Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

114/2009

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 787/2003 um búfjársæðingar og flutning fósturvísa. - Brottfallin

1. gr.

Við 4. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 1. mgr. er sæðingarstöð heimilt að leyfa gestum aðgang að stöðinni, enda sé í einu og öllu framfylgt umgengnisreglum stöðvarinnar, sem samþykktar hafa verið af yfirdýralækni.

Menn sem koma erlendis frá skulu hafa verið hér á landi í að minnsta kosti 48 klukkustundir áður en þeim er heimilt að koma í stöðina.

2. gr.

10. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Nautkálfar sem ráðgert er að flytja inn á sæðingarstöð skulu vera a.m.k. 30 daga gamlir þegar þeir eru fluttir í sérstaka ungkálfaeinangrun að fengnu samþykki yfirdýralæknis á flutningunum.

Nautkálfar skulu hafðir í sérstakri lokaðri einangrun í fjórar vikur. Óheimilt er að færa fleiri kálfa í einangrunina á því tímabili.

Nautkálfar skulu eigi fluttir úr einangrun og til sæðingarstöðvar fyrr en farið hefur fram heilbrigðisskoðun héraðsdýralæknis. Áður en naut eru flutt inn á sæðingarstöð skulu liggja fyrir niðurstöður úr þeim rannsóknum sem fyrirskipaðar eru á hverjum tíma.

Sæðingarstöð skal tilnefna sérstakan dýralækni, einn eða fleiri eftir þörfum og tilkynna það yfirdýralækni.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í búnaðarlögum nr. 70/1998, 15. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og lögum um innflutning dýra nr. 54/1990 til þess að öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. febrúar 2009.

F. h. r.
Ólafur Friðriksson.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica