Einstakar tegundir skatta og gjalda

227/1995

Reglugerð um Umsýslustofnun varnarmála. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Umsýslustofnun varnarmála.

 

 

1. gr.

Umsýslustofnun varnarmála starfar á vegum utanríkisráðuneytisins og í umboði þess, með sérgreindan fjárhag og reikningshald. Heimili og varnarþing stofnunarinnar skal vera á Suðurnesjum.

 

 

2. gr.

Utanríkisráðherra skipar forstöðumann Umsýslustofnunar varnarmála. Forstöðumaður hefur á hendi allan daglegan rekstur stofnunarinnar. Hann ræður starfsmenn og leysir þá frá störfum að fengnu samþykki utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðherra setur forstöðumanni erindisbréf, þar sem starfsskyldur hans eru nánar greindar. Forstöðumaður og starfsmenn Umsýslustofnunar varnarmála taka laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna.

 

 

3. gr.

Hlutverk Umsýslustofnunar varnarmála er þetta helst:

1. Að hafa umsjón með forvali íslenskra viðskiptaaðila vegna samninga við varnarliðið um kaup á vöru og þjónustu.

2. Að annast yfirtöku og kaup á umfram- og afgangsvörum frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og yfirtöku á byggingum og mannvirkjum á varnarsvæðunum, sem yfirstjórn varnarliðsins óskar eftir að verði fjarlægðar eða telur sig eigi hafa þörf fyrir lengur, eftir því sem nánar er ákveðið í samningi varnarliðsins og utanríkisráðuneytisins frá 1962.

3. Að hafa milligöngu um kaup á bifreiðum, vélum, tækjum og búnaði sem starfsmenn varnarliðsins hafa flutt til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda og virðisaukaskatts, sbr. l. nr. 110/1951, og óska nú að selja.

 

 

4. gr.

Utanríkisráðherra skipar þriggja manna sérfræðinganefnd til að hafa með höndum forval viðskiptaaðila, sbr. 1. tl. 3. gr. Í nefndinni sitja:

- Sérfræðingur umsýslustofnunar á sviði útboða og samningagerðar.

- Sérfróður embættismaður á sama sviði, tilnefndur af iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

- Lögfræðingur varnarmálaskrifstofu, en hann er formaður nefndarinnar.

Utanríkisráðherra setur nefndinni erindisbréf þar sem greindar eru starfsreglur hennar og efnisreglur þær sem nefndinni ber að fara eftir við forval.

 

 

5. gr.

Umsýslustofnun varnarmála hefur milligöngu um sölu varnings og verðmæta sem til falla frá varnarliðinu, sbr. 2. og 3. tl. 3. gr. í samræmi við ákvæði samnings um meðferð umfram- og afgangsvöru frá 17. maí 1962. Stofnunin hefur samráð um fyrirkomulag endursölu við utanríkisráðuneytið.

 

 

6. gr.

Ríkisendurskoðun skal sjá um endurskoðun reikninga Umsýslustofnunar varnarmála.

 

 

7. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. lögum nr. 110, frá 19. desember 1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, sbr. lög nr. 106, frá 17. desember 1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. og öðlast gildi hinn 30. mars 1995. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 91, frá 12. febrúar 1981, um Sölu varnarliðseigna.

 

Utanríkisráðuneytið, 4. apríl 1995.


Jón Baldvin Hannibalsson.


Róbert Trausti Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica