Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

206/2025

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 990/2008 um útstreymisbókhald.

1. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 1. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skilgreiningar.

  1. Umhverfisupplýsingar eru upplýsingar um rekstrartíma (klst./ári)ogmeginnotkun starfs­stöðvar á framleiðslumagni og eftirfarandi hráefnum, orku (raforka í kWst., jarðefna­eldsneyti í lítrar/tonn, gas í m³), vatni (jarðhitavatn í m³, kalt vatn í m³), úrgangi (magns spilli­efna og annars úrgangs), öðrum hráefnum (massi), og eftir því sem við á, útstreymis­bókhald.
  2. Útstreymisbókhald er bókhald sem inniheldur upplýsingar um losun og flutning mengandi efna sem tilgreind eru í II. viðauka reglugerðar (EB) nr. 166/2006.

 

2. gr.

Ákvæði 2. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn orðast svo:

Skýrslugjöf.

Rekstraraðilar atvinnurekstrar sem falla undir I. viðauka í reglugerð (EB) nr. 166/2006, sbr. fylgiskjal með þessari reglugerð, skulu skila útstreymisbókhaldi til Umhverfis- og orkustofnunar. Upplýsingum skal skilað á því formi sem Umhverfis- og orkustofnun leggur til.

Ef losun á efnum frá starfsstöð er undir þeim mörkum sem tilgreind eru í II. viðauka í reglugerð (EB) nr. 166/2006 er Umhverfis- og orkustofnun heimilt að kalla eftir upplýsingum um losun meng­andi efna frá starfsstöðinni og skal rekstraraðili tilgreina hvort upplýsingarnar byggja á mælingum eða mati. Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um mæliaðferð eða reiknilíkan sem notað er, eftir því sem við á.

Umhverfis- og orkustofnun getur krafist endurskila teljist gögn ófullnægjandi.

Umhverfis- og orkustofnun skal hafa á vefsvæði sínu upplýsingar um Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna.

Upplýsingum skv. 1. og 2. mgr. ber að skila fyrir 1. maí ár hvert fyrir undangengið almanaksár.

 

3. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 2. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Umhverfisupplýsingar.

Rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. viðauka I og viðauka II laga um hollustuhætti og mengunar­varnir, skulu skila árlega umhverfisupplýsingum rafrænt til Umhverfis- og orkustofnunar.

Umhverfis- og orkustofnun er heimilt að óska eftir umhverfisupplýsingum frá atvinnurekstri sem fellur undir viðauka IV laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Heimilt er að gefa efnanotkun og losun upp sem magn á hverja framleidda einingu. Upplýsingar þær sem fyrir koma í 1. og 2. mgr. skal gefa upp sem magntölur.

Upplýsingum skal skilað rafrænt á því formi sem Umhverfis- og orkustofnun leggur til. Setja skal upplýsingar fram á auðskiljanlegan hátt með það að markmiði að auðvelda utanaðkomandi aðilum skilning á umhverfisupplýsingum rekstraraðila.

Umhverfis- og orkustofnun skal birta á vef sínum umhverfisupplýsingar, sbr. 1. mgr., innan fjögurra vikna frá móttöku skýrslunnar. Birting skýrslna um umhverfisupplýsingar felur ekki í sér viður­kenningu Umhverfis- og orkustofnunar á þeim upplýsingum sem þar koma fram.

Upplýsingum samkvæmt þessari grein ber að skila fyrir 1. maí ár hvert fyrir undangengið alman­aks­ár.

 

4. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 2. gr. b, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðgangur að upplýsingum um umhverfisupplýsingar.

Upplýsingar sem stjórn rekstraraðila atvinnurekstrar telur framleiðsluleyndarmál er ekki skylt að skila með umhverfisupplýsingum, enda séu slík atriði sérstaklega tilgreind og ekki gerðar athuga­semdir við afstöðu rekstraraðila af hálfu útgefanda starfsleyfis.

 

5. gr.

Ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Málsmeðferð o.fl.

Um málsmeðferð og úrskurði samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum XVIII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Um valdsvið, beitingu þvingunarúrræða og viðurlaga samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum XVII. og XIX. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

6. gr.

Heiti reglugerðarinnar verður: Reglugerð um umhverfisupplýsingar.

 

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. og 34. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um grænt bókhald, nr. 851/2002, og reglugerð um skil atvinnurekstrar á upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 244/2009.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 10. febrúar 2025.

 

Jóhann Páll Jóhannsson
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Stefán Guðmundsson.

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica