við að sýna og skrá ökuhraða, ekna vegalengd og tíma skal prófuð í þar til gerðum og viðurkenndum aksturshermi.

7. gr.

Niðurstöður prófana skv. 2. mgr. 4. gr., 5. gr. og 6. gr. skulu færðar á skráningarblað, sem fylgja skal ökuritanum þar til hann er tengdur í bifreiðina.

8. gr.

Að lokinni prófun skv. kafla þessum skal ökuritinn innsiglaður í samræmi við 4. tölul. í V. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85.

Prófun við ísetningu ökurita.

9. gr.

Ökurita skal prófa með tilliti til þess hvort hann skrái rétt og sýni rétt ekna vegalengd, hraða og tíma, innan þeirra vikmarka sem gefin eru upp í 2. tölul. f-liðar í III. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85.

10. gr.

Skekkjumælingar við ísetningu ökurita skulu gerðar við þau skilyrði sem kveðið er á um í 4. tölul. í VI. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85.

11. gr.

Ökutækinu skal ekið beint áfram á jöfnum hraða á sléttu yfirborði með tengdan þar til gerðan mæli og þá vegalengd sem nákvæmni mælisins krefst.

Prófunartæki skulu uppfylla þau skilyrði sem krafist er í 5. gr.

Niðurstöður prófunar skulu færðar á skráningarblað.

12. gr.

Virkt ummál hjólbarða skal skilgreina sem meðaltal virks ummáls allra hjóla á drifásum þegar radíus hjóls er mældur með þar til gerðu áhaldi.

13. gr.

Einkennistuðull ökutækis (W) er mældur með viðeigandi búnaði þegar því er ekið ákveðna vegalengd í samræmi við gerð mælisins og skal prófið miðast við 1000 m vegalengd. Búnaðurinn skal reikna út k-gildi með minni mælióvissu en + 0,3%. Prófunarvegalengd skal mæld með minni mælióvissu en + 0,4%.

14. gr.

Að lokinni prófun skal uppsetningarplötu komið fyrir og ökuritinn tengdur og innsiglaður eins og kveðið er á um í viðauka 1 við reglugerð 3821/85.

Skoðun.

15. gr.

Vikmörk við prófun við skoðun, sbr. b-lið 3. tölul. í VI. kafla í viðauka 1 (sex ára skoðun) við reglugerð 3821/85, skulu vera innan þeirra marka sem tilgreind eru í 3. tölul. f-liðar í III. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85. Að öðru leyti skal tilhögun vera hin sama og þegar um uppsetningu á nýjum ökurita er að ræða.

Athuga skal hvort innsigli, sem kveðið er á um í 4. tölul. í V. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85, séu til staðar, hvort þau séu heil, svo og hvort ökuritinn sé að öðru leyti óskemmdur.

III. Prófunarskýrslur.

16. gr.

Prófunarverkstæði skulu skrá niðurstöður prófs ásamt öðrum upplýsingum í prófunarskýrslu. Afrit prófunarskýrslna skulu sendar skráningaraðila daglega.

Til staðfestingar því, að prófun hafi farið fram og að ökuritinn og tengdur búnaður uppfylli settar kröfur, skal prófunarverkstæði auðkenna ökutækið með viðeigandi einkennismiða sem gerður er og komið fyrir að fyrirmælum Vegagerðarinnar.

IV. Innsiglun.

17. gr.

Innsiglun skv. 8. gr. skal gerð samkvæmt fyrirsögn framleiðanda ökuritans. Innsiglið má vera úr plasti.

18. gr.

Innsiglun skv. b- - g-liðum 4. tölul. í V. kafla í viðauka 1 við reglugerð 3821/85 skal gerð með innsiglisþræði og blýinnsigli eða með þar til gerðu plastinnsigli. Innsiglun á tengingu við gírkassa skal þó gerð með blýinnsigli. Sama á við um samsetningu á barka og tengingu barka við ökurita.

Innsiglisþráður blýinnsiglis skal vera samsettur úr kjarna úr 7 samhliða þráðum, 0,2 mm í þvermál, og stálþræði, 0,5 mm í þvermál, vafið utan um. Innsiglisþráður skal vera ryðvarinn. Innsiglið skal vera blýsívalningur 10 + 1 mm í þvermál og a.m.k. 5 mm langur, með tveimur götum til að þræða innsiglisþráðinn í gegnum.

19. gr.

Sérhver innsiglistöng skal vera með sérstöku merki sem töngin er ein um, í samræmi vð ákvæði í 20. gr. í reglugerð þessari. Vegagerðin annast afhendingu tanganna og heldur skrá yfir ábyrgðarmenn þeirra.

20. gr.

Merki á innsiglistöng skal vera með bókstöfunum ÍS, þremur tölustöfum og merki samkvæmt nánari fyrirmælum Vegagerðarinnar. Innsiglistöngin skal marka skýrt merki á innsiglið. Henni skal haldið í góðu lagi og hún geymd í læstum hirslum þegar ekki er verið að nota hana.

21. gr.

Glatist eða skemmist innsiglistöng skal Vegagerðinni þegar gert viðvart.

V. Starfsleyfi.

22. gr.

Dómsmálaráðuneytið veitir starfsleyfi til reksturs prófunarverkstæðis til að annast prófanir á ökuritum. Prófunarverkstæði skal sinna öllum prófunarbeiðnum sem berast. Þó er prófunarverkstæði heimilt að einskorða prófunarstarfsemi sína við eina gerð ökurita. Prófunarverkstæði er heimilt að fela undirverktaka hluta prófunar enda falli starf undirverktaka að gæðakerfi prófunarverkstæðisins. Vinnan er framkvæmd á faglega ábyrgð prófunarverkstæðisins.

Faggiltu endurskoðunarverkstæði, sem fengið hefur innsiglunartöng hjá Vegagerðinni, er heimilt að rjúfa innsigli við gírkassa og innsigla á ný ef nauðsynlegt er vegna viðgerðar á drifás ökutækisins. Því er hins vegar ekki heimilt að innsigla nema að það hafi sjálft rofið innsiglið. Verkstæðið skal tilkynna skráningaraðila um aðgerðina á eyðublaði sem Vegagerðin lætur í té.

Eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar og lögreglu er heimilt að kanna starfsemi prófunarverkstæðis eins og þurfa þykir. Slík könnun er óháð reglulegu eftirliti faggildingardeildar Löggildingarstofunnar.

23. gr.

Sá sem sækir um starfsleyfi til reksturs prófunarverkstæðis á sviði prófana á ökuritum skal leggja fram sönnun um að hann hafi hlotið B-faggildingu í samræmi við reglur faggildingardeildar Löggildingarstofunnar. Ennfremur skal hann staðfesta að prófunarverkstæðið:

-hafi stjórnanda í föstu starfi með tilskilda menntun og reynslu, sem beri tæknilega ábyrgð á framkvæmd prófana,

-hafi nægan fjölda fastráðinna starfsmanna með fullnægjandi þekkingu og reynslu til að annast prófanir,

-hafi yfir að ráða hentugu húsnæði og aðstöðu, þ.m.t. skilgreindri uppmældri aksturleið, þar sem unnt er að framkvæma allar prófanir,

-hafi yfir að ráða hentugum tækjabúnaði sem uppfyllir ákvæði um nákvæmni prófana í reglugerð þessari,

-muni taka þátt í samanburðarprófunum þegar ráðuneytið óskar eftir því og hlíti fyrirmælum um ráðstafanir ef frávik milli verkstæða koma fram. Verkstæðið skal bera allan kostnað vegna þeirrar þátttöku og ráðstafana sem gera verður,

-muni taka þátt í samvinnuverkefnum þegar þess er óskað,

-muni senda upplýsingar til skráningaraðila á sérstöku skráningareyðublaði í samræmi við ákvörðun ráðuneytisins þar um,

-muni ekki annast prófun á ökuritum í eigin ökutækjum eða ökutækjum í eigu tengdra aðila,

-muni afhenda ökumanni (umráðamanni) ökutækis sem fengið hefur frágenginn ökurita bækling um framkvæmd reglna um aksturs- og hvíldartíma. Efni bæklingsins skal samþykkt af dómsmálaráðuneytinu.

24. gr.

Dómsmálaráðuneytið getur svipt prófunarverkstæði starfsleyfi, ef skilyrði fyrir leyfisveitingunni eru ekki lengur uppfyllt. Sama á við ef verkstæðið hlítir ekki fyrirmælum ráðuneytisins eða faggildingardeildar Löggildingarstofu, vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða óvarkárni í starfi.

VI. Hæfniskröfur.

25. gr.

Tæknilegur stjórnandi prófunarverkstæðis og prófunarmaður skulu hafa starfsréttindi í bifvélavirkjun eða hafa aðra sambærilega eða meiri menntun sem nýtist á þessu sviði og hafa þekkingu og reynslu á sviði ökurita og ísetningu þeirra. Undantekningu má gera frá þessu skilyrði ef viðkomandi hefur menntun, starfsreynslu og þjálfun, sem faggildingardeild Löggildingarstofunnar telur fullnægjandi.

Tæknilegur stjórnandi og prófunarmaður skulu hafa sótt námskeið þar sem fjallað er um reglugerðir, reglur og verklagsreglur viðkomandi prófunarverkstæðis sem fjalla um prófanir á ökuritum. Námskeiðin skulu viðurkennd af faggildingardeild Löggildingarstofunnar og skal þeim ljúka með prófi. Faggildingardeild Löggildingarstofunnar getur einnig tekið gild námskeið og próf frá erlendum aðila.

26. gr.

Sá sem ekki vill una niðurstöðu prófunarverkstæðis getur, að undangenginni umfjöllun yfirstjórnar prófunarverkstæðisins og Vegagerðarinnar í samræmi við ákvæði í gæðakerfi prófunarstofunnar, skotið úrskurði þess til dómsmálaráðuneytisins.

VII. Gildistaka.

27. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 1. mgr. 60. gr. og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44 7. maí 1993, svo og með hliðsjón af 21. tölul. XIII. viðauka EES samningsins, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 13. nóvember 1995.

Þorsteinn Pálsson.

Sigurður T. Magnússon.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica