218/2025
Reglugerð um (8.) breytingu á reglugerð nr. 606/2021, um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:
-
Eftirfarandi skilgreiningar bætast við og jafnframt verði skilgreiningum ákvæðisins raðað í rétta stafrófsröð:
- Lítið eða meðalstórt fyrirtæki: Rekstraraðili með færri en 250 starfsmenn og árlega veltu að upphæð 50 milljónir evra, miðað við viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands eins og það er skráð hverju sinni, eða minna, og/eða efnahagsreikning að upphæð 43 milljónir evra, miðað við viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands eins og það er skráð hverju sinni, eða minna.
- Orkustjórnunarkerfi: Safn tengdra eða samverkandi þátta í áætlun sem setur fram markmið um orkunýtni og aðferð til að ná fram því markmiði.
- Orkuúttekt: Kerfisbundin aðferð sem hefur þann tilgang að afla fullnægjandi upplýsinga um fyrirliggjandi orkunotkunarlýsingu byggingar eða hóps bygginga, iðnaðar- eða verslunarrekstrar eða starfsstöðvar eða einkarekinnar eða opinberrar þjónustu, auðkenna og magngreina kostnaðarhagkvæm tækifæri til orkusparnaðar og gera grein fyrir niðurstöðunum í skýrslu.
- Sjóferð: Ferð skips sem hefst eða endar í viðkomuhöfn.
- Önnur áhrif frá flugstarfsemi en frá koldíoxíði: Áhrif á loftslagið, sem verða við brennslu eldsneytis, af losun köfnunarefnisoxíða (NOx), sótagna og oxaðra brennisteinstegunda og áhrif frá vatnsgufu, þ.m.t. flugslóðar, frá loftfari sem stundar flugstarfsemi sem fellur undir gildissvið laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
- 9. og 15. málsl. falla brott.
2. gr.
Í stað orðsins "Umhverfisstofnun" í 4. gr. reglugerðarinnar og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í reglugerðinni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
3. gr.
2. málsl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar fellur brott.
4. gr.
11. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Orkuúttekt.
Aðrir rekstraraðilar en þeir sem flokkast sem lítil eða meðalstór fyrirtæki, skulu undirgangast orkuúttekt eigi síðar en fyrir lok ársins 2027 og a.m.k. á fjögurra ára fresti frá dagsetningu síðustu orkuúttektar. Hrinda skal tilmælum orkuúttektar í framkvæmd.
Orkuúttekt skal framkvæmd með sjálfstæðum hætti af sérfræðingi sem hlotið hefur faggildingu til slíkrar úttektar, auk þess sem hún skal uppfylla eftirfarandi viðmiðunarreglur:
- vera byggð á nýjum, mældum, rekjanlegum rekstrargögnum um orkunotkun, sem og álagslýsingu ef um raforkunotkun er að ræða,
- fela í sér ítarlega endurskoðun á orkunotkunarlýsingu bygginga eða hóps bygginga, iðnaðarstarfsemi eða iðjuvera, þ.m.t. flutninga,
- byggja, hvenær sem það er mögulegt, á greiningu kostnaðar á öllum vistferlinum í stað einfalds endurgreiðslutímabils í því skyni að hafa hliðsjón af langtímasparnaði, hrakvirði langtímafjárfestinga og afvöxtunarstuðlum,
- vera hófleg og nægilega lýsandi til að unnt sé að fá fram áreiðanlega mynd af heildarorkunýtingu og áreiðanlega greiningu á stærstu tækifærunum fyrir endurbætur.
Orkuúttekt skal gera ítarlega og fullgilta útreikninga á fyrirhuguðum ráðstöfunum mögulega til þess að veita skýrar upplýsingar um mögulegan sparnað.
Gögn úr orkuúttektum skulu geymd svo nota megi þau til samanburðargreiningar og til að rekja árangur.
Í stað orkuúttektar er rekstraraðilum heimilt að innleiða vottað orkustjórnunarkerfi feli það í sér orkuúttekt sem uppfyllir viðmiðunarreglur a-d-liðar 2. mgr., sem og 3. og 4. mgr. ákvæðis þessa.
5. gr.
12. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Endurgjaldslausar losunarheimildir.
Rekstraraðilar geta sótt um endurgjaldslausar losunarheimildir til Umhverfis- og orkustofnunar fyrir hvert úthlutunartímabil.
Auk árangursviðmiða grundvallast úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila á þeim heildarfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda sem gefinn er út til staðbundinnar starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvarðar árlega.
Ekki skal úthluta endurgjaldslausum losunarheimildum í eftirfarandi tilvikum:
- til raforkuframleiðenda,
- til starfsstöðvar sem fellur undir aðrar ráðstafanir til að bregðast við hættu á kolefnisleka,
- til nýrra þátttakenda í staðbundinni starfsemi vegna raforkuframleiðslu,
- til starfsstöðvar sem telst hafa hætt rekstri skv. 26. gr. reglugerðar (ESB) 2019/331.
Skerða skal úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda um 20% til rekstraraðila, sem er skylt að undirgangast orkuúttekt eða innleiða vottað orkustjórnunarkerfi, fari hann ekki að tilmælum skv. orkuúttektinni eða vottaða orkustjórnunarkerfinu og undantekningar 22. gr. a í reglugerð (ESB) 2019/331 eiga ekki við.
6. gr.
16. gr. a reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skipafélög undir umsjón íslenskra stjórnvalda.
Ísland hefur umsjón með eftirfarandi skipafélögum:
- skipafélögum sem eru skráð á Íslandi nema í þeim tilvikum þegar skipafélagið er skráð í öðru ríki samkvæmt skránni sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefur út á tveggja ára fresti yfir skipafélög sem stunda sjóflutninga samkvæmt I. viðauka tilskipunar 2003/87/EB,
- skipafélögum sem eru ekki skráð í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, ef áætlað er að viðkomandi skipafélag hafi í förnum sjóferðum, sem ber að standa skil á losunarheimildum vegna á næstliðnum fjórum vöktunarárum, oftast átt viðkomu í íslenskri höfn,
- skipafélögum sem eru ekki skráð í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og stunduðu engar sjóferðir sem ber að standa skil á losunarheimildum vegna á næstliðnum fjórum vöktunarárum, ef skip félagsins hóf eða lauk fyrstu sjóferð sinni, sem ber að standa skil á losunarheimildum vegna, á Íslandi.
7. gr.
Á eftir 16. gr. b reglugerðarinnar kemur ný grein, 16. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Gildissvið fyrir sjóflutninga.
Skylda til að standa skil á losunarheimildum í sjóflutningastarfsemi gildir um:
- 50% losunar frá skipum sem fara í sjóferð frá viðkomuhöfn sem fellur undir lögsögu ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu og koma til viðkomuhafnar sem fellur utan lögsögu ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu,
- 50% losunar frá skipum sem fara í sjóferð frá viðkomuhöfn sem fellur utan lögsögu ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu og koma til viðkomuhafnar sem fellur undir lögsögu ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu,
- 100% losunar frá skipum sem fara í sjóferð frá viðkomuhöfn sem fellur undir lögsögu ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu og koma til viðkomuhafnar sem fellur undir lögsögu ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu,
- 100% losunar frá skipum innan viðkomuhafnar sem fellur undir lögsögu ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu.
8. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. reglugerðarinnar:
- Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2024/1030 frá 27. mars 2024 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 að því er varðar uppfærslu á skránni yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í 1. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölulið 21 as í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 224/2024 frá 23. september 2024. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 83 frá 14. nóvember 2024, bls. 823-847.
- Við 4. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2024/622 frá 22. febrúar 2024 um skrána yfir ríki sem litið er svo á að beiti kerfinu til kolefnisjöfnunar og samdráttar í alþjóðaflugi að því er varðar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB vegna losunar 2023, sem vísað er til í tölulið 21 alu í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæði, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 140/2024 frá 12. júní 2024. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 65 frá 29. ágúst 2024, bls. 455-459.
9. gr.
Við 2. mgr. 33. gr. a reglugerðarinnar bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/2449 frá 6. nóvember 2023 um reglur um beitingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/757 að því er varðar sniðmát fyrir vöktunaráætlanir, losunarskýrslur, hlutaskýrslur um losun, samræmingarskjöl og skýrslur innan félags og um niðurfellingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1927, sem vísað er til í tölulið 21 awb í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2024 frá 12. júní 2024. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandins nr. 65 frá 29. ágúst 2024, bls. 463-493.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/2849 frá 12. október 2023 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/757 að því er varðar reglur um skýrslugjöf og framlagningu samantekinna losunargagna innan félagsins, sem vísað er til í tölulið 21 awd í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2024 frá 12. júní 2024. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 65 frá 29. ágúst 2024, bls. 460-462.
10. gr.
Ákvæði til bráðabirgða I í reglugerðinni orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skip í ísflokki.
Út árið 2030 er skipafélögum heimilt að skila inn 5% færri losunarheimildum en sem nemur vottaðri losun þeirra frá skipum með ísflokk að því tilskildu að slík skip séu með ísflokk IA eða IA-gæðaflokk eða jafngildan ísflokk sem er fastsettur á grundvelli HELCOM-tilmæla 25/7.
Sé mismunur á vottaðri losun og innskiluðum losunarheimildum, vegna undanþágu 1. mgr. ákvæðis þessa, skal ógilda þann fjölda losunarheimilda sem samsvarar mismuninum í stað þess að bjóða losunarheimildirnar upp.
11. gr.
Ákvæði til bráðabirgða II í reglugerðinni orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Úthlutun til flugrekenda vegna notkunar á sjálfbæru flugvélaeldsneyti.
Fyrir hvert almanaksár út árið 2030 getur flugrekandi sótt um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til Umhverfis- og orkustofnunar vegna notkunar á sjálfbæru flugvélaeldsneyti, eins og það er skilgreint í 2. mgr. ákvæðis þessa. Úthlutunin skal grundvallast á reglum 6. mgr. 3. gr. c tilskipunar 2003/87/EB, eins og það hefur verið aðlagað með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, og er árlegur umsóknarfrestur til og með 31. mars næsta almanaksárs á eftir því ári sem notkunin telst til.
Flugvélaeldsneyti telst sjálfbært sé heimilt að úthluta endurgjaldslausum losunarheimildum skv. 6. mgr. 3. gr. c tilskipunar 2003/87/EB, eins og það hefur verið aðlagað með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, vegna notkunar þess.
12. gr.
Ákvæði til bráðabirgða III í reglugerðinni orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Viðbótarúthlutun til flugrekenda árin 2025 og 2026.
Fyrir árin 2025 og 2026 úthlutar Umhverfis- og orkustofnun endurgjaldslausum losunarheimildum, til viðbótar við aðrar endurgjaldslausar losunarheimildir, til flugrekenda sem hafa birt og afhent stofnuninni vottaða kolefnishlutleysisáætlun, sem uppfyllir skilyrði 4. mgr. ákvæðis þessa, fyrir 30. apríl árið 2025 og fyrir 31. mars árið 2026, að því er varðar flug frá flugvöllum á Íslandi til flugvalla á Evrópska efnahagssvæðinu, í Sviss eða á Bretlandi og flug frá flugvöllum á Evrópska efnahagssvæðinu til flugvalla á Íslandi.
Á næsta almanaksári eftir skil kolefnishlutleysisáætlunar hvers árs skal flugrekandi skila mati vottunaraðila á framfylgd fyrirhugaðra ráðstafana áætlunarinnar til Umhverfis- og orkustofnunar. Í matinu skal vottunaraðilinn taka afstöðu til þess hvort ráðstöfununum hefur verið framfylgt og hafi slíkt ekki verið gert ber flugrekanda að skila þeim losunarheimildum sem honum var úthlutað, á grundvelli 1. mgr. ákvæðis þessa, eigi síðar en þremur mánuðum frá því hann skilaði mati vottunaraðilans til Umhverfis- og orkustofnunar.
Viðbótarúthlutun þessi skal ekki fara yfir úthlutun án endurgjalds árið 2024, og skal vera með fyrirvara um línulegan samdráttarstuðul eins og um getur í 9. gr. tilskipunar 2003/87/EB. Sé fjöldi heimilda ekki nægur skal beita samræmdri aðlögun að því er varðar allar úthlutanir. Draga ber fjölda losunarheimilda sem er jafn viðbótarúthlutuninni frá fjölda losunarheimilda til flugrekenda sem Ísland skal bjóða upp.
Kolefnishlutleysisáætlun flugrekenda skal vera í samræmi við markmið Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess um kolefnishlutleysi, í samræmi við Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem hún skal tilgreina þá þætti sem skulu vera í slíkum áætlunum samkvæmt viðauka reglugerðar þessarar.
13. gr.
Við reglugerðina bætist nýr viðauki, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
VIÐAUKI
Innihald kolefnishlutleysisáætlunar flugrekenda.
Kolefnishlutleysisáætlun flugrekanda skal tilgreina eftirfarandi þætti:
-
Almennar upplýsingar um flugrekanda:
- heiti og heimilisfang flugrekanda,
- kennimerki flugrekanda í skráningarkerfinu,
- þjóðernis- og skráningarmerki loftfars hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO ID),
- samskiptaupplýsingar um viðurkenndan fulltrúa og helsta tengilið, ef hann er ekki sá sami.
- Sögulega losun, þ.m.t. gefin upp sem tonn af koldíoxíðsígildum (t CO2eq), fyrir hvert ár á tímabilinu 2013-2024.
-
Áfanga og markmið:
- nákvæma lýsingu á áföngum fyrir árið 2025 annars vegar og fyrir árið 2026 hins vegar, sem svarar til markmiðanna sem um getur í b-lið,
- sértæk markmið um losun fyrir árið 2025 annars vegar og fyrir árið 2026 hins vegar, gefin upp sem tonn af koldíoxíðsígildum (t CO2eq).
-
Ráðstafanir og fjárfestingar:
- nákvæma lýsingu á öllum ráðstöfunum sem eru ráðgerðar á árinu 2025 annars vegar og á árinu 2026 hins vegar til að ná áföngum og markmiðum sem er lýst í 3. tölul. og til að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050,
- nákvæma lýsingu og magngreiningu á fjárfestingum sem tengjast áföngunum, gefið upp í evrum sem fjárfest er í á árinu 2025 annars vegar og á árinu 2026 hins vegar,
- nákvæma lýsingu á stuðningsskilyrðum og innviðaþörfum fyrir ráðstafanir og fjárfestingar skv. a- og b-lið þessa töluliðar,
- skrá yfir ráðstafanir og fjárfestingar sem hefur þegar verið komið í framkvæmd áður en kolefnishlutleysisáætlunin var lögð fram.
- Áætluð áhrif af ráðstöfunum og fjárfestingum:
-
-
megindlegt og eigindlegt mat á áætluðum áhrifum hverrar ráðstöfunar og fjárfestingar, sem um getur í 4. tölul., á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2025 annars vegar og á árinu 2026 hins vegar, þ.m.t., að því marki sem mögulegt er, skiptingu heildaráhrifa í eftirfarandi flokka:
- umskipti yfir í tækni með lítilli eða engri losun
- orkunýtni og orkusparnað
- umskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbært flugvélaeldsneyti sem uppfyllir viðmiðanir, sbr. 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða reglugerðar þessarar
- auðlindanýtni, þ.m.t. minnkuð notkun á efniviðum, og endurvinnsla
- föngun, nýtingu og geymslu koldíoxíðs.
- lýsingu á ástæðunum fyrir að ráðstafanirnar, sem er lýst í 4. tölulið, voru valdar fremur en aðrar mögulegar ráðstafanir til afkolunar að því er varðar áætluð áhrif þeirra á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
- Upplýsingar um hvernig kynningarstarfsemi flugrekanda meðal almennings samræmist markmiðinu um kolefnishlutleysi.
14. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. og 2. mgr. 5. gr., 6. mgr. 9. gr., 7. mgr. 10. gr., 4. mgr. 11. gr., 2. og 6. mgr. 12. gr., 23. gr., 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II og ákvæði til bráðabirgða III laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir nr. 96/2023, öðlast þegar gildi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 27. febrúar 2025.
Jóhann Páll Jóhannsson
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.