Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

395/1997

Reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu. - Brottfallin

I. KAFLI

Tilkynningar til vandamanna handtekinna manna.

1. gr.

Maður, sem hefur verið handtekinn og er í haldi lögreglu á lögreglustöð eða annars staðar, á rétt á því að vandamanni eða nánum vini sé, eins fljótt og mögulegt er, gert viðvart um handtökuna og hvar hann sé vistaður.

Nú er handtekinn maður yngri en 18 ára og skal þá þegar hafa samband við foreldra hans og fulltrúa barnaverndarnefndar og hvetja þá til að koma án tafar á lögreglustöð.

Nú er handtekinn maður ólögráða af öðrum ástæðum og skal þá gera lögráðamanni viðvart um handtökuna og hvetja hann til að koma á lögreglustöð.

2. gr.

Stjórnandi lögregluvaktar eða sá, sem ber ábyrgð á rannsókn máls, má fresta tilkynningu til vandamanns eða náins vinar handtekins manns, ef sérstök ástæða er til að ætla að vitneskja hans um handtökuna muni torvelda rannsókn málsins, enda varði brotið sem hinn handtekni er grunaður um þriggja ára fangelsi eða meir.

3. gr.

Aldrei má fresta tilkynningu til vandamanns eða náins vinar lengur en í 24 klukkustundir frá handtöku.

4. gr.

Ákvörðun um frestun tilkynningar til vandamanns eða náins vinar má vera munnleg, en hana ber að staðfesta skriflega svo fljótt sem verða má.

5. gr.

Sá sem tekur ákvörðun um frestun tilkynningar til vandamanns eða náins vinar verður að hafa rökstuddan grun um að tilkynning muni leiða til þess:

  1. að merki eftir afbrot verði afmáð eða sönnunargögnum spillt með öðrum hætti,
  2. að munum verði skotið undan og komið í veg fyrir að þeim verði skilað aftur til rétts eiganda,
  3. að ávinningi af broti verði skotið undan,
  4. að samsekir, sem enn hafa ekki verið handteknir, verði varaðir við.

6. gr.

Gera skal handteknum manni grein fyrir ákvörðun um frestun á tilkynningu til vandamanns eða náins vinar og forsendum hennar. Forsendur frestunar skulu jafnframt skráðar í handtöku- og vistunarskýrslu.

II. KAFLI

Yfirheyrslur hjá lögreglu.

A. Sakborningur yfirheyrður.

7. gr.

Áður en yfirheyrsla byrjar skal kynna sakborningi kæruefni. Kynna skal sakborningi um hvað málið snýst í stórum dráttum og hvaða sakir eru bornar á hann.

Kynna skal sakborningi að honum sé ekki skylt að svara spurningum um sakarefnið eða skýra sjálfstætt frá nokkru sem varðar það.

Kynna skal sakborningi að hann eigi rétt á að hafa réttargæslumann eða verjanda sér til stuðnings eða aðstoðar við yfirheyrsluna og á öllum stigum málsins. Spyrja skal sakborning hvern hann vilji fá tilnefndan sem réttargæslumann, eða skipaðan sem verjanda, eftir því sem við á.

Spyrja skal sakborning um nafn, kennitölu, stöðu, vinnustað, heimilisfang og símanúmer. Ennfremur skal, eftir að sakborningur hefur gefið skýrslu, biðja hann að veita upplýsingar vegna æviferilsskýrslu.

8. gr.

Vilji sakborningur tjá sig og svara spurningum, skal skora á hann að skýra satt og rétt frá.

Leitast skal við að fá frásögn af atvikum í svo góðu samhengi sem unnt er. Sakborningur skal eiga þess kost að hrekja þær forsendur sem grunur er reistur á og koma á framfæri skýringum og lýsingum, sem eru honum til hagsbóta.

Spurningar skulu vera skýrar, ekki tvíræðar eða veiðandi, ekki særandi eða móðgandi framar en efni standa til og ekki sýnilega þýðingarlausar.

Bera skal undir sakborning skaðabótakröfu, sem gerð er á hendur honum.

Við yfirheyrslu skal lögreglumaður ávallt vera rólegur og tillitssamur. Ekki má veita sakborningi rangar upplýsingar, eða beita loforðum, hótunum eða nauðung. Ekki má gefa sakborningi í skyn að draga megi úr sakarefni ef hann játi eða gefi aðrar mikilvægar upplýsingar. Sakborningi skal kynnt að hugsanleg játning hans þurfi ekki að leiða til þess að hann verði látinn laus, ef ástæða er til að ætla að hann telji svo vera.

Ekki má beita úrræðum sem eru til þess fallin að draga úr meðvitund sakbornings eða hæfni til ákvarðanatöku. Reynt skal að komast hjá því að yfirheyra grunaðan mann sem talinn er vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Sé það hins vegar gert skal þess getið í skýrslu.

Við yfirheyrslu skal leitast við að þreyta ekki sakborning. Sakborningur skal eiga kost á venjulegum máltíðum og hann skal fá nægilegan svefn og hvíld. Aldrei má yfirheyra sakborning lengur en sex klukkustundir í einu. Hafi sakborningur verið yfirheyrður í 16 klukkustundir á einum sólarhring, að meðtöldum hléum, ber honum átta klukkustunda hvíld uns hefja má yfirheyrslu að nýju.

Neiti sakborningur sakargiftum má kynna honum upplýsingar sem fyrir liggja í málinu, verði það gert án þess að hætta sé á að rannsókn spillist. Að því búnu skal spyrja sakborning hvort hann vilji tjá sig frekar um sakarefni.

9. gr.

Nú er sakborningur yngri en 18 ára og skal þá spyrja hann um nöfn foreldra og heimilisfang.

Foreldrum, eða öðrum þeim sem barnið ber traust til, skal gert viðvart um yfirheyrslu, ef þess er kostur, og þeim veitt færi á að vera viðstaddir. Jafnframt skal gefa foreldrum kost á að benda á löghæfan mann til að fara með starf réttargæslumanns eða verjanda.

Gefa skal barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan yfirheyrslu. Ef ástæða þykir til skal æskja þess að fulltrúi eða starfsmaður barnaverndarnefndar verði við yfirheyrslu.

10. gr.

Verjandi eða réttargæslumaður má ætíð vera viðstaddur, þegar sakborningur er yfirheyrður. Sama gildir að jafnaði um talsmann, sem sakborningur ræður sér á eigin kostnað.

Við yfirheyrslu má sakborningur ráðfæra sig við verjanda eða réttargæslumann áður en hann svarar spurningu, sem beint er til hans, nema lögregla telji það trufla skýrslutöku.

B. Vitni yfirheyrt.

11. gr.

Áður en byrjað er að yfirheyra vitni skal kynna því um hvaða efni eða atvik óskað er að verði upplýst.

Spyrja skal vitni um nafn, kennitölu, stöðu, vinnustað, heimilisfang, símanúmer og tengsl við sakborning og brotaþola. Ef sérstök ástæða er til, skal einnig spyrja vitni um önnur atriði, sem geta haft áhrif á skýrslugjöf þess.

Nú er vitni undanþegið vitnaskyldu samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð opinberra mála og skal þá kynna því heimild til að skorast undan því að gefa skýrslu.

Kynna skal vitni undanþágu- og bannreglur samkvæmt 51. - 55. gr. laga um meðferð opinberra mála, ef ástæða er til.

Vitni skal kynnt að því sé skylt, að viðlaðgri refsiábyrgð, að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem varðar málið.

12. gr.

Vitni skal yfirheyrt án þess að önnur vitni heyri til.

Kveðja skal vitni til að gefa skýrslu í starfsstöð lögreglu, eða heimsækja það til skýrslutöku.

Vitni skal tjá sig munnlega. Biðja skal vitni að skýra frá því sem það veit um málsatvik. Að því loknu má leggja sérstakar spurningar fyrir vitnið. Vitni skal beðið um að skýra frá heimildum sínum.

Vitni má styðjast við skráð minnisatriði, t.d. um tölur og annað. Það verður að skýra frá því frá hverjum minnisatriðin stafa, hvenær þau voru skráð og í hvaða tilgangi.

Ekki má beita loforðum, hótunum eða nauðung, eða veita vitni rangar upplýsingar. Við yfirheyrslu skal lögreglumaður ávallt sýna rósemi og tillitssemi og haga yfirheyrslu á þann veg sem fallinn er til að fá fram skýra og sanna skýrslu. Spurningar skulu vera skýrar, ekki tvíræðar eða veiðandi, ekki særandi eða móðgandi framar en efni standa til og ekki sýnilega þýðingarlausar.

Spurningar um fyrri kynhegðun brotaþola skal ekki bera upp nema svar við þeim kunni að hafa verulega þýðingu í málinu. Komi til slíkra spurninga skal bera þær upp af sérstakri tillitssemi.

Vitni skal ekki fá afrit af skýrslu sinni, nema sérstakar ástæður séu til þess. Ekki skal heldur kynna öðrum skýrslu vitnis, nema sérstakar ástæður séu til þess.

13. gr.

Nú er brotaþoli yfirheyrður í fyrsta sinn og er þá rétt að spyrja hann hvort hann krefjist saksóknar. Það skal ávallt gert, þegar mál verður því aðeins höfðað að sá krefjist sem misgert var við.

Nú er opinber saksókn háð því skilyrði að brotaþoli krefjist saksóknar, og skal þá spyrja lögráðamann ósjálfráða brotaþola, hvort hann krefjist saksóknar.

Kynna skal tjónþola rétt til að bera fram skaðabótakröfu, sem dæma má í væntanlegu refsimáli. Krefjist hann bóta vegna líkamstjóns, miska eða tjóns á munum, skal tilgreina fjárhæð og styðja gögnum eins og frekast er kostur, eftir atvikum innan ákveðinna tímamarka. Ber að leiðbeina tjónþola við gerð kröfunnar og afla gagna um hana eftir þörfum.

Nú hefur brotaþoli beðið tjón, sem ætla má að ríkissjóður muni bæta samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og ber þá að kynna honum rétt til bóta samkvæmt þeim lögum.

Spyrja skal lögráðamann ófjárráða brotaþola hvort hann óski þess að gera skaðabótakröfu fyrir hönd hins ófjárráða.

14. gr.

Nú er vitni yngra en 18 ára yfirheyrt og skal þá gefa foreldrum þess eða öðrum þeim sem það ber traust til, kost á að vera við yfirheyrsluna. Þetta á ekki við ef viðkomandi er sjálfur kærður í málinu eða aðrar ástæður mæla því í mót.

Gefa skal barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan yfirheyrslu. Ef ástæða þykir til skal æskja þess að fulltrúi eða starfsmaður barnaverndarnefndar verði við yfirheyrslu.

Gæta skal fyllstu tillitssemi við yfirheyrslu barns sem er yngra en 18 ára. Barn skal yfirheyrt á heimavelli þess, ef þess er kostur. Ef mál varðar meint kynferðisbrot gegn stúlkubarni skal kona annast yfirheyrslu. Ef þess er ekki kostur skal leitast við að yfirheyra barnið í viðurvist konu, ef foreldrar eða aðrir sem barnið ber traust til, geta ekki verið viðstaddir.

Nú er vitni þolandi kynferðisbrots og skal þá, ef þess er kostur, taka skýrslu þess upp á hljóðband og jafnframt upp á myndband. Forðast skal sem unnt er að endurtaka yfirheyrslur barna.

15. gr.

Verjanda eða réttargæslumanni sakbornings er heimilt að vera viðstaddur yfirheyrslu vitnis, ef það þykir skaðlaust vegna rannsóknar málsins.

Í málum vegna kynferðisbrota má heimila þeim, sem brotaþoli óskar, að vera við yfirheyrsluna.

 

III. KAFLI

Skýrslugjöf og hljóðupptaka.

16. gr.

Rita skal skýrslu um yfirheyrslu sakbornings og vitnis.

Í skýrslu skal koma fram lögregluumdæmi, hvenær og hvar yfirheyrsla hefur farið fram, tímalengd yfirheyrslu, hvaða lögreglumaður (nafn og staða) hefur tekið við frásögn og hverjir aðrir hafa verið viðstaddir yfirheyrslu.

Nú er sakborningur yfirheyrður og skulu þá koma fram upplýsingar um þau atriði sem nefnd eru í 4. mgr. 7. gr., en ef vitni er yfirheyrt, upplýsingar um þau atriði sem nefnd eru í 2. mgr. 11. gr.

Skrá skal sérhverja skýringu eða yfirlýsingu. Játningar og aðrar sérstaklega mikilvægar yfirlýsingar skal skrá með orðum þess sem yfirheyrður er, eða sem næst því.

Lesa skal skýrslu upp til staðfestingar. Óski yfirheyrður þess má yfirlestur koma í stað upplesturs. Krefjist yfirheyrður breytinga skal skrá þær sem viðbót við skýrslu. Leggja skal skýrslu fyrir yfirheyrðan til undirritunar. Gera skal grein fyrir því í skýrslu ef yfirheyrður neitar að undirrita hana.

Hafi ekki verið unnt að skrá skýrslu þar sem yfirheyrsla fer fram, skal það gert svo fljótt sem þess er kostur.

Skýrsla skal skráð í tölvu eða á ritvél. Hafi skýrsla verið handrituð eða töluð inn á hljóðband skal varðveita handritið eða hljóðbandið með gögnum málsins.

Við yfirheyrslu um síma skal lögreglumaður skrá skýrslu sem sína eigin.

17. gr.

Við yfirheyrslu sakbornings skal rita æviferilsskýrslu hans, sem ávallt skal geyma upplýsingar um fullt nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og fæðingarstað.

Æviferilsskýrsla skal auk þess, ef nauðsyn þykir til, geyma upplýsingar um nöfn foreldra, ríkisfang sakbornings, stöðu hans og vinnustað, fjárhag og tekjur, hjúskaparstöðu og nafn maka eða sambýlismaka, framfærslubyrði, skólagöngu, faglega menntun, opinber leyfisbréf, lífeyrisréttindi, fyrri ákærufrestanir, refsidóma, reynslulausn og mál til meðferðar í refsivörslukerfinu.

Nú er sakborningur yngri en 18 ára og skal æviferilsskýrsla þá geyma upplýsingar um heimili foreldra hans og, ef foreldrar búa ekki saman, hvernig framfærslu og forsjá er háttað. Eftir atvikum skal skýrsla geyma upplýsingar um persónulega hagi sakbornings, einkum á heimili og í skóla og um ákvarðanir sem hafa verið teknar varðandi hann samkvæmt heimild í lögum um vernd barna og ungmenna.

Afla skal fæðingarvottorðs verði upplýsingar um aldur sakbornings ekki sannaðar með öðrum óyggjandi hætti.

Í minni háttar málum og málum sem ekki eru flókin, má fresta því að rita æviferilsskýrslu uns sýnt verður að dómsmál verði höfðað á hendur sakborningi.

18. gr.

Taka má yfirheyrslu sakbornings eða vitnis upp á hljóðband.

Kynna skal sakborningi eða vitni áður en yfirheyrsla hefst að hún verði tekin upp.

Skýrslu skal skrá með venjulegum hætti þótt yfirheyrsla sé tekin upp á hljóðband. Í skýrslu skal koma fram að yfirheyrsla sé tekin upp á hljóðband. Í undantekningartilvikum getur endurrit af hljóðbandi að öllu leyti komið í stað ritaðrar skýrslu.

Sakborningur og réttargæslumaður hans eða verjandi, hafa rétt til að hlýða á hljóðupptöku.

Lögregla varðveitir hljóðband uns máli er endanlega lokið. Ef gert er endurrit af upptökunni, verður það hluti af gögnum málsins.

Hafi yfirheyrsla verið tekin upp á hljóð- og myndband þarf ekki jafnframt að rita frásögnina eða spurningar og svör. Skýrsla þarf þá einungis að geyma upplýsingar um þau atriði, sem talin eru í 2. mgr. 11. gr.

 

IV. KAFLI

Skráning ýmissa atriða varðandi handtöku á mönnum og vistun handtekinna í fangageymslu lögreglu.

19. gr.

Lögregla ritar handtöku- og vistunarskýrslu um handtöku og vistun handtekins manns í fangageymslu.

Í skýrslu lögreglu skal skrá í stuttu máli upplýsingar um handtöku, tilefni hennar og framkvæmd, hvenær handtaka átti sér stað, hvar handtekinn maður var vistaður, hvenær hann var látinn laus og hvort hann var færður í gæsluvarðhald eða afplánunarfangelsi. Skýrsla skal færð í stöðluðu formi samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra.

20. gr.

Skýrsla skal bera sérstakt númer, handtöku- og vistunarskýrslunúmer, og tilvísun til númers þess máls eða sakarefnis sem er forsenda handtöku. Í skýrslu skulu koma fram upplýsingar um:

  1. nafn, kennitölu og heimilisfang handtekins manns,
  2. hvar og hvenær handtaka fór fram,
  3. ástæðu handtöku,
  4. hver eða hverjir unnu að handtöku,
  5. hvert handtekinn maður var færður eftir handtöku,
  6. hvort handtekinn maður virtist vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna,
  7. hvaða munir voru teknir úr fórum handtekins manns við komu á lögreglustöð eða í fangageymslu og hver framkvæmdi líkamsleit ef því er að skipta,
  8. hvort handtekinn maður bar sýnilega áverka við komu í lögreglustöð eða fangageymslu eða virtist vera í andlegu ójafnvægi,
  9. númer fangaklefa sem handtekinn maður var færður í og innsetningarnúmer ef því er að skipta,
  10. hver tók ákvörðun um vistun handtekins manns í fangaklefa,
  11. hvenær handteknum manni voru kynnt réttindi hans og réttarstaða og hver gerði það,
  12. hvaða óskir handtekinn maður setti fram varðandi réttargæslumann, verjanda og tilkynningu til vandamanns,
  13. hvenær og hvernig orðið var við óskum handtekins manns varðandi réttargæslumann, verjanda og tilkynningu til vandamanns,
  14. heimsóknir réttargæslumanns, verjanda og annarra,
  15. hvenær handteknum manni var borinn matur,
  16. á hvaða tímabili handtekinn maður var yfirheyrður,
  17. hvenær handtekinn maður var látinn laus,
  18. hvenær handtekinn maður var leiddur fyrir dómara,
  19. hvenær handtekinn maður var á ný færður í fangageymslu lögreglu, ef því var að skipta eða látinn laus að skipun dómara,
  20. hvenær handtekinn maður var færður í gæsluvarðhaldsfangelsi eða afplánunarfangelsi, ef því var að skipta,
  21. annað er máli kann að skipta varðandi vistunina, s.s. ef handtekinn maður var færður til læknis, á sjúkrahús, á aðra lögreglustöð o.s.frv.

21. gr.

Afla skal undirritunar handtekins manns á viðeigandi stað á handtöku- og vistunarskýrslu við afhendingu þeirra muna sem teknir voru úr fórum hans við handtöku, komu í fangelsi eða síðar. Gera skal grein fyrir því í skýrslunni ef hinn handtekni neitar að undirrita hana og ástæður þess, ef þær fást upp gefnar.

22. gr.

Lögregla skráir upplýsingar í skýrslu eftir því sem tilefni er til. Ef ekki er unnt að skrá skýrsluna jafnóðum skal það tekið fram og ástæður þess tilgreindar.

23. gr.

Færslur í skýrslu skulu tímasettar og merktar nafni eða upphafsstöfum þess sem skráir. Ber sá ábyrgð á að rétt sé fært.

24. gr.

Nú er handtekinn maður fluttur á milli lögreglustöðva eða lögregluliða og skal eintak af handtöku- og vistunarskýrslu þá fylgja honum. Í skýrslu ber að skrá ástæður flutnings. Skráningu í handtöku- og vistunarskýrslu skal haldið áfram á þeim stað sem handtekni verður fluttur á.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

25. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 19. gr., 1. mgr. 32. gr., 6. mgr. 69. gr. og 4. mgr. 101. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19 26. mars 1991, sbr. lög nr. 136 13. desember 1996, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 27. júní 1997.

Þorsteinn Pálsson.

________________

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica