Samgönguráðuneyti

98/1995

Reglugerð um Póst- og símamálastofnun, skipulag og verkefni. - Brottfallin

1. gr.

Póst- og símamálastofnun er sjálfstæð stofnun, sem fer með framkvæmd einkaréttar ríkisins á sviði póst- og fjarskiptamála.

Ennfremur veitir stofnunin almenna póst- og fjarskiptaþjónustu.

2. gr.

Stjórn Póst- og símamálastofnunarinnar er í höndum póst- og símamálastjóra undir yfirstjórn samgönguráðherra.

Hann stjórnar stofnuninni í samræmi við stefnumörkun, sem felst í lögum, reglum og fyrirmælum æðri stjórnvalda.

3. gr.

Starfsemi Póst- og símamálastofnunar greinist í meginatriðum í stjórnunarhluta og rekstrarhluta.

Stjórnunarhluti stofnunarinnar skiptist í fimm aðalsvið og rekstrarhluti hennar í sex póst- og símaumdæmi.

Hverju aðalsviði stjórnar framkvæmdastjóri, en umdæmisstjóri hverju umdæmi.

Starfsemi aðalsviða skiptist í samræmi við skipurit Póst- og símamálastofnunarinnar, sem ráðherra staðfestir hverju sinni.

Einn af framkvæmdastjórum aðalsviðs skal jafnframt starfi sínu sem framkvæmdastjóri gegna stöðu aðstoðarpóst- og símamálastjóra.

4. gr.

Stjórnunarhluti Póst- og símamálastofnunar greinist í fimm aðalsvið: Fjarskiptasvið, samkeppnisstarfsemi (í fjarskiptum), fjármálasvið, póstmálasvið og umsýslusvið.

Framkvæmdastjórar aðalsviða marka stefnu stofnunarinnar, vinna að áætlanagerð, eftirliti, almennum fyrirmælum og heildarstefnumálum.

Helstu deildir og verkefni hvers aðalsviðs eru sem hér segir:

1.Fjarskiptasvið. Skiptist í eftirtaldar deildir: Markaðs- og alþjóðadeild, sambandadeild og símstöðvadeild. Helstu verkefni eru: Mál sem lúta að fjarskiptaþjónustu stofnunarinnar á sviði einkaréttar. Skipulag og áætlanagerð, val á tæknibúnaði og pantanir. Uppsetning og eftirlit með rekstri fjarskiptakerfa, m.a. með símstöðvum, jarðsíma- og fjölrásakerfum. Uppsetning og rekstur útvarps- og sjónvarpskerfa, svo og annarra tæknikerfa, sem stofnuninni er falið að vinna að. Loftneta- og mastradeild. Tölvumál fjarskiptakerfa. Fjölþjóðasamskipti um fjarskiptamál, þar með talin alþjóðaflugþjónustan. Markaðsmál. Símaskrá. Útgáfa starfsreglna, fyrirmæla og eftirlit með framkvæmd fjarskiptaþjónustu annarrar en samkeppnisþjónustu.

2.Samkeppnisstarfsemi (í fjarskiptum). Skiptist m.a. í eftirtaldar deildir: Notendabúnaðardeild, farsímadeild og gagnaflutningsþjónustudeild. Helstu verkefni eru: Mál sem lúta að samkeppnisstarfsemi á sviði fjarskiptaþjónustu. Rekstur farsímaþjónustu (GSM og NMT-450) og boðkerfa. Gagnaflutningsþjónusta. Innkaup, sala notendabúnaðar og rekstur verkstæða. Markaðsmál og fjölþjóðasamskipti. Ýmis virðisaukandi þjónusta.

3.Fjármálasvið.  Fjármálasvið skiptist í eftirtaldar deildir: Aðalbókhald, aðalfjárvörslu, hagdeild og hagræðingarmál, innkaupa- og birgðadeild og bifreiðarekstur. Helstu verkefni eru: Fjárhags- og greiðsluáætlanir stofnunarinnar, samantekt og samræming áætlana allra deilda vegna rekstrar og fjárfestinga. Rekstrareftirlit, hagræðingarmál og hagkvæmnisútreikningar. Gjaldskrármál. Aðalbókhald og uppgjör erlendra viðskipta. Fjárreiður og innflutnings- og bankaafgreiðsla. Innkaup eða innkaupaheimildir, aðalbirgðavarsla og bifreiðarekstur stofnunarinnar.

4.Póstmálasvið. Póstmálasvið skiptist í eftirtaldar deildir: Póstmáladeild, póstgíróþjónustu og markaðsdeild. Helstu verkefni eru: Mál sem lúta að póstþjónustu stofnunarinnar. Skipulag og áætlanagerð, ásamt eftirliti með póstþjónustu og póstdreifingu. Póstflutningar. Eftirlit með rekstri póstmiðstöðva og viðskiptapósthúsa. Val og pantanir búnaðar fyrir póstþjónustu. Frímerkjaútgáfa, frímerkjasala og frímerkjavarsla. Póstgíró. Markaðsmál póstþjónustunnar. Útgáfa starfsreglna og fyrirmæla um framkvæmd póstþjónustu og eftirlit með því að þeim sé fylgt. Kvartanir og skaðabótamál. Erlend samskipti á sviði póstmála.

5.Umsýslusvið. Umsýslusvið skiptist í eftirtaldar deildir: Starfsmannadeild, póst- og símaskólann, fasteignadeild, tölvuþjónustudeild og reiknistofu. Helstu verkefni eru: Almenn tölvuráðgjöf og þjónusta. Rekstur reiknistofu. Skipulag og áætlanagerð varðandi starfsmannamál, fræðslumál, byggingu og umsýslu fasteigna. Almenn þjónustumál innan stofnunarinnar. Bókasafn. Póst- og símaminjasafn. Skipulag skjalasafna og mötuneyta. Trésmíða- og rafmagnsverkstæði.

5. gr.

Aðalendurskoðandi og upplýsingafulltrúi heyra beint undir póst- og símamálastjóra.

6. gr.

Rekstrarhluti stofnunarinnar skiptist í sex umdæmi.

Umdæmi I nær frá mörkum Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu að mörkum Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, að undanskildu höfuðborgarsvæðinu, umdæmi II þaðan að mörkum Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu, umdæmi III þaðan að mörkum Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu, umdæmi IV þaðan að mörkum Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, umdæmi V nær yfir rekstur símaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og undir umdæmi VI fellur rekstur póstþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, ásamt almennum póst- og símaafgreiðslustöðum.

Umdæmisstjórar hafa hver í sínu umdæmi stjórn og eftirlit með rekstri póst- og símastöðva, tæknimála, verkstæða, húseigna og birgðastöðva, svo og með öðrum rekstri sem þeim er falinn samkvæmt samþykktum rekstraráætlunum, starfsreglum og fyrirmælum viðkomandi aðalsviðs hverju sinni.

Umdæmisstjórar skulu gera rekstraráætlanir fyrir umdæmi sín.

7. gr.

Öllum stjórnendum Póst- og símamálastofnunar ber, hverjum á sínu sviði, að vinna að góðu skipulagi og hagkvæmum rekstri og fylgjast vel með nýjungum, sem til framfara horfa.

Þeim ber að leggja fyrir póst- og símamálastjóra tillögur sínar og ábendingar um endurbætur á sínu sviði og hafa nána samvinnu sín á milli um sameiginleg mál.

Stjórnendum stofnunarinnar er heimilt að mynda sérstakar árangurseiningar í starfsemi hennar, ef þær eru taldar leiða til aukinnar hagkvæmni í rekstri.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 36/1977, um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, sbr. lög um breytingu á þeim nr. 34/1987, staðfestist hér með til að öðlast gildi 15. mars 1995 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 173, 16. apríl 1991, um Póst- og símamálastofnun, skipulag og verkefni.

Samgönguráðuneytið, 10. febrúar 1995.

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica