Samgönguráðuneyti

382/1994

Reglugerð um skilyrði fyrir leyfum til að veita fjarskiptaþjónustu. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um fjarskiptaþjónustu, sem ráðherra heimilar aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins að veita.

Reglugerðin gildir ekki um talsímaþjónustu.

Markmiðið er að auka samkeppni á markaðnum fyrir fjarskiptaþjónustu að uppfylltum grunnkröfum og samræma skilyrði fyrir leyfum til að veita fjarskiptaþjónustu (og aðgang leyfishafa að almenna fjarskiptanetinu).

2. gr.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a. Almennt fjarskiptanet: Innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.

b. Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum öðrum en hljóðvarpi og sjónvarpi.

c. Talsímaþjónusta: Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um almenna sjálfvirka netið eða netin þannig að hver notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda búnaðar sem tengdur er við annan tengipunkt.

d. Nettengipunktar: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.

e. Grunnkröfur: Sjónarmið sem varða almannaheill án þess að vera efnahagslegs eðlis og geta valdið því að aðgangur er takmarkaður að almennu fjarskiptaneti eða almennri fjarskiptaþjónustu. Þessi sjónarmið varða rekstraröryggi netsins, heildstæði þess og í rökstuddum tilvikum rekstrarsamhæfni þjónustugreina og verndun gagna.

1 ) Með rekstraröryggi netsins er í þessu sambandi átt við það að tryggja að almenna netið sé ávallt tiltækt í neyðartilvikum.

2) Með tæknilegu heildstæði netsins er átt við að tryggð sé eðlileg virkni og samtenging almennra neta í EES á grundvelli sameiginlegrar tæknilýsingar.

3) Rekstrarsamhæfni þjónustugreina merkir að fylgt sé þeim tæknilýsingum sem gerðar hafa verið til að auka framboð á þjónustu og valmöguleika notenda.

4) Verndun gagna merkir ráðstafanir gerðar til að tryggja fjarskiptaleynd og verndun persónulegra upplýsinga.

f. Pakka- og rásaskipt gagnaflutningsþjónusta: Þjónusta sem seld er almenningi og fólgin er í beinum flutningi gagna um almenna sjálfvirka netið eða netin, þannig að hver notandi getur notað tæki tengt við tengipunkt á netinu til að hafa samband við tæki tengt öðrum tengipunkti.

g. Einföld endursala á flutningsgetu: Sala til almennings á gagnaflutningi á leigðum línum sem látin er í té sem sérstök þjónusta og felur aðeins í sér þá tengingu, meðhöndlun eða geymslu gagna eða umbreytingu á samskiptareglum sem nauðsynleg er fyrir rauntímasendingu til eða frá almenna sjálfvirka netinu.

3. gr.

Samgönguráðherra veitir leyfi til að reka fjarskiptaþjónustu á almennum netum samkvæmt reglugerð þessari.

Við leyfisveitingu skal þess gætt að grunnkröfum sé fullnægt. Einnig má kveða á um landfræðilega útbreiðslu á þjónustu þegar ríkið hefur falið Póst- og símamálastofnun það verkefni að láta í té pakka- og rásaskipta gagnaflutningsþjónustu fyrir almenning og hætta er á að sú þjónusta verði erfiðleikum bundin vegna samkeppni frá öðrum umsækjendum um leyfi.

Við mat á umsóknum um leyfi skal gæta jafnræðis og beita aðferðum sem byggjast á almennum hlutlægum auðskildum viðmiðum. Tryggja skal að allir þjónustuaðilar hljóti sambærilega og sanngjarna afgreiðslu.

Synjun umsóknar skal vera rökstudd.

4. gr.

Málsmeðferð við leyfisveitingu á pakka- eða rásaskiptri gagnaflutningsþjónustu fyrir almenning skal lúta eftirfarandi meginreglum:

a. grunnkröfum,

b. reglum sem fjalla um tilhögun og gæði þjónustu,

c. ráðstöfunum til að vernda það verkefni Póst- og símamálastofnunar að veita gagnaflutningsþjónustu, ef líklegt er að starfsemi umsækjanda hindri framkvæmd þess verkefnis.

5. gr.

Fjarskiptaþjónusta sem veitt er samkvæmt reglugerð þessari skal veitt á almenna fjarskiptanetinu.

Skilyrði fyrir aðgangi að netunum skulu hlutlæg, auðskilin og án mismununar.

6. gr.

Fjarskiptaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með því að ákvæðum leyfisbréfs skv. 3. gr. sé fullnægt og starfsemin fari fram í samræmi við viðurkennda staðla.

7. gr.

Samgönguráðherra ákveður gjöld fyrir leyfi samkvæmt reglugerð þessari.

8. gr.

Ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum starfsleyfis er ráðherra heimilt að fella leyfið úr gildi.

9. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984, sbr. lögum nr. 32/1993 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 4. mars 1994.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica