Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Fjármálaráðuneyti

527/1991

Reglugerð um frísvæði. - Brottfallin

Skilgreining.

1. gr.

Með frísvæði er í reglugerð þessari átt við afmarkað svæði þar sem heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur og vinna að þeim eins og segir í reglugerð þessari.

Leyfi til reksturs frísvæðis má veita aðilum sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri frísvæðis, en leyfishöfum sjálfum skal óheimilt að stunda iðnaðarframleiðslu, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu.

Hver sá einstaklingur eða lögaðili sem annast viðskipti með vörur í atvinnuskyni eða stundar iðnaðarframleiðslu og hefur til þess tilskilin leyfi opinberra aðila skal eiga þess kost að njóta þjónustu frísvæðis, sbr. 5. til 7. gr.

Þeir almennu skilmálar sem viðskiptaaðilum frísvæðis eru búnir skulu staðfestir af fjármálaráðherra.

Veiting leyfis til reksturs frísvæðis.

2. gr.

Fjármálaráðherra veitir leyfi til reksturs frísvæðis.

Umsókn um leyfi til reksturs frísvæðis og almenn skilyrði.

3. gr.

Í umsókn um leyfi til reksturs frísvæðis skal gera grein fyrir fyrirhuguðu rekstrarformi frísvæðis og hvaða starfsemi sé fyrirhuguð á svæðinu, sbr. 5. til 7. gr.

Leyfi til reksturs frísvæðis er bundið þeim skilyrðum sem leiðir af ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum tollalaga nr. 55/1987 og öðrum þeim skilyrðum sem nauðsynleg kunna að þykja. Leyfi skal m.a. bundið eftirtöldum skilyrðum:

1. Fyrir liggi upplýsingar um staðsetningu svæðis og mannvirki þar og staðfesting viðkomandi sveitarstjórnar á því að hún samþykki fyrir sitt leyti að rekstur frísvæðis fari fram á þeim stað, þar sem hann er fyrirhugaður.

2. Fyrir liggi hagkvæmnisútreikningar vegna reksturs frísvæðisins.

3. Leyfishafi hafi á að skipa starfsliði sem hefur til að bera fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum sem gilda um tollmeðferð vara og skjalagerð vegna tollmeðferðar og að sýnt þyki að stjórnun, innra eftirlit, bókhald og varsla gagna vegna starfseminnar verði með traustum hætti.

4. Leyfishafi beri ábyrgð gagnvart ríkissjóði á greiðslu opinberra gjalda vegna tollmeðferðar vara á frísvæði og hann setji ríkissjóði tryggingu fyrir þeim opinberu gjöldum sem hann kann að þurfa að greiða vegna rekstursins.

5. Leyfishafi greiði kostnað við tolleftirlit með frísvæði eftir nánari ákvörðun fjármálaráðherra.

Athafnasvæði og húsnæði fyrir frísvæði.

4. gr.

Svæði það sem nota má til reksturs frísvæðis skal vera afmarkað og undir lás leyfishafa og að öllu leyti með þeim hætti að það sé hentugt til tryggrar vörslu þeirra vara sem þar eiga að vera.

Ríkistollstjóri skal viðurkenna athafnasvæði og húsnæði og eru breytingar á því óheimilar nema að fengnu leyfi hans.

Ef geymsluhús eða svæði eru ekki í fullnægjandi ásigkomulagi á hverjum tíma og geymsluhafi bætir ekki úr því innan þess frests sem tollyfirvöld tiltaka, geta þau látið bæta úr ágöllum á kostnað leyfishafa eða svipt hann rétti til að nota húsnæðið eða svæðið.

Starfsemi á frísvæði.

5. gr.

Heimilt er að geyma vörur á frísvæði án tímatakmarkana.

6. gr.

Á frísvæði er heimil aðvinnsla vöru, sbr. þó 7. gr., skipting sendinga, umpökkun, samsetning, blöndun, prófun og þrif.

Tollyfirvöldum er heimilt að takmarka slíka vinnu með vörur á frísvæði ef það telst nauðsynlegt vegna tolleftirlits.

7. gr.

Á frísvæði má reka iðnað að fengnu sérstöku leyfi fjármálaráðherra.

8. gr.

Á frísvæði ber leyfishafi ábyrgð á þeirri vinnu sem um er fjallað í 5. og 6. gr. en ef um er að ræða iðnaðarframleiðslu, sbr. 7. gr., skal í leyfisbréfi samkvæmt þeirri grein fjallað um hverjum sé heimilt að annast þá framleiðslu.

Fjármálaráðherra sker úr ef óljóst er hvort starfsemi falli undir 6. eða 7. gr.

9. gr.

Á frísvæði er óheimilt að reka smásöluverslun.

10. gr.

Einkaneysla eða einkaafnot á vörum sem fluttar hafa verið inn á frísvæði án greiðslu aðflutningsgjalda eða gegn endurgreiðslu gjalda er óheimil, m.a. að nota slíkar vörur vegna reksturs frísvæðis og mannvirkjagerðar þar. Kaup eða sala svo og hvers konar afhending eða viðtaka á nefndum vörum til slíkra nota er óheimil.

Vörur sem flytja má á frísvæði.

11. gr.

Heimilt er að flytja erlendar ótollafgreiddar vörur á frísvæði.

Innlendar vörur má flytja á frísvæði ef þær eru ætlaðar til nota við aðvinnslu, blöndun eða samsetningu með öðrum vörum þar.

Sé heimilt að endurgreiða gjöld af hráefni í innlenda vöru við útflutning hennar skal heimilt að flytja slíkar útflutningsvörur á frísvæði og endurgreiða framangreind gjöld þegar varan er komin á svæðið.

Við flutning innlendra vara á frísvæði má heimila endurgreiðslu aðflutningsgjalda af þeim, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 545/1990. Þegar aðflutningsgjöld eru endurgreidd skal þó ekki endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem skattskyldir aðilar samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafa greitt við innflutning þeirrar vörur sem beiðni lýtur að. Við uppgjör á virðisaukaskatti skal innskattur af innfluttri vöru dreginn frá útskatti samkvæmt þeim lögum og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim. Ákvæði þetta tekur þó ekki til vara sem notaðar eru til reksturs eða fjárfestingar á frísvæði.

Innflutningsbann og innflutningstakmarkanir.

12. gr.

Óheimilt er að flytja á frísvæði vörur sem bannað er að flytja til landsins.

13. gr.

Vörur sem háðar eru innflutningsleyfum er heimilt að flytja á frísvæði, enda þótt leyfi liggi ekki fyrir. Flutningur út af svæðinu til ráðstöfunar innanlands er háður því að innflutningsleyfi liggi fyrir, nema vöru sé komið á annað frísvæði.

14. gr.

Óheimilt er að flytja á frísvæði efni sem sprengihætta stafar af og efni sem eru sérlega eldfim. Ennfremur er óheimilt að flytja þangað vörur sem annars getur stafað hætta af fyrir vörur sem þar eru geymdar eða ef af þeim getur stafað hætta af öðrum ástæðum. Víkja má frá þessum ákvæðum ef gripið er til viðeigandi varúðarráðstafana og að fengnu samþykki viðkomandi tollstjóra.

Tollyfirvöld geta sett sérstök skilyrði fyrir flutningi tiltekinna vara á frísvæði, t.d. um eftirlit, geymslu eða meðferð þeirra þar eða bannað slíkan flutning ef nauðsyn þykir bera til.

Flutningur vara á frísvæði.

15. gr.

Leyfishafi annast flutning vara á frísvæði og skal tilkynna viðkomandi tollstjóra um hann. Frá því að leyfishafi veitir vörum viðtöku ber hann ábyrgð á vörslu varanna með þeim lögfylgjum sem varsla og meðferð vara er háð samkvæmt reglugerð þessari og ákvæðum tollalaga.

Þegar vörur eru fluttar á frísvæði skal leyfishafi skrá þær á nafn sendanda og umráðaaðila og tilgreina nákvæmlega eftir atvikum vöruheiti og tegund, magn, þyngd og verðmæti. Fram komi sendingarnúmer erlendra ótollafgreiddra vara. Sérhverri sendingu skal gefið númer sem hún ber þar til henni hefur að fullu verið ráðstafað.

Ríkistollstjóri getur sett nánari reglur um framkvæmd samkvæmt þessari grein.

Flutningur vara frá frísvæði.

16. gr.

Heimilt er að flytja vörur frá frísvæði til ráðstöfunar hér á landi, á önnur frísvæði, í almennar tollvörugeymslur, tollfrjálsar forðageymslur farmflytjenda, tollfrjálsar verslanir og til útlanda og ber að fara að fyrirmælum gildandi laga og annarra reglna hverju sinni um fyrirkomulag slíkra flutninga.

Ef fluttar eru frá frísvæði til ráðstöfunar hér á landi vörur sem um ræðir í 3. og 4. mgr. 11. gr. reglugerðar þessarar, skulu þær fá tollmeðferð samkvæmt þeim reglum sem gilda um endurinnflutning vara.

Tollumdæmi þar sem tollmeðferð fer fram.

17. gr.

Aðflutningsgjöld skal greiða tollstjóra þess tollumdæmis þar sem frísvæðið er og heyrir tollmeðferð samkvæmt reglum þessum undir hann.

Sé vara framsend ótollafgreidd í annað tollumdæmi skal greiða gjöldin þar.

Tollflokkun varnings sem fluttur er út af frísvæði til nota innanlands.

18. gr.

Aðflutningsgjöld af vörum sem teknar eru til tollmeðferðar vegna sölu, afhendingar eða eigin nota hér á landi miðast við tollflokkun þeirra samkvæmt tollskrá þegar þær eru teknar til tollmeðferðar.

Tollverðsákvörðun.

19. gr.

Aðflutningsgjöld af vörum, sem teknar eru til tollmeðferðar vegna sölu, afhendingar eða eigin notkunar hér á landi, miðast við tollverð innfluttra vara eins og það var ákveðið eða ákveða hefði mátt það á þeim tíma þegar heimild er veitt til flutnings þeirra af frísvæði, sbr. 8. til 10. gr. tollalaga nr. 55/1987. Geymslukostnaður og hvers konar þjónustu-, aðvinnslu- eða framleiðslukostnaður sem til fellur hér á landi skal ekki tekinn með við ákvörðun tollverðs.

Tollverð frísvæðisvara sem fluttar eru til útlanda er söluverð þeirra eða gangverð eins og það er ákveðið samkvæmt ákvæðum XIII. kafla tollalaga nr. 55/1987 og reglum sem gilda samkvæmt þeim.

Virðisaukaskattskyld starfsemi á frísvæði.

20. gr.

Leyfishafi frísvæðis og þeir sem þar stunda starfsemi sem skattskyld er samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, skulu tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra, sbr. 5. gr. þeirra laga, og innheimta og skila virðisaukaskatti vegna sölu á þjónustu, aðvinnslu og annarri virðisaukaskattskyldri starfsemi samkvæmt almennum ákvæðum laganna.

Tollmeðferð vara á frísvæði sem fluttar eru til ráðstöfunar hér á landi.

Gjalddagi og eindagi aðflutningsgjalda.

21. gr.

Aðflutningsgjöld af vörum á frísvæði falla í gjalddaga þegar þær eru fluttar frá frísvæði til ráðstöfunar hér á landi, enda séu þær ekki fluttar á önnur frísvæði eða í tollvörugeymslur.

Ef ekki er um að ræða heimild til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, skal leyfishafi ekki afhenda vörur samkvæmt 1. mgr. úr vörslum sínum nema aðflutningsgjöld séu að fullu greidd.

22. gr.

Við tollafgreiðslu skal leyfishafi senda tollstjóra upplýsingar sem veita skal í aðflutnings-, umflutnings- eða útflutningsskýrslu, í tölvutæku formi samkvæmt þeim reglum sem þar um gilda og standa honum skil á álögðum opinberum gjöldum vegna tollmeðferðar vara. Hafi leyfishafi eða aðili, sem geymir eða framleiðir vörur á frísvæði, heimild til greiðslufrests á gjöldum skal leyfishafi annast skuldfærsluna við tollafgreiðslu.

Tollstjóri getur falið leyfishafa að veita greiðslum gjalda viðtöku.

Sé bankastarfsemi rekin í tengslum við frísvæði er tollstjóra heimilt að fela þeim sem bankann rekur að veita greiðslum viðtöku og skuldfæra gjöld.

Annist leyfishafi eða banki skuldfærslu eða móttöku greiðslna skulu þeir eigi síðar en í upphafi næsta virka dags senda tollstjóra uppgjör vegna tollafgreiðslna.

23. gr.

Ef vörur eru framsendar frá frísvæði til tollafgreiðslu í öðru tollumdæmi, sbr. 2. mgr. 19. gr., skal heimilt að annar en leyfishafi komi fram gagnvart tollstjóra vegna tollafgreiðslu varanna.

24. gr.

Eindagi aðflutningsgjalda sem vanreiknuð hafa verið er tollafgreiðsludagur varanna.

25. gr.

Ef vara er flutt af frísvæði eða tekin til notkunar og ekki gerð grein fyrir því samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru aðflutningsgjöld þegar fallin í eindaga.

Þegar atvik eru eins og um ræðir í 1. mgr. skulu aðflutningsgjöld af viðkomandi vöru reiknuð út samkvæmt þeim aðflutningsgjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var þegar varan var flutt á frísvæði. Reikna skal dráttarvexti af aðflutningsgjöldum þannig útreiknuðum. nema sannað sé á fullnægjandi hátt að mati tollstjóra að nefnd atvik séu síðar til komin. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 25/1987, með áorðnum breytingum. Að öðru leyti skal farið með mál þessi samkvæmt ákvæðum XIV. kafla tollalaga nr. 55/1987.

Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda.

26. gr.

Leyfishafi ber ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem eru á frísvæði og einstakir viðskiptaaðilar hans bera ásamt honum ábyrgð in solidum á aðflutningsgjöldum af vörum sem eru á svæðinu á þeirra vegum.

Trygging.

27. gr.

Trygging vegna opinberra gjalda, sbr. 4. tl. 2. mgr. 3. gr., svo og annars kostnaðar sem leiða kann af rekstri leyfishafa á frísvæði skal vera 100 milljónir kr.

Ríkistollstjóra er heimilt, að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið, að endurskoða tryggingarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. ef breytingar verða á umfangi og rekstri frísvæðis.

Ef lagt er fram ábyrgðar- eða tryggingarskilríki banka, sparisjóðs eða tryggingar- eða ábyrgðarfélags skal í tryggingarskilmálum vera yfirlýsing um að þessir aðilar taki skilyrðislaust ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda, dráttarvaxta og annars kostnaðar sem leiða kann af því að vara fær ekki rétta tollmeðferð lögum samkvæmt og muni greiða að kröfu viðkomandi tollstjóra þá fjárhæð sem vangreidd er.

Ábyrgðar- eða tryggingarskilríki, svo og skilríki vegna breytinga sem á þeim kunna að verða gerðar vegna breytinga á tryggingarfjárhæð, skulu afhent viðkomandi tollstjóra til varðveislu.

Birgðabókhald og varsla gagna.

28. gr.

Leyfishafi skal halda birgðabókhald vegna reksturs frísvæðis sem skal vera með þeim hætti að það geti á hverjum tíma veitt nákvæmar upplýsingar um þær vörur sem fluttar hafa verið inn á frísvæðið, stöðu sendinga, meðferð vara og ráðstöfun þeirra.

Birgðabókhald frísvæðis skal vera tölvuunnið og uppbygging þess og framkvæmd skal háð samþykki ríkistollstjóra.

Leyfishafa ber að varðveita skjöl og gögn vegna vöru- og tollmeðferðar á tryggan hátt og gæta þess að þau séu ætíð aðgengileg vegna tolleftirlits.

Vörutalning og birgðakönnun.

29. gr.

Leyfishafi skal gæta þess að vörumeðferð og varsla vara á frísvæði sé jafnan með þeim hætti að aðgengilegt sé að framkvæma þar vörutalningu og birgðakönnun.

Ríkistollstjóri getur sett reglur um vörutalningu og birgðakönnun á frísvæði og kveðið á um skyldu leyfishafa eða notenda frísvæðis til að framkvæma slíkar athuganir og gefa tollyfirvöldum skýrslur um niðurstöður.

Tolleftirlit.

30. gr.

Tollyfirvöld annast eftirlit með frísvæði og þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Skulu tollgæslumenn hafa óhindraðan aðgang til eftirlits og rannsóknar á vörum og bókhaldi.

Tollyfirvöldum er heimilt að hafa eftirlit með flutningi vara til og frá frísvæði m.a. til að ganga úr skugga um réttmæti upplýsinga og staðreyna að flutningur vara til og frá svæðinu sé heimilI.

Ef nauðsyn ber til vegna tolleftirlits er heimilt að setja lás tollgæslunnar eða innsigli fyrir geymslustaði á frísvæði.

Ákvæði tollalaga nr. 55/1987 um tolleftirlit með geymslustöðum ótollafgreiddra vara skulu gilda um heimildir tollgæslunnar til eftirlits á frísvæði.

31. gr.

Leyfishafi og viðskiptaaðilar hans eru skyldir til að gefa tollgæslumönnum hverjar þær upplýsingar sem óskað er eftir varðandi rekstur frísvæðis og vörur þar og veita þeim hvers konar aðstoð við eftirlitsstörf þeirra.

Skylt er að láta tollyfirvöldum í té endurgjaldslaust þá aðstöðu á frísvæði sem að mati tollyfirvalda er fullnægjandi til að sinnt verði tolleftirliti þar og ennfremur þau áhöld og tæki sem nauðsynleg eru til þess að mati tollyfirvalda.

Svipting leyfis til reksturs frísvæðis.

32. gr.

Ef leyfishafi misfer með heimildir sem hann hefur til reksturs frísvæðis, stendur ekki við skyldur sínar samkvæmt reglum þessum eða fullnægir ekki lengur skilyrðum fyrir leyfisveitingu, er fjármálaráðherra heimilt að afturkalla leyfi án fyrirvara.

Refsiákvæði.

33. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar eða misnotkun ívilnunar sem veitt hefur verið samkvæmt henni getur m.a. varðað við XIV. kafla tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum.

Um meðferð mála vegna brota á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála.

Gildistaka.

34. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í IX. kafla, sbr. 148. gr., tollalaga nr. 55//1987 til að öðlast gildi hinn 1. janúar 1992.

Fjármálaráðuneytið, 14. nóvember 1991.

Friðrik Sophusson.

lndriði H. Þorláksson.

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica