Menntamálaráðuneyti

98/2000

Reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla. - Brottfallin

1. gr.

Allir þeir sem lokið hafa námi í grunnskóla eða öðru jafngildu námi skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.

Hér er kveðið á um lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og starfsþjálfun þar sem hennar er krafist vegna inntöku nemenda á tilteknar námsbrautir framhaldsskóla. Inntökuskilyrði skulu stuðla að því að nemendr hafi nægan undirbúning til að takast á við nám á viðkomandi námsbraut. Inntökuskilyrði miðast við námsárangur á samræmdum lokaprófum og við skólaeinkunnir við lok grunnskóla eftir því sem við á.

2. gr.

Nemendur, sem lokið hafa skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla, og einnig samræmdum lokaprófum a.m.k. í íslensku og stærðfræði, geta innritast á brautir framhaldsskóla, svo fremi að ekki séu gerðar viðbótarkröfur um árangur í tilteknum námsgreinum, sbr. 3., 4. og 5. gr., enda fullnægi þeir eftirtöldum skilyrðum: Meðaltal einkunnar á samræmdu lokaprófi og skólaeinkunnar við lok grunnskóla í hvorri áðurnefndra námsgreina sé að lágmarki 5,0 og auk þess má einkunn á samræmdu prófi ekki vera lægri en 4,5 í hvorri þessara námsgreina, sjá þó ákvæði 3. gr. hvað varðar lágmarkseinkunnir til inntöku á bóknámsbrautir. Sjá 6. gr. varðandi nemendur sem ekki uppfylla skilyrði þessarar greinar.

3. gr.

Til að hefja nám á bóknámsbrautum framhaldsskóla þurfa nemendur að þreyta a.m.k. fjögur samræmd próf, þ.e. í íslensku og stærðfræði, sbr. 2. gr., og tvö próf til viðbótar, sbr. a-, b- eða c-lið þessarar greinar:

a) Til að hefja nám á málabraut skulu nemendur hafa þreytt samræmd lokapróf í íslensku, dönsku, ensku og stærðfræði. Meðaltal einkunnar á samræmdu lokaprófi og skólaeinkunnar við lok grunnskóla í íslensku, dönsku og ensku skal vera 6,0 að lágmarki í hverri námsgrein og auk þess verður einkunn á samræmdu lokaprófi að vera 5,0 eða hærri í hverri þessara námsgreina. Um lágmarksárangur í stærðfræði gilda ákvæði 2. gr.

b) Til að hefja nám á félagsfræðabraut skulu nemendur hafa þreytt samræmd lokapróf í íslensku, ensku, samfélagsgreinum og stærðfræði. Meðaltal einkunnar á samræmdu lokaprófi og skólaeinkunnar við lok grunnskóla í íslensku, ensku og samfélagsgreinum skal vera 6,0 að lágmarki í hverri námsgrein og auk þess verður einkunn á samræmdu lokaprófi að vera 5,0 eða hærri í hverri þessara námsgreina. Um lágmarksárangur í stærðfræði gilda ákvæði 2. gr.

c) Til að hefja nám á náttúrufræðabraut skulu nemendur hafa þreytt samræmd lokapróf í íslensku, ensku, stærðfræði og náttúrufræði. Meðaltal einkunnar á samræmdu lokaprófi og skólaeinkunnar við lok grunnskóla í íslensku, stærðfræði og náttúrufræði skal vera 6,0 að lágmarki í hverri námsgrein og auk þess verður einkunn á samræmdu lokaprófi að vera 5,0 eða hærri í hverri þessara námsgreina. Um lágmarksárangur í ensku gilda sömu ákvæði og tilgreind eru í 2. gr. fyrir íslensku og stærðfræði.

4. gr.

Skólameistara er heimilt að setja skilyrði í skólanámskrá til viðbótar því sem segir í 2. gr. til inngöngu á starfsnámsbrautir. Slík skilyrði skulu miðast við frammistöðu nemenda í verk- og listgreinum í grunnskóla og/eða aðra þætti sem benda til þess að nemendur geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi.

5. gr.

Til að hefja nám á listnámsbraut þurfa nemendur að fullnægja ákvæðum 2. gr. og hafa auk þess lagt stund á listnám í grunnskóla eða sérskóla með fullnægjandi árangri að mati viðtökuskóla eða geta sýnt með öðrum hætti að námið henti þeim.

6. gr.

Nemendur sem ekki uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar til inntöku á einstakar námsbrautir samkvæmt 2., 3., 4. eða 5. gr., eiga kost á að hefja nám á almennri námsbraut eða í sérdeildum. Að fullnægðum tilteknum skilyrðum um námsárangur að mati skólameistara viðtökuskóla geta þeir síðan haldið áfram námi á öðrum brautum framhaldsskóla.

7. gr.

Nemendur sem fullnægja inntökuskilyrðum samkvæmt reglugerð þessari hafa forgang að innritun á viðkomandi námsbraut.

Skólameistari getur heimilað nemendum, sem ekki uppfylla inntökuskilyrði brautar að fullu að hefja nám á viðkomandi námsbraut ef hann telur líkur á því að þeir standist þær kröfur sem gerðar eru um námsárangur.

8. gr.

Skólameistara er heimilt, skv. 15. gr. laga um framhaldsskóla, að veita nemendum, sem hafa náð 18 ára aldri, inngöngu á einstakar brautir framhaldsskóla þótt þeir uppfylli ekki lágmarkskröfur um námsárangur við lok grunnskóla.

9. gr.

Inntaka nemenda í framhaldsskóla er á ábyrgð skólameistara, sem samþykkir eða synjar umsóknum um skólavist. Synji skólameistari umsókn á umsækjandi rétt á rökstuðningi hans fyrir þeirri ákvörðun.

Umsókn um skólavist í framhaldsskóla skal skilað til viðkomandi framhaldsskóla eða á annan auglýstan stað á sérstöku eyðublaði sem menntamálaráðuneytið gefur út. Í umsókn skal koma fram nafn, heimilisfang og kennitala umsækjanda. Sé umsækjandi yngri en 18 ára skal fylgja staðfesting foreldris eða forráðamanns. Umsækjendur skulu skrá þann skóla og þá námsbraut sem sótt er um. Þá skal ennfremur tilgreina þann skóla og þá námsbraut sem sótt er um til vara og sérstakar óskir sem við kunna að eiga, s.s. hvort óskað er eftir táknmálstúlkun, hjólastólaaðgengi eða heimavist. Á eyðublöðunum skulu birtar þær reglur sem gilda um inntöku nemenda í framhaldsskóla.

Við mat á umsóknum ber skólameistara að taka mið af inntökuskilyrðum sem kveðið er á um í reglugerð þessari og fylgja að öðru leyti almennum hlutlægum reglum þannig að samræmis og jafnræðis sé gætt milli umsækjenda sem uppfylla sambærileg skilyrði. Ákvörðun skólameistara um inntöku nemenda í skólann úr hópi þeirra sem ekki njóta forgangsréttar samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar ber að byggja á málefnalegum sjónarmiðum.

Nú getur skólameistari ekki orðið við umsókn um skólavist og ber honum þá að sjá til þess að umsókn sé framsend tímanlega til þess skóla sem sótt er um til vara.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 15. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og gildir um innritun í framhaldsskóla fyrir skólaárið 2001 - 2002. Þar eð námskrá grunnskóla sem tók gildi 1. júní 1999 verður þá ekki komin að fullu til framkvæmda verður þessi reglugerð endurskoðuð áður en kemur að innritun vegna skólaársins 2002 - 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.

Á meðan ekki eru haldin samræmd lokapróf í samfélagsgreinum og náttúrufræði miðast ákvæði 3. gr., b- og c-liðar við skólaeinkunn við lok grunnskóla eingöngu.

Menntamálaráðuneytinu, 8. febrúar 2000.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica