Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

361/1999

Reglugerð um Forvarnasjóð. - Brottfallin

1. gr.
Tilgangur.

Forvarnasjóður starfar á grundvelli 3. gr. laga um áfengis- og vímuvarnaráð nr. 76/1998 og 7. gr. laga um gjald á áfengi nr. 96/1995 með síðari breytingum.

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að forvörnum gegn áfengis- og fíkniefnaneyslu og er hlutverk hans m.a. að veita styrki til forvarnastarfa á verkefnagrundvelli.


2. gr.
Hlutverk.

Hlutverk Forvarnasjóðs er að styrkja verkefni sem eru í samræmi við stefnu og forgangsröðun áfengis- og vímuvarnaráðs hverju sinni.


3. gr.
Stjórn.

Stjórn Forvarnasjóðs er í höndum áfengis- og vímuvarnaráðs sem gerir tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr sjóðnum til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna.


4. gr.
Varsla og reikningshald.

Áfengis- og vímuvarnaráð annast vörslu og reikningshald Forvarnasjóðs. Framkvæmdastjóri áfengis- og vímuvarnaráðs gefur ráðinu reglulega yfirlit um stöðu sjóðsins.


5. gr.
Tekjur.

Tekjur Forvarnasjóðs eru:

1. 1% af innheimtu áfengisgjaldi þeirra sem gjaldskyldir eru skv. 1. mgr. 2. gr. laga um gjald á áfengi nr. 96/1995 með síðari breytingum.
2. Fjárveitingar samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
3. Framlög sem fyrirtæki eða aðrir kunna að leggja af mörkum til starfsemi á vegum ráðsins.


6. gr.
Úthlutun styrkja.

Áfengis- og vímuvarnaráð auglýsir a.m.k. einu sinni á ári eftir umsóknum um styrki úr Forvarnasjóði.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra úthlutar styrkjum úr Forvarnasjóði að fengnum tillögum áfengis- og vímuvarnaráðs.

Styrkur til verkefnis skuldbindur hvorki áfengis- og vímuvarnaráð né heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að halda áfram styrkveitingu til sama verkefnis.
Umsóknir um styrki skulu vera ítarlegar og í þeim gerð grein fyrir eftirfarandi atriðum eftir því sem kostur er:

a) Almenn lýsing verkefnisins og fjárhæð sem sótt er um.
b) Markmið verkefnisins, markhópur, fjöldi sem áætlað er að verkefnið nái til og mat umsækjenda á árangri sem hann væntir af verkefninu.
c) Framkvæmdaáætlun með tímasetningum og greinagóðri lýsingu á framkvæmd verkefnis.
d) Fjárhagsáætlun þar sem gerð er grein fyrir heildarfjármögnun verkefnisins. Þar skal gerð skýr grein fyrir eigin fjármögnun og framlögum annarra aðila.
e) Hverjir vinni að verkefninu, verkaskipting og fjöldi þeirra sem starfa við það ásamt upplýsingum um forsvarsmenn, heimilisföng, símanúmer o.fl.
f) Lýsing á starfsemi umsækjanda og markmiðum hans, ásamt ársskýrslum, ársreikningum, reynslu af forvarnastarfi og fyrri verkefnum.
g) Hvernig samstarfi er háttað við aðra aðila sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, fagmenn og opinbera aðila og skal staðfesting þeirra fylgja umsókn.

Vegna umfjöllunar um styrkumsóknir er áfengis- og vímuvarnaráði heimilt að:

1. Senda umsóknir til umfjöllunar fagaðila og óska eftir nánari upplýsingum um verkefni, framkvæmdaaðila og fjármögnun.
2. Skilyrða styrkveitingar og ákveða að styrkir verði greiddir út í samræmi við gang verkefnis.

Styrkir skulu almennt veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsóknarverkefna.


7. gr.
Skyldur styrkþega.

Styrkþegar skulu skila áfengis- og vímuvarnaráði skýrslu og endurskoðuðu fjárhagsuppgjöri að verkefni loknu. Aðili sem hlýtur styrk og skilar ekki fullnægjandi skýrslu og uppgjöri getur búist við að verða endurkrafinn um veittan styrk og útilokaður frá frekari styrkveitingum.

Styrkþega er hvenær sem sjóðstjórn óskar, skylt að gera sjóðstjórn grein fyrir gangi verkefnisins, ráðstöfun styrks og fjármögnun verkefnisins.


8. gr.
Skyldur áfengis- og vímuvarnaráðs.

Með allar umsóknir, upplýsingar um verkefni, samstarfsaðila eða annað sem fram kemur í umsókn, fylgigögnum eða sérstökum upplýsingum til sjóðstjórnar fer áfengis- og vímuvarnaráð með sem trúnaðarmál, sbr. þó 1. tl. 5. mgr. 6. gr.

Áfangaskýrslur eða skýrslur um verkefni, að þeim loknum, ásamt reikningum skulu vera opinberar og ekki háðar trúnaðarskyldu nema þess sé óskað af sérstökum ástæðum og áfengis- og vímuvarnaráð samþykki.

Áfengis- og vímuvarnaráð svarar öllum umsóknum skriflega.


9. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 6. gr. laga nr. 76/1998 um áfengis- og vímuvarnaráð tekur gildi við birtingu. Jafnframt fellur niður reglugerð nr. 537/1995 um Forvarnarsjóð.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 27. maí 1999.

Ingibjörg Pálmadóttir.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica