Greiðslustaður.
1. gr.
Aðflutningsgjöld skal greiða tollstjóra þess tollumdæmis þar sem vöru á að afferma, þ.e. á ákvörðunartollstöð.
Sé vara framsend ótollafgreidd í annað tollumdæmi en þar sem afferming fór fram, sbr. VII. kafla tollalaga nr. 55/1987, skal þó greiða gjöldin í því tollumdæmi sem varan var send til.
2. gr.
Aðflutningsgjöld af póstsendingum skulu greidd á þeirri ákvörðunartollpóststöð þar sem þeirra skal vitjað samkvæmt tilkynningu tollpóststöðvar.
Gjalddagi aðflutningsgjalda.
3. gr.
Aðflutningsgjöld af innfluttum vörum, öðrum en þeim sem heimilaður hefur verið flutningur á í tollvörugeymslu, falla í gjalddaga þegar tollstjóra er afhent aðflutningsskýrsla ásamt tilskildum gögnum yfir vöru sem óskast tollafgreidd eða tollstjóri veitir leyfi til að afhenda, enda hafi flutningsfar tekið höfn. Sama gildir um afhendingu tollskjala á tollpóststöð.
Aðflutningsgjöld skulu þó falla í gjalddaga eigi síðar en einu ári talið frá komudegi flutningsfars til landsins, hafi tollstjóra eða tollpóststöð ekki borist fullnægjandi aðflutningsskjöl fyrir þann tíma.
4. gr.
Aðflutningsgjöld af vörum sem tollstjóri hefur heimilað að settar verði í almenna tollvörugeymslu falla í gjalddaga þegar beiðni um úttekt á vöru úr tollvörugeymslu ásamt tilskildum tollskjölum er afhent tollstjóra eða umboðsmanni hans. Sama gildir um þær vörur sem óskast tollafgreiddar úr tollfrjálsum forðageymslum farmflytjenda og geymslum tollfrjálsra verslana til neyslu innanlands.
Aðflutningsgjöld af vörum sem settar hafa verið í almenna tollvörugeymslu skulu þó falla í gjalddaga eigi síðar en þremur árum eftir komudag flutningsfars til landsins. Gjalddagi af vara- og vélahlutum skal þó vera tveimur árum síðar, nema tollstjóri heimili lengri frest og sérstakar ástæður mæla með því, en gjalddagi má þó aldrei vera síðar en tíu árum talið frá komudegi flutningsfars.
Eindagi aðflutningsgjalda.
5. gr.
Aðflutningsgjöld af innfluttum vörum skulu að fullu greidd áður en heimiluð er afhending þeirra úr geymslu farmflytjanda, tollvörugeymslu eða tollpóststöðvar eða notkunar innan lands hafi innflytjandi þær í fórum sínum við komu til landsins.
Hafi bráðabirgðatollafgreiðsla eða tímabundinn tollfrjáls innflutningur verið heimilaður samkvæmt sérstökum reglum settum með stoð í tollalögum eða sérlögum falla aðflutningsgjöld í eindaga þann dag sem fullnaðartollafgreiðsla skal fara fram eða leyfi til tímabundins innflutnings fellur úr gildi, hvort sem tilkynnt er þar um eður ei.
6. gr.
Gjalddagi aðflutningsgjalda í þeim tilvikum sem um ræðir í 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar telst jafnframt eindagi þeirra.
7. gr.
Eindagi aðflutningsgjalda, sem innflytjandi hefur vanreiknað í aðflutningsskýrslu eða vanreiknuð reynast samkvæmt upplýsingum sem gefnar hafa verið vegna tollmeðferðar á vöru og tollstjóri leyft afhendingu á, er tollafgreiðsludagur varanna.
8. gr.
Sé vara tekin úr vörslu farmflytjanda, tollvörugeymslu, tollpóststöðvar eða tekin til notkunar án þess að leyfi tollstjóra eða tollpóststöðvar liggi fyrir eru aðflutningsgjöld þegar fallin í eindaga.
Þegar atvik eru eins og um ræðir í 1. málsgr. skulu aðflutningsgjöld af viðkomandi vöru reiknuð út samkvæmt þeim gjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var á komudegi flutningsfars til landsins, hafi vara verið í vörslu farmflytjanda eða innflytjanda, en hafi hún verið sett í tollvörugeymslu skulu aðflutningsgjöld reiknuð út samkvæmt þeim gjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var þegar tollstjóri veitti heimild til flutnings vöru þangað, nema sannað sé á fullnægjandi hátt að mati tollstjóra að nefnd atvik séu síðar til komin
9. gr.
Innflytjandi skal greiða í einu lagi aðflutningsgjöld af vörum sem skráðar eru í sama farmskrárnúmer (sendingarnúmer/komunúmer), nema skipting eða söfnun sendinga hafi farið fram samkvæmt 2. og 3. málsgrein þessarar greinar.
Farmflytjendum sem lögheimili eiga hér á landi er heimilt að skipta vörusendingum sem koma í einu farmskrárnúmeri á fleiri farmskrárnúmer án þess að afla þurfi til þess staðfestingar tollstjóra hverju sinn. Skipting farmskrárnúmers er bundin eftirfarandi skilyrðum:
a) Farmflytjandi skal því aðeins fallast á skiptingu farmskrárnúmers að innflytjandi framvísi sjálfstæðum vörureikningum fyrir hverja skiptingu. Með öllu er óheimilt að skipta vörusendingu ef skiptingin leiðir til óbreyttrar tollflokkunar vörusendingar. Leiki vafi á slíku skal farmflytjandi hafna beiðni um skiptingu. Farmflytjandi skal bera ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda leiði skipting til breyttrar gjaldtöku.
b) Farmflytjandi skal útbúa sérstakt skiptifarmbréf fyrir hvern sendingarhluta og skal honum gefið sendingarnúmer samkvæmt nánari ákvörðun ríkistollstjóra.
c) Í skiptifarmbréfi skulu koma fram upplýsingar um viðtakanda sendingarhlutans, flutningsgjald, viðkomandi vörur svo og aðrar þær upplýsingar sem venja er að veita í farmbréfum um vörusendingu.
d) Farmflytjandi skal útbúa sérstaka skiptifarmskrá vegna skiptingar sérhvers farmskrárnúmers og senda eitt eintak endurskoðunardeild ríkistollstjóraembættisins og annað tollstjóra þar sem vöru á að tollafgreiða. Skiptifarmskráin skal undirrituð af framflytjanda eða starfsmanni hans.
e) Farmflytjandi útbúi sjálfstæðan flutningsgjaldsreikning fyrir hvert undirfarmbréf.
f) Sé vara á farmskrá til annars tollumdæmis en óskað er eftir að hún tolla afgreiðist í skal farmflytjandi ganga formlega frá umskráningu til viðkomandi tollstjóra. Farmflytjendum, sem eiga lögheimili hér á landi, er heimilt án staðfestingar tollstjóra
hverju sinni að skipta safnsendingum (consolidation), þ.e. vörusendingum sem fluttar eru til landsins samkvæmt einu aðalfarmbréfi og tilheyrandi undirfarmbréfum, að því tilskildu að:
a) við útskipun hafi verið gefið út aðalfarmbréf fyrir sendinguna og undirfarmbréf með tilvísun í safnfarmskrá;
b) hverju undirfarmbréfi fylgi sjálfstæður reikningur eða vörureikningur yfir vörurnar:
c) farmflytjandi afhendi tollstjóra, auk aðalfarmskrár, afrit af safnfarmskrá þar sem sérstaklega sé auðkenndur sá sendingarhluti samkvæmt undirfarmbréfi sem tollafgreiða á í tollumdæmi hans;
d) undirfarmbréfum sé af farmflytjanda gefið sendingarnúmer samkvæmt nánari
fyrirmælum ríkistollstjóra og það fært inn á safnfarmskrána, sbr. c-lið;
e) farmflytjandi sendi endurskoðunardeild ríkistollstjóraembættisins eintak af aðalfarmbréfi og safnfarmskrá með sendingarnúmerum undirfarmbréfa með sundurliðun flutningsgjalda, sbr. c-lið;
f) ákvæði 2. málsgreinar skulu að öðru leyti gilda um safnsendingar eftir því sem við getur átt.
Ríkistollstjóri getur heimilað flutningsmiðlurum með sömu skilyrðum og um ræðir í 3. mgr. að annast skiptingu safnsendinga, enda liggi skriflegt samkomulag fyrir um að vörurnar verði áfram í vörslu og á ábyrgð farmflytjanda svo og skil á aðalfarmskrá, safnskrá, aðalfarmbréfi og undirfarmbréfum til tollstjóra og endurskoðunardeildar ríkistollstjóraembættisins.
Vegna tollmeðferðar á vörum sem um ræðir í 2. - 4. mgr. þessarar greinar skal greiða tollafgreiðslugjald kr. 500 vegna hvers skiptifarmbréfs eða undirfarmbréfs.
Dráttarvextir.
10. gr.
Nú eru aðflutningsgjöld ekki greidd á eindaga eins og hann er ákveðinn samkvæmt 5.-8. gr. reglugerðar þessarar og skal þá frá og með eindaga reikna dráttarvexti af kröfunni fram að greiðsludegi. Dráttarvextir skulu vera hinir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og reiknast sem dagvextir, sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 83/ 1988.
Stöðvun tollafgreiðslu.
11. gr.
Tollstjóri eða tollpóststofa skal stöðva tollafgreiðslu á öðrum vörum til þess sem er í vanskilum með aðflutningsgjöld, dráttarvexti, viðurlög eða annan kostnað vegna tollmeðferðar á vöru þar til greiðsla á eindöguðum aðflutningsgjöldum ásamt dráttarvöxtum, viðurlögum og öðrum kostnaði hefur farið fram.
Stöðvun tollafgreiðslu skal fara fram 15 dögum eftir að tollstjóri eða tollpóststöð hefur tilkynnt innflytjanda um vanskil með ábyrgðarbréfi og skal upphaf frestsins talið frá og með póstlagningardegi tilkynningarinnar, nema sýnt sé fram á að vara hafi verið endursend eða ráðstafanir gerðar til endursendingar eða eyðileggingar hennar, sbr. reglugerð nr. 463/1984, eða hún endurseld úr landi, sbr. reglugerð nr. 471/1984.
Tilkynning um stöðvun tollafgreiðslu í einu tollumdæmi skal gilda gagnvart viðkomandi innflytjanda í öllum tollumdæmum landsins, enda skal tollstjóri sama dag og stöðvun tollafgreiðslu kemur til framkvæmda tilkynna það öðrum tollstjórum. Sama skal gert þegar stöðvun tollafgreiðslu er aflétt.
Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda.
12. gr.
Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda hvílir á þeim sem kemur fram gagnvart tollyfirvaldi vegna tollmeðferðar á vöru. Nú er innflytjandi eða viðtakandi vöru annar en sá sem kemur fram gagnvart tollyfirvaldi og ábyrgjast þeir þá in solidum greiðslu aðflutningsgjalda.
Eigandi eða umráðamaður flutningsfars, vörugeymslu eða tollvörugeymslu ábyrgist greiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem hafa verið afhentar eða teknar í notkun án þess að gætt hafi verið ákvæða tollalaga nr. 55/1987, og má gera lögtak í eignum þeirra fyrir aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum og öðrum kostnaði.
Lögveðsréttur.
13. gr.
Aðflutt vara er að veði fyrir aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði, og hefur eigandi ekki rétt til að taka hana í sína vörslu fyrr en afhendingarheimild tollstjóra eða tollpóststöðvar liggur fyrir.
Lögveðsréttur þessi gengur fyrir öðrum veðum og er óháður grandleysi eiganda.
Uppboð.
14. gr.
Tollstjóri skal, án undanfarandi lögtaks eða fjárnáms, halda uppboð og selja vörur sem aðflutningsgjöld eru eindöguð á, sbr. 5.-8. gr., til lúkningar aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði og er haldsréttur farmflytjanda því ekki til fyrirstöðu. Uppboð skal boðað með minnst viku fyrirvara og fara fram innan mánaðar talið frá eindaga. Þó getur tollstjóri frestað uppboði á ótollafgreiddum vörum til næsta nauðungaruppboðs sem haldið er samkvæmt III. kafla laga nr. 59/1949 ef henta þykir að selja þær með öðrum vörum á uppboði sem uppboðshaldarar samkvæmt þeim lögum fara með.
Tollstjóra er heimilt að leita tilboða í vöruna telji hann að hærra verð muni fást fyrir hana með þeim hætti og selja hæstbjóðanda ef viðunandi verð fæst.
Náist ekki til þeirrar vöru sem af átti að greiða má án undanfarandi birtingar gera lögtak fyrir aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði í öðrum eignum þeirra sem um ræðir í 12. gr. og selja hið lögtekna á nauðungaruppboði.
15. gr.
Aðflutningsgjöld greiðast af uppboðsandvirði eða söluandvirði með forgangsrétti næst á eftir uppboðs- eða sölukostnaði vörunnar. Heimilt er tollstjóra þó að greiða fyrir geymslu hennar í einn mánuð frá komu til landsins. Sé uppboðsandvirði eða söluandvirði vörunnar hærra en nemur aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og áföllnum kostnaði skal greiða þeim sem eignarréttur gekk úr hendi afganginn að frádregnum öðrum eignarhöftum sem á vörunni hvíldu auk alls áfallins kostnaðar. Vitji eigandi ekki þess sem afgangs er samkvæmt framangreindu innan árs frá uppboðsdegi fellur andvirðið til ríkissjóðs.
16. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 106. og 108. gr., sbr. 148. gr., tollalaga nr. 55/ 1987, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. apríl 1989. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 559/1983, um gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda, og reglugerð nr. 341/ 1985, um breyting á henni. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma 3. og 4. málsl. 2. málsgr. 7. gr. reglna nr. 367/1984, um einfaldari tollmeðferð á vörum,svo og önnur fyrirmæli sem kunna að brjóta á bága við ákvæði reglugerðar þessarar.
Fjármálaráðuneytið, 20. febrúar 1989.
Ólafur Ragnar Grímsson.
Guðrún Ásta Sigurðardóttir.