Almannatryggingar

261/1995

Reglugerð um undanþágur frá lögheimilisskilyrði sjúkratrygginga. - Brottfallin

Reglugerð um undanþágur frá lögheimilisskilyrði sjúkratrygginga.

1. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að veita undanþágur frá ákvæði 32. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, um að einstaklingur hafi átt lögheimili á Íslandi í sex mánuði áður en hann telst sjúkratryggður, í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

2. gr.

Heimilt er að veita ótryggðum einstaklingum undanþágur frá skilyrði um sex mánaða lögheimili hér á landi í eftirfarandi tilvikum:

a) Þegar um er að ræða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum.

b) Þegar einstaklingur flytur lögheimili til Íslands eftir að hafa búið erlendis í allt að sex mánuði, enda hafi hann átt lögheimili hér á landi óslitið síðustu fimm ár þar á undan. Undanþágan tekur einungis til tilvika sem upp kunna að koma á sex mánaða biðtíma hér á landi.

c) Þegar um er að ræða námsmann sem flutt hefur lögheimili sitt frá Íslandi á námstíma erlendis en flytur aftur til Íslands strax að námi loknu. Heimild til undanþágu tekur einnig til fjölskyldu námsmannsins, þ.e. maka eða sambúðarmanns/konu og barna. Undanþágan tekur einungis til tilvika sem upp kunna að koma á sex mánaða biðtíma hér á landi.

d) Þegar um er að ræða einstakling sem íslensk heilbrigðisyfirvöld krefjast að undirgangist skoðun og/eða rannsókn vegna gruns um alvarlegan smitsjúkdóm, eða ef staðfest er að viðkomandi hafi veikst af slíkum sjúkdómi og nauðsynlegt er að hefja meðferð án tafar. Undanþágan tekur einungis til skoðunar, rannsóknar og meðferðar sbr. berklavarnarlög nr. 66/1939, farsóttarlög nr. 10/1958, sóttvarnarlög nr. 34/1954, lög um ónæmisaðgerðir nr. 38/1978 og vegna kynsjúkdómanna sárasóttar, lekanda, klamydíusýkingar, þvagrásarbólgu, linsæri, lymphogranuloma venereum og granuloma inguinale, sbr. lög um varnir gegn kynsjúkdómum nr. 16/1978 og reglugerðir sem settar eru með stoð í framangreindum lögum.

e) Þegar um er að ræða nýrnasjúkling sem þarfnast reglulega meðferðar í nýrnavél. Undanþágan tekur einungis til nefndrar meðferðar.

3. gr.

Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins annast framkvæmd samkvæmt reglugerð þessari og gefur út sérstaka heimild ef skilyrði undanþága skv. 2. gr. teljast uppfyllt.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 21. apríl 1995.
Sighvatur Björgvinsson.
Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica