Menntamálaráðuneyti

108/1999

Reglugerð um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi. - Brottfallin

1. gr.

Menntamálaráðherra getur veitt skólum á framhaldsskólastigi sem reknir eru af einkaaðilum eða samtökum viðurkenningu á grundvelli laga og reglugerða er varða framhaldsskóla enda miðist starfsemi þeirra við að:

a.             veita nemendum undirbúning til starfa í atvinnulífinu í samræmi við almennar kröfur og/eða

b.             starfrækja nám á framhaldsskólastigi, annaðhvort heildstætt nám skv. aðalnámskrá, eða hluta þess.

Viðurkenning á starfsemi einkaskóla felur í sér staðfestingu á að námskrá skólans og starfsemi uppfylli almenn skilyrði framhaldsskólalaga. Viðurkenningin felur ekki í sér framlag til starfseminnar af almannafé. Ríkissjóður ber enga ábyrgð, hvorki fjárhagslega né rekstrarlega, á starfsemi skólans.

2. gr.

Ábyrgðaraðili einkaskóla sækir um viðurkenningu skólans á sérstöku umsóknareyðublaði.

Umsækjandi skal leggja fram eftirgreindar upplýsingar með umsókn um viðurkenningu:

a.             námskrá skólans sem lýsir markmiðum og innihaldi námsins, skipulagi þess svo og tilhögun námsmats og námslokum.

b.             lýsingu á stjórnun skólans svo og hæfiskröfum sem gerðar eru til starfsmanna þ.m.t. til þeirra sem gegna kennslustörfum.

c.             staðfestingu á því hvernig fjárhagslegri ábyrgð sé háttað og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi skólans sé tryggt.

d.             lýsingu á starfsaðstöðu, þ. e. húsnæði skólans og búnaði, ásamt vottorðum frá heilbirgðiseftirliti og brunamálastofnun.

e.             yfirlýsingu ábyrgðaraðila um að hann veiti menntamálaráðuneytinu upplýsingar um starfsemi skólans á hverjum tíma.

3. gr.

Skilyrði þess að einkaskóli geti hlotið viðurkenningu eru:

a.             að námið sé skipulagt sem a.m.k. einnar annar heildstætt nám,

b.             að inntökuskilyrði hafi verið skilgreind.

c.             að réttindi og skyldur nemenda séu sambærileg við almennar reglur aðalnámskrár framhaldskóla.

d.             að starfsaðstaða skólans sé fullnægjandi að mati ráðuneytisins.

Ef um er að ræða viðurkenningu á skóla sem starfrækir nám samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla skal af hálfu skólans gætt ákvæða laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra við ráðningar í kennslu og stjórnunarstörf.

4. gr.

Viðurkenning er veitt skriflega og þar skal lýst þeim skilyrðum sem sett eru. Viðurkenning einkaskóla er veitt til tiltekins tíma.

5. gr.

Þeim aðila er ábyrgð ber á rekstri viðurkennds einkaskóla er skylt að senda menntamálaráðuneytinu árlega skýrslu um starfsemina og veita allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi skólans þegar óskað er.

Ráðuneytinu er heimilt að höfðu samráði við ábyrgðaraðila að gera úttekt á starfsemi skólans. Ráðherra getur afturkallað viðurkenningu ef rekstraraðili uppfyllir ekki sett skilyrði.

6. gr.

Einkaskólar eiga ekki kröfu á framlögum af almannafé. Alþingi ákveður framlög ríkissjóðs til þessara skóla. Njóti einkaskólar framlags af opinberu fé skal gerður verksamningur milli menntamálaráðherra og rekstraraðila skólans um greiðslu fjárframlaga svo og annarra skilyrða sem framlagið er háð að mati samningsaðila.

7. gr.

Ef sótt er um viðurkenningu á skóla sem ekki hefur hafið starfsemi sína, er heimilt að veita viðurkenningu til allt að eins árs að uppfylltum skilyrðum sem sett eru í reglugerð þessari. Að þeim tíma liðnum fari fram úttekt á vegum ráðuneytisins á starfsemi skólans.

Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. gr. getur menntamálaráðuneytið veitt ábyrgðaraðila einkaskóla tímabundið vilyrði fyrir viðurkenningu í samræmi við 41. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla, ef fyrir liggur fullnægjandi námskrá skólans að mati menntamálaráðuneytisins, sem lýsir innihaldi og markmiðum námsins svo og skipulagi, bæði bóklegu og verklegu; lýsing á tilhögun námsmats og námslokum.

8. gr.

Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 41. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 137/1997 um viðurkenningu einkaskóla.

Menntamálaráðuneytinu, 9. febrúar 1999.

Björn Bjarnason.

____________________

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica