1. gr.
Meðaflaskilja er útbúnaður, sem komið er fyrir í flotvörpu við veiðar á uppsjávarfiski í þeim tilgangi að flokka meðafla frá þannig að hann skiljist lifandi úr vörpunni. Meðaflaskilja skal ekki hafa áhrif á uppsetningu og eiginleika vörpunnar að öðru leyti.
2. gr.
Í viðaukum við reglugerð þessa skal birta hvaða gerðir meðaflaskilja eru viðurkenndar og hvernig þeim skuli komið fyrir í vörpunni.
3. gr.
Ef flotvörpuveiðar á uppsjávarfiski á ákveðnum svæðum eru í skyndilokunum eða reglugerðum, sem gefnar eru út með stoð í lögum nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, bundnar því skilyrði, að varpan sé útbúin meðaflaskilju, er eingöngu heimilt að nota þær gerðir skilja, sem ráðuneytið hefur viðurkennt og lýst er í viðaukum með reglugerð þessari og með því rimlabili sem áskilið er.
4. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk samkvæmt ákvæðum 20. gr. laga nr. 79/1997.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 697, 25. júlí 2005, um gerð og búnað meðaflaskilju við veiðar á uppsjávarfiski.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 20. júní 2006.
F. h. r.
Árni Múli Jónasson.
Þórður Eyþórsson.
VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)